Nr. 293/2017 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 293/2017
Miðvikudaginn 9. maí 2018
Dánarbú A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.
Með kæru, dags. 3. ágúst 2017, kærði B, f.h. dánarbús A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. júní 2017 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2016.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Á árinu 2016 fékk A tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. júní 2017, var A tilkynnt að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna fyrir árið 2016 hafi leitt í ljós ofgreiðslu að fjárhæð 347.891 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. A lést X 2017 og fékk eftirlifandi maki hennar, B, leyfi til setu í óskiptu búi og tók þar með við öllum réttindum og skyldum dánarbúsins. Með bréfi, dags. 29. júlí 2017, sótti kærandi um niðurfellingu á kröfu stofnunarinnar og til vara rökstuðnings fyrir niðurstöðu endurreikningsins. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 28. september 2017, var kæranda synjað um niðurfellingu ofgreiðslukröfu og var rökstuðningur veittur fyrir niðurstöðu endurreiknings.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. ágúst 2018. Með bréfi, dags. 29. ágúst 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 5. september 2017, fór Tryggingastofnun ríkisins fram á frávísun málsins á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir kæranleg ákvörðun. Frávísunarkrafan var kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. september 2017, og var óskað eftir afstöðu hans til kröfunnar. Með bréfi kæranda, dags. 15. september 2017, var frávísunarkröfu Tryggingastofnunar ríkisins hafnað. Með bréfi, dags. 19. september 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir efnislegri greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins barst með bréfi, dags. 12. október 2017, og var kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 2[5]. október 2017, og voru þær kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 17. nóvember 2017, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 28. nóvember 2017, og voru þær kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. nóvember 2017. Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 18. desember 2017, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. desember 2017.
Með bréfi kæranda, dags. 20. desember 2017, bárust úrskurðarnefnd gögn til upplýsinga. Með tölvupósti 4. janúar 2018 bárust athugasemdir frá kæranda og spurningar sem beint var til nefndarinnar og Tryggingastofnunar ríkisins. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. janúar 2018, var kæranda svarað og afrit var sent til Tryggingastofnunar ríkisins. Með bréfi, dags. 30. janúar 2018, barst bréf frá Tryggingastofnun ríkisins og var það sent kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. febrúar 2018. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. febrúar 2018, bárust úrskurðarnefnd gögn til upplýsinga. Með bréfum, dags. 12. og 19. febrúar 2018, bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. mars 2018. Með bréfi, dags. 27. mars 2018, barst viðbótargreinargerð frá Tryggingastofnun ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. apríl 2018. Með tölvubréfi, dags. 26. apríl 2018, bárust athugasemdir kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi, dags. 2. maí 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Gerð er krafa um að málsmeðferð Tryggingarstofnunar ríkisins verði ómerkt frá og með 21. júní 2017, að kröfur Tryggingastofnunar verði felldar niður eða lækkaðar verulega vegna sérstakra aðstæðna, að kröfur Tryggingastofnunar verði felldar niður eða lækkaðar verulega vegna mismunar, leigutekna, skatta, rangra útreikninga, villandi og óútskýrðrar kröfugerðar og annarra atvika. Þá er gerð krafa um að fá málskostnað greiddan.
Í kæru er greint frá nýlegu andláti A og að B sitji í óskiptu búi. Þá segir að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. júní 2017, um endurreikning og uppgjör á lífeyrisgreiðslum A vegna ársins 2016. Samkvæmt útreikningi Tryggingastofnunar hafi verið gert ráð fyrir að A hafi á árinu 2016 verið með 956.472 kr. í leigutekjur og 521.684. kr. vaxtatekjur. Rétt sé að A hafi ekki verið með leigutekjur á árinu og vaxtatekjur hennar hafi verið 6.595 kr. Til frekari stuðnings sé vísað í bréf til Tryggingastofnunar, dags. 29. júlí 2017. Áskilinn sé réttur til frekari rökstuðnings þegar Tryggingastofnun hafi svarað framangreindu bréfi kæranda.
Í athugasemdum kæranda, dags. 15. september 2017, vegna frávísunarkröfu Tryggingastofnunar eru fyrri kröfur kæranda ítrekaðar. Þá segir að lögbundinn kærufrestur til úrskurðarnefndar velferðarmála vegna ákvörðunar Tryggingastofnunar séu þrír mánuðir. Með bréfi kæranda til Tryggingastofnunar, dags. 29. júlí 2017, hafi aðallega verið gerð krafa um að stofnunin myndi fella niður ofgreiðslukröfu en til vara hafi verið farið fram á rökstuðning fyrir kröfunni. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 3. ágúst 2017, hafi kæranda verið tilkynnt að erindið yrði að öllum líkindum afgreitt innan átta vikna eða að liðnum kærufresti. Ekki hafi verið hægt una því að kæruréttur yrði hafður að engu og því hafi framangreind ákvörðun verið kærð.
Í stað þess að leiðrétta mistök sín og skýra málið efnislega þá hafi Tryggingastofnun borið fyrir sig formástæður og farið fram á frávísun málsins að svo stöddu. Formkrafa Tryggingastofnunar sé röng, málið sé til kærumeðferðar á einu stjórnsýslustigi, það sé hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, samkvæmt skýrum lagafyrirmælum um kærurétt og kærufrest sem Tryggingastofnun hafi leitast við að hafa að engu með bréfi, dags. 3. ágúst 2017.
Í athugasemdum kæranda, dags. 2[5]. október 2017, eru ítrekaðar fyrri kröfur um endurreikning vegna ofreiknaðra fjármagnstekna, aðallega þar sem um sé að ræða tekjur B og til vara að við endurreikning Tryggingastofnunar verði dánarbúinu reiknaðar helmingur af heildarfjármagnstekjum þeirra hjóna. Einnig sé þess krafist að hugsanlegar eftirstöðvar kröfu verði felldar niður vegna sérstakra aðstæðna. Þá sé krafist málskostnaðar.
Með bréfum Tryggingastofnunar hafi verið sendir endurreikningar og uppgjör tekjutengdra greiðslna 2016 auk innheimtu. Þar sé að finna sundurliðanir á útreikningum og þar séu B meðal annars reiknaðar leigutekjur að fjárhæð 478.236 kr., það sé helmingur af framtöldum leigutekjum, en A séu reiknaðar 956.472 kr., sem jafngildi öllum framtöldum leigutekjum þeirra hjóna. Sama gildi um framtaldar vaxtatekjur að fjárhæð 521.684 kr. en þar sé B reiknaðar 260.840 kr. í vaxtatekjur, þ.e. helming þeirra, en A allar vaxtatekjurnar, þ.e. 521.684 kr. Heildarfjármagnstekjur samkvæmt framtali 2017 hafi numið alls 1.478.156 kr. og miði Tryggingastofnun útreikninga sína við helming þeirra tekna gagnvart B en allar gagnvart A. Þessar staðreyndir hafi verið útskýrðar fyrir Tryggingastofnun með bréfi, dags. 29. júlí 2017, og auk þess hafi verið farið fram á að meint krafa yrði felld niður í ljósi andláts A, en til vara hafi verið krafist rökstuðnings og skýringa.
Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 10. október 2017, hafi kæranda verið synjað um leiðréttingu og niðurfellingu ofgreiddra bóta án rökstuðnings. Í bréfinu segi meðal annars orðrétt: „Helmingur fjármagnstekna hjóna og sambúðarfólks hefur áhrif á útreikning hjá hvoru fyrir sig í samræmi við a. lið 16. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007.“ Sem fyrr segi þá hafi stofnunin ekki farið eftir þessari lagareglu við útreikning bóta. Stofnunin hafi ekki rökstutt útreikninga sína þrátt fyrir ítrekaðar kröfur og veittar skýringar kæranda.
Í greinargerð Tryggingastofnunar séu reifuð lagarök fyrir helmingaskiptingu fjármagnstekna hjóna. Bent sé á að endurútreikningur byggist á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega og réttilega að sameiginlegar vaxtatekjur og verðbætur þeirra hjóna hafi verið 521.584 kr. og að sameiginlegar leigutekjur þeirra hafi verið 956.472 kr. Tryggingastofnun hafi beitt helmingaskiptareglunni gagnvart B en ekki gagnvart A. Við endurreikning Tryggingastofnunar hafi A verið reiknaðar þessar tekjur brúttó. Enn hafi stofnunin vanrækt að fara ofan í tölulega útreikninga. Til vara sé farið fram á að farið verði að þessari lögbundnu helmingaskiptareglu. Aðallega sé þó byggt á því að umrædd lagaregla brjóti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Það felist rakin mismunun í því að reikna A tekjur B sem hún hafi ekki aflað og séu henni óviðkomandi. Breyti hér engu þótt úrskurðarnefnd hafi í fyrri úrskurðum beitt reglunni. Megi ætla að ekki hafi komið fram málsástæður og rökstuðningur um mismunun og stjórnarskrárbrot í tilvitnuðum úrskurðum úrskurðarnefndar. Tekið sé fram að umræddar leigutekjur hafi verið óvæntar og ófyrirséðar við gerð tekjuáætlunar.
Gerð sé krafa um að hugsanleg skuld kæranda verði felld niður vegna sérstakra aðstæðna samkvæmt 11. gr. reglugerðar nr. 598/2003. Tryggingastofnun hafi ekki fallist á þá kröfu án þess að hafa rökstutt þá ákvörðun og því sé erfitt að átta sig á því hvað teljist sérstakar ástæður með tilliti til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna verandi í góðri trú um greiðslurétt. Spurt sé hvað þurfi til ef andlát einginkonu falli ekki undir sérstakar aðstæður. Fyrir utan það mikla andlega áfall og verulegar breytingar á félagslegum aðstæðum þá falli allar greiðslur og aðrar tekjur til látinnar eiginkonu B niður við andlátið. B þurfi til að mynda að standa einn straum af heimilisrekstri svo ekki sé talað um verulegan kostnað af útför og fleiru. Í raun sé afstaða Tryggingastofnunar óskiljanleg.
Endurreikningur Tryggingastofnunar sé byggður á rafrænum samanburði á tekjuáætlun stofnunarinnar og lífeyrisgreiðslum annars vegar og framtöldum tekjum samkvæmt skattaframtali hins vegar. Ljóst sé að alvarleg skekkja hafi komið upp við þá útreikninga. Við nánari skoðun á málinu hafi komið í ljós að sama skekkja hafi verið fyrir hendi varðandi endurreikning lífeyrisgreiðslna til kæranda árið 2016 vegna tekna árið 2015. Þar hafi kæranda verið reiknaðar allar fjármagnstekjur þeirra hjóna án helmingaskiptingar. Það beri Tryggingastofnun eðlilega að leiðrétta.
Krafa um málskostnað sé byggð á því að málsmeðferð Tryggingastofnunar hafi kallað á mikla vinnu og aðra fyrirhöfn.
Í greinargerð kæranda, dags. 28. nóvember 2017, sé ítrekað það sem áður hafi komið fram varðandi kröfu um skýringar frá Tryggingastofnun. Nú hafi stofnunin loks brugðist við að hluta. En kærandi sé enn engu nær um þær tölur sem endurreikningur sé byggður á.
Í bréfi til Tryggingastofnunar, dags. 29. júlí 2017, hafi þess aðallega verið krafist að felld yrði niður krafa á hendur A í ljósi andláts hennar. Þessi krafa hafi verið margítrekuð. Þrátt fyrir að Tryggingastofnun hafi lagst í afmarkaða tölulega skoðun á málinu sé kröfu um niðurfellingu hvorki svarað né fyrri afstaða stofnunarinnar rökstudd. Það brjóti alvarlega gegn góðum stjórnsýsluháttum og málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga. Jafnframt sé þess krafist með sömu rökum að endurgreiðslukrafa B að fjárhæð 73.074 kr. verði felld niður.
Í greinargerð kæranda, dags. 12. febrúar 2018, segir meðal annars að stofnunin hafi aflað ýmissa gagna áður en ákvörðun hafi verið tekin, án þess að hafa gefið aðila máls kost á að tjá sig um þau eða önnur atriði.
Tryggingastofnun hafi ranglega haldið því fram í greinargerð, dags. 4. janúar 2018, að af viðbótargögnum kæranda, dags. 28. nóvember 2017 og 26. október 2017, megi ráða að krafa kæranda sé nú tvíþætt. Eins og komið hafi fram þá hafi stofnunin skipt kærumálinu upp í tvö mál með bréfi, dags. 3. ágúst 2017, en kæra hafi ekki breyst. Frá upphafi hafi annars vegar verið krafist niðurfellingar og rökstuðnings og hins vegar að stofnunin rökstyðji og skýri, meðal annars með lagatilvísunum alla liði endurreiknings og uppgjörs. Varðandi synjun stofnunarinnar á niðurfellingarbeiðni ofgreiðslukröfu kæranda þá hafi ákvörðunin ekki verið rökstudd og þá hafi ekki legið fyrir fjárhagslegar viðmiðanir við mat á fjárhagslegu bolmagni búsins og veki það undrun að fjárhagsleg staða erfingja sé tekin með í reikninginn. Ekki verði séð að fyrir því sé lagaheimild. Staða dánarbúsins hafi einfaldlega verið sú að við andlát A hafi hún hvorki átt reiðufé né inneignir í bönkum fyrir útfararkostnaði. Til eignasölu hafi þurft að koma. Mat á félagslegum aðstæðum hafi ekki verið rökstutt.
Að gefnu tilefni sé ítrekað að frá upphafi hafi verið krafist endurskoðunar á útreikningum og endurkröfum Tryggingastofnunar hjá þeim hjónum og lagðar hafi verið fram allar upplýsingar þar að lútandi. Tryggingastofnun gangi svo langt að telja að skilyrði um góða trú um greiðslurétt sé ekki uppfyllt án þess að sjá til þess að rannsaka þann þátt málsins og afla upplýsinga. Horfa verði meðal annars til lítillar þekkingar þeirra hjóna á lögum og reglum og því að B hafi ekki byrjað á lífeyri fyrr en X 2016. Mat Tryggingastofnunar um meinta vonda trú þeirra hjóna um greiðslurétt sé alfarið huglægt og með öllu órökstutt. Því sé skorað á stofnunina að draga þessa tilefnislausu ályktun til baka. Vakin sé athygli á að með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 18. desember 2017, hafi verið lögð fram ýmis gögn sem ekki höfðu áður komið fram í málinu þrátt fyrir að ítrekað hafi verið kallað eftir þeim frá upphafi kærumálsins. Hér sé meðal annars um að ræða gögn sem kæranda hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um. Þá hafi kæranda ekki verið gefinn kostur á andmælarétti um upplýsingasöfnun samráðsnefndar Tryggingastofnunar og í raun og veru hafi kæranda alls ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um málsmeðferð og gagnaöflun varðandi synjun á beiðni um niðurfellingu krafna vegna sérstakra aðstæðna
Varðandi kröfu nr. 1, það er kröfu um ómerkingu málsins frá 21. júní 2017, þá sé hún byggð á því að málsmeðferð og málatilbúnaður Tryggingastofnunar séu brot á góðum stjórnsýsluháttum, lögum um almannatryggingar og stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Það blasi við að Tryggingastofnun hafi brotið gegn eftirfarandi greinum stjórnsýslulaga: 7. gr. um leiðbeiningarskyldu, 9. gr. um málshraða, 10. gr. um rannsóknarreglu, 11. gr. um jafnræðisreglu, 12. gr. um meðalhófsreglu, 13. gr. um andmælarétt, 15. gr. um upplýsingarétt og 19. gr. um rökstuðning synjunar. Sérstaklega sé vakin athygli á því að Tryggingastofnun hafi ýmist alls ekki svarað eða seint og um síðir ítrekuðum kröfum um gögn, rökstuðning, tölulegar upplýsingar og skýringar og fleira og drepi málinu á dreif og hafi tálmað kærumálssókn verulega. Stofnunin hafi ítrekað leitast við að færa kæruefnin af kærustigi á fyrra stjórnsýslustig og reynt að koma í veg fyrir að kærandi geti nýtt sér kæruheimildir með frávísunarkröfu. Þá hafi stofnunin ekki gert minnstu tilraun til að sinna leiðbeiningarskyldum sínum, hún hafi ekki rannsakað og skoðað með jákvæðu hugarfari né túlkað vafaatriði kæranda í hag. Stofnunin hafi ekki leiðrétt endurreikning sinn gagnvart B og kæranda varðandi leigutekjur þótt óyggjandi upplýsingar hafi legið fyrir um að útreikningurinn sé rangur. Stofnunin hafi ekki gætt jafnræðis samkvæmt stjórnarskrárbundnum rétti kæranda. Vanreifaður, misvísandi og gallaður málatilbúnaður Tryggingastofnunar hafi meðal annars leitt til þess að ekki hafi verið hægt að setja fram endanlegar og allar kröfur og rökstuðning fyrr en með þessari greinargerð þó svo að meginkröfur hafi komið fram í upphafi málsins með bráðabirgðakæru, dags. 3. ágúst 2017, og bréfi, dags. 16. ágúst 2017.
Varðandi kröfu nr. 2, það er kröfu um niðurfellingu endurgreiðslukrafna vegna sérstakra aðstæðna, þá snúi hún bæði að dánarbúinu og B. Þá sé krafan byggð á því að andlát eiginkonu B hafi haft afar verulegar andlegar, félagslegar og fjárhagslegar afleiðingar í för með sér. Andlegar og félagslegar mestar en einnig umtalsverðar fjárhagslegar afleiðingar. Brátt andlát A hafi sett líf hans og X barna þeirra andlega og félagslega á hvolf. Ekki sé tekið á þessum félagslegu þáttum í ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja beiðni um niðurfellingu endurkrafna þrátt fyrir að svo sé um mælt í reglugerð nr. 598/2009 og þrátt fyrir ítrekaðar kröfur kæranda um rökstuðning.
Í ákvörðun Tryggingastofnunar um að synja kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu hafi hvorki verið vikið að félagslegum sjónarmiðum né heldur hafi ákvörðunin verið rökstudd. Stofnunin hafi látið sér nægja að staðhæfa að við mat á fjárhags- og félagslegum aðstæðum hafi einkum verið horft til þess að fjárhagslegt bolmagn dánarbúsins og erfingja hafi verið verulegt, skuldir séu óverulegar og eignastaða góð. Viðmið Tryggingastofnunar við mat á því hvort fella eigi niður eða lækka endurkröfur á dánarbúið sé með öllu heimildarlaus, hana skorti lagastoð og sé órökstudd. Því sé enn fremur haldið fram að Tryggingastofnun sé óheimilt við mat á niðurfellingu eða lækkun að miða við eignastöðu, ekki fremur en þegar tekin sé ákvörðun um lífeyrisrétt og fjárhæð lífeyris. Byggt sé á því að Tryggingastofnun hafi grundvallað mat sitt á fjárhagslegum aðstæðum að geðþótta án þess að hafa sett sér fjárhagsleg mörk til viðmiðunar og þá hafi stofnunin túlkað vafa kæranda ranglega í óhag. Rökstuðningur sé sem fyrr tilvísun í heildstætt mat, það sé einvörðungu heildstætt mat á fjárhagsstöðu kæranda og erfingja. Af matsblaði vegna beiðni um niðurfellingu sé ljóst að miðað hafi verið við heildareignir. Fyrir því skorti lagaheimild og beri að túlka allan vafa kæranda og B í hag í þessu efni sem öðrum. Enginn rökstuðningur hafi legið að baki þessa svonefnda heildstæða mati. Svokölluð fundargerð sé sama marki brennd. Ekki verði séð að svonefndar verklagsreglur styðjist við lög, samanber meðal annars reglu um fjárhagslegar og félagslegar aðstæður erfingja.
Tryggingastofnun telji ljóst að skilyrði reglugerðar nr. 598/2009 um góða trú sé ekki uppfyllt í málinu. Þetta ósmekklega álit sé órökstutt og styðjist ekki við staðreyndir málsins. B hafi verið í góðri trú, bæði um greiðslurétt sinn og eiginkonu sinnar. Hvað kæranda varði sé staðan einfaldlega sú að A hafi ekki vitað af þessum leigutekjum. Auk þess hafi verið um óvæntar tímabundnar tekjur að ræða sem ekki hafi verið fordæmi fyrir. B hafi alfarið séð um leigu á [...] sem hafi verið hans eign án samráðs við A og án þess að upplýsa hana um málið. Þau hjónin hafi hvort um sig verið með sjálfstæðan fjárhag. Kærandi hafi verið vammlaus og heiðarleg kona í hvívetna. Þetta og fleira í tengslum við málsefnið hefði stofnunin auðveldlega getað sannreynt með því að sinna rannsóknarskyldum sínum. Mat Tryggingastofnunar á huglægri afstöðu A og B sé rangt og ekki sæmandi opinberri stofnun. Tryggingastofnun hafi einfaldlega sönnunarbyrði fyrir áliti sínu um huglæga afstöðu og hafi ekki fullnægt henni.
Varðandi kröfu nr. 3, það er kröfu kæranda og B að Tryggingastofnun felli niður eða lækki verulega endurkröfur á hendur þeim, þá sé hún byggð á ýmsum á aðstæðum. Byggt sé á því að brotið hafi verið gegn jafnræðis- og jafnréttissjónarmiðum með endurkröfu á hendur kæranda og B. Tryggingastofnun byggi útreikninga sína á fjármagnstekjum sem hafi verið A óviðkomandi. Henni sé mismunað fyrir að hafa verið í sambúð og hjónabandi. Þau hjónin hafi haft sjálfstæðan fjárhag. Endurkrafa Tryggingastofnunar brjóti í bága við jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar, jafnréttislög og við önnur lagákvæði um jafnrétti.
Tryggingastofnun reikni að fullu fjármagnstekjur við endurreikninga á endurkröfum sínum og taki ekki tillit til fjármagnstekjuskatts til frádráttar. Stofnunin skerði þannig greiðslurétt þeirra hjóna sem nemi 20% fjármagnstekjuskatts sem ríkissjóður hafi lagt á þau. Það standist ekki heilbrigða skynsemi og almenn skattasjónarmið að skerða greiðslurétt vegna hluta fjármagnstekna sem hafi aldrei komið í vasa þeirra og hafi ekki nýst þeim til framfærslu. Hér sé sá hinni sami, það sé ríkissjóður, að taka 20% af fjármagnstekjum og skerða lögbundinn lífeyrisrétt þeirra um sömu fjárhæð. Í raun sé hér um tvísköttun að ræða, tvöfalda gjaldtöku af sama stofni. Endurreikningur og endurkröfur Tryggingastofnunar brjóti einnig að þessu leyti í bága við grunnhugmyndir laga um almannatryggingar. Lífeyrisgreiðslur samkvæmt almannatryggingalögum eigi að taka mið af framfærsluþörfum á hverjum tíma, lágmarksframfærsluþörfum. Þetta lögbundna meginmarkmið sé brotið með því að skerða greiðslurétt og greiðslur niður fyrir lögbundinn lágmarkslífeyri með 20% fjármagnstekjuskatti sem renni til ríkissjóðs.
Þess sé krafist að kröfur Tryggingastofnunar verði felldar niður eða lækkaðar verulega vegna rangra og villandi útreikninga og annarra atvika sem getið hafi verið um áður.
Varðandi kröfu nr. 4, það er kröfu um málskostnað úr hendi Tryggingastofnunar, þá sé vísað í bréf B til stofnunarinnar, dags. 29. júlí 2017, þar sem krafist hafi verið niðurfellingar ofgreiðslukröfu og til vara krafist rökstuðnings fyrir framangreindri ákvörðun. Rúmu hálfu ári síðar sé Tryggingastofnun enn að svara kröfum um rökstuðning og skýringar. Þessi ámælisverða stjórnsýsla Tryggingastofnunar hafi skapað mikil óþægindi, umstang og verulega vinnu, með öllu óþarfa vinnu ef stofnunin hefði sinnt skyldu sinni í anda góðra stjórnsýsluhátta, stjórnsýslulaga og laga um almannatryggingar. Af þessum sökum og fleirum röktum hér að framan sé krafist kærumálskostnaðar.
Málatilbúnaður Tryggingastofnunar hafi víða verið gerður að umtalsefni og gagnrýndur. Enda hafi hann leitt til þess að kærumálsmeðferðin hafi bjagast umtalsvert og vikið hafi verið verulega frá hefðbundinni kærumálsmeðferð. Upphaf þessa máls hafi verið með bréfum Tryggingastofnunar, dags. 21. júlí 2017, þar sem ákvarðanir um endurkröfur hafi verið tilkynntar og jafnframt leiðbeint um kæruheimild og kærufrest. Þennan rétt hugðist kærandi nýta sér gæfu svör Tryggingastofnunar við bréfi, dags. 29. júlí 2017, tilefni til þess. Viðbrögð Tryggingastofnunar hafi gert það og hafi ákvarðanirnar því verið kærðar til úrskurðarnefndar velferðarmála með áskilnaði um frekari rökstuðning. Tryggingastofnun hafi í upphafi krafist frávísunar málsins en hafi búið til nýtt mál á fyrra stjórnsýslustigi í framhaldi af bréfi, dags. 29. júlí 2017, og kæru, dags. 3. ágúst 2017, sem hafi verið í samræmi við leiðbeiningar stofnunarinnar um kæruheimild og kærufresti. Þá hafi Tryggingastofnun síðar búið til tvö ný mál til viðbótar á fyrra stjórnsýslustigi. Síðan hafa týnst inn bréf og greinargerðir í kjölfar margítrekaðra krafna um gögn, rökstuðning, upplýsingar, tölulegar útlistanir og fleira. Síðbúnar röksemdir Tryggingastofnunar, dags. 18. desember 2018, hafi kallað á enn frekari upplýsingar og rökstuðning sem Tryggingastofnun hafi verið gert að svara af úrskurðarnefnd velferðarmála. Að fengnum þessum svörum hafi loks verið kleift að skila inn kröfu- og greinargerð í endanlegri mynd. Þá hafi það gert illt verra að kærandi hafi þurft að eiga við fjölda undirdeilda og sviða innan Tryggingastofnunar auk samráðsnefndar undir rekstri kærumálsins. Um sé að ræða réttindasvið, uppgjörsdeild, fjárreiðudeild og svonefndan „[email protected]“. Samráðsnefnd hafi búið til tvö ný mál á fyrra stjórnsýslustigi og uppgjörsdeild eitt um kæruefni sem til staðar séu hjá úrskurðarnefndinni.
Í athugasemdum kæranda, dags. 26. apríl 2018, séu gerðar eftirfarandi viðbótarkröfur:
Að kærumál nr. 151/2018 verði sameinað kærumáli nr. 293/2017.Að leigutekjur B að fjárhæð 956.472 kr. fyrir árið 2015 myndi ekki stofn við endurreikninga og uppgjör tekjutengdra greiðslna B og kæranda fyrir árið 2016.Að Tryggingastofnun verði gert að leiðrétta endurreikninga og innheimtur á hendur B og kæranda, dags. 21. júní 2017, sem þessum leigutekjum nemi og endurgreiða þeim mismuninn.Þá segir að í greinargerð Tryggingastofnunar sé því enn haldið fram að málið varði einungis endurreikning greiðslna dánarbús A. Kærumálið hafi frá upphafi varðað bæði hjónin eins og glöggt megi sjá af bréfi til Tryggingastofnunar og úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 16. ágúst 2017. Samkvæmt bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 7. september 2017, sem hafi verið stílað á B sé efni málsins „Mál nr. 293/2017 – B gegn Tryggingastofnun ríkisins“. Sama eigi við um síðari bréf og greinargerðir. Til að taka af öll tvímæli þá hafi B sérstaklega kært til úrskurðarnefndar velferðarmála mál sem Tryggingastofnun hafi stofnað til með bréfi, dags. 9. janúar 2018, af sjálfsdáðum og án kröfu, vegna hans en hafi síðan fellt niður með bréfi, dags. 27. mars 2018, með þeim rökum að málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. kæru, dags. 12. apríl 2018, kærumál nr. 151/2018. Þess sé nú krafist að kærumál nr. 151/2018 verði sameinað kærumáli nr. 293/2017. Það ætti að vera Tryggingastofnun til sóma, til hagsbóta og í þágu góðrar stjórnsýslu og hagkvæmni að mál þeirra hjóna séu leyst í einu lagi. Að gefnu tilefni sé minnt á að ágreiningur varðandi fjármagnstekjur, leigutekjur, í endurreikningum Tryggingastofnunar, dags. 21. júní 2017, hafi verið og sé órjúfanlegur þáttur í máli þeirra beggja. Tryggingastofnun hafni því alfarið að hafa stofnað mörg stjórnsýslumál undir rekstri kærumáls nr. 293/2017. Það liggi fyrir að stofnunin hafi af sjálfsdáðum og án kröfu eða beiðni kæranda stofnað ný mál á fyrra stjórnsýslustigi. Kæran, dags. 3. ágúst 2017, hafi varðað ákvarðanir stofnunarinnar, dags. 21. júní 2017, sbr. leiðbeiningar stofnunarinnar um kæruheimild. Krafa um niðurfellingu vegna andláts A sé órjúfanlega tengd þessum útreikningum. Tryggingastofnun hafi þegar í stað stofnað til nýs máls á fyrra stjórnsýslustigi um allt málið með bréfi, dags. 3. ágúst 2017, án þess, að því er virðist, að hafa lesið og kynnt sér framkomið erindi og hafi síðar gengið svo langt að krefjast frávísunar á kærunni, dags. 3. ágúst 2018, þar sem að málið væri rekið á tveimur stjórnsýslustigum. Frávísunarkrafan hafi verið sett fram áður en stofnunin hafi orðið við kröfum um upplýsingar, skýringar og gögn og áður en gefist hafi tóm til að forma kröfur og skila greinargerð. Frávísunarkröfunni hafi verið hafnað. Höfnun úrskurðarnefndar velferðarmála á frávísunarkröfu stofnunarinnar feli það eðlilega í sér að allar kröfur, þar með talin krafa um niðurfellingu vegna kröfu á hendur dánarbúi A, hafi verið og séu undir í kærumáli nr. 293/2017. Þrátt fyrir niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála um frávísunarkröfu stofnunarinnar hafi hún haldið áfram með málið á fyrra stjórnsýslustigi, án vitundar kæranda og hafi tekið ákvörðun í því með bréfi, dags. 28. september 2017. Í bréfinu hafi Tryggingastofnun hafnað kröfu um niðurfellingu og að vaxtatekjur B væru óviðkomandi útreikningi á dánarbúi A o.fl.Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 9. janúar 2018, hafi stofnunin hafið nýtt mál á fyrra stjórnsýslustigi varðandi endurreikning á bótum B á árinu 2016 vegna leigutekna sem hafi fallið til fyrir töku hans á lífeyri á því ári. Tryggingastofnun hafi fellt þetta mál niður með bréfi, dags. 27. mars 2018. Þessi ákvörðun hafi verið kærð, sbr. kærumál nr. 151/2018. Kærandi greinir síðan í athugasemdunum nánar frá þeim ágreiningi sem til staðar er í kærumáli nr. 151/2018.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. september 2017, kemur fram að kærð sé endurkrafa ofgreiddra bóta eftir uppgjör tekjuársins 2016. Kæran varði kröfu á hendur dánarbúi A en B sitji í óskiptu búi.
Tryggingastofnun hafi borist erindi, dags. 29. júlí 2017, þar sem aðallega hafi verið farið fram á niðurfellingu skuldar sem hafi myndast vegna uppgjörs tekjuársins 2016 á hendur dánarbúi A. Þá hafi komið fram að verði ekki fallist á niðurfellingu þá sé farið fram á að stofnunin rökstyðji og skýri endurreikning og uppgjör vegna tekjuársins 2016.
Erindið bíði meðferðar hjá samráðsnefnd Tryggingastofnunar um meðferð ofgreiðslna og vangreiðslna sem muni meta hvort að ósk um niðurfellingu uppfylli skilyrði þau sem kveðið sé á um í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Beiðni um rökstuðning verði einnig svarað efnislega í samræmi við forsendur framangreinds erindis, dags. 29. júlí 2017. Það svar muni fela í sér allar sömu kæruheimildir, meðal annars nýjan kærufrest og fyrri ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 21. júní 2017.
Tryggingastofnun vilji vekja athygli á því að í kæru sé vísað til þess að gögnum verði bætt við eftir að borist hafi svar Tryggingastofnunar við framkomnum erindum. Það sé því ljóst að gert sé ráð fyrir því að afgreiðsla stofnunarinnar sé ekki lokið. Sú nálgun kæranda sé ekki í samræmi við þá meginreglu í stjórnsýslurétti að mál geti ekki verið til meðferðar á tveimur stjórnsýslustigum á sama tíma.
Þar sem að niðurfellingarbeiðni og andmæli kæranda séu nú þegar til meðferðar hjá Tryggingastofnun þá liggi ekki fyrir endanleg ákvörðun í málinu, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stofnunin óski því eftir að málinu verði vísað frá úrskurðarnefnd að svo stöddu. Fallist úrskurðarnefnd ekki á þá ósk Tryggingastofnunar áskilji stofnunin sér rétt til þess að skila inn efnislegri greinargerð í málinu.
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. október 2017, segir að í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar með síðari breytingum sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga um tekjuskatt nr. 90/2003 varðandi hvað skuli teljast til tekna. Til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljast tekjur samkvæmt II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað teljist ekki til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum. Í a-lið 2. mgr. 16. gr. sé fjallað um fjármagnstekjur og þá segi: „Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.“
Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.
Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, þá skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem komi fram í skattframtölum.
Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar til að innheimta ofgreiddar bætur og sé sú meginregla ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.
Á árinu 2016 hafi A verið á […] og fengið tengdar greiðslur allt árið. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins hafi leitt til 347.891 kr. ofgreiðslu, að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé sú að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattframtali 2017 vegna tekjuársins 2016 hafi komið í ljós að tekjur A hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur byggist á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega. A hafi fengið senda tillögu að tekjuáætlun þann 11. janúar 2016. Samkvæmt tillögunni hafi verið gert ráð fyrir að hún væri á árinu 2016 með 26.977 kr. í lífeyrissjóðstekjur og sameiginlegar tekjur þeirra hjóna hafi verið 384.616 kr. í vexti og verðbætur. Engar athugasemdir hafi borist vegna þessarar tekjuáætlunar og hafi verið greitt eftir henni allt árið 2016.
Við bótauppgjör ársins 2016 hafi komið í ljós að kærandi hafi verið með 26.575 kr. í lífeyrissjóðstekjur og sameiginlegar tekjur þeirra hjóna hafi verið 521.684 kr. í vexti og verðbætur og 956.472 kr. í leigutekjur. Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2016 hafi verið að A hafi fengið ofgreitt í bótaflokkunum tekjutryggingu, framfærsluuppbót og orlofs- og desemberuppbót.
Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og dómstólum.
Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2016 hafi verið að A hafi fengið greitt 2.394.611 kr. á árinu en hafi átt að fá greiddar 1.839.451 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 347.891 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.
Í kæru sé gerð athugasemd við það að fjármagntekjur C hafi haft áhrif á réttindi A hjá Tryggingastofnun. Eins og hér hafi verið rakið þá sé a-liður 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar alveg skýr með það að ef um hjón sé að ræða skiptist tekjur samkvæmt 1. málslið til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skipti ekki máli hvort hjónanna sé eigandi þeirra eigna sem myndi tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign sé að ræða. Ítrekað hafi reynt á þetta fyrir úrskurðanefnd og hafi þetta verið staðfest í afgreiðslu nefndarinnar. Sem dæmi sé bent á úrskurði nr. 17/2012, 286/2013 og 266/2014.
Með vísun til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun.
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. nóvember 2017, segir að í viðbótargögnum kæranda komi fram sá skilningur að Tryggingastofnun hafi reiknað kæranda allar framtaldar fjármagnstekjur þeirra hjóna en B einungis helming. Hér sé um að ræða misskilning. Í viðbótargögnunum sé vísað til bréfs, dags. 21. júní 2017, með fyrirsögnina „Endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna ársins 2016“ sem hafi verið send A og B í sitt hvoru lagi.
Í sundurliðun tekna A komi fram að sameiginlegar fjármagntekjur þeirra hjóna hafi verið 1.478.156 kr. Í sundurliðun B komi hins vegar fram að sameiginlegar fjármagnstekjur þeirra hjóna hafi verið 739.076 kr. Ástæðan fyrir þessu misræmi sé að A hafi notið greiðslna […] og tengdra greiðslna allt árið 2016 á meðan að B hafi einungis notið þeirra á tímabilinu frá […] 2016. Í báðum tilvikum sé því birt sameiginleg heildartala fyrir þau hjónin eins og fram komi í bréfinu, en þar sem B hafi einungis verið með réttindi í […] þá séu eingöngu birtar sameiginlegar fjármagnstekjur fyrir það tímabil. Einnig sé það þannig að í báðum tilvikunum sé birt heildartala fyrir hjónin en einungis helmingur fjármagnsteknanna hafi áhrif hjá hvoru fyrir sig.
Tryggingastofnun voni að þessu atriði sé nú fullsvarað, en stofnunin hafi ekki áttað sig á þessum misskilningi fyrr en við móttöku þessara viðbótargagna.
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. desember 2017, segir að af viðbótargögnum megi ráða að kæran sé nú tvíþætt. Annars vegar sé verið að kæra endurreikning og uppgjör ársins 2016 og hins vegar synjun Tryggingastofnunar á ósk um niðurfellingu á skuld sem myndast hafði við endurreikning og uppgjör áranna 2015 og 2016.
Fyrri greinargerðir Tryggingastofnunar hafi eingöngu miðast við kæru um endurreikning og uppgjör ársins 2016 og verði því hér farið sérstaklega yfir synjunina á beiðni um niðurfellingu.
Vísað sé til fyrri greinargerðar Tryggingastofnunar varðandi ákvæði laga og reglugerða um forsendur kröfunnar sem hér sé deilt um. Á skýran hátt sé tekið fram í lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar og reglugerð nr. 598/2009 að meginreglan sé að Tryggingastofnun skuli innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 55. gr. laga um almannatryggingar sem sé svohljóðandi: „Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“
Undantekningu frá þessari meginreglu sé að finna í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 varðandi þær kröfur sem myndist við uppgjör tekjutengdra bóta lífeyristrygginga. Þar segi: „Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.”
Sótt hafi verið um niðurfellingu ofgreiðslukröfu, sem myndaðist við endurreikninga og uppgjör greiðslna áranna 2015 og 2016, með erindi, dags. 29. júlí 2017. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 28. september 2017, hafi erindinu verið synjað. Þar hafi komið fram leiðbeiningar um hvernig óska ætti eftir rökstuðningi, sbr. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og kæruheimild.
Með viðbótargögnum kæranda líti Tryggingastofnun svo á að búið sé að kæra synjun stofnunarinnar. Vísað sé til fyrri greinargerða stofnunarinnar þar sem farið sé yfir það hvernig krafan vegna ársins 2016 sé tilkomin.
Krafa vegna tekjuársins 2015 sé tilkomin á sambærilegum forsendum. Á árinu 2015 hafi A verið með […] og tengdar greiðslur allt árið. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins hafi leitt til 346.505 kr. ofgreiðslu, að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast sé að við samkeyrslu við tekjuupplýsingar af skattframtali 2016 vegna tekjuársins 2015, hafi komið í ljós að tekjur A hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur hafi byggst á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega.
A hafi fengið senda tillögu að tekjuáætlun 14. janúar 2015. Samkvæmt tillögunni hafi verið gert ráð fyrir að á árinu 2015 væri hún með 62.220 kr. í lífeyrissjóðstekjur og sameiginlegar tekjur þeirra hjóna hafi verið 168.264 kr. í vexti og verðbætur. Engar athugasemdir hafi borist vegna þessarar tekjuáætlunar og hafi greiðslur ársins verið greiddar á þessum tekjuforsendum. Við bótauppgjör ársins 2015 hafi komið í ljós að A hafi verið með 26.133 kr. í lífeyrissjóðstekjur og sameiginlegar tekjur þeirra hjóna hafi verið 340.710 kr. í vexti og verðbætur og 990.000 kr. í leigutekjur. Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2015 hafi verið að A hafi fengið greitt á árinu 2.238.193 kr. en hafi átt að fá greitt 1.685.554 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu vegna tekjuársins 2015 fjárhæð 346.505 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.
Krafa Tryggingastofnunar vegna tekjuársins 2015 standi í dag í 47.332 kr. en krafa vegna tekjuáranna 2015 og 2016 sé samtals 395.223 kr.
Við afgreiðslu á beiðni um niðurfellingu á kröfu vegna erfiðra fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hafi verið, ásamt fyrirliggjandi gögnum, meðal annars skoðuð ástæða ofgreiðslnanna, upplýsingar frá skattyfirvöldum um tekjur og eignir, að viðbættum þeim upplýsingum sem aflað hafi verið úr tölvukerfi stofnunarinnar um fjárhag og félagslega stöðu.
Í 55. gr. laga um almannatryggingar sé fjallað um innheimtu ofgreiddra bóta. Ákvæðið sé ekki heimildarákvæði um innheimtu heldur sé lögð sú skylda á Tryggingastofnun að innheimta ofgreiddar bætur. Ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé undanþáguheimild og sem slíkt skuli skýra það þröngt. Í þessu ákvæði felist að við ákvörðun um hvort fella eigi niður kröfu eigi að fara fram mat, annars vegar á fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum umsækjanda, með tilliti til getu hans til að endurgreiða skuldina, og hins vegar á því hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn þegar hann hafi tekið við hinum ofgreiddu bótum. Aðstæður þurfi að vera sérstakar svo að undanþáguheimild 11. gr. reglugerðarinnar eigi við. Bæði 55. gr. laga um almannatryggingar og 11. gr. reglugerðarinnar séu skýrar með það að dánarbú falli undir ákvæði laganna.
Umræddar kröfur hafi orðið til við endurreikninga áranna 2015 og 2016. Eins og gögn málsins beri með sér þá sé ljóst að ástæða ofgreiðslnanna hafi verið rangar tekjuáætlanir. Kröfurnar séu réttmætar. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs. Skilyrði reglugerðarinnar um góða trú verði að skoða í ljósi ábyrgðar lífeyrisþega á því að gefa réttar tekjuupplýsingar hverju sinni. Bótaþegi beri skýra ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur hans og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki. Þessi skylda bótaþega eigi ekki bara við þegar tekjuáætlun sé gerð heldur alltaf þegar einstaklingur fái bætur frá Tryggingastofnun.
Skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um góða trú verði meðal annars að skoða í ljósi ábyrgðar lífeyrisþega á því að gefa réttar tekjuupplýsingar hverju sinni. A hafi byrjað á […]greiðslum X 2014. Hún hafi fengið ofgreitt frá Tryggingastofnun vegna áranna 2014, 2015 og 2016 vegna hærri fjármagnstekna en gert hafi verið ráð fyrir í tekjuáætlunum. A hafi átt að vera ljóst hverjar afleiðingar þess væru að vanáætla fjármagnstekjur. Tryggingastofnun telji því ljóst að skilyrði um góða trú sé ekki uppfyllt í málinu. Við mat á fjárhags- og félagslegum aðstæðum A hafi einkum verið horft til þess að fjárhagslegt bolmagn dánarbúsins og erfingja hafi verið verulegt. Skuldir séu óverulegar og eignastaða góð. Það hafi því verið mat Tryggingastofnunar að fjárhags- og félagslegar aðstæður væru ekki nægilega sérstakar að þær uppfylltu undanþáguákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009. Erindi kæranda hafi því verið synjað.
Í viðbótargögnum komi fram að ekki hafi fengist nægilega skýr svör um hvernig réttindi A hafi verið reiknuð út hjá Tryggingastofnun. Stofnunin telji sig hafa útskýrt það nægilega en vilji þó senda með þessari viðbótargreinargerð skjöl sem sýni annars vegar hvernig réttindi A hafi verið reiknuð út miðað við tekjuáætlun árið 2016 og svo hins vegar hvernig þau hafi verið reiknuð út miðað við upplýsingar úr skattframtölum.
Þá komi einnig fram fullyrðing um að umræddar leigutekjur hafi eingöngu verið vegna janúarmánaðar. Tryggingastofnun vilji taka það fram að það hafi ekki áhrif á útreikning réttinda kæranda.
Rétt sé að vekja sérstaka athygli á því að í viðbótargögnunum, dags. 28. nóvember 2017, hafi í fyrsta skipti komið fram beiðni um að felld verði niður krafa sem hafði myndast á hendur B persónulega, við uppgjör tekjuársins 2016. Engin stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin í málinu þar sem beiðni um niðurfellingu hafi borist stofnuninni fyrst með þessum viðbótargögnum. Þegar af þeirri ástæðu beri að vísa þeim hluta málsins frá, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Beiðni þessi verði tekin til afgreiðslu eins fljótt og hægt sé. Þegar sú stjórnvaldsákvörðun liggi fyrir muni hún vera kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Í greinargerð Tryggingastofnun, dags. 27. mars 2018, segir að í viðbótargögnum, dags. 6. mars 2018, setji kærandi fram ýmsar kröfur í fimm liðum, meðal annars vegna endurreiknings greiðslna ársins 2016 hjá honum persónulega.
Kæran varði einungis endurreikning greiðslna til A vegna ársins 2016 og einnig eftirfarandi synjun Tryggingastofnunar á umsókn um niðurfellingu á ofgreiðslukröfu gagnvart henni, samanber kæru, dags. 3. ágúst 2017. Það sé því til umfjöllunar hér. Kærandi blandi öðrum málum saman í rökstuðningi sínum auk athugasemda við vinnubrögð stofnunarinnar. Tryggingastofnun hafi þegar rökstutt afgreiðslu sína í fyrri greinargerðum. Öðrum kröfum og athugasemdum sé vísað á bug. Ítrekaðar séu leiðbeiningar til B um meðferð á endurreikningi hans persónulega.
Þar sem umrætt mál, sem sé einfalt í eðli sínu, sé orðið flókið vegna mikils umfangs bréfa og greinargerða sé til glöggvunar hér farið yfir stöðu málsins út frá sjónarhorni Tryggingastofnunar og helstu atriðum svarað.
1. Framvinda málsins.
Þann 21. júní 2017 hafi A heitinni verið tilkynnt um niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2016. Niðurstaða uppgjörs hafi verið skuld að fjárhæð X kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta.
Þann 29. júlí 2017 hafi Tryggingastofnun borist erindi frá B, f.h. dánarbús A, er lést þann X 2017. Í erindinu hafi verið farið fram á niðurfellingu á framangreindri skuld og ef Tryggingastofnun fallist ekki á niðurfellingu hafi verið óskað eftir rökstuðningi fyrir endurreikningnum. Með bréfi Tryggingastofnar, dags. 3. ágúst 2017, hafi B verið upplýstur um að umsókninni yrði svarað innan átta vikna.
Tryggingastofnun hafi borist kæra þann 29. ágúst 2017 og í kjölfarið óskað eftir frávísun hennar, dags. 5. september 2017, þar sem að umsókn um niðurfellingu væri enn þá til meðferðar hjá stofnuninni og þar sem að sama mál gæti ekki verið til meðferðar á tveimur stjórnsýslustigum. Í greinargerð stofnunarinnar hafi verið útskýrt að þegar að afgreiðslu málsins væri lokið þá væri komin endanleg stjórnvaldsákvörðun og fengi kærandi þá nýjan kærufrest og að hann myndi í engu tapa þeim rétti sínum að bera ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 21. júní 2017, undir úrskurðarnefnd velferðarmála. Það sé í samræmi við það hvernig umsóknir um niðurfellingu séu unnar berist þær innan andmælafrests uppgjörs.
Tryggingastofnun hafi borist 19. september 2017 ósk um efnislega greinargerð frá úrskurðarnefnd velferðmála. Með erindinu hafi fylgt svar kæranda, dags. 15. september 2017, við ósk Tryggingastofnunar um frávísun. Hafi þar verið tekinn af allur vafi um að kærandi hafi litið svo á að endurreikningur Tryggingastofnunar vegna tekjuársins 2016, dags. 21. júní 2017, og möguleg niðurstaða stofnunarinnar varðandi umsókn um niðurfellingu á ofgreiðslukröfu væru aðgreind mál. Kæran varði niðurstöðu endurreiknings og uppgjörs vegna tekjuársins 2016, en niðurstaða stofnunarinnar varðandi umsókn hans um niðurfellingu væri sjálfstætt mál sem yrði kært ef ástæða þætti til. Tryggingastofnun hafi lagt fram efnislega greinargerð í málinu 12. október 2017.
Erindi kæranda um niðurfellingu á ofgreiðslukröfu hafi verið lokið með bréfi, dags. 28. september 2017. Fyrir hendi hafi verið ofgreiðslur vegna áranna 2015 og 2016. Umsókninni hafi verið synjað og leiðbeint hafi verið um rétt til þess að óska eftir rökstuðningi og að kæra ákvörðunina. Þegar samráðsnefnd hafi lokið meðferð málsins þá hafi innheimta ofgreiðslukrafna hafist að nýju.
Tryggingastofnun hafi þann 25. október 2017 borist viðbótargögn í málinu en þar hafi lítið nýtt komið fram varðandi athugasemdir við endurreikning og uppgjör ársins 2016 hjá A heitinni. Í gögnunum hafi komið fram upplýsingar um atriði sem kærandi hafi talið óljós sem hafi falið í sér misskilning sem að Tryggingastofnun hafði ekki áttað sig á. Með greinargerð stofnunarinnar, dags. 17. nóvember 2017, hafi það verið útskýrt. Rétt sé að taka fram að í viðbótargögnum kæranda hafi einnig komið fram að kærandi vilji einnig kæra niðurstöðu samráðsnefndar Tryggingastofnunar um synjun á niðurfellingarbeiðni en Tryggingastofnun hafi ekki brugðist við því í þeirri greinargerð.
Tryggingastofnun hafi borist 29. nóvember 2017 ný viðbótargögn í málinu þar sem aftur hafi komið fram vilji kæranda til þess að kæra niðurstöðu samráðsnefndar um synjun, einnig hafi komið fram vilji til þess að fá fellda niður ofgreiðslukröfu sem hafi myndast gagnvart B persónulega í endurreikningi og uppgjöri, dags. 21. júní 2017. Í greinargerð, dags. 18. desember 2017, hafi Tryggingastofnun farið yfir forsendur þess hvers vegna umsókn um niðurfellingu á ofgreiðslukröfu á hendur dánarbúi A hefði verið synjað. Óskað hafi verið eftir frávísun á þeirri kröfu að fella niður ofgreiðslukröfu á hendur B persónulega þar sem Tryggingastofnun hefði ekki tekið neina ákvörðun í því máli. Samráðsnefnd hafi tekið það mál til meðferðar um leið og óskað hafi verið eftir gögnum frá kæranda 9. janúar 2018.
Tryggingastofnun hafi borist bréf 27. desember 2017 frá kæranda og hafi því verið svarað með bréfi, dags. 26. janúar 2018.
Með erindi, dags. 16. janúar 2018, hafi úrskurðarnefnd velferðarmála framsent Tryggingastofnun tölvupóst frá kæranda með fyrirspurnum þar sem óskað hafi verið eftir að Tryggingastofnun svaraði hluta af þeim. Tryggingastofnun hafi sent nefndinni afrit af svörum sínum til kæranda þann 30. janúar 2018, ásamt bréfi kæranda, dags. 20. desember 2017, og svari stofnunarinnar við því.
Þann 6. mars 2018 hafi úrskurðarnefnd velferðarmála sent Tryggingastofnun gögn frá kæranda, dags. 14. og 19. febrúar 2018. Þessi greinargerð Tryggingastofnunar sé skrifuð vegna þeirra.
2. Atriði í greinargerð kæranda sem rétt sé að svara sérstaklega.
Flest þeirra atriða sem fram komi í viðbótargögnum kæranda hafi Tryggingastofnun svarað áður í greinargerðum. Stofnunin vilji þó taka á nokkrum atriðum sem rétt sé að vekja athygli á.
A: Um meðferð á umsókn kæranda um niðurfellingu, dags. 29. júlí 2017.
Í viðbótargögnum komi fram að kærandi sé ósáttur við að erindi hans, dags. 29. júlí 2017, hafi verið túlkað sem umsókn um niðurfellingu og sé ljóst að kærandi virðist telja óeðlilegt að Tryggingastofnun hafi stofnað til nýs máls þar sem málið væri komið til meðferðar hjá úrskurðarnefnd velferðarmála.
Tryggingastofnun vilji í því samhengi vekja athygli á því að þessi túlkun kæranda á meðferð málsins sé ekki í samræmi við það sem áður hafi komið fram hjá honum. Í bréfi, dags. 15. september 2017, þar sem að kærandi hafi hafnað ósk Tryggingastofnunar um frávísun málsins, segi orðrétt: „Kærandi byggir á því að formkrafa TR sé röng. Málið er til meðferðar á einu stjórnsýslustigi, það er hjá úrskurðarnefndinni, samkvæmt skýrum lagafyrirmælum um kærurétt og kærufrest sem TR leitast í raun við að hafa að engu með bréfi sínu dags. 3. ágúst 2017. Kærð er ákvörðun TR frá 21. júní 2017. Umsókn í bréfi kæranda til TR, dags. 29. júlí 2017 er nýtt mál byggt á nýjum forsendum og upplýsingum. Hvort niðurstaða TR um umsóknina er kæranleg eða ekki kemur í ljós að fenginni afgreiðslu TR á henni.“
Af þessu erindi sé það skýrt og afdráttarlaust að skilningur kæranda sé sá að kæran sjálf varði einvörðungu ákvörðun Tryggingastofnunar frá 21. júní 2017 og að afgreiðsla Tryggingastofnunar á umsókn hans, dags. 29. júlí 2017, væri sjálfstætt mál sem tekin yrði afstaða til þegar þar að kæmi. Eftir þessu hafi málið verið unnið hingað til og það hafi verið mat Tryggingastofnunar að úrskurðarnefnd velferðarmála vinni út frá sömu sjónarmiðum.
Tryggingastofnun hafni því alfarið að hafa stofnað mörg stjórnsýslumál í þessu máli. Aðgreining á milli ákvörðunar Tryggingastofnunar, dags. 21. júní 2017, og umsóknar um niðurfellingu á ofgreiðslukröfu hafi verið að öllu leyti í samræmi við vilja kæranda. Í samræmi við 1. mgr. 29. stjórnsýslulaga hafi innheimta á kröfunum hafi haldið áfram eftir synjun Tryggingastofnunar á umsókn um niðurfellingu. Hvað varði niðurfellingu á kröfu sem hafi myndast gagnvart B við uppgjör tekjuársins 2016, þann 21. júní 2017, þá sé það sjálfstætt mál og sé komið inn á það í 3. hluta greinargerðarinnar.
B: Athugasemdir við rökstuðning vegna synjunar um niðurfellingu.
Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 28. september 2017, hafi umsókn um niðurfellingu verið synjað. Í samræmi við 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hafi niðurstaðan ekki verið sérstaklega rökstudd, en leiðbeint hafi verið um rétt til þess að óska eftir rökstuðningi ásamt kæruheimild. Tryggingastofnun hafi ekki borist neitt beint erindi um rökstuðning fyrir ákvörðuninni fyrr en með bréfi, dags. 20. desember 2017. Áður hafði hins vegar slík ósk komið fram í greinargerðum kæranda, dags. 25. október og 29. nóvember 2017. Í svari stofnunarinnar við bréfi kæranda, dags. 20. desember 2017, hafi verið vísað til þess rökstuðnings sem fram hafi komið í greinargerð Tryggingastofnunar, dags. 18. desember 2017.
Hvað varði ákvörðunina sjálfa þá vilji Tryggingastofnun taka fram að þó að áhrif andláts bótaþega hafi augljóslega veruleg áhrif á eftirlifandi maka þá sé það eitt og sér ekki fullnægjandi til þess að fella eigi niður allar kröfur á hendur dánarbúi. Rétt sé að vísa meðal annars til orðalags ákvæðis 9. og 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009, sem og 55. gr. laga um almannatryggingar, í þeim ákvæðum sé alveg skýrt að gert sé ráð fyrir því að ofgreiddar bætur séu innheimtar hjá dánarbúum.
C: Fjármagnstekjur fyrir og eftir skatt.
Í kæru komi fram að kærandi telji að miða eigi við fjármagnstekjur eftir skatt en ekki fyrir skatt.
Tryggingastofnun miði við tekjuskattstofn lífeyrisþega samkvæmt II. kafla laga um almannatryggingar, að teknu tilliti til þeirra frádráttarliða sem stofnuninni sé heimilt að horfa til. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar séu tilgreind sérstaklega þau ákvæði tekjuskattslaga sem taka skuli tillit til varðandi hvað teljist ekki til tekna og koma skuli til frádráttar tekjum. Líta verði svo á að þar sé um tæmandi talningu að ræða, enda sé ekki vísað til ákvæða laga um tekjuskatt til frádráttar frá tekjum í heild sinni. Til tekna samkvæmt III. kafla laga um almannatryggingar teljast tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.
Tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga sé lagður á samkvæmt 3. mgr. 66. gr. laga um tekjuskatt. Sú skattlagning hafi ekki áhrif á þann tekjuskattstofn sem að Tryggingastofnun beri lögum samkvæmt að miða við.
Þessi framkvæmd Tryggingastofnunar sé í samræmi við þau lög og reglur sem gildi um meðferð fjármagnstekna í lögum um almannatryggingar og einnig í samræmi við þá málvenju, bæði almenna og lagalega, sem almennt gildir um tekjuhugtakið í íslensku.
D: Málskostnaður.
Varðandi kröfu um málskostað þá sé Tryggingastofnun ekki heimilt að greiða slíkan kostnað. Á það hafi reynt hjá úrskurðarnefndinni, samanber fyrri úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála og úrskurðarnefndar almannatrygginga.
3. Niðurfelling á kröfu gagnvart B persónulega.
Með greinargerð, dags. 29. nóvember 2017, komi fram krafa um að ofgreiðslukrafa sem hafi myndast gagnvart B persónulega við uppgjör tekjuársins 2016 yrði felld niður. Sú krafa varði hins vegar sjálfstæða stjórnvaldsákvörðun og geti ekki verið hluti af máli vegna kæranda.
4. Niðurstaða.
Í framhaldi af athugasemdum kæranda við vinnubrögð Tryggingastofnunar hafi stofnunin farið yfir afgreiðslu málsins. Fallist sé á að þar hafi hnökrar orðið sem stofnunin taki til sín og muni lagfæra.
Nefna megi bréf sem hafi verið sent 3. ágúst 2017 hafi verið staðlað bréf sem sent sé við móttöku á umsóknum um niðurfellingar á skuldum. Efnisatriði umsóknar um niðurfellingu hafi falið í sér annars vegar beiðni um niðurfellingu og hins vegar beiðni um rökstuðning vegna uppgjörs og endurreiknings greiðslna ársins 2016 sem fram hafi farið 21. júní 2017. Stofnunin hefði því átt að senda móttökubréf sem sent sé þegar andmæli við uppgjöri séu móttekin. Í þeim bréfum sé meðal annars farið yfir það að niðurstaða afgreiðslu Tryggingastofnunar á andmælum feli í sér endanlega stjórnvaldskvörðun sem hefði meðal annars í för með sér nýjan kærufrest. Réttarstaða kæranda hefði því á engan hátt verið skert þegar hann fengi í hendurnar endanlega ákvörðun Tryggingastofnunar. Þetta hafi verið útskýrt í greinargerð Tryggingastofnunar, dags. 5. september 2017.
Annað sem megi nefna sé að bréf um synjun Tryggingastofnunar á umsókn kæranda um niðurfellingu, dags. 28. september 2017, hafi ekki farið í póst til kæranda fyrr en 12. október sama ár, en þá hafi verið liðinn sá tími sem að kæranda hafi verið tilkynnt um að afgreiðsla á umsókn hans um niðurfellingu á skuld vegna dánarbús A tæki.
Auk þess þá hafi Tryggingastofnun ekki rökstutt synjun sína á umsókn kæranda um niðurfellingu fyrr en eftir að stofnuninni hafi borist viðbótargögn frá kæranda 29. nóvember 2017. Þar sem krafa kæranda um rökstuðning hafi komið fyrst fram með viðbótargögnum kæranda 25. október 2017 þá hefði stofnunin átt að bregðast fyrr við.
Tryggingastofnun telji ekki að þessir hnökrar séu þess eðlis að breyta eigi ákvörðun stofnunarinnar.
IV. Niðurstaða
Upphafleg kæra í máli þessu, dags. 3. ágúst 2017, varðaði ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 21. júní 2017 um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A vegna ársins 2016. Niðurstaða uppgjörs var skuld að fjárhæð 347.891 kr., eins og fram er komið. Þá hafði kærandi í bréfi til Tryggingastofnunar, dags. 29. júlí 2017, farið fram á niðurfellingu skuldarinnar. Með bréfi, dags. 28. september 2017, var kæranda synjað um niðurfellingu endurgreiðslukröfu. Með athugasemdum 25. október 2017 óskaði kærandi eftir endurskoðun á þeirri synjun. Mál þetta lýtur að þessum tveimur ákvörðununum.
A. Frávísunarkrafa Tryggingastofnunar ríkisins
Tryggingastofnun óskaði í upphafi eftir því að kæru yrði vísað frá þar sem kærandi hafði áður farið fram á niðurfellingu endurgreiðslukröfunnar og frekari rökstuðning fyrir endurreikningi og uppgjöri. Frávísunarkrafan var borin undir kæranda og var óskað eftir af hans hálfu að úrskurðarnefndin myndi úrskurða í málinu. Á þessum tíma lá fyrir kæranleg ákvörðun í málinu, þ.e. endurreikningur og uppgjör á tekjutengdum bótum A vegna ársins 2016, enda er beiðni kæranda um niðurfellingu endurgreiðslukröfunnar aðskilið umfjöllunarefni. Þá er réttur kæranda til að fá ákvörðunina endurskoðaða af úrskurðarnefnd velferðarmála skýr, sbr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar og 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, og kærandi hefur lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um þá ákvörðun. Með hliðsjón af framangreindu féllst úrskurðarnefndin ekki á frávísunarkröfu Tryggingastofnunar ríkisins og tók ákvörðunina til efnislegrar endurskoðunar.
B. Krafa um sameiningu kærumála nr. 293/2017 og 151/2018
Undir rekstri málsins fór kærandi fram á að endurgreiðslukrafa Tryggingastofnunar vegna ofgreiddra bóta til B yrði einnig felld niður. Í kjölfarið tók Tryggingastofnun beiðni B til skoðunar og lauk málinu með ákvörðun, dags. 27. mars 2018. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála 18. apríl 2018, sbr. kærumál nr. 151/2018. Kærandi hefur gert kröfu um að það kærumál sem hér er til skoðunar og kærumál nr. 151/2018 verði sameinuð. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal úrskurðarnefndin kveða upp úrskurð svo fljótt sem kostur er og að jafnaði innan þriggja mánaða eftir að henni berst mál nema sérstakar ástæður hamli. Fyrir liggur að gagnaöflun vegna máls nr. 151/2018 er nýlega hafin og því er ljóst að sameining málanna myndi tefja afgreiðslu fyrirliggjandi máls töluvert. Þar sem hinn almenni þriggja mánaða frestur til að kveða upp úrskurð er nú þegar löngu liðinn í því máli sem hér er til skoðunar telur úrskurðarnefndin ekki forsvaranlegt að fresta afgreiðslunni vegna sameiningarinnar, enda er að mati nefndarinnar ekkert því til fyrirstöðu að hægt sé að leysa úr ágreiningi hvors máls um sig sérstaklega. Úrskurðarnefndin felst því ekki á kröfu kæranda um sameiningu málanna en bendir á að hægt er að óska eftir endurupptöku úrskurðar í þessu máli síðar ef niðurstaða máls nr. 151/2018 gefur tilefni til þess.
C. Endurreikningur og uppgjör
Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt. Tryggingastofnun er heimilt, að fengnu samþykki viðkomandi, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðsluþega hjá skattyfirvöldum og fleirum, sbr. 40. gr. laga um almannatryggingar.
Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með undantekningum. Í a-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar er fjallað um tengingu fjármagnstekna við bætur almannatrygginga:
„Tekjur umfram 90.000 kr. á ári skv. C-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, skulu teljast til tekna við útreikning á elli- og örorkulífeyri, örorkustyrk, aldurstengdri örorkuuppbót og tekjutryggingu skv. 17.–19. gr. og 21.–22. gr. þessara laga. Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.“
Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar er meginreglan sú að Tryggingastofnun ber að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. A var […] árin 2015 og 2016 og fékk greiddar tekjutengdar bætur. Tryggingastofnun tilkynnti A um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum ársins 2016 með bréfi, dags. 21. júní 2017. Niðurstaða endurreikningsins var sú að bætur hefðu verið ofgreiddar, samtals að fjárhæð 347.891 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Af gögnum málsins verður ráðið að endurgreiðslukröfuna megi rekja til vanáætlaðra tekna í tekjuætlun A vegna ársins 2016.
Fyrir liggur tekjuáætlun A fyrir árið 2016, dags. 11. janúar 2016, þar sem gert var ráð fyrir 26.977 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 384.616 kr. í fjármagnstekjur. Bætur voru greiddar til A á árinu 2016 á grundvelli þeirrar áætlunar. Samkvæmt upplýsingum úr skattframtali vegna tekjuársins 2016 reyndist A hafa verið með 26.575 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 1.478.156 kr. í sameiginlegar fjármagnstekjur með B. Ágreiningur í máli þessu snýst um meðhöndlun fjármagnstekna.
Fyrir liggur að umræddur tekjustofn hefur áhrif á bótarétt en í áðurnefndri 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með undantekningum. Í II. kafla síðastnefndu laganna er fjallað um skattskyldar tekjur. Þar falla fjármagnstekjur undir 3. tölulið C-liðar 7. gr. laganna.
Í a-lið 2. málsl. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar er fjallað nánar um tengingu fjármagnstekna við bætur almannatrygginga og kemur þar fram að ef um hjón er að ræða skiptast fjármagnstekjur til helminga milli hjóna og skiptir þá ekki máli hvort þeirra er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar. Með hliðsjón af framangreindu ákvæði er ljóst að helmingur samanlagðra fjármagnstekna A og maka hennar, að teknu tilliti til frítekjumarks, skerða bótaréttindi kæranda.
Í kæru eru gerðar þrjár athugasemdir við meðhöndlun Tryggingastofnunar á fjármagnstekjum þeirra hjóna við framangreindan endurreikning. Í fyrsta lagi er gerð sú athugasemd að Tryggingastofnun hafi notast við allar fjármagnstekjur þeirra hjóna við endurreikning og uppgjör ársins 2016 en ekki helming þeirra eins og lög kveða á um. Tryggingastofnun hefur greint frá því að þó svo að allar fjármagnstekjurnar komi fram á bréfum stofnunarinnar hafi einungis helmingur fjármagnstekna þeirra hjóna verið notaður við endurreikninginn og uppgjörið. Úrskurðarnefnd velferðarferðarmála hefur yfirfarið útreikninga Tryggingastofnunar og það er mat nefndarinnar að Tryggingastofnun hafi við endurreikninginn einungis notast við helming þeirra fjármagnstekna sem fram koma á skattframtali A og maka hennar fyrir umrætt ár.
Í öðru lagi er byggt á því að við uppgjörið hafi átt að miða við fjármagnstekjurnar að frádregnum fjármagnstekjuskatti en ekki fyrir skatt. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar eru tilgreind sérstaklega þau ákvæði laga nr. 90/2003 um tekjuskatt sem taka skuli tillit til varðandi hvað ekki teljist til tekna og koma skuli til frádráttar tekjum. Í 1. málsl. 2. mgr. 16. gr. laganna segir svo:
„Til tekna skv. III. kafla laga þessara teljast tekjur skv. II. kafla laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki telst til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.“
Tekjuskattur af fjármagnstekjum einstaklinga er lagður á samkvæmt 3. mgr. 66. gr. tekjuskattslaga. Þar sem ekki er tilgreint í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar að líta skuli til 66. gr. laganna er það mat úrskurðarnefndarinnar að miða skuli við fjármagnstekjur fyrir skatt við endurreikning og uppgjör bóta.
Í þriðja lagi er byggt á því að ákvæði 16. gr. laga um almannatryggingar varðandi meðhöndlun fjármagntekna hjóna brjóti í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar. Það er einungis á færi dómstóla að skera úr um hvort lög brjóti í bága við stjórnarskrána. Úrskurðarnefndin er því ekki bær til umfjöllunar um málsástæður sem byggja á því að lagaákvæði brjóti í bága við stjórnarskrá. Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur því ekki úrskurðarvald um hvort 16. gr. laga um almannatryggingar kunni að brjóta í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
Það er á ábyrgð greiðsluþega sem nýtur tekjutengdra bóta að hafa gætur á því að tekjuáætlun sé rétt og í samræmi við þær tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári, sbr. áðurnefnda 39. gr. laga um almannatryggingar. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur. Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið útreikninga Tryggingastofnunar ríkisins og fellst á að A hafi fengið ofgreiddar bætur að fjárhæð 347.891 kr. á árinu 2016.
Undir rekstri kærumálsins voru gerðar samsvarandi athugasemdir við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2015, það er meðhöndlun Tryggingastofnunar á fjármagnstekjum. Kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar er löngu liðinn en bent er á að sömu sjónarmið eiga við og greint er frá hér að framan varðandi skiptingu fjármagnstekna milli hjóna í 16. gr. laga um almannatryggingar.
D. Krafa um niðurfellingu ofgreiddra bóta
Tryggingastofnun ber lögum samkvæmt að endurreikna bótafjárhæðir bótagreiðsluárs eftir að álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum hefur farið fram, sbr. fyrrgreinda 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Þá er meginreglan sú að stofnuninni ber að innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 55. gr. laganna. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Undantekningu frá þessari meginreglu er að finna í 11. gr. reglugerðarinnar. Ákvæðið hljóðar svo:
„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“
Framangreind 11. gr. reglugerðarinnar heimilar undanþágu frá endurgreiðslukröfu að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Kærandi sótti um niðurfellingu kröfunnar með umsókn, dags. 29. júlí 2017, en Tryggingastofnun synjaði henni með bréfi, dags. 28. september 2017. Í bréfinu segir að krafan sé réttmæt og skilyrði 11. gr. reglugerðarinnar um alveg sérstakar aðstæður séu ekki talin vera fyrir hendi.
Í kæru er meðal annars byggt á því að A hafi ekki verið kunnugt um fjármagnstekjurnar. Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur til þess við mat á því hvort A hafi verið í góðri trú að […] og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins sæta tekjuskerðingu og eru bótaþegar upplýstir um tekjutenginguna við upphaf lífeyristöku. Þá er bótaþegum gert að upplýsa um tekjur sínar á bótagreiðsluári í tekjuáætlun hvers árs. Eins og áður greinir gerir 39. gr. laga um almannatryggingar ráð fyrir að það komi í hlut þess aðila, sem bætur þiggur frá Tryggingastofnun, að upplýsa réttilega um tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári. Þannig hvílir sú ábyrgð á bótaþega að tekjuáætlun sé rétt. Samkvæmt gögnum málsins var A upplýst um þessa skyldu sína. Henni bar því að afla upplýsinga um og tilkynna Tryggingastofnun um fjármagnstekjurnar. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að A hafi því ekki verið í góðri trú um greiðslurétt sinn í skilningi 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009.
Kemur því næst til skoðunar hvort fjárhagslegar og félagslegar aðstæður gefi tilefni til niðurfellingar, en samkvæmt 3. málsl. 11. gr. reglugerðarinnar gildir sama um dánarbú eftir því sem við á. B situr í óskiptu búi samkvæmt 8. gr. erfðalaga nr. 8/1962 og fer því með forræði búsins og ber hann ábyrgð á skuldum hinnar látnu sem um hans eigin skuldir væri að ræða, sbr. 12. gr. sömu laga.
Í kæru kemur meðal annars fram að það hafi verið B mjög erfitt að missa eiginkonu sína til margra ára eftir stutta sjúkralegu. Dánarbú eiginkonu hans hafi ekki átt neinar eignir og hafi B því þurft að lána dánarbúinu fyrir útfararkostnaði og fleira til. Þá er greint frá því að B þurfi að nú að standa einn að rekstri heimilisins.
Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að við mat á því hvort fjárhagslegar og félagslegar aðstæður teljist vera sérstakar aðstæður í skilningi 11. gr. reglugerðar nr. 598/2008 beri að líta heildstætt á aðstæður. Þannig koma ekki einungis til skoðunar eignir og skuldir dánarbús heldur eftir atvikum einnig tekjur erfingja ásamt eignum og skuldum. Eins og komið er að hér að framan þá situr B í óskiptu búi og ber ábyrgð á skuldbindingum búsins sem slíkur samkvæmt 12. gr. erfðalaga. Af gögnum málsins verður ráðið að eignir dánarbúsins séu umtalsverðar og skuldir óverulegar. Úrskurðarnefndin lítur til þess að samkvæmt meginreglu 55. gr. laga um almannatryggingar skal Tryggingastofnun innheimta ofgreiddar bætur og ber að túlka undantekningu frá þeirri meginreglu þröngt samkvæmt almennum lögskýringarreglum. Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki sé tilefni til niðurfellingar endurgreiðslukröfunnar.
E. Krafa um málskostnað
Kærandi óskar greiðslu málskostnaðar vegna reksturs kærumálsins. Það er meginregla íslensks réttar að borgararnir verða sjálfir að bera þann kostnað sem þeir hafa af málarekstri fyrir stjórnvöldum. Sérstök lagaheimild þarf að vera fyrir hendi svo að unnt sé að krefjast greiðslu slíks kostnaðar úr hendi stjórnvalda. Slík heimild er ekki í lögum um almannatryggingar. Þá er ekki að finna ákvæði í lögum nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála sem heimilar greiðslu málskostnaðar.
F. Málsmeðferð Tryggingastofnunar ríkisins
Í kæru eru gerðar miklar athugasemdir við málsmeðferð Tryggingastofnunar ríkisins. Byggt er á því að málsmeðferðin hafi brotið í bága við ýmis ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, meðal annars 7. gr. um leiðbeiningarskyldu, 9. gr. um málshraða, 10. gr. um rannsóknarskyldu, 13. gr. um andmælarétt, 15. gr. um upplýsingarétt og 19. gr. laganna.
Úrskurðarnefnd velferðarmála felst á að fullnægjandi skýringar hafi í sumum tilvikum borist fremur seint frá Tryggingastofnun, líkt og viðurkennt er í greinargerð stofnunarinnar frá 27. mars 2018. Að öðru leyti telur úrskurðarnefndin ekki tilefni til að gera athugasemdir við málsmeðferð stofnunarinnar. Framangreindir vankantar hafa ekki áhrif á niðurstöðu máls þessa.
Með hliðsjón af öllu framangreindu eru ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins, annars vegar endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2016 og hins vegar synjun á beiðni um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta, staðfestar. Kröfu um greiðslu málskostnaðar er hafnað.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2016 og synjun á beiðni um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta, eru staðfestar. Kröfu um greiðslu málskostnaðar er hafnað.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir