Mál nr. 319/2019 - Úrskurður
.
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 319/2019
Miðvikudaginn 6. nóvember 2019
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 7. ágúst 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. maí 2019 um að synja umsókn kæranda um milligöngu um meðlagsgreiðslur með syni hennar frá X til X.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með rafrænni umsókn X sótti kærandi um milligöngu meðlagsgreiðslna frá X. Þann X lagði kærandi fram leyfi til lögskilnaðar, dags. X, þar sem fram kemur að barnsfaðir kæranda skuli greiða henni meðlag með syni þeirra frá X til 18 ára aldurs og að ágreiningur vegna tímabilsins X til X sé til meðferðar hjá sýslumannsembættinu. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. X, var samþykkt að hafa milligöngu meðlags frá X.
Með rafrænni umsókn X sótti kærandi á ný um milligöngu meðlagsgreiðslna og lagði fram úrskurð Sýslumannsins B, dags. X, þar sem kemur fram að barnsfaðir kæranda skuli greiða henni meðlag með syni þeirra frá X til 18 ára aldurs. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. X, var samþykkt milliganga meðlags frá X. Með rafrænni umsókn 28. apríl 2019 sótti kærandi um milligöngu meðlagsgreiðslna frá X og lagði fram úrskurð dómsmálaráðuneytisins, dags. X, þar sem úrskurðað var um meðlagsskyldu barnsföður hennar frá X. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 29. maí 2019, var umsókn kæranda synjað með þeim rökstuðningi að óheimilt væri að greiða meðlag lengra en 12 mánuði aftur í tímann, talið frá byrjun þess mánaðar sem öll gögn berast, sbr. 4. mgr. 63. gr. laga um nr. 100/2007 um almannatryggingar. Með tölvupósti 1. júní 2019 fór kærandi fram á rökstuðning fyrir ákvörðun stofnunarinnar og var hann veittur með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 5. júní 2019.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 7. ágúst 2019. Með bréfi, dags. 13. ágúst 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 23. ágúst 2019, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. ágúst 2019. Með bréfi, dags. 9. september 2019, bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. september 2019. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi fer fram á að upphafstími milligöngu Tryggingastofnunar á meðlagsgreiðslum verði X.
Í kæru er greint frá því að kærandi hafi með umsókn X sótt um milligöngu Tryggingastofnunar á meðlagi með syni sínum frá X í kjölfar skilnaðar. Úrskurður sýslumanns um meðlag X aftur í tímann hafi verið kærður til dómsmálararáðuneytisins sem hafi ekki úrskurðað í málinu fyrr en í X. Í þeim úrskurði sé kveðið á um meðlag 12 mánuði aftur í tímann eins og lög geri ráð fyrir. Kærandi hafi sótt um meðlagsgreiðslur á ný til Tryggingastofnunar þann X í samræmi við úrskurð ráðuneytisins. Synjun Tryggingastofnunar um milligöngu um meðlagsgreiðslur hafi komið kæranda verulega á óvart þar sem hún hafi sótt upphaflega um meðlag með syni sínum á réttum tíma en röng afgreiðsla sýslumanns og seinagangur ráðuneytisins hafi leitt til þess að Tryggingastofnun hafi synjað henni um milligöngu meðlagsgreiðslna eitt ár aftur í tímann. Vísar þar kærandi til 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga sem heimili meðlagsgreiðslur vegna sérstakra ástæðna meðlagmóttakanda sem hafi af einhverjum ástæðum verið ómögulegt að setja fram kröfu um milligöngu meðlagsgreiðslna án tafar. Kærandi fari því fram á að ákvörðun Tryggingastofnunar verði breytt til samræmis við úrskurðarorð dómsmálaráðuneytisins.
Það geti ekki verið rétt að röng afgreiðsla og seinagangur í kerfinu bitni á kæranda. Farið sé fram á að miðað verði við frumgögnin í málinu þegar hún hafi fyrst sótt um milligöngu meðlags eitt ár aftur tímann eins og hún eigi rétt á lögum samkvæmt.
Í athugasemdum kæranda frá 9. september 2019 er vísað til umsóknar hennar um einfalt meðlag 12 mánuði aftur í tímann sem skilað hafi verið til Sýslumannsins B um miðjan X. Þegar lögskilnaðarleyfið hafi legið fyrir hafi kærandi í byrjun X sótt um milligöngu Tryggingastofnunar á meðlagi eitt ár aftur í tímann en stofnunin hafi eingöngu greitt einn mánuð. Ekki hafi verið tilefni til að gera athugasemd við ákvörðunina þar sem Tryggingastofnun hafi sagst ekki geta greitt lengra aftur í tímann fyrr en úrskurður sýslumanns lægi fyrir en sá úrskurður hafi ekki legið fyrir fyrr en X. Í úrskurði sýslumanns, dags. X, hafi einungis verið kveðið á um meðlag einn mánuð aftur í tímann og hafi kærandi kært þá niðurstöðu til dómsmálaráðuneytisins. Ráðuneytið hafi ekki úrskurðað málinu fyrr en í X. Í þeim úrskurði hafi komið fram að kærandi ætti rétt á greiðslum […] aftur í tímann eins og hún hafði sótt um í X eins og lög geri ráð fyrir.
Gerðar séu alvarlegar athugasemdir við það að þessar upplýsingar hafi ekki verið tilgreindar í greinargerð Tryggingastofnunar, auk þess sem ranglega hafi verið farið með dagsetningu í bréfi stofnunarinnar þar sem standi að kærandi hafi sótt um meðlagsgreiðslur frá X, en hið rétta sé að sótt hafi verið um meðlagsgreiðslur frá X eins og fram komi í gögnum málsins. Samkvæmt greinargerð Tryggingastofnunar megi ætla að kærandi sé að sækja um meðlag eitt ár aftur í tímann í fyrsta skipti þann X þegar úrskurður dómsmálaráðuneytisins hafi legið fyrir sem sé alrangt. Framlögð viðbótargögn kæranda staðfesti að hún hafi sótti um meðlagsgreiðslur eitt ár aftur í tímann X. Í úrskurði dómsmálaráðuneytisins hafi niðurstöðu Sýslumannsins B verið breytt og staðfestur hafi verið réttur kæranda til meðlagsgreiðslna í X mánuði samkvæmt upprunalegri umsókn.
Farið sé fram á að Tryggingastofnun hafi milligöngu um greiðslu meðlags þá X mánuði sem upp á vanti í samræmi við úrskurð dómsmálaráðuneytis miðað við upprunalega umsókn um meðlagsgreiðslur […] aftur í tímann. Byggt sé á þeim forsendum að málið hafi verið ranglega afgreitt á sínum tíma sem staðfest hafi verið með úrskurði ráðuneytisins. Öðruvísi séu þessar greiðslur til kæranda ekki tryggðar. Kærandi telji ekki réttmætt að þurfa að bera skaðann af röngum úrskurði sýslumanns sem dómsmálaráðuneytið hafi snúið við.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé synjun á milligöngu meðlags til kæranda frá 20. október 2016.
Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 29. maí 2019, hafi kæranda verið synjað um milligöngu á meðlagi frá X þar sem ekki sé heimilt að hafa milligöngu á meðlagi lengra en 12 mánuði aftur í tímann. Kærandi hafi óskað eftir skýringum á þessari ákvörðun og rökstuðningur verið veittur með bréfi, dags. 5. júní 2019.
Forsaga málsins sé sú að kærandi hafi sótt um milligöngu meðlagsgreiðslna með rafrænni umsókn þann X og hafi þann X skilað inn leyfi til lögskilnaðar, dags. X, þar sem komi fram að barnsfaðir kæranda skuli greiða henni meðlag með syni þeirra frá X til 18 ára aldurs. Tryggingastofnun hafi samþykkt að hafa milligöngu á meðlaginu frá X, sbr. bréf, dags. X. Kærandi hafi ekki gert athugasemdir við þessa afgreiðslu Tryggingastofnunar og kærufrestur vegna hennar sé löngu liðinn.
Kærandi hafi sótt aftur um milligöngu meðlagsgreiðslna með rafrænni umsókn þann X og hafi á sama tíma skilað inn úrskurði Sýslumannsins B, dags. X, þar sem komi fram að barnsfaðir kæranda skuli greiða henni meðlag með syni þeirra frá X til 18 ára aldurs. Þessi umsókn hafi ekki verið afgreidd á sínum tíma og því hafi Tryggingastofnun ákveðið að leiðrétta það og afgreiða meðlagið samkvæmt umsókninni og úrskurðinum, sbr. bréf, dags. 17. apríl 2019, enda sé um að ræða greiðslu meðlags innan 12 mánaða aftur í tímann frá því að umsóknin og meðlagsákvörðunin hafði borist á sínum tíma.
Í 67. gr. barnalaga nr. 76/2003 sé kveðið á um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar. Þar segi að Tryggingastofnun sé skylt að greiða rétthafa greiðslna, samkvæmt IV. og IX. kafla, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög um almannatryggingar setji.
Kveðið sé á um það í 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Í 4. mgr. sömu greinar segi síðan að Tryggingastofnun sé einungis heimilt að greiða meðlag aftur í tímann í allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar hafi borist stofnuninni.
Í 6. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar segi að heimilt sé að setja reglugerð um framkvæmd greinarinnar. Það hafi verið gert með reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga. Í 7. gr. reglugerðarinnar í III. kafla segi að heimilt sé að greiða meðlag í allt að 12 mánuði aftur í tímann, talið frá byrjun þess mánaðar sem gögn samkvæmt 5. gr. berist Tryggingastofnun, þ.e. umsókn og meðlagsákvörðun.
Kærandi hafi sótt um milligöngu Tryggingastofnunar á meðlagi með syni sínum með rafrænni umsókn þann 28. apríl 2019. Kærandi hafi óskað eftir greiðslum í samræmi við úrskurð dómsmálaráðuneytisins, dags. X, sem hafi borist X. Í úrskurðinum komi fram að barnsfaðir kæranda skuli greiða kæranda meðlag frá X til 18 ára aldurs.
Samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum sé Tryggingastofnun einungis heimilt að hafa milligöngu um meðlag 12 mánuði aftur í tímann talið frá byrjun þess mánaðar sem nauðsynleg gögn, þ.e. umsókn og meðlagsákvörðun, berist Tryggingastofnun. Þar sem umsókn kæranda og úrskurður dómsmálaráðuneytisins hafi borist Tryggingastofnun í apríl 2019 hafði stofnunin ekki heimild til að hafa milligöngu um greiðslu meðlagsins frá X þar sem um sé að ræða tímabil sem sé lengra en 12 mánuðir aftur í tímann. Vegna þessara skýlausu ákvæða hafi Tryggingastofnun ekki heimild til að breyta ákvörðuninni um synjun á milligöngu meðlagsgreiðslna frá X.
Að gefnu tilefni beri að taka það fram að ákvörðun Tryggingastofnunar hafi engin áhrif á skyldu barnsföður kæranda samkvæmt úrskurðinum til að greiða henni meðlag frá X og fram að þeim tíma sem Tryggingastofnun hafi byrjað milligöngu meðlagsins. Kærandi geti því sótt þær greiðslur samkvæmt almennum reglum úr hendi barnsföður síns.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. maí 2019 um að synja kæranda um milligöngu um meðlagsgreiðslur frá X til X.
Samkvæmt 1. mgr. 63. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar getur hver sá sem fær úrskurð um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu snúið sér til Tryggingastofnunar ríkisins og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama gildir þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003. Samkvæmt 4. mgr. 63. gr. laganna er Tryggingastofnun heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berst stofnuninni, enda eigi þá 4. mgr. 20. gr. laganna ekki við. Reglugerð nr. 945/2009 um framkvæmd meðlagsgreiðslna og annarra framfærsluframlaga hefur verið sett með stoð í 6. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar.
Af ákvæði 63. gr. laga um almannatryggingar leiðir að Tryggingastofnun ber að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur þegar beiðni berst frá meðlagsmóttakanda á grundvelli lögformlegrar meðlagsákvörðunar. Heimild Tryggingastofnunar til að greiða meðlag samkvæmt 4. mgr. 63. gr. laganna er takmörkuð við 12 mánuði aftur í tímann, talið frá byrjun þess mánaðar sem meðlagsákvörðun berst stofnuninni.
Samkvæmt úrskurði dómsmálaráðuneytisins, dags. X, á kærandi rétt á meðlagsgreiðslum með syni sínum frá X til 18 ára aldurs. Milliganga Tryggingastofnunar um meðlagsgreiðslur hefur verið frá X en kærandi óskar eftir greiðslum frá X. Tímabilið, sem kærandi fer fram á vegna milligöngu meðlagsgreiðslna, er umtalsvert umfram þá 12 mánuði aftur í tímann sem heimilt er að greiða samkvæmt 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar. Það er mat úrskurðarnefndar velferðarmála að stofnuninni sé því ekki heimilt að hafa milligöngu um meðlagsgreiðslur til kæranda á því tímabili sem kærandi óskar eftir, sbr. 4. mgr. 63. gr. laga um almannatryggingar. Engin heimild er í lögum til þess að greiða meðlag lengra en 12 mánuði aftur í tímann vegna sérstakra aðstæðna. Bent er á að ákvæði 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 945/2009 sem kærandi vísar til kveður ekki á um heimild til þess að greiða meðlag lengra en 12 mánuði aftur í tímann. Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta synjun Tryggingastofnunar ríkisins um milligöngu meðlagsgreiðslna til kæranda frá X til X.
Úrskurðarnefndin telur rétt að benda kæranda á að hún geti sótt greiðslu meðlags úr hendi barnsföður síns samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Samkvæmt 66. gr. barnalaga má gera fjárnám fyrir meðlagi á grundvelli dóms, dómsáttar eða úrskurðar. Kæranda er því bent á að hún geti leitað aðfarar sýslumanns til tryggingar kröfu sinni á hendur hinum meðlagsskylda í samræmi við lög nr. 90/1989 um aðför.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. maí 2019 um að synja kæranda um milligöngu meðlagsgreiðslna til A, frá X til X, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir