Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 100/2012

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 5. júlí 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 100/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með tveimur bréfum, dags. 29. maí 2012, var kæranda, A, annars vegar tilkynnt um að Vinnumálastofnun hafi fjallað um rétt hans til atvinnuleysisbóta og frestað afgreiðslu umsóknar hans. Óskað var eftir því að kærandi legði fram eða vísi í ákvæði þess gildandi kjarasamnings sem launagreiðslur til hans frá B. væru byggðar á og staðfestingu á greiðslum til viðeigandi stéttarfélags. Þá var kærandi upplýstur um að ef umrædd gögn myndu ekki berast innan sjö daga myndi ákvörðun um bótarétt taka mið af reiknuðu endurgjaldi í viðkomandi starfsgrein, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Hins vegar var óskað eftir staðfestu afriti af eyðublaði RSK 5.04 og kærandi upplýstur um að til að hægt væri að taka afstöðu til réttar til atvinnuleysisbóta yrðu gögnin að berast. Kærandi kærði með kæru móttekinni 7. júní 2012 til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Vinnumálastofnun telur að úrskurðarnefndin beri ekki að taka kæruna til efnismeðferðar þar sem ekki hafi verið tekin kæranleg ákvörðun í máli kæranda hjá stofnuninni.

Af hálfu kæranda kemur fram að hann sé með virðisaukaskattsnúmer vegna sauðfjár sem hann eigi og því fái hann ekki atvinnuleysisbætur. Hann hafi þó unnið utan heimilis í 11 ár í hálfu starfi í B og hljóti því að eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Hafi 50% af skattkorti hans verið hjá sýslumanni vegna reiknaðs endurgjalds og tryggingagjalds og 50% hjá B

 

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 18. júní 2012, bendir stofnunin á að ekki hafi verið tekið ákvörðun í máli kæranda sem uppfylli skilyrði 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Með bréfi, dags. 29. maí 2012, hafi Vinnumálastofnun óskað eftir staðfestu eyðublaði Ríkisskattstjóra 5.04 og frá því bréfið var sent hafi mál hans ekki verið tekið til endanlegrar meðferðar og afgreiðslu. Vinnumálastofnun telur með vísan til fyrrgreinds ákvæðis að kæran eigi ekki undir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þar sem ekki sé um ákvörðun í skilningi ákvæðisins að ræða.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar dags. 21. júní 2012, sent afrit af bréfi Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 5. júlí 2012. Með bréfi mótteknu 21. júní 2012 bárust athugasemdir frá kæranda en þar ítrekar hann fyrri sjónarmið sín og kröfur.

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. nóvember 2012, var kærandi upplýstur um að mál hans myndi tefjast hjá nefndinni vegna gríðarlegs málafjölda.

 

 

2.
Niðurstaða

Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er hlutverk úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að kveða upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar. Í 1. mgr. 12. gr. laganna segir að kæra skuli berast skriflega innan þriggja mánaða frá því aðila máls var tilkynnt um ákvörðunina. Í 6. mgr. sama ákvæðis segir að að öðru leyti en því sem fram kemur í lögum um atvinnuleysistryggingar skuli málsmeðferð fara eftir stjórnsýslulögum.

Í bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 18. júní 2012, kemur fram að stofnunin hafi ekki tekið stjórnvaldsákvörðun í máli kæranda.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga er aðila máls heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga segir að ákvörðun sem ekki bindur enda á mál, verði ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt.

Með hliðsjón af því að ekki liggur fyrir kæranleg ákvörðun Vinnumálastofnunar verður að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni. Komi upp ágreiningur þegar fyrir liggur ákvörðun Vinnumálastofnunar um rétt kæranda á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar er sú ákvörðun kæranleg til nefndarinnar.


 

 

Úrskurðarorð

Kæru A sem barst 7. júní 2012 er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta