Hoppa yfir valmynd

Nr. 438/2019 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 17. september 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 438/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19060023

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 28. maí 2019, kærði [...], kt. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. maí 2019, um að synja honum um ótímabundið dvalarleyfi.

Kærunefnd leggur þann skilning í kæru kæranda að hann fari fram á að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk fyrst útgefið dvalarleyfi á Íslandi vegna fjölskyldusameiningar þann 26. október 2015 með gildistíma til 30. september 2016. Kærandi fékk leyfið endurnýjað í eitt skipti, með gildistíma til 30. september 2017. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands lést maki kæranda þann 7. júlí 2017. Kærandi fékk dvalarleyfi á ný þann 16. október 2017 með gildistíma til 30. september 2018. Þann 7. ágúst 2018 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun fékk kærandi dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið þann 4. júlí sl. með gildistíma til 4. júlí 2020.

Þann 20. desember 2018 lagði kærandi fram umsókn um ótímabundið dvalarleyfi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. maí 2019, var umsókn kæranda synjað. Kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 27. maí sl. Kærandi kærði ákvörðunina þann 28. maí 2019 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð og fylgigögn bárust frá kæranda þann 1. júlí sl. Frekari gögn bárust þá frá kæranda þann 3. júlí 2019.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar voru skilyrði fyrir útgáfu ótímabundins dvalarleyfis rakin, sbr. 58. gr. laga um útlendinga. Meðal grunnskilyrða væri að útlendingur hafi dvalist hér á landi samfellt í fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Þar sem að kærandi uppfyllti ekki fyrrnefnt skilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga um lágmarksdvöl, auk þess sem undanþágur 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga ættu ekki við um kæranda, var umsókn hans um ótímabundið dvalarleyfi synjað.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi andmæli ákvörðun Útlendingastofnunar um að hafna umsókn hans um fasta búsetu á Íslandi. Þá kemur þar m.a. fram að kærandi hafi lokið íslenskuprófi og aflað staðfestingu á atvinnuleyfi. Í frekari gögnum frá kæranda gerir kærandi m.a. grein fyrir ferli mála sinna hjá Útlendingastofnun.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 58. gr. laga um útlendinga er fjallað um ótímabundið dvalarleyfi. S

amkvæmt 1. mgr. 58. gr. er heimilt að veita útlendingi ótímabundið dvalarleyfi hafi hann dvalist hér á landi samfellt síðustu fjögur ár samkvæmt dvalarleyfi sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis.

Finna má undanþágur frá skilyrðinu um lengd fyrri dvalar í 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga. Þannig kemur m.a. í b-lið 3. mgr. 58. gr. laganna fram sú almenna regla að útlendingur sem er í hjúskap með íslenskum ríkisborgara þurfi einungis að hafa dvalið hér á landi á grundvelli dvalarleyfis í þrjú ár.

Eins og að framan greinir fékk kærandi fyrst útgefið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar þann 26. október 2015. Uppfyllir kærandi því ekki skilyrði 1. mgr. 58. gr. laga um útlendinga um lágmarksdvöl. Þá eiga þær undanþágur sem finna má í 3. mgr. 58. gr. laga um útlendinga ekki við í máli kæranda enda lauk hjúskap kæranda með andláti eiginkonu hans.

Af framangreindu leiðir að kærandi uppfyllir ekki skilyrði fyrir veitingu ótímabundins dvalarleyfis og verður hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar því staðfest.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Gunnar Páll Baldvinsson                                  Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta