Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 177/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 177/2021

Miðvikudaginn 2. febrúar 2022

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, dags. 31. mars 2021, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 9. mars 2021 um bætur til kæranda úr sjúklingatryggingu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 25. nóvember 2019, sem barst Sjúkratryggingum Íslands sama dag, vegna afleiðinga meðferðar sem fór fram á Landspítala X. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 5. janúar 2021, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 31. mars 2021. Með bréfi, dags. 7. apríl 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 12. maí 2021. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. maí 2021, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Engar athugasemdir bárust. Úrskurðarnefndin ákvað að leita eftir utanaðkomandi áliti sérfræðings á þeirri meðferð sem kærandi hlaut og barst nefndinni álitsgerð C, háls-, nef- og eyrnalæknis og prófessors við læknadeild Háskóla Íslands, dags. 8. janúar 2022. Hún var send lögmanni kæranda og Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. janúar 2022. Engar athugasemdir bárust.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar þess að synjun Sjúkratrygginga Íslands verði felld úr gildi og réttur hans til bóta samkvæmt lögum nr. 111/2000 verði viðurkenndur og málinu vísað til nýrrar meðferðar hjá Sjúkratryggingum Íslands.

Í kæru er greint frá því að þann X hafi kærandi skyndilega misst heyrn á öðru eyranu. Hann hafi strax leitað á Heilsugæsluna D þar sem hann hafi fengið tilvísun á göngudagdeild B5 á Landspítala. Daginn eftir, þann X, hafi kærandi leitað á göngudagdeild B5 á Landspítala samkvæmt framangreindri tilvísun. Hann hafi verið skoðaður af sérfræðingi þar á deildinni og meðal annars gengist undir myndrannsóknir vegna heyrnarleysisins og fengið ávísað steralyfjum.

Að rannsóknum frágengnum hafi kærandi verið tjáð að heyrnarleysið væri þess eðlis að ekkert væri hægt að gera til að meðhöndla það og hafi honum verið uppálagt að leita til deildarinnar til eftirlits á sex mánaða fresti.

Heyrn umsækjanda hafi ekki komið til baka og þann X hafi kærandi róið á önnur mið í leit að lækningu og meðhöndlun við meinum sínum þegar hann hafi leitað á E. Þar hafi kærandi gengist undir heyrnarpróf þar sem fram hafi komið niðurstöður sem hafi gefið til kynna að heyrnarleysið væri þess eðlis að hægt væri að meðhöndla það með svokölluðum súrefnisklefa. Þegar kærandi hafi tjáð starfsmanni E hversu langt væri um liðið frá slysi hafi starfsmaðurinn orðið undrandi yfir því að kærandi hafi ekki verið meðhöndlaður í súrefnisklefa strax eftir slysið, enda væri líkast til gagnslaust að beita meðferðinni í ljósi þess langa tíma sem liðið hefði frá því að heyrnarleysið hafi fyrst komið fram. Hefði hann verið meðhöndlaður strax með þeim hætti hefði slík meðhöndlun líklega skilað árangri. Kærandi hafi fengið aðra tilvísun á deild B5 á Landspítala.

Á Landspítala hafi kærandi gengist undir súrefnisklefameðferð í alls tíu skipti. Hann hafi fengið þær upplýsingar að súrefnisklefameðferð kæmi ekki að gagni í ljósi þess hve langt hafi verið um liðið frá því að heyrnin hafi horfið.

Kærandi telji að koma hefði mátt í veg fyrir varanlegt heyrnarleysi hans með réttri meðhöndlun á Landspítala þann X.

Kærandi telji hina kærðu ákvörðun byggja á röngum forsendum og vera í andstöðu við lög. Þannig eigi kærandi rétt á bótum úr sjúklingatryggingu þegar litið sé til atvika málsins og ákvæða laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, einkum 1. tölul. 2. gr. laganna. Þá hafi rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga verið brotin við meðferð málsins. Hvort tveggja leiði til þess að fallast beri á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Þannig telji kærandi að með því að beita súrefnisklefameðferð strax í kjölfar þess að hann hafi skyndilega misst heyrnina hefði mátt koma í veg fyrir það að hann hafi misst heyrnina á vinstra eyra varanlega og í það minnsta hefði mátt komast hjá hluta af heyrnartapi hans með slíkri meðhöndlun. Því séu skilyrði 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu uppfyllt, ólíkt því sem hin kærða stjórnvaldsákvörðun byggi á.

Í þessu samhengi bendi kærandi í fyrsta lagi á að hann hafi verið upplýstur um það af starfsmanni E þann X að einkenni hans væru þess eðlis að súrefnisklefameðferð kæmi mögulega að gagni við meðferð hans. Þó væri slík meðferð líkast til gagnslaus svo löngu eftir að heyrnarleysið kom fram. Í kjölfarið undirgekkst kærandi svo súrefnisklefameðferð á Landspítala. Af þessu má ótvírætt draga þá ályktun í fyrsta lagi að súrefnisklefameðferð sé meðferðarúrræði sem kynni að hafa komið að gagni við meðferð við skyndilegu heyrnarleysi á borð við það sem kærandi hafi fengið en óumdeilt sé að meðferðinni hafi verið beitt á síðari stigum meðferðar kæranda. Í öðru lagi sé ljóst að meðferðin hefði getað gagnast og komið í veg fyrir algera heyrnarskerðingu hans eða að minnsta kosti að einhverju leyti, hefði henni verið beitt strax í kjölfar þess að heyrnarleysið hafi komið fram. Í vottorði E læknis, dags. 7. október 2019, komi fram að enginn rökstuðningur sé fyrir því að súrefnisklefinn hafi áhrif svo löngu eftir upphaf einkenna.

Þá sæti það furðu kæranda að honum hafi ekki verið boðin súrefnisklefameðferð strax við upphaf einkenna þegar meðferðin hefði komið að gagni, en hafi svo aftur á móti verið boðin meðferðin löngu síðar þegar meðferðin hafi ekki lengur getað komið að gagni. Telja verði það til merkis um að rétt meðferð hafi ekki verið valin strax í upphafi en í þessu samhengi bendi kærandi á að ekki hafi verið skorti á tækjabúnaði eða aðstöðu um að kenna eins og síðar hafi sannast.

Þegar af þessari ástæðu telji kærandi ljóst að skilyrði 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000 séu uppfyllt, en ætla megi að komast hefði mátt hjá tjóni hefði rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Þannig hefði þurft að bjóða kæranda súrefnisklefameðferð strax við komu hans á Landspítala þann X en með því hefði mátt komast hjá líkamstjóni hans að stórum hluta eða öllu leyti. 

Í hinni kærðu ákvörðun vísi Sjúkratryggingar Íslands til klínískra leiðbeininga Landspítala varðandi meðferð á skyndilegu heyrnartapi, dags. 8. október 2019, en skilja verði ákvörðunina þannig að umræddar leiðbeiningar séu sænskar leiðbeiningar um sama efni. Þá hafi stofnunin aflað klínískra leiðbeininga bandarískra eyrnalækna. Leiðbeiningarnar virðist ekki samhljóma að öllu leyti en fram komi að samkvæmt sænsku leiðbeiningunum sé háþrýstisúrefnismeðferð ekki undir neinum kringumstæðum hluti af hefðbundinni meðferð við skyndilegu heyrnartapi en samkvæmt hinum bandarísku teljist slík meðferð valkostur snemma eftir heyrnartapið.

Kærandi telji að ærið tilefni hafi verið til frekari rannsóknar Sjúkratrygginga Íslands á viðfangsefninu, sér í lagi vegna þess að klínísku leiðbeiningunum sem aflað hafi verið beri ekki saman að öllu leyti. Við undirbúning kæru hafi kærandi aflað heimilda um rannsóknir suðurkóreskra vísindamanna um viðfangsefnið og fái ekki betur séð en að niðurstöður rannsóknanna renni stoðum undir það að besta framkvæmd meðferðar hans hefði falið í sér beitingu súrefnisklefa strax í upphafi meðferðar og að það hefði aukið verulega líkurnar á því að hann fengi heyrn sína aftur að öllu leyti eða að hluta. Kærandi vísi til þessara niðurstaðna til stuðnings þeim málsástæðum sem fram komi að framan en jafnframt byggi kærandi á því að rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi að þessu leytinu til verið brotin við meðferð málsins hjá Sjúkratryggingum Íslands en samkvæmt greininni skuli stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst þegar ákvörðun er tekin í því. Þetta leiði jafnframt til þess að fallast beri á kröfu kæranda um ógildingu umræddrar stjórnvaldsákvörðunar

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga segir að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 með umsókn sem hafi borist Sjúkratryggingum Íslands 25. nóvember 2019. Sótt hafi verið um bætur vegna meðferðar sem hafi farið fram á Landspítala X. Aflað hafi verið gagna frá meðferðaraðilum og málið í framhaldinu verið tekið fyrir á fundi fagteymis sem hafi meðal annars verið skipað læknum. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 5. janúar 2021, hafi umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu verið synjað á þeim grundvelli að ekki væri um að ræða bótaskylt atvik með vísan til 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Sjúkratryggingar Íslands vísa til umfjöllunar um kæruefnið í ákvörðun stofnunarinnar en þar segir að ljóst sé að kærandi hafi fengið skyndilegt heyrnartap sem hafi nánast strax verið algjör skyntaugaheyrnarskerðing (e. sensorineural). Hann hafi fengið háskammtasterameðferð um eða innan við sólarhring frá upphafi einkenna, ásamt því að hafa verið sendur í allar nauðsynlegar myndgreiningarrannsóknir. Þessi meðferð hafi verið ákveðin samkvæmt klínískum leiðbeiningum um meðferð á skyndilegu heyrnartapi. Í umsókn komi fram kvartanir kæranda um að hann hafi ekki fengið meðferð með háþrýstisúrefniskút. Fyrir liggi greinargerð meðferðaraðila þar sem fram hafi komið að meðferð með háþrýstisúrefniskút sé ekki undir neinum kringumstæðum hluti af klínískum leiðbeiningum varðandi meðferð á skyndilegu heyrnartapi á Landspítala. Ástæðan sé sú að afar fáar vísbendingar séu um gagnsemi slíkrar meðferðar. Þá segi einnig að háþrýstisúrefnismeðferð sé ekki undir neinum kringumstæðum hluti af hefðbundinni meðferð við skyndilegu heyrnartapi, hvorki á Íslandi né í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Orsakir heyrnarleysis af völdum skyndilegrar skemmdar í heyrnartaug eða skynjunarfærum innra eyra (SSHSI) geti verið ýmsar, til dæmis meðfædd vansköpun á skynjunarfærunum, sýking, efnaskiptagallar, æxlisvöxtur eða nýlegir eða eldri áverka. Langoftast finnist þó engin skýring á heyrnarleysinu. Þannig virðist því vera varið um heyrnarleysi kæranda.

Í klínískum leiðbeiningum bandarískra eyrna-/heyrnarlækna sé það talinn fullgildur valkostur að beita sterameðferð, líkt og kæranda hafi verið veitt, þótt ekki teljist hafið yfir vafa að slík meðferð geti bætt horfur sjúklinga að jafnaði. Höfundar leiðbeininganna telji hins vegar óvissu ríkja um ávinning súrefnisklefameðferðar og bendi einnig á verulegan kostnað við slíka meðferð. Ekki sé þó lagst gegn súrefnismeðferð í tengslum við steragjöf snemma eftir heyrnartapið en hún teljist valkostur en ekki tilmæli, enda ekki sannanir fyrir því að súrefnisklefameðferð komi að gagni. Á Landspítala sé notast við sænskar klínískar leiðbeiningar um meðferð á skyndilegu heyrnartapi. Í þeim leiðbeiningum sé mælt með háskammtasterameðferð en ekkert getið um súrefnismeðferð. Að mati Sjúkratrygginga Íslands verði það þannig ekki talinn ágalli á læknismeðferð kæranda að honum hafi ekki boðist háþrýstisúrefnismeðferð er hann hafi fyrst leitað til Landspítala vegna heyrnartaps, enda ekki sannanir fyrir því að súrefnisklefameðferð komi að gagni og ekki sé mælt með súrefnisklefameðferð í þeim klínísku leiðbeiningum sem notast sé við á Landspítala.

Þá segir að í kæru sé því haldið fram að rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi verið brotin undir meðferð málsins hjá Sjúkratryggingum Íslands því að ekki hafi verið skoðaðar fleiri rannsóknir vísindamanna um árangur háþrýstisúrefnismeðferðar. Sjúkratryggingar Íslands telji rétt að benda á að þrátt fyrir að aðrar rannsóknir vísindamanna bendi hugsanlega á ólíkar niðurstöður þá sé á Landspítala notast við sænskar klínískar leiðbeiningar um meðferð á skyndilegu heyrnartapi. Í þeim leiðbeiningum sé mælt með háskammtasterameðferð en ekkert getið um súrefnismeðferð. Þar sem ekki sé mælt með súrefnisklefameðferð í þeim klínísku leiðbeiningum sem notast sé við á Landspítala hafi Sjúkratryggingar Íslands ekki talið vera um að ræða ágalla á læknismeðferð kæranda.

Með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að afleiðingar meðferðar á Landspítala X séu bótaskyldar samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Kærandi byggir á því að rannsókn Sjúkratrygginga Íslands hafi verið ófullnægjandi, samanber rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi telur að Sjúkratryggingar Íslands hafi átt að rannsaka viðfangsefnið frekar, sérstaklega þar sem þeim klínísku leiðbeiningum sem hafi verið aflað hafi ekki borið saman að öllu leyti.

Samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Mál telst nægjanlega upplýst þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að unnt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að nægilega skýr gögn hafi legið fyrir hjá stofnuninni til þess að unnt hafi verið að taka ákvörðun í málinu og þar af leiðandi hafi ekki verið þörf á frekari gagnaöflun. Með vísan til framangreinds telur úrskurðarnefndin að málið hafi verið nægjanlega upplýst samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og verður hin kærða ákvörðun því ekki felld úr gildi á þeirri forsendu að málsmeðferðin hafi brotið í bága við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Ef niðurstaðan sé hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkast í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Kærandi byggir kröfu sína um bætur úr sjúklingatryggingu á 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að með réttri meðhöndlun við komu á Landspítala þann X hefði mátt koma í veg fyrir varanlegt heyrnarleysi á öðru eyra hans. Því telur úrskurðarnefndin að 1. og 3. tölul. 2. gr. laga um sjúklingartryggingu komi til skoðunnar í málinu.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Ljóst er að kærandi varð fyrir því þann X að missa skyndilega heyrn á öðru eyranu. Hann leitaði strax á Heilsugæsluna í D þar sem hann fékk tilvísun á göngudagdeild B5 á Landspítala og leitaði hann þangað næsta dag samkvæmt framangreindri tilvísun. Hann var þar skoðaður af sérfræðingi á deildinni og gekkst meðal annars undir myndrannsóknir vegna heyrnarleysisins og var ávísað steralyfjum. Sú meðferð skilaði ekki árangri og var vakin athygli hans á að meðhöndlun í súrefnisklefa kæmi til greina en þá var talið að slíkt væri um seinan.

Í álitsgerð C, háls-, nef- og eyrnalæknis og prófessors við læknadeild Háskóla Íslands, sem mat að beiðni úrskurðarnefndar velferðarmála þá meðferð sem kærandi hlaut, segir meðal annars svo:

„Besta mögulega meðferð á SSH, byggt á grunni þeirrar þekkingar sem til var árið X og sjá má hér að ofan, var þessi: Hröð greining SSH og upphaf meðferðar með sterum um munn. Ef upphafsmeðferð gagnast ekki er ráðlögð ídæling stera í hljóðhol (miðeyra) [1].

Á meðfylgjandi gögnum er taka til vandamála kæranda og lesa má um í sögu hér að ofan er ljóst að þeirri meðferð sem honum var veitt, var hagað eins vel og unnt var og í ljósi þeirrar þekkingar og reynslu sem til var árið X og X. Vert er að hafa í huga að ídæling stera í hljóðhol (miðeyra) sem björgunarmeðferð var ekki veitt og má ætla að skýring á því sé sú að ekki hafi verið til staðar sú sérþekking og færni sem slík meðferð kallar á, á þeim tímapunkti. Að lokum má undirstrika það að engar rannsóknir staðfesta ávinning af háþrýsti súrefnismeðferð (HBOT) einnar og sér við SSH, hvorki sem fyrsta- eða björgunarmeðferð. Að veita háþrýsta súrefnismeðferð (HBOT) ásamt b) ídælingu stera í hljóðhol (miðeyra) er núna sú björgunarmeðferð sem mælt er með, en á þeim tíma sem kærandi var meðhöndlaður lágu ekki fyrir óyggjandi sannanir þess efnis.“

Að mati úrskurðarnefndinarinnar var meðferð kæranda í samræmi við þær leiðbeiningar sem læknar á Landspítala fylgdu á árunum X til X. Þá verður ekki annað ráðið en að meðferð hafi verið hagað eins vel og unnt hafi verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Í ljósi þessa verður ekki fallist á að komast hefði mátt hjá tjóni ef annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á hefði verið beitt við meðferð kæranda.

Með vísan til þess, sem rakið er hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði bótaskyldu samkvæmt 1. og 3. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er því staðfest.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta