Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 25/2013.

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

           

 

Miðvikudaginn 29. janúar 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 25/2013:

 

 

Kæra A

á ákvörðun

Reykjanesbæjar

 

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 24. júní 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála synjun Reykjanesbæjar, dags. 4. júní 2013, á beiðni hans um fjárhagsaðstoð. Kærandi sótti um styrk til greiðslu fyrir vinnuvélapróf/meirapróf að fjárhæð 100.000 kr. Umsókninni var synjað á grundvelli þess að tekjur kæranda hafi verið yfir viðmiðunarmörkum fjárhagsaðstoðar. Mál kæranda var tekið fyrir að nýju á fundi fjölskyldu- og félagsmálaráði þann 2. september 2013 og samþykkt að veita kæranda lán allt að 200.000 kr. til greiðslu verklegs náms á vinnuvélar.

 

 

I. Málavextir og málsmeðferð

 

Kærandi sótti um styrk til greiðslu fyrir vinnuvélapróf/meirapróf að fjárhæð 100.000 kr. hjá Reykjanesbæ með umsókn, dags. 19. apríl 2013. Fjölskyldu- og félagsmálaráð tók málið fyrir á fundi sínum þann 3. júní 2013 og samþykkti svohljóðandi bókun:

 

Umsókn: Styrkur að upphæð kr. 100.000.- til greiðslu fyrir vinnuvélapróf/meirapróf[.]

Afgreiðsla: Synjað, er yfir kvarða[.]

 

Niðurstaða fjölskyldu- og félagsmálaráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 4. júní 2013. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála með bréfi, dags. 24. júní 2013. Með bréfi, dags. 25. júní 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir öllum gögnum málsins, þar á meðal umsókn kæranda, ákvörðun sveitarfélagsins og gögnum um fjárhag kæranda. Enn fremur var óskað eftir greinargerð Reykjanesbæjar þar sem fram kæmi meðal annars rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi þann 30. ágúst 2013 sótt á ný um styrk að fjárhæð 200.000 kr. Mál kæranda var því tekið fyrir að nýju á fundi fjölskyldu- og félagsmálaráði þann 2. september 2013 þar sem gerð var eftirfarandi bókun:

 

Umsókn: Styrkur til verklegs náms á vinnuvélar. Hefur lokið bóklega hlutanum. Styrkbeiðni að upphæð kr. 200.000.- (framhald af 13. máli 30.07.2013)

Afgreiðsla: Samþykkt í formi láns sem endurgreiðist með hluta af launum.

 

Niðurstaða fjölskyldu- og félagsmálaráðs var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 6. september 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 3. september 2013, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. september 2013, var beiðni um greinargerð frá Reykjanesbæ ítrekuð. Greinargerð Reykjanesbæjar barst með bréfi, dags. 11. nóvember 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 19. nóvember 2013, var bréf Reykjanesbæjar sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

 

II. Málsástæður kæranda

 

Kærandi kveðst ósáttur við niðurstöðu Reykjanesbæjar í málinu þar sem hann hafi óskað eftir styrk til að geta lokið vinnuvélaprófi/meiraprófi til að auka líkur á því að fá atvinnu. Kærandi kveðst sætta sig við 50.000 kr. og væri það þó einhver bót í máli fyrir hann.

 

 

III. Sjónarmið Reykjanesbæjar

 

Í athugasemdum Reykjanesbæjar vegna kærunnar kemur fram að kærandi hafi sótt um styrk að fjárhæð 100.000 kr. til greiðslu fyrir vinnuvélapróf/meirapróf með umsókn, dags. 19. apríl 2013. Umsókninni hafi verið synjað á grundvelli þess að tekjur kæranda hafi verið yfir viðmiðunarmörkum fjárhagsaðstoðar. Með umsókninni hafi fylgt afrit af skattskýrslu og útprentun úr staðgreiðsluskrá. Einnig hafi kærandi lagt fram niðurstöðu umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7386/2013. Tekjur umsækjanda miðað við fyrirliggjandi gögn hafi verið að meðaltali 228.516 kr. á mánuði. Viðmiðunarmörk fjárhagsaðstoðar sveitarfélagsins hafi verið 129.766 kr. fyrir einstakling. Synjun um námsstyrk hafi verið tekin á grundvelli fyrirliggjandi gagna um tekjur. Kærandi hafi verið ósáttur við afgreiðslu sveitarfélagsins og óskað eftir því í júlí 2013 að mál hans yrði tekið fyrir að nýju í ljósi þess að hann væri á vanskilaskrá og gæti ekki leitað til fjármálastofnana til greiðslu á verklega hluta vinnuvélanámsins/lyftaraprófs. Kærandi hafi lagt fram til staðfestingar útprentun frá CreditInfo. Þá hafi hann lagt fram staðfestingu á því að hann hefði lokið bóklega náminu á vinnuvélar og náð tilskildum árangri. Óskað hafi verið eftir mati kennara varðandi námsmöguleika kæranda í verklega námshlutanum og áætluðum kostnaði hans vegna þess, sbr. bréf, dags. 25. júlí 2013. Afgreiðslu umsóknar kæranda hafi verið frestað á fundi fjölskyldu- og félagsmálaráðs þann 30. júlí 2013 þar sem gögn hafi vantað frá kennara með umsókninni. Þann 30. ágúst 2013 hafi kærandi mætt í viðtal hjá forstöðumanni stoðdeildar fjölskyldu- og félagsmálasviðs með kennara sem hann hafi samið við um verklega kennslu á vinnuvélar/lyftara. Fram hafi komið að kennarinn hafi kennt kæranda á vinnuvélar/lyftara í nokkurn tíma. Kærandi hafi mætt samviskusamlega í kennslustundir daglega í 2-2 ½ klst síðastliðnar sex vikur. Einnig hafi komið fram í viðtalinu að kærandi þyrfti töluvert lengri tíma en almennt væri áætlað í þennan þátt námsins til að ná tökum á verklega hluta vinnuvélaprófsins, því öryggi og þeim hraða sem nauðsynlegur væri til að standast próf og ávinna sér réttindi. Kennarinn hafi hins vegar talið að kærandi gæti með mikilli þjálfun og stuðningi náð tökum á verklega hlutanum og getað starfað á þessum vettvangi að loknu prófi. Kennarinn hafi áætlað að kostnaður kæranda við námið gæti orðið allt að 200.000 kr. þar sem hann myndi þurfa mun fleiri tíma en almennt væri áætlað í þessa kennslu. Með ofangreindar upplýsingar að leiðarljósi hafi mál kæranda verið tekið fyrir að nýju í fjölskyldu- og félagsmálaráði þann 2. september 2013 og samþykkt að veita kæranda lán til greiðslu verklegs náms á vinnuvélar, allt að 200.000 kr. sem kærandi myndi endurgreiða með hluta af væntanlegum launum fengi hann vinnu í kjölfar þessara réttinda. Í kjölfarið hafi kærandi hafið nám hjá kennara sínum. Að sögn kæranda hafi kennarinn þó hætt starfsemi í nóvember 2013 og þar með kennslu svo áframhaldandi nám kæranda sé í skoðun og væntanlega fundinn farsæll endi á því fljótlega.

 

 

IV. Niðurstaða

 

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um félagsþjónustu í Reykjanesbæ frá 15. apríl 2005, með síðari breytingum. Í máli þessu er ágreiningur um hvort Reykjanesbær hafi borið að samþykkja umsókn kæranda, dags. 19. apríl 2013, um styrk til greiðslu fyrir vinnuvélapróf/meirapróf að fjárhæð 100.000 kr.

 

Kærandi sótti um styrk til greiðslu fyrir vinnuvélapróf/meirapróf að fjárhæð 100.000 kr. hjá Reykjanesbæ með umsókn, dags. 19. apríl 2013. Umsókn kæranda var synjað hjá Reykjanesbæ þann 3. júní 2013 og var niðurstaðan birt kæranda með bréfi, dags. 4. júní 2013. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 24. júní 2013. Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi þann 30. ágúst 2013 sótt á ný um styrk að fjárhæð 200.000 kr. Reykjanesbær tók því nýja ákvörðun í máli kæranda þann 2. september 2013 sem birt var kæranda með bréfi, dags. 6. september 2013. Um var að ræða ákvörðun um að veita kæranda lán allt að 200.000 kr. til verklegs náms á vinnuvélar. Úrskurðarnefndin telur ástæðu til að gera athugasemd við framangreint. Í ljósi þess að Reykjanesbær taldi rétt að endurskoða ákvörðun sveitarfélagsins hefði verið rétt að upplýsa úrskurðarnefndina um það. Hefði úrskurðarnefndin þá lagt mat á hvort rétt væri að vísa málinu til nýrrar meðferðar hjá sveitarfélaginu enda verður ekki fjallað um mál á tveimur stjórnsýslustigum á sama tíma. Í ljósi þess að málið var til meðferðar hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála var Reykjanesbær því ekki bær til að taka málið til meðferðar og endurskoða ákvörðunina. Eins og hér stendur á er því um valdþurrð að ræða. Þrátt fyrir framangreinda annmarka á ákvörðun Reykjanesbæjar frá 2. september 2013 er það mat úrskurðarnefndarinnar að í ljósi aðstæðna í máli þessu og þess að ákvörðunin er ívilnandi fyrir kæranda sé ekki tilefni til að fella ákvörðunina úr gildi. Í úrskurði þessum verður því endurskoðuð ákvörðun Reykjanesbæjar frá 2. september 2013.

 

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

 

Kærandi sótti upphaflega um 100.000 kr. styrk til greiðslu fyrir vinnuvélapróf/meirapróf. Umsókn kæranda var synjað á þeim grundvelli að tekjur hans hafi verið yfir viðmiðunarmörkum fjárhagsaðstoðar. Við meðferð kærumálsins hefur Reykjanesbær upplýst að tekjur umsækjanda miðað við fyrirliggjandi gögn hafi verið að meðaltali 228.516 kr. á mánuði en viðmiðunarmörk fjárhagsaðstoðar sveitarfélagsins hafi verið 129.766 kr. fyrir einstakling. Kærandi óskaði eftir 100.000 kr. styrk til viðbótar og var samþykkt að lána kæranda allt að 200.000 kr. Með samþykki Reykjanesbæjar á að veita kæranda lán fólst þó jafnframt synjun á umsókn hans um styrk að fjárhæð alls 200.000 kr.

 

Í reglum um félagsþjónustu í Reykjanesbæ er ekki að finna ákvæði sem kveða á um styrkveitingar til greiðslu náms eða námskeiða. Í ljósi þess að sveitarfélagið hefur ekki sett reglur þar að lútandi er það mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki átt rétt á slíkum styrk. Í kafla 4.2 í reglunum er fjallað almennt um rétt til fjárhagsaðstoðar, mat á fjárþörf og útreikning fjárhagsaðstoðar. Í kafla 4.3.1 segir að við ákvörðun á fjárhagsaðstoð skal grunnfjárþörf til framfærslu, lögð til grundvallar og frá henni dregnar heildartekjur. Allar tekjur umsækjanda og maka ef við á, í þeim mánuði er sótt er um og tvo mánuði á undan, eru taldar með við mat á fjárþörf, sbr. 1. málsl. kafla 4.3.3 í reglunum. Kærandi sótti um styrk í apríl 2013 en ekki liggja fyrir tekjuupplýsingar þess mánaðar. Í málinu liggja hins vegar fyrir upplýsingar um tekjur kæranda í janúar, febrúar og mars 2013 og voru meðalmánaðartekjur kæranda á því tímabili 228.516 kr. og því hærri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar sem var 129.766 kr. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki átt rétt á fjárhagsaðstoð á grundvelli annarra ákvæða reglna um félagsþjónustu í Reykjanesbæ. Hin kærða ákvörðun verður því staðfest.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun Reykjanesbæjar, dags. 2. september 2013, um synjun á umsókn A, um styrk til greiðslu fyrir vinnuvélapróf/meirapróf að fjárhæð 200.000 kr. er staðfest.

 

 

 

Bergþóra Ingólfsdóttir,

 

formaður

 

 

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir                Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta