Hoppa yfir valmynd

Nr. 166/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 5. apríl 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 166/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18030022

 

Beiðni um frestun réttaráhrifa í máli […] og barna hennar

 

 

Málsatvik

Þann 8. mars 2018 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. janúar 2018, um að synja aðila, […], fd. […], ríkisborgara Senegal, og börnum hennar, […], fd. […], og […], fd. 6. júlí 2017, um alþjóðlega vernd hér á landi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Úrskurður kærunefndar var birtur fyrir aðila þann 12. mars 2018 og 16. mars 2018 barst kærunefnd beiðni aðila um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar. Þann 28. mars 2018 barst kærunefnd greinargerð aðila ásamt fylgigagni.

Aðili krefst þess að réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar útlendingamála verði frestað á meðan hún fer með mál sitt fyrir dómstóla, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Málsástæður aðila

Í greinargerð aðila kemur fram að hún hyggist bera úrskurð kærunefndar í máli hennar og barna hennar undir dómstóla. Fram kemur að hún hafi dvalið á Íslandi í um fjögur ár og að bæði börn hennar séu fædd hér á landi. Byggir aðili á því að veruleg réttaróvissa ríki einnig um stöðu barna við þessar aðstæður þar sem svo virðist sem skráning þeirra hjá Þjóðskrá Íslands hafi ekki verið með réttum hætti. Vísar aðili til þess að samkvæmt 1. mgr. 102. gr. laga um útlendinga sé óheimilt að vísa útlendingi úr landi sem sé fæddur hér á landi og hafi frá fæðingu haft hér fasta búsetu samkvæmt þjóðskrá. Börn aðila hafi hins vegar ekki verið skráð í þjóðskrá eða með lögheimili. Fram kemur að aðili hyggist leita til dómstóla með þetta úrlausnarefni, en þegar sé rekið mál fyrir dómi sem varði sambærilegt álitaefni. Telur aðili að æskilegt hefði verið að kærunefnd hefði beðið úrlausnar í því dómsmáli áður en nefndin kvað upp úrskurð í málum hennar og eiginmanns hennar.

Aðili byggir einnig á því að hagsmunir barna hennar hafi ekki verið hafðir að leiðarljósi við mat á aðstæðum þeirra og að sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, hafi ekki verið virtur. Börn aðila hafi ekki fengið útgefið vegabréf og séu því ríkisfangslaus. Eldra barn aðila sé að verða fjögurra ára og þekki ekki neitt annað líf en hér á landi. Þá segir að eiginmaður aðili hafi stundað vinnu hér á landi og að hún hafi átt við erfið veikindi að stríða. Lagði aðili fram læknisvottorð, dags. 15. mars 2018, vegna veikinda hennar, þar sem fram kemur að þunglyndiseinkenni hennar hafi farið versnandi. Þá hafi þau fengið upplýsingar frá félagsþjónustu um að hún komist fljótlega inn á spítala til frekari meðferðar við veikindum sínum.

Byggir aðili á því að augljóst sé að ekki sé hægt að brottvísa fjölskyldu við þessar erfiðu aðstæður. Engin ástæða sé til þess að brottvísa henni og fjölskyldu hennar fyrr en skorið hafi verið úr þeirri réttaróvissu sem ríki um stöðu þeirra. Ekkert liggi fyrir um hvert þau eigi að leita verið þeim vísað úr landi, en þau eigi enga heimkomu í heimaríki. Telur aðili ljóst að sérstakar ástæður mæli með því að fresta réttaráhrifum í máli hennar, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í íslenskum rétti gildir sú meginregla að málskot til dómstóla frestar ekki réttaráhrifum endanlegra ákvarðana stjórnvalda, sjá til hliðsjónar 2. málsl. 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Reglan er áréttuð í 1. málsl. 6. mgr. 104. laga um útlendinga nr. 80/2016 en þar segir að málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun á stjórnsýslustigi um að útlendingur skuli yfirgefa landið fresti ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess, sbr. 2. málsl. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Frestun á réttaráhrifum skal bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að málið hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

Niðurstaða um hvort ástæða sé til að fresta réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar ræðst af heildstæðu mati á hagsmunum aðila af því að réttaráhrifum úrskurðarins verði frestað og sjónarmiðum sem mæla gegn slíkri frestun. Meðal þeirra sjónarmiða sem líta ber til við þetta mat er hvort framkvæmd úrskurðarins valdi aðila óafturkræfum skaða, hvort framkvæmdin feli í sér verulegar hindranir á aðgengi hans að dómstólum eða hvort aðstæður sem þýðingu geta haft fyrir málið hafi breyst verulega. Þá lítur kærunefnd til þess hlutverks stjórnvalda að tryggja skilvirka framkvæmd laga um útlendinga. Kærunefnd hefur jafnframt litið til þess að heimild til frestunar réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar er undantekning frá meginreglu sem aðeins sé ætlað að ná til tilvika þar sem ástæða er til þess að fresta framkvæmd. Réttaráhrifum úrskurðar verði því ekki frestað af þeirri ástæðu einni að úrskurðurinn verði borinn undir dómstóla heldur þurfi að liggja fyrir tilteknar ástæður í fyrirliggjandi máli svo kærunefnd fallist á slíka beiðni.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, sem er sjálfstæð stjórnsýslunefnd, hefur verið tekin afstaða til málsástæðna aðila og barna hennar varðandi umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða og komist að niðurstöðu um að synja umsókn þeirra.

Aðili kom hingað til lands ásamt eiginmanni sínum þann 29. janúar 2014 og lagði fram umsókn um dvalarleyfi vegna tímabundins skorts á vinnuafli þann 27. mars sama ár. Aðili og eiginmaður hennar hafa dvalist samfellt hér á landi síðan þá og eignast hér tvö börn, fædd í maí 2014 og júlí 2017. Í ljósi þess hve aðili hefur dvalið lengi hér á landi þykir tilefni til að rekja málsmeðferðir vegna umsókna hennar um dvalarleyfi og alþjóðlega vernd hér á landi.

Samkvæmt gögnum málsins óskaði aðili eftir því að dveljast hér á landi meðan umsókn hennar um dvalarleyfi væri til meðferðar hjá Útlendingastofnun á þeim grundvelli að barn hennar hefði ekki heilsu í að ferðast frá landinu. Lagði aðili fram gögn um heilsufar barnsins í september og nóvember 2014. Með ákvörðun, dags. 29. janúar 2015, synjaði Útlendingastofnun aðila um heimild til að dvelja á landinu meðan umsókn hennar væri til meðferðar hjá stofnuninni. Aðili kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála þann 16. febrúar 2015. Aðili afturkallaði kæruna þann 8. maí 2015 í framhaldi af því að hafa lagt fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða þann 5. maí sama ár.

Með bréfi Útlendingastofnunar til aðila þann 18. júní 2015 var lagt fyrir hana að leggja fram flugfarseðla sem sýndu fram á væntanlega för hennar og fjölskyldu hennar úr landi auk staðfestingar á greiðslu fargjalds. Þá óskaði stofnunin m.a. eftir því að aðili legði fram gögn um heilsufar vegna hennar og barns hennar, sem var grundvöllur umsóknar þeirra um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Með bréfinu var aðila veittur 15 daga frestur til að leggja fram umbeðin gögn. Bærust gögnin ekki innan þess tíma kynni stofnunin að brottvísa aðila frá landinu á grundvelli 20. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002.

Í júlí 2015 sendi aðili tölvupósta til Útlendingastofnunar þar sem hún greindi frá erfiðleikum við að kaupa flugmiða af landinu í ljósi þess að barn hennar væri ekki handhafi vegabréfs eða ferðaskilríkja. Þann 6. ágúst 2015 óskaði Útlendingastofnun eftir ýmsum gögnum frá aðila vegna framangreindra aðstæðna, m.a. staðfestingu frá yfirvöldum í heimaríki hennar um að þau gætu ekki gefið út vegabréf eða ferðaheimild fyrir barnið. Þá ítrekaði stofnunin beiðni um gögn sem óskað var eftir með áðurnefndu bréfi, dags. 18. júní 2015. Var aðila veittur 30 daga frestur til að leggja fram gögnin, ella yrði ákvörðun tekin á grundvelli fyrirliggjandi gagna málsins. Útlendingastofnun bárust upplýsingar þann 23. október 2015 um að ekki væri hægt að fá vegabréf fyrir barn aðila án þess að fjölskyldan færi til London.

Virðist engin hreyfing hafa orðið í málinu eftir það fyrr en aðili lagði fram gögn þann 1. september 2016. Í ljósi þess hve málið hafði dregist tók Útlendingastofnun málið til úrlausnar þrátt fyrir að aðili væri enn staddur á landinu. Með ákvörðun stofnunarinnar þann 11. október 2016 var umsókn aðila um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða synjað. Aðili kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 25. október sem staðfesti ákvörðun Útlendingastofnunar með úrskurði, uppkveðnum þann 22. desember 2016. Þann 16. febrúar 2017 lagði aðili fram umsókn um alþjóðlega vernd. Umsókn hennar var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. janúar 2018. Aðili kærði þá ákvörðun til kærunefndar útlendingamála sem staðfesti ákvörðunina með úrskurði, dags. 8. mars 2018. Með úrskurðinum var aðila og börnum hennar veittur 40 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljug.

Af framangreindri umfjöllun er ljóst að aðili hefur dvalið hér á landi í fjögur ár vegna umsókna hennar um dvalarleyfi og alþjóðlega vernd. Þótt Útlendingastofnun hafi beint því til aðila að leggja fram gögn um brottför af landinu með bréfum í júní og ágúst 2015 dvaldi aðili, eiginmaður hennar og barn hér á landi eftir það án afskipta stjórnvalda þar til Útlendingastofnun tók ákvörðun í október 2016 um að synja þeim um dvalarleyfi. Þá hefur komið fram að aðili eignaðist barn hér á landi í maí 2014 sem hefur dvalið hér á landi síðan þá, eða í tæp fjögur ár, auk þess að eignast annað barn hér í júlí 2017. Þessi langi dvalartími aðila og fæðing barna hennar hér á landi vega þungt þegar hagsmunir þeirra af því að dvelja áfram hér á landi meðan beðið er niðurstöðu dómstóla eru metnir gagnvart hagsmunum tengdum skilvirkni framkvæmdar laga um útlendinga og hlutverki stjórnvalda í því sambandi. Við þetta mat á hagsmunum aðila hefur sérstaklega verið litið til hagsmuna barna hennar í samræmi við 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til framangreinds og á grundvelli heildarmats á aðstæðum aðila og barna hennar telur kærunefnd að ástæða sé til, eins og hér stendur sérstaklega á, að fresta réttaráhrifum á úrskurði kærunefndar í málum aðila og barna hennar, dags. 8. mars 2018, meðan aðili rekur mál sitt fyrir dómstólum, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, með þeim skilyrðum sem koma fram í ákvæðinu og áréttuð eru í úrskurðarorði.

Aðila er leiðbeint um að uppfylli hún ekki nefnd skilyrði kann úrskurður kærunefndar í máli aðila og barna hennar, dags. 8. mars 2018, að verða framkvæmdarhæfur.

 

ÚRSKURÐARORÐ

 

Réttaráhrifum úrskurðar kærunefndar útlendingamála í máli aðila, dags. 8. mars 2018, er frestað á meðan aðili rekur mál sitt fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun í máli sínu á stjórnsýslustigi. Frestun réttaráhrifa úrskurðarins er bundin því skilyrði að aðili beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar þessarar og óski eftir flýtimeðferð. Sé beiðni um flýtimeðferð synjað skal þá höfðað mál innan sjö daga frá þeirri synjun.

 

The legal effects of the decision of the appeals board in the case of the applicant, dated 8 March 2018, are suspended during the time that the applicant’s legal proceedings for the annulment of the final administrative decision in the applicant’s case are under way. The suspension of legal effects is subject to the condition that the applicant brings the case to court within five days of the date of the notification of this decision and requests accelerated procedures. If the request for accelerated procedures is denied the applicant shall initiate legal proceedings before a court within seven days of that denial.

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Anna Tryggvadóttir                                       Pétur Dam Leifsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta