Mál nr. 166/2016
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 166/2016
Fimmtudaginn 27. október 2016
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.
Með kæru, dags. 3. maí 2016, kærir B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. febrúar 2016, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar og að innheimta ofgreiddar bætur að fjárhæð 384.505 kr.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 18. ágúst 2015 og var umsókn hennar samþykkt. Við samkeyrslu við menntastofnanir í nóvember 2015 kom í ljós að kærandi var skráð í 16,5 eininga nám á haustönn 2015 við C. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 25. nóvember 2015, var óskað eftir skýringum kæranda vegna þessa ásamt skólavottorði. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 23. desember 2015, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun stofnunarinnar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar, með vísan til 52. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. september 2015 til 31. október 2015 að fjárhæð 384.505 kr. á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.
Með tölvupósti þann 30. desember 2015 sendi kærandi Vinnumálastofnun skýringar vegna námsins í C. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 12. janúar 2016, var kæranda tilkynnt að mál hennar hafi verið tekið fyrir að nýju í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og fyrri ákvörðun stofnunarinnar staðfest. Með bréfi, dags. 28. janúar 2016, óskaði kærandi eftir að mál hennar yrði endurupptekið með tilliti til nýrra gagna. Með bréfi, dags. 5. febrúar 2016, var kæranda tilkynnt að mál hennar hafi verið tekið fyrir að nýju í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og fyrri ákvörðun stofnunarinnar staðfest. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun og var hann veittur með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 3. mars 2016.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 4. maí 2016. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 2. júní 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að viðurkenndur verði réttur hennar til greiðslu atvinnuleysisbóta frá 1. september 2015 til 31. október 2015.
Kærandi greinir frá því að hún hafi skráð sig í námskeiðsröðina D á vegum C sumarið 2015 sem sé tveggja ára nám og metið til 33 eininga á framhaldsskólastigi. Þegar kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur í ágúst 2015 hafi hún á engan hátt gert sér grein fyrir því að þörf væri á því að tilkynna það sérstaklega til Vinnumálastofnunar að hún væri að fara á umrætt námskeið. Kærandi hafi setið kynningarfund á vegum Vinnumálastofnunar eins og bótaþegum sé skylt að gera og hafi fylgst með því þegar ráðgjafi stofnunarinnar hafi fjallað um nám samhliða atvinnuleysisbótum. Í góðri trú hafi kærandi talið að námskeiðið sem hún væri skráð í ætti ekki við í þessu sambandi, enda um að ræða röð af [...] en ekki framhaldsskóla- eða háskólanám. Kærandi bendi á að hún hefði að sjálfsögðu upplýst stofnunina um námskeiðið og gert viðeigandi ráðstafanir ef hún hefði vitað að þess þyrfti. Í augum kæranda sé námskeiðið eins og hvert annað námskeið sem áhugamenn sæki í tengslum við áhugamál sitt.
Kærandi tekur fram að henni hafi ekki borist ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 23. desember 2015 og því hafi hún ekki brugðist við henni. Bréfið hafi verið sent til hennar í gegnum vefsvæði stofnunarinnar en ekki hafi verið gengið úr skugga um að það hafi borist til hennar. Kærandi bendir á að hún hafi verið erlendis á tímabilinu 27. október til 19. nóvember 2015 og því afskráð af atvinnuleysisskrá. Kærandi hafi talið að tilkynning Vinnumálastofnunar þann 25. nóvember 2015 hafi verið í tengslum við flugmiða sem hún hafi þurft að skila til stofnunarinnar. Kærandi telur ljóst að Vinnumálastofnun hafi ekki staðið rétt að tilkynningu og birtingu ákvörðunar, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem um íþyngjandi ákvörðun hafi verið að ræða. Kærandi telur að þar sem ákvörðunin hafi ekki verið birt í samræmi við lög geti stjórnvald ekki knúið aðila til að hlíta henni.
Kærandi tekur fram að hún geti á engan hátt séð að námskeiðið sem hún hafi verið skráð á falli undir skilgreiningar Vinnumálastofnunar um nám, sbr. c-lið 3. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Af því leiði að kærandi hafi átt rétt á bótum og þar af leiðandi hafi ekki verið rétt að ákvarða að henni bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur með álagi. Ef nauðsynlegt hefði verið að gera námssamning þá hefði hún að sjálfsögðu orðið við því, enda ávallt verið reiðubúin til að ræða málin og hafi ítrekað óskað eftir svörum sem ekki hafi borist. Að mati kæranda ætti frekar að fella námskeiðið undir námstækifæri. Í dag sé kærandi komin með vinnu og starfi hjá E en námskeiðið hafi hjálpað henni verulega að fá þá vinnu. Kærandi bendir á að hún hafi verið í góðri trú að reyna auka möguleika sína á að fá atvinnu og hún hafi einnig farið á Dale Carnegie námskeið í þeirri tilraun. Ekki hafi hvarflað að kæranda að tilkynna um það námskeið, líkt og það hafi ekki hvarflað að henni að tilkynna um þátttöku sína í D. Það námskeið hafi ekki truflað hana í atvinnuleit, enda byggt um sem námskeið samhliða atvinnu.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 komi fram að hver sá sem stundi nám, sbr. c-lið 3. gr., teljist ekki tryggður samkvæmt lögunum á sama tímabili, enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum sé meginreglan sú að námsmenn eigi ekki rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta á meðan þeir leggi stund á nám sem ekki sé hluti af vinnumarkaðsaðgerð sem samþykkt sé af hálfu Vinnumálastofnunar. Af framangreindum ákvæðum sé ljóst að það sé ekki tilgangur laganna að tryggja námsmönnum framfærslu á meðan þeir stundi nám. Í 2. og 3. mgr. 52. gr. laganna sé mælt fyrir um undanþágur frá meginreglunni en þær eigi einungis við um háskólanám en nám kæranda hafi ekki verið á háskólastigi. Kærandi hafi verið skráð í 8 ECVET eininga nám í C og því gildi meginregla 1. mgr. 52. gr. laganna um mál hennar.
Vinnumálastofnun tekur fram að með 4. gr. reglugerðar nr. 1224/2015 sé Vinnumálastofnun veitt heimild til að gera námssamning við atvinnuleitendur að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Forsenda þess að slíkur samningur sé gerður sé sú að viðkomandi einstaklingur óski eftir því að samningur verði gerður við sig í upphafi skólaannar eða með umsókn um atvinnuleysisbætur og að því gefnu að hann uppfylli sett skilyrði. Kærandi hafi ekki óskað eftir eða kannað hvort fyrir hendi væru skilyrði til þess að námssamningur væri gerður hjá stofnuninni. Vinnumálastofnun hafi fyrst fengið upplýsingar um nám kæranda við reglubundið eftirlit en í umsókn um atvinnuleysisbætur sé sérstaklega spurt hvort umsækjandi stundi nám. Þá sé á kynningarfundum stofnunarinnar meðal annars farið yfir helstu reglur er lúti að námsþátttöku atvinnuleitenda. Kærandi hafi hvorki tilkynnt um nám sitt þegar hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur né eftir að hún hafi setið kynningarfund hjá stofnuninni þann 10. september 2015. Kærandi hafi því verið upplýst um skyldur sínar varðandi námsþátttöku samhliða greiðslum atvinnuleysistrygginga og verði ekki fallist á að afleiðing þess að láta hjá líða að tilkynna um atvik, sem hafi veruleg áhrif á rétt til atvinnuleysisbóta, sé sú að stofnunin geri afturvirkan námssamning við atvinnuleitanda.
Vinnumálastofnun bendir á að eftirlitsaðgerðum stofnunarinnar verði ekki jafnað við samráð atvinnuleitenda um gerð námssamnings. Þar að auki verði ekki séð að unnt hafi verið að gera námssamning á grundvelli reglugerðar nr. 1224/2015 þar sem fram komi í b-lið 4. gr. að atvinnuleitandi þurfi að hafa verið í virkri atvinnuleit og skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í að minnsta kosti þrjá mánuði eftir atvinnumissi áður en hann óski eftir samningi samkvæmt 1. mgr. Ef um sé að ræða 75% nám eða meira skuli viðkomandi atvinnuleitandi hafa verið í virkri atvinnuleit og skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í að minnsta kosti tólf mánuði eftir atvinnumissi áður en hann óski eftir samningi. Ljóst sé að kærandi hafi verið skráð í umrætt nám þegar hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun. Það sé því ekki grundvöllur fyrir því að gera námssamning vegna náms kæranda.
Vinnumálastofnun tekur fram að nám kæranda falli undir skilgreiningu 3. gr. laga nr. 54/2006 þar sem ekki sé um að ræða einstakt námskeið. Því verði ekki fallist á að nám hennar teljist námstækifæri sem falli utan meginreglu 52. gr. laganna. Flest allt nám sé tækifæri fyrir atvinnuleitendur og kunni að bæta stöðu þeirra í atvinnuleit. Vinnumálastofnun sé þó gert að fara að lögum og reglum er lúti að rétti atvinnuleitanda til að stunda nám samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Kærandi hafi hvorki sýnt fram á að sérstakar ástæður eigi við í máli hennar né að meginregla 52. gr. laga nr. 54/2006 eigi ekki við. Kærandi hafi því ekki uppfyllt almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á tímabilinu 1. september 2015 til 31. október 2015, sbr. 1. mgr. 52. gr. laganna, og beri í samræmi við 39. gr. laganna að endurgreiða ofgreiddar bætur.
Vinnumálastofnun bendir á að kæranda hafi verið sent erindi þann 25. nóvember 2015 í gegnum vefsíðu stofnunarinnar en einnig hafi tölvupóstur verið sendur með tilkynningu um skilaboð á síðunni. Kærandi hafi óskað eftir rafrænum samskiptum við Vinnumálastofnun þegar hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni. Ljóst sé að kærandi hafi fengið tölvupósta frá stofnuninni en ekki kynnt sér efni þeirra. Vinnumálastofnun hafi komið ákvörðunum sínum til kæranda með sannanlegum hætti.
Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum þann tíma sem hún hafi stundað nám og að henni beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 384.505 kr., að meðtöldu 15% álagi.
IV. Niðurstaða
Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 384.505 kr.
Í IX. kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tilvik er leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum. Í 52. gr. laganna er fjallað um nám; þar segir:
Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar.
Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á háskólastigi sem nemur að hámarki 10 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.
Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.
Í c-lið 3. gr. laganna er að finna skilgreiningu á námi samkvæmt lögunum en þar segir:
Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.
Í athugasemdum við ákvæði 52. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Þá kemur fram að það kunni að vera að nám sé nauðsynlegur hluti af starfshæfingu atvinnuleitanda að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, en í slíkum tilvikum geti atvinnuleitandi talist tryggður samhliða námi.
Óumdeilt er að kærandi stundaði nám við C þegar hún sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun í ágúst 2015 og upplýsti stofnunina ekki um námið. Þá er óumdeilt að nám kæranda var ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerð samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Kærandi hefur mótmælt því að námið falli undir skilgreiningu c-liðar 3. gr. laga nr. 54/2006 um nám og telur að um námskeið sé að ræða. Úrskurðarnefndin fellst ekki á þá afstöðu kæranda og telur að nám hennar falli undir skilgreiningu c-liðar 3. gr. laganna, enda um að ræða nám á framhaldsskólastigi. Að því virtu uppfyllti kærandi ekki skilyrði þess að vera tryggð samkvæmt lögunum á þeim tíma sem hún var skráð í námið og átti því ekki rétt á greiðslum frá Vinnumálastofnun.
Í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt framangreindu er ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Því verður ekki fallist á kröfu kæranda um að ofgreiðslukrafa Vinnumálastofnunar verði felld niður.
Kemur þá til skoðunar hvort fella skuli niður álagið sem lagt var á ofgreiðslukröfuna. Í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt viðkomandi samkvæmt lögunum. Ljóst er að kærandi tilkynnti Vinnumálastofnun ekki að hún væri skráð í nám haustið 2015 og verður því ekki fallist á að 15% álag á þá fjárhæð sem kæranda ber að endurgreiða verði fellt niður.
Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. febrúar 2016, í máli A, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar og að innheimta ofgreiddar bætur að fjárhæð 384.505 kr. er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson