Mál nr. 102/2012.
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 5. júlí 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 102/2012.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 10. febrúar 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum 6. febrúar 2012 fjallað um umsókn hennar um atvinnuleysisbætur. Umsókn kæranda var hafnað á grundvelli 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem Vinnumálastofnun taldi að kærandi hefði látið hjá líða að tilkynna um áframhaldandi atvinnuleit hér á landi, innan sjö virkra daga, eða frá því atvinnuleit hennar lauk skv. 43. gr. laga um atvinnuleysisbætur eða heimkomudegi, hafi hún komið til landsins áður en tímabilinu lauk. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 8. júní 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að vísa beri kærunni frá, þar sem hún sé of seint fram komin.
Með bréfi, dags. 17. janúar 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnunin hefði fjallað um rétt hennar til atvinnuleysistrygginga og frestað afgreiðslu umsóknar hennar um atvinnuleysisbætur, dags. 30. nóvember 2011. Var óskað eftir því að hún legði fram, innan sjö daga, E-301 vottorð vegna starfstímabila erlendis skv. 47. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þá var tilgreint að umsækjandi skyldi láta tilskilin vottorð um áunninn starfstímabil og tryggingatímabil í öðru aðildarríki fylgja með umsókn um atvinnuleysisbætur skv. 9. gr. sömu laga sem fjallar um umsókn um atvinnuleysisbætur. Kærandi sendi Vinnumálastofnun skýringar í tölvubréfi, dags. 24. janúar 2012, þar sem fram kom að hún gæti ekki orðið við beiðni um E-301 vottorð innan sjö daga. Hún hafi sent inn umsókn til B í Noregi og fengið umsóknareyðublað en ferlið sé þungt og taki langan tíma.
Af hálfu kæranda kemur fram í kæru að áður en hún fór í hlutavinnu til Noregs hafi hún sótt um styrk til Norsk-Islandsk kultursambarbeide vegna verkefnisins og síðar hafi komið í ljós að hún hafi fengið styrkinn. Kærandi hafi ekki talið rétt að sækja um atvinnuleysisbætur þar sem hún hafi verið með þetta verkefni í gangi og af þeirri ástæðu hafi hún ekki skráð sig þegar hún kom til Íslands. Hún hafi ekki fengið upplýsingar þess efnis að henni bæri að skrá sig og þar sem hún var hvorki að sækja um atvinnuleysisbætur né atvinnu hafi henni ekki fundist nein ástæða til þess. Þegar verkefninu lauk hafi hún sótt um atvinnuleysisbætur.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 18. júní 2012, bendir Vinnumálastofnun á að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum í máli kæranda hafi ákvörðun Vinnumálastofnunar verið tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 12. febrúar 2012. Í ljósi þess að kæra til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða sé dagsett 8. júní 2012 telji stofnunin að þriggja mánaða kærufrestur sé liðinn og að vísa beri máli hennar frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. júní 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 5. júlí 2012. Hinn 4. júlí 2012 barst úrskurðarnefndinni tölvubréf frá starfsmanni Vinnumálastofnunar þar sem óskað var eftir því að kæra kæranda yrði tekin til efnismeðferðar þrátt fyrir að kærufrestur hafi verið liðinn. Ástæða þess væri sú að kærandi hafi ekki getað nýtt sér þriggja mánaða kærufrestinn þar sem hún hafi veikst alvarlega og verið á sjúkrahúsi. Meðfylgjandi voru læknisvottorð.
Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 16. júlí 2012, voru kæranda send viðbótargögn sem bárust frá Vinnumálastofnun og veittur frestur til að koma að andmælum fyrir 30. júlí 2012. Ekki bárust frekari athugasemdir frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. nóvember 2012, var kæranda tilkynnt að mál hennar hjá nefndinni myndi tefjast vegna gríðarlegs málafjölda hjá nefndinni.
2.
Niðurstaða
Í máli þessu liggur fyrir að með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 10. febrúar 2012, var kæranda tilkynnt að umsókn hennar um atvinnuleysisbætur væri hafnað á grundvelli 46. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, þar sem Vinnumálastofnun taldi að kærandi hefði látið hjá líða að tilkynna um áframhaldandi atvinnuleit hér á landi, innan sjö virkra daga, eða frá því atvinnuleit hennar lauk skv. 43. gr. laga um atvinnuleysisbætur eða heimkomudegi, hafi hún komið til landsins áður en tímabilinu lauk. Í bréfinu er tilgreint að kærufrestur til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða sé þrír mánuðir, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistrygginga, en í ákvæðinu segir að kæran skuli vera skrifleg og skuli berast innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um hana. Kæra teljist nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn. Kæra kæranda var móttekin 14. júní 2012 eða rúmum fjórum mánuðum eftir að ákvörðun um að synja umsókn hennar var tekin.
Í 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, kemur fram að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða ef veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Í máli þessu liggja fyrir læknisvottorð er staðfesta það að kærandi lá á skurð- og lyflækningadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri dagana 31. mars til 14. apríl 2012 áður en kærufrestur rann út. Þá lá kærandi einnig á sjúkrahúsinu dagana 21. maí til 23. maí 2012 eftir að kærufresturinn rann út. Ens og fram hefur komið er kærufrestur til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða rúmur eða þrír mánuðir frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Kærandi lá á sjúkrahúsi í tvær vikur af þessu tímabili og ekki liggja fyrir upplýsingar um að kærandi hafi verið veik yfir lengra tímabil. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða verður að telja að kærandi hafi þrátt fyrir sjúkralegu sína haft svigrúm innan þriggja mánaða kærufrestsins til þess að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndarinnar. Úrskurðarnefndin telur því að ekki hafi verið afsakanlegt að kæran barst að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.
Úrskurðarorð
Kæru A sem barst 14. júní 2012 er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.
Brynhildur Georgsdóttir,
formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir Helgi Áss Grétarsson