Hoppa yfir valmynd

Nr. 29/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 23. janúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 29/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU18110012

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 5. nóvember 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. október 2018, um að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli sambúðar, sbr. 70. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Kærandi krefst þess að umsókn hennar um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar verði samþykkt.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um dvalarleyfi hér á landi sem sambúðarmaki Íslendings þann 20. apríl 2018. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 24. október 2018, var umsókn kæranda synjað. Umboðsmanni kæranda var tilkynnt um ákvörðunina þann 1. nóvember 2018. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 5. nóvember 2018. Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar, 24. október 2018, á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þann 9. nóvember sl. féllst kærunefndin á þá beiðni. Þann 29. nóvember sl. barst kærunefnd greinargerð kæranda ásamt fylgigögnum. Viðbótargögn bárust kærunefnd þann 20. desember sl.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga um að heimilt sé að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess sé að makinn hafi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laganna og að hann sé annaðhvort í hjúskap eða í sambúð. Skuli sambúðin hafa varað lengur en í eitt ár. Vísaði stofnunin því næst til lögskýringargagna með ákvæðinu. Þá væri mælt fyrir um undanþágu frá tímaskilyrðum í 2. mgr. 70. gr. ef sérstakar ástæður mæltu með því.

Samkvæmt gögnum málsins hefðu kærandi og sambúðarmaki hennar ekki verið í sambúð lengur en eitt ár. Þá gæti sá tími sem þau hefðu eytt saman og það að atvinna þeirra beggja stæði í veg fyrir frekari samvistum ekki veitt tilefni til undanþágu frá skilyrði 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga, enda bæri að túlka undanþáguheimild 2. mgr. 70. gr. laganna þröngt. Synjaði stofnunin því umsókn kæranda um dvalarleyfi.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kom fram að hún hygðist giftast unnusta sínum hér á landi og að þau hefðu skilað inn öllum nauðsynlegum gögnum til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu. Hefðu kærandi og unnusti hennar ákveðið að gifta sig þar sem lög í heimalöndum þeirra beggja hömluðu því að þau gætu búið saman og náð tilskildum sambúðartíma. Þá stæði kæranda til boða atvinna hér á landi og hefðu hún sterka tengingu við Ísland. Aðstæður kæranda væru nú þær að hún byggi með unnusta sínum hér á landi, hefði vilyrði um vinnu og biði eftir leyfi til að geta gengið í hjúskap með unnusta sínum. Teldi kærandi því að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í máli hennar í skilningi 2. mgr. 70. gr. laga um útlendinga.

Hinn 20. desember 2018 lagði kærandi fram hjónavígsluvottorð þar sem fram kom að þann dag hefði hún og maki hennar gengið í hjúskap.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga getur nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis skv. 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis skv. 58. gr. með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla. Til nánustu aðstandanda samkvæmt ákvæðinu teljast maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára og eldri. Sama gildi um maka, sambúðarmaka og börn þeirra sem stunda framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám og rannsóknir hér á landi á grundvelli 65. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi hér á landi hyggist hann flytjast hingað til lands til að búa með maka sínum eða sambúðarmaka. Skilyrði þess er að makinn eigi rétt til fjölskyldusameiningar samkvæmt VIII. kafla laganna og að hann sé annaðhvort í hjúskap eða sambúð. Skal sambúðin hafa varað lengur en eitt ár. Hvor aðili um sig verður að hafa verið eldri en 18 ára þegar stofnað var til hjúskaparins eða sambúðarinnar. Þá þarf hjúskapur eða sambúð viðkomandi að uppfylla skilyrði til skráningar samkvæmt lögheimilislögum. Loks er heimilt að krefja aðila um að leggja fram gögn til sönnunar á hjúskap eða sambúð erlendis.

Með hinni kærðu ákvörðun var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli sambúðar, sbr. 70. gr. laga um útlendinga þar sem sambúð kæranda og sambúðarmaka hennar hefði ekki varað lengur en eitt ár eins og áskilið er í ákvæðinu. Fyrir kærunefnd lagði kærandi fram vottorð um að hún hafi gengið í hjúskap með maka sínum hér á landi þann 20. desember sl. Kemur þannig aðeins til álita að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 70. gr. laga um útlendinga að uppfylltum þeim skilyrðum ákvæðisins er lúta að hjúskap. Þykir því rétt að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi og leggja fyrir stofnunina að taka mál kæranda til meðferðar að nýju.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda til nýrrar meðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the appellant’s application.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                        Anna Valbjörg Ólafsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta