Mál nr. 32/2013.
Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík
Miðvikudaginn 12. febrúar 2014 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 32/2013:
Kæra A
á ákvörðun
Íbúðalánasjóðs
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru, dags. 10. júlí 2013, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, frá 13. júní 2013, vegna umsóknar um styttingu lánstíma á veðláni hjá sjóðnum.
I. Helstu málsatvik og kæruefni
Kærandi keypti fasteign að Bi í ágúst 2008. Kærandi yfirtók þrjú veðlán og greiddi tvö þeirra upp nokkru síðar. Kærandi óskaði eftir því að lánstími lánsins sem eftir stóð yrði stytt úr 40 árum í 20 ár. Beiðni hans var synjað með bréfi Íbúðalánasjóðs, dags. 13. júní 2013.
II. Málsmeðferð
Með bréfi, dags. 15. júlí 2013, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir afstöðu Íbúðalánasjóðs til málsins, upplýsingum um meðferð þess hjá sjóðnum og öllum gögnum. Afstaða Íbúðalánasjóðs barst með bréfi, dags. 22. júlí 2013. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 24. júlí 2013, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 3. september 2013, var kæranda tilkynnt um tafir á afgreiðslu málsins sem orsökuðust af miklum málafjölda hjá úrskurðarnefndinni en að vonir stæðu til þess að ljúka málinu sem fyrst.
III. Sjónarmið kæranda
Kærandi kveðst hafa í ágúst 2008 keypt íbúðarhúsnæði að B. Á eigninni hafi hvílt þrjú veðlán sem hann hafi yfirtekið. Hann hafi ekki haft túlk með sér þegar hann hafi gert viðskiptin og viti því ekki fyllilega hvaða leiðbeiningar fasteignasalinn hafi gefið honum. Fasteignasalinn hafi vitað að hann skildi ekki íslensku til fulls en hafi ekki haft frumkvæði að því að afla túlks. Þegar verðbólga hafi aukist í kjölfar bankahrunsins hafi höfuðstólar lánanna hækkað verulega. Kærandi hafi brugðist við þessu með því að borga upp tvö af þremur veðlánum og hafi þá eitt staðið eftir. Kærandi hafi viljað greiða það hraðar niður til að lækka fjármagnskostnað sinn. Hann hafi því sótt um breytingu á skilmálum veðskuldabréfsins svo hann fengi að greiða það niður á 20 árum í stað 40. Íbúðalánasjóður hafi hafnað þessu. Kærandi óskar eftir því að nefndin ógildi ákvörðun Íbúðalánasjóðs og leggi fyrir sjóðinn að fallast á ósk hans um skilmálabreytingu.
IV. Sjónarmið Íbúðalánasjóðs
Í athugasemdum Íbúðalánasjóðs vegna kærunnar kemur fram að umrætt lán hafi verið veitt án heimildar til uppgreiðslu eða aukaafborgunar nema gegn sérstakri þóknun. Lántakar þessara lána hafi notið betri vaxtakjara en ella og breyting á lánstíma hafi verið óheimil, sbr. 1. gr. þágildandi reglugerðar nr. 539/2006 um breytingu á reglugerð nr. 522/2004. Með breytingarreglugerð nr. 439/2010 hafi ákvæðið verið takmarkað þannig að stytting þessara lána hafi verið óheimil og þannig sé gildandi ákvæði í dag. Íbúðalánasjóði hafi því borið að synja erindinu og svarbréf liggi fyrir í málinu. Sjóðurinn verði að treysta því að þeir sem standi í flóknum viðskiptum eins og fasteignakaupum kynni sér eða fái gögn sér kynnt og þar á meðal kjör langtímaskuldbindingar sem þeir yfirtaki.
V. Niðurstaða
Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annars að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda. Í málinu er ágreiningur um hvort Íbúðalánasjóði hafi borið að samþykkja umsókn kæranda um styttingu lánstíma á veðláni hjá sjóðnum.
Íbúðalánasjóður synjaði umsókn kæranda um styttingu á lánstíma á veðláni hjá sjóðnum þar sem um hafi verið að ræða lán með uppgreiðsluákvæði og óheimilt væri að stytta lánstíma á lánum með slíku ákvæði. Við meðferð kærumálsins hefur komið fram af hálfu Íbúðalánasjóðs að lántakar lána sem veitt voru án heimildar til uppgreiðslu eða aukaafborgunar nema gegn sérstakri þóknun, hafi notið betri vaxtakjara en ella og breyting á lánstíma hafi verið óheimil, sbr. 1. gr. þágildandi reglugerðar nr. 539/2006 um breytingu á reglugerð nr. 522/2004.
Almenna reglan er sú skv. skv. 18. gr. laga um neytendalán, nr. 33/2013, að neytendum skal vera heimilt að standa skil á skuldbindingum sínum samkvæmt lánasamningi fyrir þann tíma sem umsaminn er. Þrátt fyrir það er ráð fyrir því gert að fyrrgreindur réttur kunni að vera takmarkaður með lögum. Slíka takmörkun er að finna í 23. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Í 1. mgr. 23. gr. laganna kemur fram að skuldurum Íbúðalánasjóðsveðbréfa sé heimilt að greiða aukaafborganir af skuldabréfum sínum eða að endurgreiða skuldina að fullu fyrir gjalddaga. Í 3. mgr. 23. gr. laganna er gerð sú takmörkun að ráðherra getur heimilað Íbúðalánasjóði með reglugerð að bjóða skuldurum Íbúðalánasjóðsveðbréfa að afsala sér rétti til þess að greiða án þóknunar upp lán eða greiða aukaafborganir, gegn lægra vaxtaálagi. Samkvæmt 1. málsl. 7. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 533/2004, eins og ákvæðið er eftir breytingu sem gerð var með reglugerðum nr. 539/2006 og nr. 439/2010, er heimilt að stytta eða lengja lánstíma Íbúðalánasjóðsveðbréfa að ósk lántaka en stytting lánstíma er þó ekki heimil ef lántaki hefur undirritað yfirlýsingu vegna láns með lægra vaxtaálagi skv. 3. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar, sbr. reglugerð nr. 1017/2005.
Samkvæmt fyrirliggjandi afriti af Íbúðalánasjóðsveðbréfi vegna þess láns sem kærandi yfirtók hjá Íbúðalánasjóði, dags. 5. júní 2008, kemur fram í 5. lið skilmála bréfsins að kærandi hafi með undirritun sinni afsalað sér heimild til að greiða aukaafborganir af skuldabréfum sínum eða að endurgreiða skuldina að fullu fyrir gjalddaga án þóknunar og er því um lán með uppgreiðslugjaldi að ræða og yfirlýsingu skv. 3. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 522/2004. Stytting lánstíma er því óheimil skv. 7. mgr. 13. gr. sömu reglugerðar og verður ekki séð að með því hafi hin kærða ákvörðun verði afturvirk eða með henni brotið gegn jafnræði lántakenda Íbúðalánasjóðs.
Í máli þessu liggur fyrir að kærandi tók lán hjá Íbúðalánasjóði með lægri vaxtaprósentu en naut á móti takmarkaðri heimild til breytinga á lánstíma, eins og skýrlega greinir í ákvæðum reglugerðar nr. 522/2004 og í skilmálum þess Íbúðalánasjóðsveðbréfs sem kærandi undirritaði við veitingu umrædds láns. Í ljósi framangreinds er hin kærða ákvörðun Íbúðalánasjóðs staðfest.
Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, dags. 13. júní 2013, um synjun á umsókn A, um styttingu lánstíma á veðláni hjá sjóðnum er staðfest.
Bergþóra Ingólfsdóttir,
formaður
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir Gunnar Eydal