Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 368/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 368/2019

Fimmtudaginn 19. mars 2020

A og B

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 3. september 2019, kærðu A og B til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 12. júlí 2019, um úthlutun félagslegrar leiguíbúðar og ákvörðun, dags. 14. ágúst 2019, um synjun á beiðni kærenda um rökstuðning.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur sóttu um félagslega leiguíbúð hjá Reykjavíkurborg með umsókn, dags. 21. september 2016. Með ákvörðun þjónustumiðstöðvar 12. júlí 2019 var kærendum úthlutað íbúð að C og tekið fram að um skilyrta stjórnvaldsákvörðun væri að ræða. Kærendur þyrftu að uppfylla reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, fara að ákvæðum húsaleigulaga nr. 36/1994 og ákvæðum leigusamnings um viðkomandi leiguhúsnæði. Í kjölfar úthlutunar skrifuðu kærendur undir samning um eftirfylgd í áfangahúsnæði, samkomulag um félagslega ráðgjöf og húsaleigusamning. Með erindi, dags. 24. júlí 2019, var óskað eftir rökstuðningi Reykjavíkurborgar fyrir því að kærendur hafi þurft að skrifa undir samning um eftirfylgd í áfangahúsnæði. Með bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 14. ágúst 2019, var þeirri beiðni synjað með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem umsókn kærenda hefði verið tekin til greina að öllu leyti.

Kærendur lögðu fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 3. september 2019. Fram kemur í kæru að kvartað sé undan úthlutun án rökstuðnings í áfangahúsnæði með samningi um eftirfylgd og úthlutun án tillits til sérþarfa. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. september 2019, var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar vegna kærunnar ásamt málsgögnum. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 1. október 2019, og var hún send kærendum til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. október 2019. Athugasemdir bárust frá kærendum 28. október 2019 og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 30. október 2019. Athugasemdir bárust frá Reykjavíkurborg með bréfi, dags. 12. desember 2019, og voru þær sendar kærendum til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. desember 2019. Frekari athugasemdir bárust frá kærendum 8. janúar 2020 og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. janúar 2020. Frekari athugasemdir bárust frá Reykjavíkurborg með bréfi, dags. 23. janúar 2020, og voru þær sendar kærendum til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. janúar 2020. Þá bárust frekari athugasemdir frá kærendum með bréfi, dags. 9. febrúar 2020, og voru þær sendar Reykjavíkurborg til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. febrúar 2020. Jafnframt var tilkynnt að gagnaöflun málsins teldist lokið. Mál kærenda var tekið fyrir á fundi úrskurðarnefndar 6. mars 2020 þar sem ákveðið var að óska eftir frekari upplýsingum og gögnum frá Reykjavíkurborg. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. mars 2020, var óskað eftir nánari upplýsingum um þá ákvörðun að úthluta kærendum almennu félagslegu leiguhúsnæði sem áfangahúsnæði. Upplýsingar bárust frá Reykjavíkurborg 12. mars 2020 og voru þær sendar kærendum til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. mars 2020.   

II.  Sjónarmið kærenda

Kærendur vísa til þess að kvörtun þeirra sé tvíþætt, annars vegar vegna úthlutunar án rökstuðnings í áfangahúsnæði með samningi um eftirfylgd og hins vegar úthlutun án tillits til sérþarfa. Kærendur hafi beðið þjónustumiðstöð og velferðarsvið Reykjavíkurborgar um rökstuðning fyrir því að þeir hafi verið neyddir til að skrifa undir samning um eftirfylgd í áfangahúsnæði til að fá húsnæði. Bæði umsókn þeirra og úthlutun tengist almennu félagslegu húsnæði. Í hinni kærðu ákvörðun sé ekkert minnst á að íbúðin sé áfangahúsnæði, að skrifa verði undir samning um eftirfylgd, né að úthlutunin sé samkvæmt nýjum reglum Reykjavíkurborgar frá 1. júní 2019 og hvað þá að nýtt matsblað, sem hafi verið gert án aðkomu kærenda og vitneskju, hafi gert það að verkum að umsóknin hafi breyst frá umsókn í almennt húsnæði yfir í áfangahúsnæði. Einnig sé kvörtunin vegna aðkomu tiltekinna ráðgjafa þjónustumiðstöðvar, innanhústeymis vegna tilnefningar í húsnæði og úthlutunarteymis (- nefndar) á velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Þar sem hafi verið haft samband við fjölda aðila og beðið um rökstuðning þá tengist þeir kvörtuninni þar sem enginn þeirra hafi lagt á sig þá vinnu að fara eftir upplýsingalögum og tryggja lausn á málinu. Tilteknir ráðgjafar hafi greinilega haldið að kærendur eigi við áfengis-, vímuefna- eða geðrænan vanda að stríða og þurfi þess vegna stuðning og eftirfylgd til að geta haldið heimili.

Um framvindu málsins fram að úthlutun húsnæðis segir í kæru að ekki hafi fengist úr því skorið hver væri nákvæmlega vandi kærenda, né hvaða stuðning sé um að ræða sem tryggi það að þeir geti haldið heimili. Einungis komi fram boð og bönn í samningi um eftirfylgd um atriði sem kærendur telji að þeir séu fullfærir að sjá um sjálfir. Aldrei hafi verið kvartað undan þeim í leiguhúsnæði, á gistiheimilum eða annars staðar vegna umgengni né einhvers vanda.

Kærendur taka fram að ákvörðun um að úthluta þeim íbúð sé stjórnvaldsákvörðun sem byggi á annarri stjórnvaldsákvörðun um að samþykkja umsókn þeirra um almennt félagslegt leiguhúsnæði. Ef þjónustumiðstöð og/eða velferðarsvið Reykjavíkurborgar hafi ákveðið að breyta sinni eigin stjórnvaldsákvörðun um samþykki umsóknar þá beri þeim að tilkynna slíkt án tafar og afhenda um leið nýtt endurrit, sbr. 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Það hafi ekki verið fyrr en og eingöngu í tölvupósti og símtali þann 12. júlí 2019 sem ráðgjafi hafi í fyrsta sinn greint frá áfangahúsnæði og samningi um eftirfylgd. Ráðgjafinn hafi í tölvupóstinum eyrnamerkt íbúðina í C sem áfangahúsnæði og þar með sé farið fram hjá því að kærendur fái íbúð samkvæmt umsókninni um almennt félagslegt húsnæði. Þannig tilgreini ráðgjafinn þessa tilteknu íbúð sem áfangahúsnæði og að þess vegna þurfi þeir að skrifa undir sérstakan samning um eftirfylgd. Hvergi komi fram að samningurinn sé tilkominn vegna nýrrar stjórnvaldsákvörðunar er snúi að samþykki á umsókn þeirra um almennt félagslegt leiguhúsnæði frá 2016, svo sem endurmats á stöðu þeirra og aðstæðum, og að ákveðið hafi verið að þeir þyrftu að vera í áfangahúsnæði vegna einhvers vanda samkvæmt nýjum reglum Reykjavíkurborgar. Ekkert í úthlutunarbréfinu frá 12. júlí 2019 segi til um slíkt. Aldrei hafi verið skýrt frá breyttri umsókn kærenda, sömu aðilar hafi ekki farið eftir leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga, rannsóknarreglu 10. gr., jafnræðisreglu 11. gr., meðalhófsreglu 12. gr. né gefið þeim kost á að andmæla samkvæmt 13. gr. laganna hvað varði þessa úthlutun.

Kærendur benda á að staða þeirra hafi verið mjög erfið í júlí 2019 þegar til úthlutunar hafi komið. Þeir hafi síðustu ár neyðst til að þvælast á milli landa þar sem þeir hafi haft möguleika á húsnæði í stað þess að vera á götunni á Íslandi en þeir þurfi að sækja heilbrigðisþjónustu hér á landi. Til viðbótar hafi annar kærenda veikst alvarlega í mars 2019 og komið fárveikur til landsins í júní 2019. Hann hafi dvalið á spítala í fimm vikur og læknar hafi talið hann nær dauða en lífi við komuna. Á þessum fimm vikum hafi verið þrýst verulega á velferðarkerfið að útvega kærendum varanlegt húsnæði. Fyrst hafi þeir dvalið á sjúkrahóteli, síðan á gistiheimili og loks hafi komið tilkynning um úthlutun á íbúð í almennu félagslegu húsnæði. Þeir hafi ekki getað annað en skrifað undir samning um eftirfylgd í áfangahúsnæði til að fá húsaleigusamning vegna þessarar erfiðu stöðu. Þeim hafi lítið litist á staðsetninguna og nú sé annað atriði komið fram er varði umsókn þeirra frá árinu 2016. Núverandi húsnæði sé í póstnúmeri X. Þar sé ekki hægt að kaupa strætómiða, engin heilsugæsla sé í þessu póstnúmeri, illmögulegt sé að ganga í búð en leiðin fram og til baka sé 2,8 kílómetrar. Eingöngu sé hægt að komast með strætó og það þurfi að ferðast með tveimur vögnum aðra leið í 30 mínútur til að geta keypt strætómiða. Ferðast þurfi annað eins til að komast á spítala en annar kærenda muni þurfa á næstunni að fara þangað ansi oft. Það þurfi að ferðast með einum til þremur strætisvögnum í 30-60 mínútur aðra leið til að komast á þá staði þar sem þeir þurfi að sinna sínum erindum. Síðan þurfi að bera allt heim sem keypt sé. Þeir hafi ekki efni á að reka bíl samhliða föstum útgjöldum. Staðsetning íbúðarinnar sé að öllu leyti á skjön við allar þær sérþarfir sem þeir hafi tengt heilsufari. Málið snúist ekki um séróskir þrátt fyrir að áhugi þeirra sé að búa miðsvæðis en ekki á svona staðsetningu sem þeim hafi verið úthlutað íbúð í. Þegar farið sé yfir tilnefningar tiltekins þjónustufulltrúa sem tengist umsókn þeirra frá 2016 þá séu engar sérþarfir merktar inn á tilnefningarformið, heldur hafi hún skráð orðið „engin“. Hér sé um mjög alvarlegt atriði að ræða sem komi verulega niður á heilsu kærenda, þó sérstaklega annars þeirra vegna ný afstaðinna alvarlegra veikinda og meðferðar í framhaldi, sem og möguleikum á að byggja heilsuna upp og sækja sér þá læknisþjónustu sem þeir þurfi. Að auki hafi þjónustufulltrúinn talað um að stuðningur í áfangahúsnæði eigi meðal annars að rjúfa félaglega einangrun en í þessari íbúð sé um að ræða algjöra félagslega einangrun. Kærendur greina frá þeim beiðnum sem þeir hafi sett fram varðandi staðsetningu íbúðar en þær hafi verið lagðar fram löngu áður en annar þeirra hafi endað á spítala. Nú hafi þær beiðnir enn meira vægi og séu þeim enn lífsnauðsynlegri.

Í athugasemdum kærenda er greinargerð Reykjavíkurborgar gagnrýnd með ítarlegum hætti. Þar kemur meðal annars fram að enn vanti rökstuðning fyrir því að úthlutun hafi verið í samræmi við raunverulegar sérþarfir sem tengist raunverulegum aðstæðum og ástandi kærenda. Í staðinn hafi þeim verið úthlutað í áfangahúsnæði með samningi um eftirfylgd en ekkert í þeim samningi segi til um þjónustu, stuðning og eftirfylgni velferðarsviðsins né skyldur leigutaka í samræmi við sérþarfir þeirra. Afsökun velferðarsviðs um breytingu á tölvukerfi leysi sviðið ekki undan því að rökstyðja hvernig faglegt mat hafi farið fram og á hverju það byggi til að gera þyrfti kröfu um áfangahúsnæði. Af gögnum kærenda frá þjónustumiðstöð sé ljóst að ekki hafi verið settar inn sérþarfir í tilnefningar fyrir úthlutun húsnæðis. Samt hafi verið búið að segja og skrifa að tekið yrði tillit til þeirra þarfa og því hafi kærendur treyst því að fá húsnæði í samræmi við þær þarfir að einhverju eða öllu leyti. Þar sem í greinargerð velferðarsviðs sé lögð mikil áhersla á heilsufarslegar aðstæður kærenda mætti halda að tryggt væri að þjónustumiðstöðin hefði gert allt sem í hennar valdi stæði til að uppfylla þessar sérþarfir. Svo hafi ekki verið því á mörgum tilnefningarblöðum þar sem spurt sé um sérþarfir standi orðið „engin“. Rökstuðningurinn sem hafi verið beðið um sé sá að velferðarsvið skýri af hverju aðstæður kærenda hafi verið taldar með þeim hætti að gera yrði kröfu um áfangahúsnæði með samningi um eftirfylgd. Kærendur krefjist rökstuðnings fyrir því faglega mati sem hafi verið unnið án vitneskju og aðkomu þeirra. Sá þáttur sé undanfari þeirrar stjórnvaldsákvörðunar sem ekki þurfi að rökstyðja. Í reglum Reykjavíkurborgar komi skýrt og greinilega fram að „Umsækjanda skal tilkynnt skriflega um hvort umsókn hans hafi verið samþykkt á biðlista og hvernig umsókn hans hafi verið metin skv. e-lið 1. mgr. 4. gr. reglna þessara.“ Ekki hafi verið tilkynnt hvernig þessi 11 stig hefðu verið faglega metin né að þau fælu í sér breytingu á umsókn kærenda, frá félagslegu leiguhúsnæði yfir í almennt félagslegt leiguhúsnæði sem áfangahúsnæði með samningi um eftirfylgd.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar er vísað til aðstæðna kærenda. Fram kemur að þeir séu báðir […]. Þá hafi þeir báðir glímt við mikil veikindi síðastliðna tvo áratugi. Mikill stuðningur hafi verið veittur af félagsþjónustu til kærenda í gegnum tíðina og um tíma hafi þeir búið í félagslegri leiguíbúð. Þeir beri sig báðir illa og telji sig ekki fá þann stuðning sem þeir þurfi frá heilbrigðiskerfinu. Þá eigi þeir ekki fjölskyldu sem þeir geti leitað til og fengið stuðning frá. Heilsu þeirra fari sífellt hrakandi og þeir hafi átt erfitt uppdráttar í samfélaginu.

Tekið er fram að kærendur hafi sótt um félagslega leiguíbúð í desember 2016. Með bréfi, dags. 12. júlí 2019, hafi kærendum verið tilkynnt um úthlutun almenns félagslegs leiguhúsnæðis. Umræddu húsnæði hafi á úthlutunarfundi þann 10. júlí 2019 verið úthlutað til kærenda sem áfangahúsnæði. Fyrir mistök hafi kærendum verið sent rangt úthlutunarbréf en mistökin megi rekja til breytinga á tölvukerfi vegna nýrra reglna. Félagsráðgjafi kærenda hafi strax upplýst þá um að umræddu almennu félagslegu leiguhúsnæði hefði verið úthlutað sem áfangahúsnæði. Í kjölfar úthlutunar skrifuðu kærendur undir samning um eftirfylgd í áfangahúsnæði, samkomulag um félagslega ráðgjöf og þann 17. júlí 2019 hafi þeir skrifað undir húsaleigusamning.

Reykjavíkurborg vísar til þess að um félagslegt leiguhúsnæði gildi reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði sem hafi tekið gildi þann 1. júní 2019. Í 2. gr. reglnanna sé félagslegu leiguhúsnæði skipt upp í fjóra flokka, þ.e. 1) almennt félagslegt leiguhúsnæði, 2) húsnæði fyrir fatlað fólk, 3) húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir og 4) þjónustuíbúðir fyrir aldraða, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglnanna. Frekari skilgreiningu á almennu félagslegu leiguhúsnæði sé að finna í 2. mgr. 2. gr. reglnanna en þar segi meðal annars að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa. Til almenns félagslegs leiguhúsnæðis teljist einnig áfangahúsnæði. Áfangahúsnæði sé almennt félagslegt leiguhúsnæði sem úthlutað sé tímabundið og með skilyrði um samning um eftirfylgd. Almennu félagslegu leiguhúsnæði sé úthlutað sem áfangahúsnæði þegar aðstæður leigutaka séu með þeim hætti að gera verði kröfu um að hann þiggi stuðning og þjónustu á meðan leigusamningur sé í gildi og úthlutun húsnæðisins sé tímabundin með tilliti til þess. Úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis fari eftir reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði og fari fram á sérstökum fundum úthlutunarteyma. Í 7. mgr. 19. gr. reglnanna komi fram að úthlutunarteymi sé heimilt að úthluta almennu félagslegu leiguhúsnæði og þjónustuíbúðum aldraðra tímabundið sem áfangahúsnæði séu aðstæður umsækjanda með þeim hætti að gera verði kröfu um að hann þiggi stuðning og þjónustu á meðan leigusamningur sé í gildi, svo sem að umsækjandi eigi við verulegan vímuefnavanda og/eða geðræna erfiðleika að etja sem geti valdið vandkvæðum í tengslum við búsetu í fjölbýli. Þá komi fram í 3. mgr. 22. gr. reglnanna að leigusamningar er varði áfangahúsnæði skuli vera tímabundnir til sex mánaða. Heimilt sé að endurnýja leigusamninga vegna áfangahúsnæðis, í kjölfar ákvörðunar á úthlutunarfundi, allt að fimm sinnum. Fullnægi leigutaki þeim kröfum sem gerðar séu í samningi um eftirfylgd að mati úthlutunarfundar og ekki sé lengur talin þörf á sérstökum stuðningi ráðgjafa sé heimilt að gera leigusamning samkvæmt 2. mgr. 22. gr. reglnanna.

Reykjavíkurborg bendir á að tilgangur með áfangahúsnæði sé að veita einstaklingum sem komi úr erfiðum aðstæðum aukinn stuðning og þjónustu á meðan leigusamningurinn sé í gildi. Sérstaklega hafi verið horft til þess að umrætt húsnæði nýtist þeim sem hafi átt við verulegan vímuefnavanda og/eða geðræna erfiðleika að etja en það geti reynst þeim erfitt að fóta sig í sjálfstæðri búsetu. Oft sé um að ræða einstaklinga sem komi úr tímabundnum úrræðum á vegum Reykjavíkurborgar eða af öðrum stofnunum. Í þessu samhengi sé einnig verið að horfa til annarra íbúa í fjölbýli en upp hafi komið alvarleg mál þar sem neysla og/eða andleg veikindi íbúa hafi haft áhrif á heilu stigagangana í fjölbýlum. Í slíkum tilvikum sé mikilvægt að hægt sé að bregðast skjótt við. Standi íbúi við samning um eftirfylgd í áfangahúsnæði fái hann áframhaldandi búsetu í húsnæðinu, sbr. 2. og 3. mgr. 22. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Aðstæður kærenda hafi verið taldar með þeim hætti að gera yrði kröfu um að þeir myndu þiggja stuðning og þjónustu á meðan leigusamningurinn væri í gildi. Í 7. mgr. 19. gr. sé ákvæði um að heimilt sé að úthluta almennu félagslegu leiguhúsnæði sem áfangahúsnæði séu aðstæður umsækjanda með þeim hætti að gera verði kröfu um að hann þiggi stuðning og þjónustu á meðan leigusamningur sé í gildi, svo sem þegar umsækjandi eigi við verulegan vímuefnavanda og/eða geðræna erfiðleika að etja sem geti valdið vandkvæðum í tengslum við búsetu í fjölbýli og sé úthlutun húsnæðisins tímabundin með tilliti til þess. Reykjavíkurborg ítrekar að áfangahúsnæði sé almennt félagslegt leiguhúsnæði sem úthlutað sé tímabundið og með skilyrði um samning um eftirfylgd.

Ákvörðun um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærendur hafi óskað eftir því að fá rökstuðning fyrir því af hverju þeim hafi verið úthlutað almennu félagslegu leiguhúsnæði sem áfangahúsnæði. Í 2. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga sé að finna undanþágu frá þeim rétti einstaklinga að geta krafist rökstuðnings fyrir stjórnvaldsákvörðun. Þar segi í 1. tölul. að ekki sé hægt að krefjast rökstuðnings hafi umsókn aðila verið tekin til greina að öllu leyti. Þar sem umsókn kærenda um almennt félagslegt leiguhúsnæði hafi verið samþykkt og til úthlutunar hafi komið teljist umsókn þeirra hafa verið tekin til greina að öllu leyti og það sé því mat velferðarsviðs Reykjavíkurborgar að ekki sé til staðar grundvöllur fyrir veitingu rökstuðnings. Í kjölfar úthlutunar hafi kærendur skrifað undir samning um eftirfylgd í áfangahúsnæði, samkomulag um félagslega ráðgjöf og húsaleigusamning. Í 5. gr. samningsins komi fram að þjónusta og eftirfylgd við kærendur (leigutaka) felist í því að leigutaki skuli taka á móti starfsmanni þjónustumiðstöðvar á heimili sínu tvisvar sinnum í mánuði. Leigutaki skuli virða almennar húsreglur í fjölbýli. Leigutaki skuli hafa leigugreiðslur í beingreiðslu í banka. Leigutaki skuli gæta þess að áfengis- og vímuefnaneysla hamli ekki búsetu hans í almennu félagslegu leiguhúsnæði. Í 5. gr. sé einnig tilgreint að þjónustumiðstöð skuli veita framangreinda þjónustu og eftirfylgd auk þess sem leigutaki skuldbindi sig til að þiggja umrædda þjónustu og eftirfylgd. Hvað varði óánægju kærenda með staðsetningu á úthlutuðu húsnæði þá hafi þeir haft val um að þiggja eða afþakka umrætt húsnæði. Með úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis sé verið að úthluta takmörkuðum gæðum sem ekki standi öllum til boða. Samkvæmt 2. mgr. 23. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði sé heimilt að óska eftir milliflutningi þegar þrjú ár séu liðin frá síðustu úthlutun. Umsækjendur um milliflutning geti sótt um undanþágu frá framangreindu skilyrði um að hafa búið í þrjú ár í núverandi félagslegu leiguhúsnæði séu veigamiklar ástæður fyrir flutningi, svo sem alvarlegt heilsuleysi eða mikil vandkvæði bundin við núverandi búsetu.

Með vísan til alls framanritaðs beri að staðfesta afgreiðslu velferðarsviðs í máli þessu varðandi úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis. Þá sé ljóst að ákvörðun velferðarsviðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, lögum nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða ákvæðum annarra laga. Hvað varði aðgang að gögnum sé rétt að upplýsa að kærendur hafi leitað til úrskurðarnefndar um upplýsingamál hvað það varði.

Í athugasemdum Reykjavíkurborgar er meðal annars vísað til þess að það sé úthlutunarteymi sem taki ákvörðun um það hvort almennu félagslegu leiguhúsnæði sé úthlutað sem áfangahúsnæði. Þegar úthlutunarteymi berist tilnefningar frá þjónustumiðstöðvum um umsækjendur í almennt félagslegt leiguhúsnæði þá hafi fagfundur í þjónustumiðstöð áður fjallað um málið og metið hvort þörf sé talin á stuðningi og þar með áfangahúsnæði. Einnig taki úthlutunarteymi stundum ákvörðun um að úthluta húsnæði sem áfangahúsnæði á grundvelli þeirra ganga sem liggi fyrir frá þjónustumiðstöð. Markmiðið með því að úthluta almennu félagslegu leiguhúsnæði sem áfangahúsnæði sé að veita einstaklingum sem komi úr erfiðum aðstæðum aukinn stuðning og þjónustu á meðan leigusamningurinn sé í gildi. Sérstaklega hafi verið horft til þess að umrætt húsnæði nýtist þeim sem hafi átt við verulegan vímuefnavanda og/eða geðræna erfiðleika að etja en það geti reynst þeim erfitt að fóta sig í sjálfstæðri búsetu. Áfangahúsnæði geti einnig nýst t.d. þegar um sé að ræða einstæða foreldra sem hafa lítinn/engan stuðning frá fjölskyldu, þegar umsækjandi á ofbeldis- eða áfallasögu að baki, þegar umsækjandi sé að koma af stofnun, þegar umsækjandi hafi verið lengi heimilislaus eða búið lengi við erfiðar/óviðunandi húsnæðisaðstæður eða þegar aðstæður umsækjanda séu með þeim hætt að hann þurfi þjónustu, ráðgjöf og stuðning. Standi íbúi við samning um eftirfylgd í áfangahúsnæði fái hann áframhaldandi búsetu í húsnæðinu, sbr. 2. og 3. mgr. 22. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Þá sé einnig verið að horfa til annarra íbúa í fjölbýli en upp hafi komið alvarleg mál þar sem neysla og/eða andleg veikindi íbúa hafi haft áhrif á heilu stigaganganna í fjölbýlum. Í slíkum tilvikum sé mikilvægt að hægt sé að bregðast skjótt við.

Reykjavíkurborg vísar til þess að umsókn kærenda um félagslegt leiguhúsnæði hafi verið komin í úthlutunarferli og því hafi verið nauðsynlegt að endurmeta hana samkvæmt nýjum reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði frá 1. júní 2019, sbr. 5. mgr. 19. gr. reglnanna og ákvæði til bráðabirgða með reglunum. Umsókn kærenda frá desember 2016 hafi verið metin til 11 stiga. Við endurmat á umsókninni, á grundvelli nýrra reglna og með vísan til fyrirhugaðrar tilnefningar í úthlutun, hafi umsóknin verið metin til 11 stiga og þeim tilkynnt um þá stigagjöf með bréfi, dags. 3. júní 2019. Það mat hafi verið byggt á þeim upplýsingum sem hafi legið fyrir í málinu, enda hafi kærendur verið í samskiptum við félagsráðgjafa á þjónustumiðstöð. Nýja matið hafi leitt í ljós að kærendur væru enn í brýnni þörf fyrir almennt félagslegt leiguhúsnæði og haldið því áfram í úthlutunarferli á þjónustumiðstöð. Mat samkvæmt matsviðmiði varðandi almennt félagslegt leiguhúsnæði (sbr. fylgiskjal með reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði) hafi ekki áhrif á hvort almennu félagslegu leiguhúsnæði sé úthlutað sem áfangahúsnæði. Umrætt matsviðmið sé notað þegar umsóknir um almennt félagslegt leiguhúsnæði séu metnar en til þess að umsókn sé samþykkt á biðlista þurfi umsækjandi að vera metinn til ákveðins stigafjölda, sbr. e-lið 4. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Þá hafi framangreind stigagjöf einnig áhrif á forgangsröðun umsókna en í 4. mgr. 19. gr. reglnanna komi fram að forgangsröðun taki mið af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt stigagjöf samkvæmt matsviðmiðum reglnanna. Sá hluti kærunnar er þetta varði byggi því á misskilningi. Við úthlutun húsnæðis þann 10. júlí 2019 hafi kærendur verið taldir í mestri þörf fyrir umrætt húsnæði og því hafi þeir fengið því úthlutað. Íbúðin sé staðsett að C, á fyrstu hæð og engar sameiginlegar skyldur hvíli á íbúum í stigaganginum. Þjónustumiðstöð hafi tilnefnt kærendur í umrædda íbúð þar sem hún hafi verið talin geta komið til móts við þarfir þeirra. Kærendur hafi haft val um að þiggja eða afþakka það húsnæði sem þeim hafi verið úthlutað en með úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis sé verið að úthluta takmörkuðum gæðum sem ekki standi öllum til boða. Heimilt sé að óska eftir milliflutningi þegar þrjú ár séu liðin frá síðustu úthlutun, sbr. 2. mgr. 23. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði en undanþágu frá þessu ákvæði megi einnig finna í sömu grein reglnanna. Við úthlutanir sé ekki alltaf unnt að koma til móts við sérþarfir viðkomandi en ef þörf fyrir húsnæði sé brýn geti því þurft að horfa fram hjá sérþörfum viðkomandi til þess að koma viðkomandi í húsnæði.

Í svarbréfi Reykjavíkurborgar frá 12. mars 2020, við beiðni úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. mars 2020, um nánari upplýsingar um þá ákvörðun að úthluta kærendum almennu félagslegu leiguhúsnæði sem áfangahúsnæði, kemur fram að þegar fyrir liggi að félagslegt leiguhúsnæði Félagsbústaða sé laust til úthlutunar þá sé þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar tilkynnt um það og hvaða íbúðir komi til úthlutunar á næsta úthlutunarfundi. Til að ákvarða hvaða einstaklingar séu tilnefndir af hálfu þjónustumiðstöðva þá séu haldnir fagfundir í hverri þjónustumiðstöð þar sem ráðgjafar tilnefni þá einstaklinga sem tilheyri þjónustumiðstöðinni og laust húsnæði gæti hentað fyrir. Fagfundur fari yfir mál allra einstaklinga sem ráðgjafar tilnefni og fundurinn leggi faglegt mat á málin með hliðsjón af stigagjöf og forgangsraði þeim. Fagfundurinn taki ákvörðun um hvaða aðili sé tilnefndur frá þjónustumiðstöð í umrætt húsnæði. Á grundvelli ákvörðunar fagfundar sé unnin tilnefning þjónustumiðstöðvar varðandi tilnefndan aðila og aðstæður þeirra. Í tilnefningu þjónustumiðstöðva komi fram hvort fagfundur telji að gera eigi kröfu um eftirfylgd og áfangahúsnæði. Ef gerð sé krafa um áfangahúsnæði þá komi fram í tilnefningunni hvaða rök búi þar að baki og þá sé einnig tilgreint hvaða stuðningur sé fyrirhugaður og útfærsla á honum. Tilnefningar þjónustumiðstöðva séu síðan sendar úthlutunarteymi sem annist úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis, sbr. 19. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði. Úthlutunarteymið fari yfir tilnefningar frá öllum þjónustumiðstöðvum og forgangsraði umsóknum. Forgangsröðun taki mið af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt stigagjöf samkvæmt matsviðmiðum. Eins og áður segi komi fram í tilnefningum þjónustumiðstöðva hvort fagfundur telji að gera eigi kröfu um eftirfylgd og áfangahúsnæði, auk þess sem tilgreint sé í tilnefningunni hvaða rök búi að baki þeirri ákvörðun og hvaða stuðningur sé fyrirhugaður. Einnig taki úthlutunarteymi stundum ákvörðun um að úthluta húsnæði sem áfangahúsnæði á grundvelli þeirra gagna sem liggi fyrir frá þjónustumiðstöð án þess að þjónustumiðstöð hafi í tilnefningu sinni lagt til að húsnæðinu verði úthlutað sem áfangahúsnæði.

Reykjavíkurborg vísar til þess að á fundi úthlutunarteymis þann 12. júlí 2019 hafi legið fyrir tilnefningar þjónustumiðstöðva um þá einstaklinga sem þjónustumiðstöðvar teldu vera í mestri þörf fyrir íbúð C. Í tilnefningu þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða í máli kærenda hafi komið fram að gerð væri krafa um eftirfylgd og áfangahúsnæði á grundvelli veikinda, fjárhags- og félagslegra erfiðleika til margra ára. Þá hafi komið fram að kærendur hafi verið veikir, annar þeirra á sjúkrahúsi en hinn undir eftirliti lækna og á sjúkrahóteli, auk þess sem þeir hafi verið heimilislausir. Í tilnefningunni sé tilgreint að fyrirhugaður stuðningur felist í aðstoð með flutning, mögulega umsókn um húsbúnaðarstyrk, aðstoð við umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning og mögulega aðstoð vegna umsóknar til Tryggingastofnunar. Þá hafi ekki legið fyrir hvort þeir þurfi heimaþjónustu eða aðstoð heimahjúkrunar. Einnig hafi komið fram í tilnefningunni að kærendur væru báðir með X og annar með X. Vegna veikinda sinna þurfi þeir á læknisþjónustu að halda og þá hafi miklir flutningar einkennt líf þeirra. Einnig komi fram í tilnefningunni að annar kærenda eigi að baki meðferðir en þeir hafi báðir upplýst um að neysla væri ekki vandamál hjá þeim. Á grundvelli þeirra upplýsinga sem fram hafi komið í tilnefningu þjónustumiðstöðvarinnar hafi úthlutunarfundur fallist á að aðstæður kærenda væru með þeim hætti að gera yrði kröfu um að almennu félagslegu leiguhúsnæði yrði úthlutað sem áfangahúsnæði í tilfelli kærenda eins og lagt hafi verið til í tilnefningu þjónustumiðstöðvar.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 12. júlí 2019, um úthlutun félagslegrar leiguíbúðar. Ágreiningur málsins lýtur að þeirri ákvörðun að úthluta tiltekinni íbúð sem áfangahúsnæði og að ekki hafi verið tekið tillit til sérþarfa kærenda við úthlutun. Einnig er kærð synjun Reykjavíkurborgar um rökstuðning ákvörðunar.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Þá skuli sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta  skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við húsnæðismál, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í XII. kafla laganna er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Samkvæmt 46. gr. laganna skulu félagsmálanefndir sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri laus.

Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti. Þá segir meðal annars í 64. gr. laganna að úrskurðarnefnd velferðarmála fjalli um hvort samþykkt þjónusta sé í samræmi við reglur viðkomandi sveitarstjórnar.

Í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, sem tóku gildi 1. júní 2019, er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita, sbr. XII. kafla laga nr. 40/1991. Kærendur sóttu um félagslega leiguíbúð hjá Reykjavíkurborg í gildistíð eldri reglna en samkvæmt bráðabirgðaákvæði núgildandi reglna héldu eldri umsóknir gildi sínu. Þá segir í ákvæðinu að umsóknir sem raðist efst í forgangsröðun samkvæmt eldri reglum og komnar séu í úthlutunarferli skuli vera endurmetnar samkvæmt nýjum reglum áður en til úthlutunar komi. Með vísan til þess mun umfjöllun úrskurðarnefndarinnar taka mið af gildandi reglum frá 1. júní 2019.

Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. framangreindra reglna er með félagslegu leiguhúsnæði átt við almennt félagslegt leiguhúsnæði, húsnæði fyrir fatlað fólk, húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir, og þjónustuíbúðir aldraðra. Í 2. mgr. 2. gr. er að finna skilgreiningu á almennu félagslegu leiguhúsnæði; þar segir:

„Almennt félagslegt leiguhúsnæði er ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa. Með almennu félagslegu leiguhúsnæði er átt við hverja þá íbúð í eigu Félagsbústaða hf. sem ekki er sérstaklega skilgreind sem þjónustuíbúð aldraðra, húsnæði fyrir fatlað fólk eða húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir. Jafnframt fellur hér undir húsnæði sem Reykjavíkurborg leigir til einstaklinga þar sem umsýsla er á vegum Félagsbústaða hf. Til almenns félagslegs leiguhúsnæðis telst einnig áfangahúsnæði. Áfangahúsnæði er almennt félagslegt leiguhúsnæði sem úthlutað er tímabundið og með skilyrði um samning um eftirfylgd. Almennu félagslegu leiguhúsnæði er úthlutað sem áfangahúsnæði þegar aðstæður leigutaka eru með þeim hætti að gera verður kröfu um að hann þiggi stuðning og þjónustu á meðan leigusamningur er í gildi og er úthlutun húsnæðisins tímabundin með tilliti til þess. Um almennt félagslegt leiguhúsnæði er fjallað í II. kafla reglna þessara.“

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði fer úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis fram á sérstökum fundum úthlutunarteyma sem skipuð eru með sérstöku erindisbréfi. Þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar leggja faglegt mat á þær umsóknir sem metnar hafa verið samkvæmt matsviðmiðum með reglunum, sbr. 2. mgr. 19. gr. reglnanna. Í 4. mgr. 19. gr. kemur fram að úthlutunarteymi félagslegs leiguhúsnæðis forgangsraði umsóknum frá þjónustumiðstöðvum og úthluti húsnæði samkvæmt reglunum. Forgangsröðun taki mið af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt stigagjöf samkvæmt matsviðmiðum reglnanna. Þá segir í 5. mgr. 19. gr. að þegar umsækjandi sé tilnefndur í félagslegt leiguhúsnæði beri eftir atvikum að uppfæra öll gögn miðað við stöðu umsækjanda á þeim tíma. Áður en til tilnefningar komi beri einnig eftir atvikum að framkvæma endurmat samkvæmt matsviðmiðum. Umsækjanda skuli tilkynnt skriflega ef endurmat leiðir til breytinga á stigagjöf. Samkvæmt gögnum málsins var umsókn kærenda frá desember 2016 metin til 11 stiga. Við endurmat á umsókninni, á grundvelli nýrra reglna og fyrirhugaðrar tilnefningar í úthlutun, var umsóknin einnig metin til 11 stiga.

Í 7. mgr. 19. gr. reglnanna er kveðið á um að úthlutunarteymi sé heimilt að úthluta almennu félagslegu leiguhúsnæði og þjónustuíbúðum aldraðra tímabundið sem áfangahúsnæði séu aðstæður umsækjanda með þeim hætti að gera verði kröfu um að hann þiggi stuðning og þjónustu á meðan leigusamningur sé í gildi, svo sem að umsækjandi eigi við verulegan vímuefnavanda og/eða geðræna erfiðleika að etja sem geti valdið vandkvæðum í tengslum við búsetu í fjölbýli. Þá segir í 8. mgr. 19. gr. að ákvörðun um úthlutun sé stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um sé að ræða skilyrta stjórnvaldsákvörðun þar sem gert sé að skilyrði að umsækjandi uppfylli reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði, fari að þeim ákvæðum sem gildi samkvæmt húsaleigulögum nr. 36/1994 og ákvæðum leigusamnings um viðkomandi leiguhúsnæði.

Óumdeilt er að kærendur fengu úthlutað húsnæði sem áfangahúsnæði þrátt fyrir að það hafi ekki komið fram í hinni kærðu ákvörðun, dags. 12. júlí 2019, en með símtali og tölvupósti sama dag voru þeir upplýstir um það. Í kjölfar úthlutunar skrifuðu kærendur undir samning um eftirfylgd í áfangahúsnæði, samkomulag um félagslega ráðgjöf og húsaleigusamning. Kærendur hafa haldið því fram að með því að úthluta þeim húsnæði sem áfangahúsnæði hafi Reykjavíkurborg í raun breytt þeirri ákvörðun að samþykkja umsókn þeirra frá árinu 2016 um almennt félagslegt leiguhúsnæði. Úrskurðarnefndin fellst ekki á þá málsástæðu kærenda. Líkt og að framan greinir tóku gildi nýjar reglur um félagslegt leiguhúsnæði þann 1. júní 2019 og var umsókn kærenda því metin út frá þeim þegar að úthlutun kom.

Af hálfu Reykjavíkurborgar hefur komið fram að markmiðið með því að úthluta almennu félagslegu leiguhúsnæði sem áfangahúsnæði sé að veita einstaklingum sem komi úr erfiðum aðstæðum aukinn stuðning og þjónustu á meðan leigusamningurinn sé í gildi. Sérstaklega sé horft til þess að umrætt húsnæði nýtist þeim sem hafi átt við verulegan vímuefnavanda og/eða geðræna erfiðleika að etja en það geti reynst þeim erfitt að fóta sig í sjálfstæðri búsetu. Þá hefur Reykjavíkurborg ítarlega greint frá úthlutunarferlinu og sjónarmiðum að baki því.

Samkvæmt gögnum málsins mat úthlutunarteymi Reykjavíkurborgar það svo að kærendur þyrftu á áfangahúsnæði að halda, þ.e. að þeir þyrftu stuðning og þjónustu á meðan leigusamningur væri í gildi. Í tilnefningu þjónustumiðstöðvar kemur fram að gerð sé krafa um eftirfylgd í áfangahúsnæði á grundvelli veikinda, fjárhags- og félagslegra erfiðleika til margra ára. Í rökstuðningi fyrir því mati segir að kærendur hafi átt í erfiðleikum fjárhagslega og félagslega. Þeir séu veikir, annar þeirra sé á sjúkrahúsi en hinn undir eftirliti lækna og á sjúkrahóteli. Í tilnefningunni er tilgreint að fyrirhugaður stuðningur felist í aðstoð með flutning, mögulega umsókn um húsbúnaðarstyrk, aðstoð við umsókn um sérstakan húsnæðisstuðning og mögulega aðstoð vegna umsóknar til Tryggingastofnunar. Ekki liggi fyrir hvort þeir þurfi heimaþjónustu eða aðstoð heimahjúkrunar. Einnig kemur fram í tilnefningunni að kærendur séu húsnæðislausir, séu báðir með króníska sjúkdóma og hafi verið í erfiðum lyfjameðferðum. Vegna veikinda sinna þurfi þeir á læknisþjónustu að halda og þá hafi miklir flutningar einkennt líf þeirra. Kærendur eigi ekki fjölskyldur hér á landi sem þeir geti leitað til í erfiðleikum sínum. Að lokum kemur fram í tilnefningunni að annar kærenda eigi að baki meðferðir en þeir hafi báðir upplýst um að neysla sé ekki vandamál hjá þeim.

Á grundvelli framangreindra upplýsinga var það niðurstaða úthlutunarfundar að aðstæður kærenda væru með þeim hætti að gera yrði kröfu um að almennu félagslegu leiguhúsnæði yrði úthlutað sem áfangahúsnæði. Íbúðin sem kærendur fengu úthlutað er staðsett að C, á fyrstu hæð og hefur Reykjavíkurborg vísað til þess að engar sameiginlegar skyldur hvíli á íbúum í stigaganginum. Þjónustumiðstöð hafi tilnefnt kærendur í umrædda íbúð þar sem hún hafi verið talin geta komið til móts við þarfir þeirra. Við úthlutanir sé ekki alltaf unnt að koma til móts við sérþarfir viðkomandi en ef þörf fyrir húsnæði sé brýn geti því þurft að horfa fram hjá sérþörfum viðkomandi til þess að koma viðkomandi í húsnæði. Þá hefur Reykjavíkurborg vísað til þess að með úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis sé verið að úthluta takmörkuðum gæðum sem ekki standi öllum til boða. Kærendur hafi verið taldir í mestri þörf fyrir umrætt húsnæði og því hafi þeir fengið því úthlutað.

Samkvæmt gögnum málsins fór fram einstaklingsbundið og heildstætt mat á húsnæðisþörfum kærenda. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður ekki annað séð en að kærendum hafi verið úthlutað húsnæði í samræmi við aðstæður þeirra og þarfir. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Verður þá vikið að synjun Reykjavíkurborgar um rökstuðning hinnar kærðu ákvörðunar. Kærendur fóru fram á rökstuðning fyrir því að hafa þurft að skrifa undir samning um eftirfylgd í áfangahúsnæði. Beiðni kærenda var synjað með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem umsókn kærenda hafi verið tekin til greina að öllu leyti. Í athugasemdum með 21. gr. frumvarps til stjórnsýslulaga segir að aðili máls eigi rétt á því að fá rökstuðning fyrir ákvörðun, sem hafi verið birt honum, hafi ekki fylgt henni skriflegur rökstuðningur. Ekki sé þó skylt að rökstyðja ákvarðanir þar sem umsókn aðila hafi verið tekin til greina að öllu leyti. Ef vafi léki á því hvort ákvörðun væri að öllu leyti í samræmi við umsókn aðila væri eðlilegast að rökstyðja slíka ákvörðun að framkominni beiðni. Með vísan til þess að umsókn kærenda var lögð fram í gildistíð eldri reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði þar sem ekki var kveðið á um áfangahúsnæði er það mat úrskurðarnefndarinnar að vafi hafi leikið á því hvort ákvörðun væri að öllu leyti verið í samræmi við umsókn. Samkvæmt þessu hefði verið rétt að veita kærendum rökstuðning. Úrskurðarnefndin beinir því til Reykjavíkurborgar að huga framvegis að framangreindum sjónarmiðum.    


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Reykjavíkurborgar, dags. 12. júlí 2019, um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis til handa A og B er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta