Mál nr. 23/2023-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 23/2023
Fimmtudaginn 23. mars 2023
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 12. janúar 2023, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. nóvember 2022, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 16. júní 2022. Umsókn kæranda var samþykkt 1. júlí 2022 og bótaréttur metinn 100%. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 8. nóvember 2022, var kæranda tilkynnt að greiðslur til hans hefðu verið stöðvaðar þar sem stofnunin hefði rökstuddan grun um að hann uppfyllti ekki skilyrði laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Óskað var eftir skýringum og gögnum frá kæranda vegna þessa sem bárust samdægurs. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. nóvember 2022, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans hefðu verið stöðvaðar þar sem hann teldist ekki í virkri atvinnuleit. Kæranda var jafnframt tilkynnt að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. júní til 31. október 2022, samtals að fjárhæð 1.292.390 kr., sem yrðu innheimtar samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. janúar 2023. Með bréfi, dags. 13. janúar 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 9. febrúar 2023 og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. febrúar 2023. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur með umsókn, dags. 16. júní 2022, í kjölfar atvinnumissis og fengið greiddar bætur fyrir tímabilið 1. júní til 31. október 2022. Með ákvörðun, dags. 21. nóvember 2022, hafi Vinnumálastofnun ákvarðað að greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda skyldu stöðvaðar þar sem hann teldist ekki vera í virkri atvinnuleit. Fram hafi komið að ákvörðunin hefði verið tekin á grundvelli laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum væri kærandi skráður 25% eigandi að félaginu C ehf. Einnig að frá því í júní hafi launamenn verið í vinnu hjá fyrirtækinu. Þá hafi komið fram að Vinnumálastofnun féllist ekki á að kærandi sem eigandi rekstrar uppfyllti í slíkum aðstæðum skilyrði 14. gr. laganna. Þá hafi kærandi verið krafinn um greiðslu atvinnuleysisbóta sem hann hafi fengið með 15% álagi með vísan til 2. mgr. 39. gr. laganna. Þó sé ekki rökstutt frekar hvers vegna hlutafjáreign kæranda valdi því að hann geti ekki talist vera í virkri atvinnuleit í skilningi ákvæðisins en samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2021 hafi fjöldi unninna ársverka hjá félaginu verið 0,4 og tap ársins hafi numið 5.392.247 kr.
Kærandi vísar til þess að íslensk stjórnskipan sé byggð á þeirri grundvallarreglu að stjórnsýslan sé bundin af lögum. Þessi regla hafi verið nefnd lögmætisreglan og sé ein af grundvallarreglum réttarríkisins. Í henni felist að ákvarðanir stjórnvalda verði að vera í samræmi við lög og að ákvarðanir þeirra verði að eiga sér viðhlítandi stoð í lögum. Í hinni kærðu ákvörðun sé vísað til þess að kærandi geti ekki talist vera í virkri atvinnuleit í skilningi 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og eigi því ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Ekki hafi verið sýnt fram á að kærandi uppfylli ekki þau skilyrði sem fram komi í 1. mgr. 14. gr. laganna heldur aðeins vísað til þess að hann sé skráður eigandi 25% hlutafjár félagsins C ehf. Á því tímabili sem um ræði hafi kærandi ekki starfað hjá félaginu og ekki staðið það til boða þar sem meirihlutaeigandi félagsins hafi talið mikilvægt að hafa hæfari starfsmenn í ferðaþjónustu við störf yfir sumarmánuðina. Því sé ekki hægt að halda því fram að hlutafjáreign kæranda valdi því að hann geti ekki talist vera í virkri atvinnuleit í skilningi 14. gr. Í ljósi þessa eigi ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. nóvember 2022, sér ekki stoð í lögum.
Kærandi tekur fram að samkvæmt efni hinnar kærðu ákvörðunar hafi einfaldlega verið talið nægjanlegt að komast að því að kærandi ætti fjórðungshlut í félagi sem væri með starfsmenn á launaskrá, án þess að gera nokkurn reka að því að komast að því hvort honum byðist í raun starf hjá félaginu. Í ljósi þess verði að telja að málið hafi ekki verið næjanlega upplýst þegar ákvörðun hafi verið tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi vísi til þess að samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga skuli aðili máls eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald taki ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé óþarft. Í málinu hafi kærandi ekki fengið tækifæri til að bera fram andmæli sín áður en ákvörðun hafi verið tekin í málinu, þrátt fyrir að það hefði getað haft áhrif á málið, enda hefðu upplýsingar þess efnis að hann hafi ekki átt þess kost að starfa hjá félaginu getað haft mikil áhrif á málið. Þá vísi kærandi til þess að efni rökstuðnings hafi verið ófullnægjandi. Í ákvörðuninni hafi aðeins verið útlistuð skilyrði 14. gr. laga nr. 54/2006 og sagt að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum væri kærandi eigandi að C ehf. sem hafi haft launamenn í vinnu hjá fyrirtækinu frá því í júní 2022. Þá hafi komið fram að Vinnumálastofnun féllist ekki á að kærandi sem eigandi rekstrar uppfylli í slíkum aðstæðum skilyrði 14. gr. laganna. Ekki hafi verið rökstutt frekar hvers vegna hlutabréfaeign kæranda yrði til þess að hann uppfyllti ekki skilyrði 14. gr. í tilviki sem þessu þar sem honum hafi ekki boðist að starfa hjá félaginu.
Í ljósi alls framangreinds krefjist kærandi þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði felld úr gildi en til vara að hún verði ógilt og málið tekið til löglegrar meðferðar á ný.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 16. júní 2022. Með erindi, dags. 1. júlí 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%.
Þann 7. nóvember 2022 hafi Vinnumálastofnun borist tölvupóstur frá fyrirtækinu D ehf. en umrætt fyrirtæki stundi hótelrekstur á E og nágrenni. Umræddur atvinnurekandi hafi auglýst starf á vef Vinnumálastofnunar og ferilskrá kæranda hafi verið send til hans af Vinnumálastofnun. Í tölvupósti þessum hafi umræddur atvinnurekandi greint frá því að hann hefði ekki boðið kæranda starf þar sem hann væri eigandi og ræki C. Hann hefði starfað þar í fleiri mánuði og gerði enn. Í kjölfarið hafi Vinnumálastofnun hafið að rannsaka hagi kæranda. Þá hafi komið í ljós að kærandi væri samkvæmt ársreikningi C ehf. vegna ársins 2021 25% eigandi hlutafjár fyrirtækisins. Eigendur alls hlutafjár fyrirtækisins séu í heildina þrír. Þar af sé einn aðili sem eigi 50% eignarhlut en tveir, að kæranda meðtöldum, eigi 25% eignarhlut. Vinnumálastofnun hafi jafnframt óskað upplýsinga úr launagreiðendaskrá C ehf. frá Skattinum. Samkvæmt þeim upplýsingum hafi fjórir til sjö starfsmenn verið á launagreiðendaskrá fyrirtækisins á tímabilinu júní til nóvember 2022. Kærandi hafi hins vegar ekki verið sjálfur á launagreiðendaskrá.
Þann 8. nóvember 2022 hafi Vinnumálastofnun sent kæranda erindi og greint honum frá því að Vinnumálastofnun hefði undir höndum upplýsingar um að hann hefði starfað hjá C ehf. samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Óskað hafi verið eftir að kærandi veitti Vinnumálastofnun frekari skýringar og sundurliðun á umfangi vinnu sinnar. Sömuleiðis hafi verið óskað eftir því að kærandi skilaði inn skýringum á ástæðum þess að hann hafi ekki upplýst stofnunina um starf sitt. Sama dag, þann 8. nóvember 2022, hafi Vinnumálastofnun borist skýringar kæranda. Hann hafi tekið fram að hann hefði ekki starfað fyrir C ehf. sumarið 2022 þar sem þegar hefðu verið ráðnir starfsmenn og ekki væri nægilegt fjármagn til að ráða hann jafnframt til vinnu.
Með erindi, dags. 21. nóvember 2022, hafi kæranda verið tjáð að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans hefðu verið stöðvaðar þar sem hann teldist ekki vera í virkri atvinnuleit. Sú ákvörðun hafi verið tekin á grundvelli 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda hafi verið greint frá því að í ljósi þess að hann væri skráður 25% eigandi C ehf. samkvæmt fyrirtækjaskrá Skattsins og hafi haft launamenn í vinnu frá júní 2022 væri það mat Vinnumálastofnunar að hann uppfyllti ekki skilyrði 14. gr. laganna. Kæranda hafi jafnframt verið greint frá því að ofgreiddar atvinnuleysisbætur til hans, að fjárhæð 1.292.391 kr., yrðu innheimtar í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.
Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála séu gerðar athugasemdir við það að ekki hafi verið sýnt fram á að kærandi uppfylli ekki skilyrði 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Aðeins hafi verið vísað til þess að hann væri skráður eigandi 25% hlutafjár félagsins C ehf. Í kæru sé áréttað að kærandi hefði ekki starfað hjá félaginu, enda hefði slíkt ekki staðið honum til boða þar sem meirihlutaeigandi félagsins hafi talið mikilvægt að hafa hæfari starfsmenn í ferðaþjónustu við störf yfir sumarmánuðina. Í kæru sé jafnframt vísað til ársreiknings félagsins fyrir árið 2021 þar sem fram komi að fjöldi unninna ársverka hjá félaginu hafi verið 0,4 og tap ársins numið 5.392.247 kr. Það væri því mat kæranda að ekki væri hægt að halda því fram að hlutafjáreign hans valdi því að hann geti ekki talist í virkri atvinnuleit í skilningi 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með vísan til framangreinds telji kærandi að ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. nóvember 2022, eigi sér ekki stoð í lögum og vísi kærandi til lögmætisreglunnar því til stuðnings. Kærandi geri jafnframt athugasemdir við málsmeðferð Vinnumálastofnunar í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar. Kærandi telji að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið fylgt, enda hefði Vinnumálastofnun tekið ákvörðun um niðurfellingu bótaréttar á þeirri staðreynd einni að kærandi væri eigandi 25% hlutafjár félagsins C ehf., án þess að kanna frekar hvort honum byðist í raun starf hjá félaginu. Af þeirri ástæðu væri það mat kæranda að mál hans hefði ekki verið nægjanlega upplýst þegar áðurnefnd ákvörðun Vinnumálastofnunar hafi verið tekin. Þá telji kærandi að andmælaréttur hans samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið virtur og vísi til þess að hann hafi ekki fengið tækifæri til þess að bera fram andmæli sín áður en ákvörðun hafi verið tekin í máli hans. Að lokum geri kærandi athugasemd við það að ekki hafi verið rökstutt frekar í ákvörðunarbréfi Vinnumálastofnunar hvers vegna hlutafjáreign hans valdi því að hann uppfylli ekki skilyrði 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, einkum í ljósi þess að kæranda hafi ekki boðist að starfa hjá félaginu. Kærandi telji vegna þessa að efni rökstuðnings Vinnumálastofnunar hafi verið ófullnægjandi og uppfylli ekki áskilnað 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga.
Vinnumálastofnun tekur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Samkvæmt 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé markmið laganna að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafa fyrra starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í tímabundnu atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða.
Samkvæmt upplýsingum úr ársreikningi félagsins C ehf. sé aðalstarfsemi þess gistiþjónusta. Þó megi sjá á vefsíðu félagsins að jafnframt sé boðið upp á fjölda leiðsöguferða. Fyrir liggi að kærandi sé eigandi 25% hlutafjár félagsins C ehf. Samkvæmt upplýsingum úr hlutafélagaskrá félagsins sé kærandi hins vegar ekki aðeins eigandi 25% hlutafjár heldur sitji hann jafnframt í stjórn félagsins, sitji í framkvæmdastjórn og sé prókúruhafi félagsins. Þar að auki þyki Vinnumálastofnun rétt að benda á að lögheimili kæranda sé skráð að F en gistiheimilið sem C ehf. reki sé staðsett á sama heimilisfangi samkvæmt ársreikningi félagsins.
Helstu skýringar kæranda séu þær að hann hafi ekki starfað hjá félaginu á þeim tíma sem hann hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi sagt ástæðu þess vera þá að meirihlutaeigandi hlutafjárins hafi tekið þá ákvörðun að ráða aðra og hæfari einstaklinga til starfa hjá félaginu. Fyrir liggi að félagið hafi verið með fjóra til sjö starfsmenn á launagreiðendaskrá á tímabilinu júní til nóvember 2022.
Að mati Vinnumálastofnunar samrýmist það hvorki gildissviði né markmiði laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. og 2. gr., að eigandi, stjórnarmeðlimur, prókúruhafi og framkvæmdastjóri tiltekins félags sem sé í fullum rekstri, þiggi atvinnuleysisbætur. Hvort þá heldur þegar umrætt félag sé með starfsmenn í vinnu. Eðli máls samkvæmt geti einstaklingur sem sé með fólk í vinnu og fari með stjórn félags ekki talist atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.
Eigandi fyrirtækis sem ráði starfsfólk til starfa til að sinna rekstri þess, í stað þess að sinna slíkum störfum sjálfur, geti ekki talist atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar að mati Vinnumálastofnunar. Í þessu samhengi skipti ekki máli að mati Vinnumálastofnunar að umrætt félag hafi ekki skilað hagnaði árið 2021, líkt og haldið sé fram í kæru til úrskurðarnefndarinnar. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja einstaklingum sem hafi misst starf sitt tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu í virkri atvinnuleit. Möguleikar kæranda á því að teljast í virkri atvinnuleit og tryggður á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar séu með öðrum orðum með engu háðir því að fyrirtæki það er hann sé í forsvari fyrir skili hagnaði.
Í kæru vísi kærandi jafnframt til þess að meirihlutaeigandi hlutafjár félagsins hafi tekið þá ákvörðun að ráða hæfari starfsmenn til vinnu. Að mati Vinnumálastofnunar skipti það ekki meginsköpum í máli kæranda. Vinnumálastofnun þyki þó rétt að benda á að sá aðili sem eigi jafnframt 25% hlutafé í félaginu C ehf. hafi einnig þegið atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun á sama tímabili og kærandi. Saman fari þau með 50% eignarhlut í félaginu. Í ljósi þess hefðu þau í sameiningu getað sett sig upp á móti þeirri ákvörðun að ráða aðra til vinnu. Því megi segja að í raun hafi þau í sameiningu ákveðið fremur að ráða aðra starfsmenn til starfa og þiggja á meðan atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Vinnumálastofnun þyki framangreint styðja frekar niðurstöðu stofnunarinnar.
Auk þess sem að framan greini bendi þau gögn sem Vinnumálastofnun hafi undir höndum til þess að kærandi starfi í einhverjum mæli hjá umræddu félagi. Í því samhengi sé vakin athygli á að lögheimili kæranda sé skráð á sama stað og starfsemi félagsins fari fram. Það leiði jafnframt af stöðu kæranda innan félagsins sem framkvæmdastjóri, eigandi og prókúruhafi að hann starfi hjá fyrirtækinu og annist rekstur þess. Auk þess hafi eigandi sambærilegs rekstrar á sama landsvæði, og því í samkeppni við þann rekstur sem rekinn sé í C ehf., greint Vinnumálastofnun frá því að kærandi hefði starfað hjá C ehf. í fleiri mánuði og gerði enn. Slíkt hafi einmitt valdið því að umræddur atvinnurekandi hafi talið að ekki væri hægt að ráða kæranda til starfa.
Í a. lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi fram að eitt af skilyrðum þess að teljast tryggður samkvæmt lögunum sé að vera í virkri atvinnuleit. Í 1. mgr. 14. gr. laganna komi fram að í virkri atvinnuleit felist meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi og vera reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf, hlutastarf eða vaktavinnu sé að ræða, sbr. c. til f. liði 1. mgr. 14. gr. Þá sé í g. lið 14. gr. kveðið á um að skilyrði fyrir virkri atvinnuleit sé jafnframt að viðkomandi eigi ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann teljist vera í virkri atvinnuleit. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit. Samkvæmt kæranda hafi hann ekki starfað hjá C ehf. því að meirihlutaeigandi félagsins hafi talið mikilvægt að hafa hæfari starfsmenn við vinnu. Með vísan til þess sem að framan hafi verið rakið sé það mat Vinnumálastofnunar, einkum í ljósi stöðu kæranda innan félagsins, að kærandi hefði sjálfur átt að starfa hjá félaginu. Kærandi hafi því sjálfur ákveðið að greiða sér ekki laun en ráða fremur starfsmenn til starfa hjá fyrirtæki sínu. Það sé mat Vinnumálastofnunar að slíkt geti hvorki samræmst markmiði laga um atvinnuleysistryggingar né ákvæði 14. gr. laganna um virka atvinnuleit.
Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysistrygginga þann tíma sem starfsemi hafi verið í rekstri hans. Í því samhengi vísi Vinnumálastofnun til 1., 2. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrði laganna. Í athugasemdum með 39. gr. í greinargerð með frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé því fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Kæranda beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins 1. júní til 31. október 2022. Vinnumálastofnun vilji þó koma því á framfæri að hafi C ehf. hætt starfsemi, tímabundið eða alfarið, kunni kærandi að mati Vinnumálastofnunar að eiga rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga að nýju.
Heildarskuld kæranda standi í 1.292.390 kr. og þar af sé álag að fjárhæð 152.108 kr. Eins og kveðið sé á um í lokamálslið 2. mgr. 39. gr. skuli fella niður álagið færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er hafi leitt til skuldamyndunar. Í þessu samhengi vísi Vinnumálastofnun einkum til þess að það sé á ábyrgð þess er fái greiddar atvinnuleysisbætur að tryggja að Vinnumálastofnun berist nauðsynlegar upplýsingar er geti haft áhrif á rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta. Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki fært rök fyrir því að fella skuli niður álag á skuld hans.
Í kæru séu jafnframt gerðar athugasemdir við málsmeðferð stofnunarinnar. Gerðar séu athugasemdir við það að Vinnumálastofnun hafi tekið ákvörðun um niðurfellingu bótaréttar á þeirri staðreynd einni að kærandi væri eigandi 25% hlutafjár félagsins C ehf., án þess að kanna frekar hvort honum byðist í raun starf hjá félaginu. Með vísan til þess sem að framan hafi verið rakið sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi starfi að rekstri eigin fyrirtækis. Vinnumálastofnun hafni því að mál hans hafi ekki verið nægilega upplýst áður en ákvörðun stofnunarinnar hafi verið tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Þá telji kærandi að andmælaréttur hans samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga hafi ekki verið virtur og vísi til þess að hann hafi ekki fengið tækifæri til þess að bera fram andmæli sín áður en ákvörðun hafi verið tekin í máli hans. Í þessu samhengi vísi Vinnumálastofnun til þess að kæranda hafi verið sent erindi, dags. 8. nóvember 2022, þar sem honum hafi sérstaklega verið gefinn kostur á að bera fram andmæli sín. Kæranda hafi í umræddu erindi verið greint frá þeim viðurlögum sem hann kynni mögulega að sæta og að hann kynni að þurfa að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Í ljósi framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi sannarlega fengið tækifæri til þess að bera fram andmæli sín.
Að lokum telji kærandi að efni rökstuðnings Vinnumálastofnunar sé ófullnægjandi í ljósi þess að ekki hafi verið rökstutt frekar í ákvörðunarbréfi Vinnumálastofnunar hvers vegna hlutafjáreign hans valdi því að hann uppfylli ekki skilyrði 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og vísi kærandi í því samhengi til 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Í ákvörðunarbréfi Vinnumálastofnunar, dags. 21. nóvember 2022, séu skilyrði virkrar atvinnuleitar samkvæmt 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar rakin. Í bréfi stofnunarinnar sé tiltekið að í ljósi þess að kærandi væri skráður 25% eigandi að C ehf., sem jafnframt hefði haft launamenn í vinnu frá því í júní 2022, væri það mat Vinnumálastofnunar að hann gæti ekki í slíkum aðstæðum uppfyllt skilyrði 14. gr. laganna. Fallast megi á með kæranda að efni rökstuðnings stofnunarinnar hefði mátt vera skýrara.
Með vísan til alls framangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysistrygginga á tímabilinu 1. júní til 31. október 2022, sbr. 1., 2. og 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kæranda beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, auk álags, samtals 1.292.390 kr., sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 14. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og að innheimta ofgreiddar bætur samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laganna.
Í 1. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt.
Í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 er fjallað um almenn skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum. Eitt af þeim skilyrðum er að vera í virkri atvinnuleit, sbr. 14. gr. Í 1. mgr. 14. gr. segir að sá teljist vera í virkri atvinnuleit sem uppfylli eftirtalin skilyrði:
- er fær til flestra almennra starfa,
- hefur heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. þó 5. mgr.,
- hefur frumkvæði að starfsleit og er reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, og uppfyllir skilyrði annarra laga,
- hefur vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara,
- er reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi,
- er reiðubúinn að taka starfi óháð því hvort um fullt starf eða hlutastarf er að ræða eða vaktavinnu,
- á ekki rétt á launum eða öðrum greiðslum í tengslum við störf á vinnumarkaði þann tíma sem hann telst vera í virkri atvinnuleit nema ákvæði 17. eða 22. gr. eigi við,
- hefur vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, og
- er reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.
Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 8. nóvember 2022, var kæranda tilkynnt að greiðslur til hans hefðu verið stöðvaðar þar sem stofnunin hefði rökstuddan grun um að hann uppfyllti ekki skilyrði laga nr. 54/2006. Tekið var fram að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um að hann hefði starfað hjá C ehf. samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Í bréfinu var óskað eftir skýringum frá kæranda vegna þessa og sundurliðun á umfangi vinnu hans. Í svari kæranda kemur fram að hann hafi ekki unnið hjá fyrirtækinu sumarið 2022. Fyrirtækið hafi haft nægt starfsfólk og hafi ekki haft efni á að ráða hann. Þá kemur fram að kærandi hafi verið atvinnulaus á tímabilinu júlí til október 2022.
Fyrir úrskurðarnefndinni hefur kærandi vísað til þess að honum hafi ekki staðið til boða að starfa hjá fyrirtækinu á því tímabili sem um ræði þar sem meirihlutaeigandi félagsins hafi talið mikilvægt að hafa hæfari starfsmenn í ferðaþjónustu við störf yfir sumarmánuðina. Þá hefur kærandi gert ýmsar athugasemdir við málsmeðferð stofnunarinnar. Kærandi telur að brotið hafi verið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, andmælareglu 13. gr. sömu laga sem og að efni rökstuðnings hafi verið ófullnægjandi, sbr. 22. gr. stjórnsýslulaga. Líkt og fram kemur í greinargerð Vinnumálastofnunar var fallist á að efni rökstuðnings stofnunarinnar hefði mátt vera skýrara. Hvað varðar tilvísun kæranda til þess að andmælaréttur hafi ekki verið virtur bendir úrskurðarnefndin á, líkt og Vinnumálastofnun gerði einnig í greinargerð sinni, að kæranda var með framangreindu erindi, dags. 8. nóvember 2022, sérstaklega gefinn kostur á að skila inn skýringum og athugasemdum vegna upplýsinga stofnunarinnar um að hann hefði starfað hjá C ehf. samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Verður því ekki fallist á að kærandi hafi ekki fengið tækifæri til að bera fram andmæli sín áður en hin kærða ákvörðun var tekin.
Kemur þá til skoðunar hvort mál kæranda hafi verið nægjanlega upplýst þegar ákvörðun var tekin í því. Vinnumálastofnun hefur meðal annars vísað til þess að kærandi sé 25% eigandi hlutafjár C ehf. Hann sitji einnig í stjórn félagsins, sitji í framkvæmdastjórn og sé prókúruhafi félagsins sem sé í fullum rekstri. Fyrirtækið hafi haft fjóra til sjö starfsmenn á launagreiðendaskrá á tímabilinu júní til nóvember 2022 en kærandi hafi hins vegar ekki verið sjálfur á launagreiðendaskrá. Slíkar aðstæður samrýmist hvorki gildissviði né markmiði laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. og 2. gr. Eðli máls samkvæmt geti einstaklingur sem sé með fólk í vinnu og fari með stjórn félags ekki talist atvinnulaus í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Þá hefur Vinnumálastofnun vísað til þess að samkvæmt upplýsingum af samfélagsmiðlum kæranda starfi hann hjá félaginu og lögheimili kæranda sé skráð á sama stað og starfsemi félagsins fari fram. Einnig að eigandi sambærilegs rekstrar á sama landsvæði hafi greint Vinnumálastofnun frá því að kærandi hefði starfað hjá C ehf. í fleiri mánuði og gerði enn. Slíkt hafi einmitt orðið til þess að umræddur atvinnurekandi hafi ekki talið mögulegt að ráða kæranda til starfa.
Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála liggja fyrir fullnægjandi upplýsingar og gögn sem sýna fram á að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða rekstri fyrirtækisins. Að því virtu átti hann ekki rétt á greiðslum frá Vinnumálastofnun á því tímabili sem endurgreiðslukrafan lýtur að.
Í 39. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið, að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Aftur á móti skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Að mati úrskurðarnefndarinnar er ekki tilefni til að fella niður álagið sem lagt var á endurgreiðslukröfuna.
Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. nóvember 2022, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til handa A, og að innheimta ofgreiddar bætur, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir