Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 2/2010

Þriðjudaginn 14. desember 2010 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu tekið fyrir mál nr. 2/2010:

A

 hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála

og kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R

Með ódagsettu bréfi A, sem barst 23. júlí 2010, var kærð til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun húsfundar í fjölbýlishúsinu að B, um að stækka rými fyrir íbúa á 1. hæð fyrir afgirtan sérafnotareit.

Samkvæmt gögnum málsins er fjölbýlishúsið að B í eigu Búseta en með búseturétti íbúanna. Búseti er húsnæðissamvinnufélag og er eigandi hússins, en íbúar eiga þar búsetu- og nýtingarrétt. Fer um starfsemi félagsins eftir lögum nr. 66/2003 um húsnæðissamvinnufélög, en lögin eiga skv. 1. mgr. 1. gr. um félög sem rekin eru að hætti samvinnufélaga og sem hafa að markmiði að byggja, kaupa, eiga og hafa yfirumsjón með rekstri íbúðarhúsnæðis sem félagsmönnum þeirra er látið í té sem íbúðir með búseturétti sem tryggir þeim ótímabundin afnot af þeim gegn greiðslu búseturéttargjalds og búsetugjalds. Í lögum nr. 66/2003 er ekki að finna heimild til þess að bera ágreining sem upp kann að koma í húsnæðissamvinnufélagi undir úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála. Hins vegar kemur fram í 5. mgr. 23. gr. samþykkta Búseta frá 23. apríl 2010 að félagsmaður sem telji rétti sínum hallað geti lagt málið fyrir stjórn Búseta.

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál nr. 44/1998, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2010, getur málsaðili skotið ákvörðun Íbúðalánasjóðs, húsnæðisnefndar eða þeirra nefndar á vegum sveitarfélags sem falið hefur verið verkefni húsnæðisnefndar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. lög nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum. Í máli þessu er því ekki til að dreifa kæranlegri ákvörðun á grundvelli 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál og er máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir, formaður, Margrét Gunnlaugsdóttir og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Úrskurðarorð

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

 

Ása Ólafsdóttir, formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir

Gunnar Eydal

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta