Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 133/2012.

 

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 28. júní 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 133/2012.

 

1.
Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 26. júlí 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 25. júlí 2012 fjallað um höfnun hans á atvinnutilboði frá Reykjavíkurborg. Vegna höfnunarinnar var bótaréttur kæranda felldur niður frá og með 26. júlí 2012 í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með kæru, dags. 9. ágúst 2012. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 1. apríl 2009 og 14. maí 2012 var ferilskrá kæranda send Reykjavíkurborg. Í kjölfarið hafði Reykjavíkurborg samband við kæranda og bauð honum starf. Þann 25. júní 2012 barst Vinnumálastofnun tölvupóstur frá Reykjavíkurborg þar sem tekið var fram að kærandi hefði hafnað boði um atvinnuviðtal og ekki svarað í símann þegar ítrekað var reynt að bjóða honum í atvinnuviðtal vegna annarra starfa hjá Reykjavíkurborg.

Með bréfi, dags. 25. júní 2012, óskaði Vinnumálastofnun eftir skriflegum skýringum á höfnun kæranda á umræddu atvinnuviðtali hjá Reykjavíkurborg. Skýringarbréf barst frá kæranda með tölvubréfi 13. júlí 2012 þar sem hann gerði grein fyrir sjónarmiðum sínum. Segir í bréfi kæranda að hann hafi ekki talið sig henta í umrætt starf þar sem um hefði verið að ræða unglingastörf í Heiðmörk.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 9. ágúst 2012, krefst kærandi þess að ákvörðun Vinnumálastofnunar verði endurskoðuð. Kærandi tiltekur að hann hafi afþakkað boð um vinnu hjá Reykjavíkurborg en hann hafi áður tekið það fram í viðtali við tvær konur hjá borginni að hann treysti sér ekki í jarðvinnslustörf þar sem að hann hefði enga reynslu af slíkum störfum.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðanefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 27. ágúst 2012, segir að mál þetta varði 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 4. mgr. 57. gr. komi fram heimild Vinnumálastofnunar til að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Tiltekur Vinnumálastofnun að þetta sé eingöngu heimild en ekki skylda og stofnunin fari með mat í þessum efnum. Í greinargerð með lögum um atvinnuleysistryggingar segi nánar um þessa heimild Vinnumálastofnunar að gera megi ráð fyrir að sjaldan reyni á þessa undanþágu enda sé ekki gert ráð fyrir að hinum tryggða verði boðin störf sem hann er ekki fær um að sinna enda hafi hann tekið það fram þegar í upphafi atvinnuleitar.

Kærandi hafi tiltekið í skýringum sínum, dags. 13. júlí 2012, að hann hafi talið að starfið hentaði sér ekki en í kæru sinni tiltekið að hann treysti sér ekki í jarðvinnslustörf. Samkvæmt gögnum Vinnumálastofnunar séu engar upplýsingar um að kærandi hafi tilkynnt um þetta til stofnunarinnar. Vinnumálastofnun bendir jafnframt á að það sé háð mati stofnunarinnar hverju sinni hvort mögulegt sé að taka tillit til slíkra séróska atvinnuleitanda enda liggi engar læknisfræðilegar ástæður fyrir því að kærandi geti ekki tekið að sér jarðvinnslustörf. Kærandi hafi þvert á móti tiltekið í umsókn sinni um atvinnuleysisbætur að hann sé almennt vinnufær. Vinnumálastofnun segir jafnframt að skýrt sé kveðið á um það í h-lið 1. mgr. 14. gr., sbr. 2. mgr. 14. gr., laga um atvinnuleysistryggingar að umsækjanda beri að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi sem og að tilkynna stofnuninni um þær breytingar sem kunni verða á vinnufærni hans án ástæðulausrar tafar.

Niðurstaða Vinnumálastofnunar var því sú að skýringar kæranda á höfnun atvinnutilboðs teldust ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar þar sem engar upplýsingar hafi legið fyrir um skerta vinnufærni kæranda né hafi hann tilkynnt Vinnumálastofnun um skerta vinnufærni sína til jarðvinnslustarfa. Því hafi kæranda verið gert að sæta tveggja mánaða biðtíma fyrir höfnun á atvinnutilboði frá Reykjavíkurborg, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 3. september 2012, sent afrit af gögnum og athugasemdum Vinnumálastofnunar um málið og gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum fyrir 17. september 2012. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

2.
Niðurstaða

Mál þetta lýtur að 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eins og ákvæðið hljóðaði fyrir breytingu með 12. gr. laga nr. 142/2012:

Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Í 4. mgr. 57. gr. er tiltekið að Vinnumálastofnun skuli meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur sé Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði vísvitandi leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.

Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segir meðal annars um 57. gr. að sjaldan muni reyna á þessar undanþágur enda sé ekki gert ráð fyrir að atvinnuleitanda verði boðin störf sem hann sé ekki fær um að sinna enda hafi hann tekið það fram þegar í upphafi atvinnuleitar. Komi slíkar upplýsingar upp fyrst þegar starfið er í boði kann að koma til viðurlaga skv. 59. gr. þar sem hinn tryggði hefði þegar átt að hafa gefið upp allar nauðsynlegar upplýsingar um vinnufærni sína.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal umsækjandi um atvinnuleysisbætur taka fram í umsókn sinni allar þær upplýsingar sem varða vinnufærni hans. Þá skal sá sem fær greiddar atvinnuleysisbætur upplýsa Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur, sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna.

Eitt af skilyrðum fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta er að vera í virkri atvinnuleit, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með virkri atvinnuleit er skv. 14. gr. laganna meðal annars átt við færni til flestra almennra starfa, hafa heilsu til að taka starfi eða taka þátt í virkum vinnumarkaðsaðgerðum, hafa frumkvæði að starfsleit, vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara, vera reiðubúinn til að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laganna ber hinum tryggða skylda til að tilkynna um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.

Í umsókn sinni um atvinnuleysisbætur merkti kærandi við að hann væri almennt vinnufær. Af samskiptasögu Vinnumálastofnunar má sjá að kærandi hafi átt við andleg veikindi að etja og stofnunin hafi aðstoðað hann við að fá þjónustu sálfræðings. Þegar kærandi var boðaður í starfsviðtal hjá Reykjavíkurborg í þeim tilgangi að fá hann til starfa reyndist hann ekki tilbúinn að ganga í þau störf. Á þeim tíma hafði kærandi ekki tilkynnt Vinnumálastofnun um skerta vinnufærni til sambærilegra starfa og þeirra sem honum stóðu til boða hjá Reykjavíkurborg.

Þegar ákvörðun hins tryggða um að hafna umræddu starfi er metin skv. 4. mgr. 57. gr. og til grundvallar eru lagðar skýringar kæranda sem og öll gögn málsins verður ekki séð að ákvörðun kæranda um að hafna umræddu starfi geti með nokkru móti talist réttlætanleg í skilningi ákvæðisins. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða verður þar af leiðandi ekki fallist á að skýringar kæranda réttlæti höfnun hans á umræddu atvinnutilboði með vísan til 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 1. mgr. 9. gr. sömu laga, enda var ekki tekið fram í umsókn um atvinnuleysisbætur að kærandi ætti við skerta vinnufærni að stríða og jafnframt voru engin gögn fyrirliggjandi, þegar Vinnumálastofnun tók ákvörðun í máli þessu, er gáfu til kynna að ekki hefði átt að bjóða kæranda umrætt starf.

Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið og með vísan til röksemda þeirra sem Vinnumálastofnun hefur fært fram í málinu, verður hin kærða ákvörðun staðfest.

 


 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 25. júlí 2012 um niðurfellingu bótaréttar A í tvo mánuði er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                     Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta