Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 164/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 164/2016

Fimmtudaginn 27. október 2016

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 28. apríl 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. mars 2016, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 30. desember 2015. Meðfylgjandi umsókninni var vinnuveitandavottorð þar sem fram kemur að kæranda hafi verið sagt upp störfum vegna brota í starfi. Með bréfi, dags. 13. janúar 2016, óskaði Vinnumálastofnun eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna starfsloka hans. Með tölvupósti þann 13. janúar 2016 sendi kærandi Vinnumálastofnun rökstuðning fyrrum vinnuveitanda fyrir uppsögninni.

Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 4. febrúar 2016, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um atvinnuleysisbætur hefði verið samþykkt og útreiknaður bótaréttur væri 100%. Með vísan til starfsloka hans í síðasta starfi væri réttur hans til atvinnuleysisbóta hins vegar felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Mál kæranda var tekið fyrir aftur hjá Vinnumálastofnun í kjölfar frekari skýringa og gagna og með bréfi, dags. 3. mars 2016, var kæranda tilkynnt að skýringar hans teldust ekki gildar í skilningi laga nr. 54/2006 og fyrri ákvörðun því staðfest. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 1. apríl 2016.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 29. apríl 2016. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, mótteknu 12. maí 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda með tölvupósti 25. maí 2016.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi tekur fram að hin kærða ákvörðun sé byggð á upplýsingum úr rökstuðningi fyrrum vinnuveitanda fyrir uppsögn úr starfi. Þar komi fram að kærandi hafi orðið uppvís að því að misnota trúnaðargögn vinnustaðarins í persónulegum tilgangi og að hafa vísvitandi farið fram hjá öryggisráðstöfunum stofnunarinnar til þess að rekja viðkvæmar ópersónugreinanlegar trúnaðarupplýsingar til tiltekinna nafngreindra manna. Kærandi bendir á að ekki sé hægt að taka mark á öllu sem fram komi í framangreindum rökstuðningi, enda sé þar víða farið frjálslega með staðreyndir. Engar öryggisráðstafanir hafi verið gerðar varðandi þær upplýsingar sem málið varði og kærandi hafi einfaldlega haft beinan aðgang að gögnum eins og allir starfsmenn hans deildar. Ekkert hafi bent til þess að um væri að ræða viðkvæmar trúnaðarupplýsingar og því ekki hægt að draga þá ályktun að gögnin væru trúnaðargögn. Þá sé ekki rétt að um ópersónugreinanlegar upplýsingar hafi verið að ræða, enda hefði hann þá ekki með nokkru móti getað rakið þær til nafngreindra einstaklinga. Enn fremur hafi hann alls ekki notað gögnin í persónulegum tilgangi. Hann hafi verið trúnaðarmaður stéttarfélags og honum og öðrum trúnaðarmönnum hafi ekki verið veittur aðgangur að launaupplýsingum félagsmanna sinna innan stofnunarinnar þótt eftir því hafi verið leitað. Það sem hann hafi gert við gögnin hafi verið að nota þau til að sýna sínum næstu yfirmönnum að jafnréttis-, starfsmanna- og launastefna stofnunarinnar væri þverbrotin og að reynt væri að leyna því með því að veita trúnaðarmönnum, jafnréttisfulltrúa og deildarstjórum ekki aðgang að neinum upplýsingum sem gætu varpað ljósi á þau brot.

Kærandi bendir á að það sé rétt hjá Vinnumálastofnun að deilur stéttarfélags, fyrir hans hönd, við fyrrverandi vinnuveitanda hans snúist aðeins um það hvort uppsögnin hafi verið lögmæt eða ekki. Aðalkrafa kæranda sé að fá það viðurkennt að uppsögnin hafi verið ólögmæt, en það þýði þó alls ekki að fullyrðingar um brot hans í starfi séu réttar. Afstaða Vinnumálastofnunar, að kærandi hefði mátt gera sér grein fyrir því að háttsemi hans myndi leiða til brottvikningar úr starfi, byggi að því er virðist eingöngu á fullyrðingum fyrrum vinnuveitanda hans sem eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum. Kærandi hafi verið að sinna skyldum sínum sem trúnaðarmaður og talið sig vera að gera stofnuninni gott til lengri tíma með því að þrýsta á breytingar á þeim sviðum sem valdið hafi hvað mestri óánægju meðal starfsfólks. Annar starfsmaður, sem hafi aðstoðað kæranda við þetta meinta brotlega athæfi, hafi hvorki fengið áminningu né uppsögn í kjölfarið sem undirstriki það að athæfið sjálft hafi aðeins verið átylla en ekki raunveruleg ástæða uppsagnarinnar.

Kærandi tekur fram að um þrír mánuðir hafi liðið frá því að honum hafi verið sagt upp þar til hann hafi leitað til stéttarfélagsins vegna uppsagnarinnar. Þá fyrst hafi fyrrum vinnuveitandi hans ákveðið að kæra hið meinta brot til ríkissaksóknara. Fram að því hafi ekkert verið aðhafst í málinu sem bendi augljóslega til þess að athæfi kæranda hafi ekki verið talið saknæmt og sýni líka einbeittan vilja til að valda kæranda persónulegum skaða.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að tilgangur laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Lögin veiti þeim fjárhagslegt úrræði og beri að gera ríkar kröfur til þeirra sem segi upp störfum sínum að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Hið sama gildi um þann sem missi starf sitt af ástæðum sem hann eigi sjálfur sök á, sbr. 1. mgr. 54. gr. laganna.

Í greinargerð með frumvarpi því sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé það áréttað að eitt af markmiðum vinnumarkaðskerfisins sé að stuðla að virkri atvinnuþátttöku fólks. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í greinargerðinni sé vísað til þess að það væri erfiðleikum bundið að skilgreina nákvæmlega í lögum og reglugerðum hvaða ástæður sem liggi að baki ákvörðun þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi starf sitt séu gildar þar sem þær ástæður geti verið af margvíslegum toga. Því hafi verið lagt til að lagareglan væri matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Ljóst sé að kæranda hafi verið sagt upp vegna brota í starfi. Í rökstuðningi fyrrum vinnuveitanda kæranda fyrir uppsögninni komi fram að honum hafi verið sagt upp sökum þess að hann hafi orðið uppvís að því að misnota trúnaðargögn í persónulegum tilgangi. Segi enn fremur að hann hafi vísvitandi farið framhjá öryggisráðstöfunum stofnunarinnar til þess að rekja viðkvæmar trúnaðarupplýsingar, sem gerðar höfðu verið ópersónugreinanlegar, til tiltekinna nafngreindra manna.

Við mat á því hvort umsækjandi um atvinnuleysistryggingar skuli sæta viðurlögum, á grundvelli 54. gr. laga nr. 54/2006, í málum sem þessum beri stofnuninni að líta til þess hvort viðkomandi hafi misst starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur eigi sök á. Uppsögn kæranda megi rekja til alvarlegra brota á starfsskyldum og trúnaðarskyldum hans gagnvart vinnuveitanda. Af fyrirliggjandi gögnum í málinu sé ljóst að kærandi hafi orðið uppvís að því að hagnýta upplýsingar hjá vinnuveitanda í öðrum tilgangi en honum hafi verið falið í starfi sínu. Kærandi telji hins vegar að viðbrögð vinnuveitanda séu ekki í samræmi við athæfi sitt. Vinnumálastofnun fallist ekki á skýringar kæranda. Öllum ætti að vera ljóst að hagnýting starfsmanna á trúnaðargögnum ríkisstofnunar í persónulegum tilgangi kunni að hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér. Þá verði ekki fallist á það með kæranda að ákvörðun um að kæra ekki meint brot hans til ríkissaksóknara feli í sér augljósa vísbendingu um að athæfi kæranda sé ekki saknæmt.

Vinnumálastofnun bendir á að jafnvel þótt ekki hafi verið gerðar öryggisráðstafanir við vistun gagna hafi kærandi ekki getað ætlað að honum væri frjálst að hagnýta eða miðla umræddum upplýsingum. Það sé fráleitt að halda því fram að starfsmönnum ríkisstofnana sé frjálst að hagnýta sér allar þær upplýsingar sem þeir verði áskynja um í störfum sínum nema þær upplýsingar hafi sérstaklega verið undanskildar sem trúnaðargögn en sérstök trúnaðarskylda hvíli á starfsmönnum lögum samkvæmt.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi mátt gera sér grein fyrir því að háttsemi hans myndi leiða til brottvikningar úr starfi og að hann hafi misst starf sitt af ástæðum sem hann sjálfur hafi átt sök á, sbr. 54. gr. laga nr. 54/2006. Því beri honum að sæta tveggja mánaða biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysistrygginga. Greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda skuli fyrst hefjast þegar hann hafi verið skráður hjá Vinnumálastofnun í tvo mánuði, án bóta.

IV. Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 54. gr. laganna er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

Óumdeilt er að kæranda var sagt upp störfum en ágreiningur málsins lýtur að því hvort hann hafi sjálfur átt sök á uppsögninni. Í athugasemdum við 1. mgr. 54. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að það sé erfiðleikum bundið að takmarka þau tilvik sem geti talist til gildra ástæðna í lögum og reglugerðum þar sem ástæður þess að fólk segi störfum sínum lausum eða missi þau geti verið af margvíslegum toga. Því sé lagt til að lagareglan verði áfram matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta atvik og aðstæður hverju sinni. Stofnuninni beri að líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða við ákvarðanir um hvort umsækjendur um atvinnuleysisbætur skuli sæta biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Jafnframt er bent á að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða.

Í rökstuðningi fyrrum vinnuveitanda fyrir uppsögn, dags. 1. október 2015, kemur fram að kærandi hafi orðið uppvís af því að misnota trúnaðargögn á vinnustaðnum í persónulegum tilgangi. Þá segir að hann hafi farið vísvitandi fram hjá öryggisráðstöfunum stofnunarinnar til þess að rekja viðkvæmar trúnaðarupplýsingar, sem gerðar höfðu verið ópersónugreinanlegar, til tiltekinna nafngreindra manna. Einkum hafi verið um að ræða upplýsingar um launakjör, bæði starfsmanna stofnunarinnar og utanaðkomandi aðila. Kærandi hefur mótmælt framangreindu og tekið fram að hann hafi haft beinan aðgang að gögnunum og notað þau í starfi sínu sem trúnaðarmaður. Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að stofnunin fallist ekki á skýringar kæranda og tekur fram að öllum ætti að vera ljóst að hagnýting á trúnaðargögnum í persónulegum tilgangi kunni að hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér.

Eins og fram hefur komið er ákvörðun um að umsækjandi skuli sæta biðtíma íþyngjandi ákvörðun. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því að gera þær kröfur að fyrirliggjandi gögn bendi eindregið til þess að rétt sé að beita því úrræði vegna atvika sem umsækjandi á sjálfur sök á. Í máli þessu liggja ekki fyrir önnur gögn um meinta háttsemi kæranda en frásögn fyrrum vinnuveitanda hans. Að mati úrskurðarnefndarinnar liggur því ekki fyrir viðhlítandi sönnun þess að kærandi hafi brotið af sér í starfi og verður því ekki fallist á mat Vinnumálastofnunar um að kærandi hafi misst starfið af ástæðum sem hann sjálfur átti sök á.

Með vísan til þess og framangreindra sjónarmiða telur úrskurðarnefndin það ekki vera hafið yfir skynsamlegan vafa að kærandi hafi sjálfur borið ábyrgð á uppsögninni. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 er því felld úr gildi. Kærandi skal eiga rétt á atvinnuleysisbótum frá umsóknardegi, að uppfylltum öðrum skilyrðum laga nr. 54/2006.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. mars 2016, í máli A, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 54. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er felld úr gildi.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta