Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 668/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 668/2021

Miðvikudaginn 16. mars 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 12. desember 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 8. desember 2021 um fyrirhugaða endurkröfu vegna ofgreiddra bóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. desember 2021, var kæranda tilkynnt um áætlaða kröfu vegna ofgreiddra bóta á árinu 2021 með tilkomu nýrrar tekjuáætlunar frá kæranda.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. desember 2021. Með bréfi, dags. 13. desember 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 31. janúar 2022, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. febrúar 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 1. febrúar 2022 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. febrúar 2022. Með bréfi, dags. 24. febrúar 2022, barst viðbótargreinargerð Tryggingastofnun ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé fyrirhuguð innheimta á ofgreiðslukröfu hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Þann 1. desember 2021 hafi kærandi fengið greiddar bætur frá Lífeyrisjóði B fjögur ár aftur í tímann. Áætlað sé að kærandi fái reglulegar greiðslur frá og með 1. janúar 2022. Tryggingastofnun ætli að rukka kæranda um nánast alla upphæðina vegna ofgreiðslu. Kærandi geti ekki borgað þessa upphæð, enda hafi hann ekkert nema bæturnar. Kærandi hafi greitt upp íþyngjandi skuldir með þessari greiðslu. Kærandi skilji ekki af hverju verið sé að þvinga fólk til að sækja um bætur hjá lífeyrissjóði til þess eins að hirða þær allar aftur. Kærandi vonist til að hægt verði að koma til móts við hann og fella kröfuna niður. Allar tekjuáætlanir hafi hingað til staðist hjá Tryggingastofnun.

Í athugasemdum kæranda frá 1. febrúar 2022 kemur fram að kærandi hafi talið sig vera að gera tekjuáætlun vegna ársins 2022. Kærandi hafi fengið bréf frá Tryggingastofnun þar sem hann hafi verið upplýstur um að tekjuáætlun 2022 verði ekki opnuð fyrr en 10. desember 2021 og því hafi hann í raun verið að breyta tekjuáætlun ársins 2021. Kæranda hafi verið sagt að hafa ekki áhyggjur þar sem þetta yrði skoðað við uppgjör ársins í maí eða júní. Kærandi hafi svo leiðrétt tekjuáætlun ársins 2022 eftir áramótin. Eftir sem áður fari kærandi fram á að þetta verði fellt niður.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram kærð sé fyrirhuguð innheimta á ofgreiðslukröfu, þ.e. áætlaðri ofgreiðslukröfu.

Þann 29. nóvember 2021 hafi kærandi skilað inn nýrri tekjuáætlun þar sem gert hafi verið ráð fyrir 1.144.380 kr. í lífeyrissjóðstekjur árið 2021. Eldri tekjuáætlun hafi ekki gert ráð fyrir neinum lífeyrissjóðstekjum. Kærandi hafi tekið fram í athugasemdum að hann fái eingreiðslu frá lífeyrissjóði 1. desember upp á 4.437.382 kr. fyrir skatt og að hann hafi ekki vitað hvernig ætti að gera grein fyrir þessari greiðslu.

Í bréfi til kæranda, dags. 8. desember 2021, komi fram að bótaréttur ársins hefði verið endurreiknaður á grundvelli nýju tekjuáætlunarinnar, auk þess sem lífeyrissjóðstekjur hafi verið hækkaðar í 4.437.382 kr. fyrir árið 2021. Kærandi hafi einnig verið upplýstur um að mynduð hefði verið svokölluð áætluð krafa að fjárhæð 2.291.469 kr., sem yrði ekki innheimt fyrr en að loknu uppgjöri bótaársins sem áætlað væri að fari fram vorið 2022.

Í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. sé tilgreint hvað teljist til tekna við bótaútreikning. Þá segi í 16. gr. að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins. Bótagreiðsluár sé almanaksár. Áætlun um tekjuupplýsingar skuli byggjast á nýjustu upplýsingum frá þeim aðilum sem getið sé um í 39. og 40. gr. Ef um nýja umsókn um bætur sé að ræða skuli tekjur áætlaðar á grundvelli upplýsinga frá þeim aðilum sem getið sé um í 39. og 40. gr. og sé bótaréttur reiknaður út frá þeim tekjum umsækjanda og eftir atvikum maka hans sem aflað sé frá þeim tíma sem bótaréttur hafi stofnast. Tryggingastofnun ríkisins skuli hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin afli úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda eða frá öðrum þeim aðilum sem getið sé um í 40. gr.

Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt 7. mgr. 16. gr. laganna, sbr. og III. kafla reglugerðar nr. 598/2009.

Tryggingastofnun telji sig ekki geta horft fram hjá upplýsingum í staðgreiðsluskrá við vinnslu tekjuupplýsinga, sbr. meðal annars ákvæði 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Eins og komi fram í kærðri ákvörðun sé umrædd krafa áætluð og muni ekki verða innheimt fyrr en endurreikningur og uppgjör hafi farið fram á tekjuárinu 2021 sem ekki sé hægt lögum samkvæmt að framkvæma fyrr en að lokinni álagningu á þessu ári.

Varðandi beiðni kæranda um niðurfellingu skuli tekið fram að kærandi hafi sent erindi samhljóða þessari kæru til Tryggingastofnunar. Litið hafi verið á þá beiðni sem beiðni um niðurfellingu á ofgreiðslukröfu og verði hún tekin til meðferðar hjá samráðsnefnd Tryggingastofnunar. Þegar sú stjórnvaldsákvörðun liggi fyrir muni hún vera kæranleg til nefndarinnar. Rétt sé þó að vekja athygli á því að beiðnina verði ekki hægt að afgreiða fyrr en að loknu uppgjöri ársins 2021 sem fari fram í maí 2022. Ekki sé hægt að taka ákvörðun um niðurfellingu ofgreiðslukröfu fyrr en ljóst sé hver sú krafa verði endanlega.

Með vísun til framanritaðs telji Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta ákvörðun sinni.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar, dags. 24. febrúar 2022, kemur fram að stofnunin hafi farið yfir viðbótargögn kæranda og sjái ekki ástæðu til sérstakra athugasemda, en vilji ítreka það sem komi fram í fyrri greinargerð að beiðni kæranda um niðurfellingu hafi verið móttekin hjá samráðsnefnd Tryggingastofnunar sem verði tekin til meðferðar þar. Þegar sú stjórnvaldsákvörðun liggi fyrir mun hún vera kæranleg til nefndarinnar.

Að öðru leyti vísi stofnunin til fyrri greinargerðar sinnar í málinu.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um fyrirhugaða endurkröfu vegna ofgreiddra bóta.

Í hinni kærðu ákvörðun frá 8. desember 2021 var kæranda greint frá því að fyrir lægi ofgreiðsla að fjárhæð 2.291.469 kr. Greiðslan yrði ekki innheimt fyrr en að loknu uppgjöri bótaársins sem áætlað væri að færi fram vorið 2022. Ljóst er að um er að ræða bráðabirgðaútreikning miðað við þáverandi tekjuforsendur. Lögum samkvæmt endurreiknar stofnunin bótarétt bótagreiðsluárs eftir að álagning skattyfirvalda vegna þess árs liggur fyrir, sbr. 7. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Þannig getur stofnunin ekki tekið endanlega ákvörðun um endurkröfu og innheimtu ofgreiddra bóta í tilviki kæranda fyrr en eftir að álagning skattyfirvalda vegna tekjuársins 2021 hefur farið fram.

Í 1. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar segir að úrskurðarnefnd velferðarmála leggi úrskurð á mál, rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði eða fjárhæð bóta samkvæmt lögunum. Sama gildir um ágreining um endurkröfurétt, ofgreiðslur og innheimtu þeirra, sbr. 55. gr. laganna. Í 7. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála er kveðið á um málsmeðferð fyrir nefndinni. Í 5. mgr. ákvæðisins er vísað til þess að um málsmeðferð hjá nefndinni að öðru leyti fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá  hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju.

Ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt.“

Samkvæmt framangreindu eru tilteknar stjórnvaldsákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins kæranlegar til úrskurðarnefndar velferðarmála en þær verða þó ekki kærðar fyrr en mál hefur verið til lykta leitt, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar og 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Það er mat úrskurðarnefndar velferðarmála að tilkynning Tryggingastofnunar um áætlaða endurkröfu vegna ofgreiddra bóta vegna ársins 2021 sé ekki endanleg stjórnvaldsákvörðun af hálfu stofnunarinnar

Að framangreindu virtu getur úrskurðarnefnd velferðarmála ekki tekið áætlaða endurkröfu Tryggingastofnunar til endurskoðunar og verður kæru því vísað frá. Úrskurðarnefnd telur hins vegar rétt að benda kæranda á að þegar endanlegur endurreikningur vegna bótagreiðsluársins 2021 liggur fyrir er heimilt að kæra þá niðurstöðu til nefndarinnar, verði kærandi ekki sáttur við þá ákvörðun.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta