Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 114/2012.

 

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 28. júní 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, í máli nr. 114/2012.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 30. maí 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði fjallað um endurupptökubeiðni kæranda vegna synjunar stofnunarinnar á umsókn hans um atvinnuleysisbætur en þar sem meira en ár væri liðið frá því að mál hans hefði verið afgreitt og engar veigamiklar ástæður hafi verið lagðar fram sem mæli með því að málið verði tekið fyrir að nýju hafi endurupptökubeiðni hans verið hafnað. Vinnumálastofnun tók ákvörðun þessa á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 2. júlí 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun hafi verið rétt.

 

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 22. mars 2009 samhliða 50% hlutastarfi hjá B. Kærandi reiknaðist með 50% bótarétt og átti hann því ekki tilkall til atvinnuleysisbóta samhliða hlutastarfi sínu samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar 28. apríl 2009.

 

Vinnumálastofnun barst beiðni frá kæranda 4. janúar og 14. maí 2012 um endurupptöku. Með bréfi, dags. 30. maí 2012, var kæranda tilkynnt um að beiðni hans um endurupptöku væri hafnað með vísan til 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, þar sem meira en ár væri liðið frá því að mál hans var afgreitt og engar veigamiklar ástæður mæltu með því að málið yrði tekið upp að nýju.

 

Af hálfu kæranda kemur fram að honum hafi verið synjað um endurupptöku og skoðun á aðstæðum sínum. Vísað hafi verið til þess að hann hafi ekki staðfest atvinnuleit sína í maí og júní árið 2009. Kærandi segir þessa fullyrðingu ranga. Það hafi ekki verið fyrr en í ágúst 2009 sem hann hafi hætt að staðfesta atvinnuleit. Kærandi greinir frá því að hann hafi fengið tilkynningu inn á mínar síður hjá Vinnumálastofnun, þar sem honum hafi verið tilkynnt að hann hefði verið afskráður, þar sem hann hafi ekki mætt á einhvern fund. Þegar hann hafi svo mótmælt þessu hafi komið í ljós að Vinnumálastofnun hefði ruglast á kennitölu hans og einhvers annars og í framhaldinu hafi hann verið settur inn í kerfið. Kærandi greinir frá því að hann hafi reynt að fá Vinnumálastofnun til að skoða mál sitt frá því seint á síðasta ári en án árangurs þar til hann hafi fengið synjunarbréf, dags. 30. maí 2012. Kærandi kveðst ekki geta lagt fram hinar ýmsu umsóknir sínar þar sem hann sé ekki með fartölvu og hann hafi ekki prentað út umsóknirnar. Þá greinir kærandi frá því að hann hafi ekki verið í 100% vinnu ári áður en hann sótti um þar sem hann hafi legið á sjúkrastofnun sökum mjög alvarlegs bílslyss. Kærandi fer fram á að fá greiddar atvinnuleysisbætur þau tvö ár sem hann starfaði í 50% starfshlutfalli hjá B

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 31. júlí 2012, er bent á ákvæði 17. gr. laga um atvinnuleysistryggingar samhliða minnkuðu starfshlutfalli en þar sem kærandi hafi gegnt hlutastarfi hjá B hafi ákvæði 17. gr. laganna átt við í hans máli. Kærandi hafi reiknast með 50% bótarétt hjá stofnuninni í samræmi við III. og V. kafla laganna. Mismunurinn af rétti kæranda hefði hann verið atvinnulaus að fullu og þess starfshlutfalls sem hann gegndi hjá B hafi numið 0% og af þeim sökum hafi kærandi ekki átt rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta. Vinnumálastofnun hafi borist beiðnir frá kæranda 4. janúar og 14. maí 2012 um endurupptöku á máli sínu frá 28. apríl 2009 á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

 

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga eigi aðili máls rétt á því að mál verði tekið til meðferðar á ný ef stjórnvaldsákvörðun í því hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik. Tímafresturinn til að bera fram þessa beiðni séu þrír mánuðir frá því ákvörðun málsins var tilkynnt aðila eða frá því að aðila varð kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun var byggð á. Markmiðið með ákvæðinu sé að stuðla að því að mál séu leidd svo fljótt til lykta sem unnt er og telji aðili þörf á endurupptöku máls beri honum að leggja fram beiðni þar að lútandi án ástæðulauss dráttar. Enn fremur sé svo sérstaklega tekið fram í 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga að eftir að eitt ár er liðið frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun sem 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nær til eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun er byggð á verði mál ekki endurupptekið nema fyrir liggi samþykki annarra aðila málsins og veigamiklar ástæður mæli með því.

 

Þá greinir Vinnumálastofnun frá því að beiðni kæranda um endurupptöku á máli hans hafi verið hafnað á grundvelli 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga þar sem ekki hafi verið ráðið af fyrirliggjandi gögnum málsins að veigamiklar ástæður hafi mælt með því að taka þurfi málið aftur til efnislegrar meðferðar hjá stofnuninni. Hafi sérstaklega verið litið til þess langa tíma sem hafi liðið frá því ákvörðun stofnunarinnar var tekin og þar til beiðni um endurupptöku hafi borist eða um þrjú ár.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. ágúst 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 3. september 2012. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 30. ágúst 2012.

 

Í athugasemdum kæranda greinir hann frá því að eflaust sé rétt að hann hafi skertan bótarétt þar sem lög um atvinnuleysistryggingar miði við að einstaklingar starfi samfellt í tólf mánuði áður en sótt sé um atvinnuleysisbætur. Ekki sé hins vegar tekið tillit til þeirra fjölmörgu ára sem einstaklingar hafi unnið áður. Kærandi ítrekar fyrri kröfur.

 

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. nóvember 2012, var kæranda tilkynnt að mál hans hjá nefndinni myndi tefjast vegna gríðarlegs málafjölda hjá nefndinni.

 

 

2.

Niðurstaða

 

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta með umsókn, dags. 22. mars 2009. Vinnumálastofnun hafnaði umsókninni á fundi sem haldinn var í lok apríl 2009. Kærandi hefur lagt fram gögn í málinu sem meðal annars lýsa tölvupóstsamskiptum hans við starfsmenn Vinnumálastofnunar á árinu 2009. Sem dæmi veitir starfsmaður stofnunarinnar kæranda þær upplýsingar í rafpósti, dags. 12. maí 2009, að ástæður synjunar Vinnumálastofnunar séu þær að hann hafi átt áunninn rétt í atvinnuleysistryggingakerfinu sem næmi 43% en hann væri í 50% hlutastarfi. Þrátt fyrir þessar skýringar hélt kærandi áfram að eiga í samskiptum við starfsmenn Vinnumálastofnunarinnar, sem dæmi lét hann efnislega þau ummæli falla í rafpósti, dags. 6. júlí 2009, að hann hafi ákveðið að hætta við það ferli sem hann hóf í mars 2009 og vilji því fá skattkortið sitt sent frá stofnuninni. Þessa ósk sína ítrekar hann með rafpósti, dags. 13. júlí 2009.

 

Kærandi hefur á ný samskipti við Vinnumálastofnun í ársbyrjun 2012 og fer þá fram á að mál hans verði tekið fyrir að nýju, þ.e. að hann hafi átt rétt til greiðslu 50% atvinnuleysisbóta frá og með 22. mars 2009. Vinnumálastofnun synjaði þessari beiðni með bréfi, dags. 30. maí 2012. Þá ákvörðun hefur kærandi kært til úrskurðarnefndarinnar.

 

Hin ákvörðun er reist á að beiðni um endurupptöku hafi komið of seint fram í skilningi 24. gr. stjórnsýslulaga en þar er meðal annars tekið fram að mál verði ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá því að ákvörðun var tekin nema veigamiklar ástæður mæli með því.

 

Beiðni kæranda um að taka mál hans upp barst tæpum þremur árum eftir að Vinnumálastofnun hafði afgreitt það með stjórnvaldsákvörðun. Í 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er ákvæði um endurupptöku stjórnvaldsákvörðunar. Þar segir að í tilteknum tilvikum eigi aðili rétt á endurupptöku máls áður en þrír mánuði voru liðnir frá því að ákvörðun var tekin. Síðan segir:

 
Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

 

Engar veigamiklar ástæður mæla með því að taka skuli upp mál kæranda. Þessi niðurstaða er meðal annars reist á því að atvinnuleitandi getur ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur þegar hann sinnir hlutastarfi sem nemur hærra hlutfalli en ávinnsluréttur hans kveður á um í atvinnuleysistryggingakerfinu.

 

Með vísan til framangreinds og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, er hún staðfest.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 30. maí 2012 um að synja A um að taka upp mál hans er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

            Hulda Rós Rúríksdóttir                                             Helgi Áss Grétarsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta