Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 72/2010

 

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 23. nóvember 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 72/2010.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 15. mars 2010, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 12. mars 2010 fjallað um fyrirliggjandi upplýsingar um greiðslu sjúkradagpeninga frá Eflingu í september 2009. Var bótaréttur kæranda felldur niður frá og með 12. mars 2010 í þrjá mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 59. gr., sbr. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dagsettu 5. maí 2010. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur þann 9. júlí 2009. Hún hafði sagt upp starfi sínu hjá X og sætti því niðurfellingu bótaréttar í 40 daga frá umsóknardegi þar sem skýringar hennar á starfslokum voru ekki taldar gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun bárust upplýsingar um að kærandi hefði fengið greidda sjúkradagpeninga á tímabilinu frá 9. júlí til 5. september 2009 á sama tíma og hún þáði atvinnuleysisbætur. Óskað var skýringa kæranda á þessu með bréfi, dags. 18. janúar 2010, en engar skýringar bárust frá kæranda. Henni var tilkynnt með bréfi, dags. 15. mars 2010, að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar yrðu felldar niður í þrjá mánuði þar sem hún hefði látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar um breytingar á starfshæfni sinni sem henni var skylt skv. h-lið 1. mgr. 14 gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 59. gr. laganna. Um annað brot kæranda var að ræða og hefur það ítrekunaráhrif skv. 61. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi kveðst ekki hafa ætlað sér að svíkja út atvinnuleysisbætur, sér hafi orðið á mistök sem hún vonar að tekið verði tillit til sérstaklega í ljósi þess að hún hefur lítið barn á framfæri sínu.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 30. september 2010, er bent á að mál þetta varði 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og enn fremur sé um annað brot að ræða á sama tímabili og því sé beitt ítrekunaráhrifum, sbr. 61. gr. laganna.

Af gögnum málsins megi sjá að kærandi hafi skilað inn læknisvottorði frá 13. júlí 2009 sem segi að hún sé líkamlega og andlega heilbrigð og vinnufær þrátt fyrir þungun. Samkvæmt stéttarfélaginu Eflingu hafi kærandi einnig verið að fá greidda sjúkradagpeninga frá félaginu sökum óvinnufærni á tímabilinu 3. júní til 22. júní 2009 og 30. júní til 5. september 2009. Brjóti slík tilhögun í bága við 1. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem segi að hver sá sem njóti slysadagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar, sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, endurhæfingarlífeyri samkvæmt lögum um félagslega aðstoð eða greiðslna úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, sem komi til vegna óvinnufærni að fullu, teljist ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili. Þá sé að finna í fyrirliggjandi gögnum málsins læknisvottorð þar sem fram komi að kærandi hafi verið óvinnufær á sama tíma og hún hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga. Það sé ljóst að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar á þeim tíma.

Kærandi hafi ekki látið Vinnumálastofnun vita af óvinnufærni sinni heldur hafi þær upplýsingar fengist símleiðis frá stéttarfélaginu Eflingu þann 5. janúar 2010. Hafi kæranda í kjölfarið verið sent erindi þar sem óskað hafi verið eftir skýringum frá henni á greiðslum sjúkradagpeninga til hennar en engar skýringar hafi borist. Hafi ákvörðunin því verið byggð á fyrirliggjandi upplýsingum frá Eflingu.

Af öllu virtu megi sjá að kærandi hafi ekki greint Vinnumálastofnun frá þeim breytingum sem orðið hafi á vinnufærni hennar, sbr. 1. mgr. 59. gr., og einstaklingur sem fái greidda sjúkradagpeninga teljist ekki tryggður á sama tímabili og þær greiðslur nái yfir, sbr. 1. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Sé þetta annað brot kæranda á sama tímabili og skv. 61. gr. laganna skuli því koma til ítrekunaráhrifa sem valdi missi bótaréttar í þrjá mánuði frá úrskurðardegi stofnunarinnar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. október 2010, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 18. október 2010. Kærandi hefur ekki nýtt sér það.

 

2.

Niðurstaða

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 9. júlí 2009 og í október sama ár var umsóknin samþykkt en um leið ákveðið að kærandi myndi sæta 40 daga biðtíma þar eð hún hafi sagt upp starfi sínu án gildra ástæðna. Þegar kærandi sótti um atvinnuleysisbæturnar var hún ófrísk og skilaði læknisvottorði, dags. 13. júlí 2009, sem gaf til kynna að hún væri vinnufær þrátt fyrir það. Á tímabilinu 23. júlí 2009 til 28. ágúst 2009 var kærandi í orlofi í heimalandi sínu, B-landi.

Samkvæmt þremur læknisvottorðum, sem giltu á tímabilinu 30. júní 2009 til 5. september 2009 og sem kærandi skilaði til stéttarfélagsins Eflingar, var kærandi óvinnufær með öllu. Meðal annars á grundvelli þessara þriggja læknisvottorða fékk kærandi greidda sjúkradagpeninga úr sjúkrasjóði Eflingar.

Meðferð þessa máls hófst 5. janúar 2010 þegar Vinnumálastofnun bárust upplýsingar um að kærandi hafi þegið greiðslur úr sjúkrasjóði Eflingar á tímabilinu 30. júní til 5. september 2009. Þegar málið hófst höfðu frá 1. janúar 2010 verið í gildi lög nr. 134/2009. Þessi lög breyttu fjölmörgum ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar, meðal annars 36. gr., 51. gr., 59. gr. og 61. gr. Þessar lagabreytingar skiptu engu máli fyrir úrlausn þessa máls þar eð hinar nýju reglur tóku gildi eftir að kærandi hafði móttekið greiðslur úr sjúkrasjóði Eflingar. Í stað þess að sú staðreynd væri höfð í huga var málið afgreitt á grundvelli hinna nýju reglna og fyrir úrskurðarnefndinni hefur Vinnumálastofnun reist málflutning sinn á þeim. Þessi vinnubrögð stofnunarinnar eru aðfinnsluverð.

Umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 9. júlí 2010 var afgreidd í október 2010 eða rúmum mánuði eftir að hún hætti að taka móti greiðslum úr sjúkrasjóði Eflingar. Á þeim tíma sem hún þáði greiðslur úr sjúkrasjóði Eflingar vissi hún ekki hver yrðu afdrif umsóknar um atvinnuleysisbætur.

Á þessum tíma hljóðaði 1. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 68. gr. laga nr. 112/2008, svo:

Hver sá sem nýtur slysadagpeninga samkvæmt lögum um almannatryggingar eða sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili.

Ákvæði þetta kvað þannig ekki á um að greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga fæli í sér brottfall réttar í atvinnuleysistryggingakerfinu heldur aðeins sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar. Þegar af þessum ástæðum er ekki hægt að réttlæta niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar á þeim grundvelli að kærandi hafi þegið ósamrýmanlegar greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags á sama tíma og hún þáði atvinnuleysisbætur.

Þótt kærandi hafi kosið að þiggja greiðslur úr sjúkrasjóði Eflingar á grundvelli þriggja læknisvottorða á tímabilinu 30. júní til 5. september 2009 þá lýtur sú háttsemi að réttarstöðu hennar gagnvart sjúkrasjóðnum en síður að réttarstöðu hennar gagnvart Atvinnuleysistryggingasjóði.

Kærandi lagði fram læknisvottorð til Vinnumálastofnunar, dags. 13. júlí 2009, í því skyni að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Hún var í orlofi erlendis á tímabilinu 23. júlí til 28. ágúst 2009 og hóf töku atvinnuleysisbóta í byrjun október sama ár, eftir að hafa sætt 40 daga biðtíma. Með hliðsjón af þessum sérstöku aðstæðum þá telst hún ekki hafa veitt vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn sinni um atvinnuleysisbætur í skilningi þágildandi 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til framanritaðs er hin kærða ákvörðun felld úr gildi. Kærandi á rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur í þrjá mánuði að öðrum skilyrðum laga uppfylltum. Þetta þykir nauðsynlegt að taka fram þar eð kærandi var enn ófrísk þegar mál þetta hófst í byrjun árs 2010.


Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 12. mars 2010 um niðurfellingu bótaréttar A í þrjá mánuði er felld úr gildi. Kærandi á rétt á að fá greiddar atvinnuleysisbætur í þrjá mánuði að almennum skilyrðum laga uppfylltum.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, for­maður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta