Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 10/2010

Fimmtudaginn 11. nóvember 2010 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 10/2010:

A

gegn

Íbúðalánasjóði

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

A, hér eftir nefnd kærandi, hefur með kæru, dagsettri 18. júní 2010, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, hér eftir nefndur kærði, dagsettri 9. júní 2010, þar sem kæranda var synjað um greiðsluerfiðleikaaðstoð.

Kærandi óskar eftir að hin kærða ákvörðun verði endurskoðuð.

 

I. Helstu málsatvik og kæruefni

Kærandi og maður hennar, B, búa í C-götu sem er raðhús sem þau keyptu í byggingu þann 20. maí 2008. Fyrir áttu þau einbýlishús í D-götu sem ætlunin var að selja en það hefur ekki tekist enn sem komið er og er það nú í útleigu. Samkvæmt gögnum málsins eru fjögur veðlán kæranda hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á D-götu í greiðslufrystingu til 1. febrúar 2011. Í bréfi kæranda og manns hennar til Íbúðalánasjóðs, dags. 16. mars 2010, kemur fram að þau óski þess að afborganir af þeim lánum hjá sjóðnum sem hvíli á fasteigninni að C-götu verði einnig frystar. Kærandi hefur upplýst að hún hafi atvinnu en tekjur hennar hafi lækkað þar sem hún á þess ekki lengur kost að vinna yfirvinnu, auk þess sem hún hefur misst starfstengd hlunnindi sem hún áður naut, svo sem bílastyrk. Eiginmaður kæranda missti vinnuna auk þess sem hann varð fyrir slysi og varð um tíma óvinnufær. Nú hafi hann hlutastarf og hafi því einnig lækkað í launum og misst hlunnindi, svo sem greiðslur vegna bifreiða- og símanotkunar.

Fyrir liggur greiðsluerfiðleikamat frá Landsbankanum og í samantekt þess kemur fram að greiðslugeta kæranda og manns hennar nemur 317.851 kr. eftir að tekið hefur verið tillit til mánaðarlegra útgjalda. Samkvæmt sama yfirliti eru afborganir þeirra lána sem ekki eru í greiðslufrystingu 303.372 kr.

Í kjölfar þess að kæranda var sent afrit af bréfi Íbúðalánasjóðs til nefndarinnar og henni gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri sendi hún kæru til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála, dags. 13. september 2010. Þar kemur fram að kærandi telji að miðað við stöðu hennar í dag falli mál hennar undir úrræðið sem er nefnt „Frysting v/sölutregðu“ og skuli meðhöndlað sem slíkt en ekki hefðbundnir greiðsluerfiðleikar sem hefðu aldrei komið til ef þau sætu ekki uppi með óselda eign. Af þessu tilefni hafði starfsmaður úrskurðarnefndarinnar félagsþjónustu og húsnæðismála símasamband við kæranda og kvaðst hún í því samtali óska að halda sig við kæru sína til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála. Ekki verður því á þessu stigi frekar aðhafst vegna fyrrnefndrar kæru til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála.

 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi bendir á að bæði hún og maður hennar hafi orðið fyrir verulegri tekjuskerðingu, meðal annars vegna atvinnumissis en aðalástæða fjárhagserfiðleika þeirra sé sú að þau sitji uppi með tvær fasteignir þar sem fasteignin í D-götu hafi ekki selst þrátt fyrir að fasteignin hafi lengi verið á sölu. Kærandi fer fram á að afborganir af lánum hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni í C-götu verði frystar í eitt ár í þeirri von að þá verði búið að selja húsið í D-götu og/eða að á því tímabili takist manni hennar að ná heilsu og fá fulla vinnu þannig að þau nái aftur fyrri stöðu, þ.e. að geta greitt afborganir af núverandi húsnæði að Hólmvaði 70. Byggir kærandi á því að þau þurfi nú að standa undir afborgunum og greiðslum vegna tveggja fasteigna sem sé þeim ofviða við núverandi aðstæður þeirra.

 

III. Sjónarmið kærða

Kærði bendir á að afgreiðsla máls þessa falli undir reglugerð nr. 584/2001, um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs. Samkvæmt 5. gr. sé það viðskiptabanki viðkomandi sem vinni umsókn og geri tillögu til Íbúðalánasjóðs. Í 4. gr. séu greind skilyrði greiðsluerfiðleikaaðstoðar og þar sé meðal annars áskilið í 3. tölul. að greiðslubyrði umsækjanda samkvæmt greiðslumati þurfi að vera umfram greiðslugetu. Samkvæmt greiðsluerfiðleikamati frá Landsbankanum sé greiðslubyrði umsækjanda þegar við umsókn ekki umfram greiðslugetu og sé synjun byggð á því atriði.

 

IV. Niðurstaða

Málskot kæranda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er m.a. að skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.

Kærandi keypti ásamt manni sínum fasteign í byggingu í maí 2008. Þá höfðu þau ekki selt fyrri fasteign sína og er hún óseld enn í dag. Þurfa þau reka og bera kostnað af tveimur fasteignum. Veðlán þeirra hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fyrri fasteigninni eru í greiðslufrystingu, en kærandi hefur óskað eftir því að veðlán sem hvíla á seinni fasteigninni verði einnig fryst í eitt ár. Óskaði kærandi eftir því að henni yrði veitt frekari greiðsluerfiðleikaaðstoð þar til tækist að selja aðra fasteignina.

Landsbankinn vann greiðsluerfiðleikamat fyrir kæranda, dags. 20. maí 2010. Samkvæmt því er greiðslubyrði kæranda og eiginmanns hennar ekki umfram greiðslugetu. Kærandi hefur ekki lagt fram ný gögn eða rök sem breytt gætu þessari niðurstöðu og er hin kærða ákvörðun því með vísan til 3. tl. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar um úrræði til að bregðast við greiðsluvanda vegna lána Íbúðalánasjóðs nr. 584/2001 staðfest, sbr. einnig 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál nr. 44/1998, en sú reglugerð hefur að geyma tæmandi úrræði sem sjóðnum eru tiltæk. Kærandi telur mál sitt falla undir úrræði sem kærandi nefnir frysting vegna sölutregðu en slíkt úrræði er ekki að finna í fyrrgreindri reglugerð.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Kröfu A, um að synjun Íbúðalánasjóðs um greiðsluerfiðleikaaðstoð verði felld úr gildi, er hafnað.

 

Ása Ólafsdóttir, formaður

Margrét Gunnlaugsdóttir                                           Gunnar Eydal

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta