Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 177/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 17. maí 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 177/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU15090020

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 22. september 2015, kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. september 2015, um að synja kæranda um hæli á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga nr. 96/2002.

Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að viðurkenna stöðu hans sem flóttamaður og veita honum hæli á Íslandi með vísan til 46. gr. útlendingalaga. Til vara krefst kærandi þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að skoða umsókn kæranda um hæli sem flóttamaður frá heimaríki sínu, [...]

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Samkvæmt gögnum frá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu óskaði kærandi eftir hæli hér á landi þann 18. maí 2015. Þann 7. september 2015 tók Útlendingastofnun ákvörðun um að synja kæranda um hæli sem flóttamanni hér á landi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f útlendingalaga. Kærandi kærði þá ákvörðun við birtingu þann 22. september 2015. Greinargerð kæranda barst kærunefnd þann 30. október 2015.

Hinn 8. mars 2016 kom kærandi fyrir kærunefnd útlendingamála og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 5. mgr. 3. gr. b útlendingalaga. Viðstaddir voru talsmaður kæranda og túlkur.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að í 1. mgr. 46. gr. útlendingalaga segir að flóttamaður skv. 44. gr. sem er hér á landi eða kemur hér að landi á samkvæmt umsókn rétt á að fá hér hæli. Þá segir í a-lið 1. mgr. 46. gr. a að með fyrirvara um ákvæði 45. gr. geti stjórnvöld synjað því að taka til efnismeðferðar umsókn skv. 1. mgr. 46. gr. ef umsækjanda hefur verið veitt hæli í öðru ríki. Í máli þessu liggi fyrir að kæranda hafi verið veitt hæli í Ungverjalandi.

Í ákvörðun stofnunarinnar var tekið fram að í 1. og 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga séu talin upp skilyrði þess að fá hæli sem flóttamaður hér á landi. Í lögskýringargögnum komi fram að heimaland sé það land sem viðkomandi eigi ríkisfang. Í máli þessu hafi verið ljóst að kærandi sé ekki að flýja heimaland sitt [...] heldur Ungverjaland, þar sem kærandi hefur þegar fengið hæli og dvalarleyfi. Því geti kærandi ekki átt rétt á hæli sem flóttamaður vegna aðstæðna sinna í Ungverjalandi þar sem hann hefur stöðu flóttamanns.

Við mat Útlendingastofnunar á því hvort að kærandi gæti átt rétt á dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða var byggt á því að það hafi verið mat stofnunarinnar að aðalástæða flótta kæranda hafi verið af efnahagslegum toga og að hann óttist um öryggi sitt. Í Ungverjalandi séu hins vegar engin viðvarandi mannréttindabrot og að íbúar landsins geti fengið vernd gegn ofbeldisbrotum og glæpum með aðstoð lögreglu og annarra yfirvalda. Þá taki ákvæðið ekki til neyðar af efnahagslegum rótum eða vegna húsnæðisskorts.

Jafnframt tók stofnunin fram að kærandi hafi haldið því fram að hann gæti ekki nýtt sér svokallað aðlögunarsamkomulag vegna þess að hann hafi ekki sótt um á réttum tíma. Það að kærandi hafi ekki leitast eftir þeirri þjónustu sem honum hafi staðið til boða fyrr en eftir að umsóknarfrestur hans hafi runnið út geri það ekki að verkum að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar er einnig vísað til úrlausnar Mannréttindadómstóls Evrópu í máli nr. 27725/10, Samsam Mohammed Hussein og fl. gegn Hollandi og Ítalíu, frá 2. apríl 2013, en í því máli var kærandi einstæð móðir með börn. Í úrlausn dómsins hafi komið fram að 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu legði ekki skyldu á aðildarríki að sjá öllum sem dveldu innan lögsögu þeirra fyrir heimili og ekki almenna skyldu á aðildarríki til að veita viðurkenndum flóttamönnum fjárhagsaðstoð í því skyni að gera þeim kleift að viðhalda tilteknum lífskjörum.

Komst stofnunin því að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 44. gr. útlendingalaga og að endursending kæranda til Ungverjalands fæli ekki í sér brot gegn 1. mgr. 45. gr. útlendingalaga. Þá var kæranda einnig synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 12. gr. f útlendingalaga, vegna aðstæðna sinna í Ungverjalandi..

Kæranda var vísað frá landi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 18. gr. útlendingalaga og var réttaráhrifum ekki frestað með vísan til c-liðar 1. mgr. 32. gr sömu laga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir mál sitt á því að þar sem hann hafi fengið stöðu sína sem flóttamaður viðurkennda í Ungverjalandi sé hann því flóttamaður í skilningi 44. gr. laga um útlendinga og beri íslenskum stjórnvöldum að viðurkenna hana hér á landi. Jafnframt byggir kærandi mál sitt á því að þrátt fyrir að hann hafi hlotið hæli í Ungverjalandi séu aðstæður og aðbúnaður fyrir hann þar í landi svo slæmar að þær teljist sem ómannúðleg og vanvirðandi meðferð í skilningi 45. gr. útlendingalaga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Í greinargerð sinni bendir kærandi á umræðudrög frá ECRE (e. European Council on Refugees and Exiles) þar sem lagt er til að tekin verði upp gagnkvæm viðurkenning hælisveitinga á meðal aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins. Kærandi byggir á því að hann hafi þegar hlotið viðurkenningu á réttarstöðu sinni sem flóttamaður og eigi hann því einnig rétt á hæli á Íslandi með vísan til 46. gr. laga um útlendinga. Umsókn kæranda hafi þegar verið tekin til efnismeðferðar, samkvæmt fyrirmælum kærunefndar útlendingamála, og komi ákvæði 46. gr. a laganna því ekki til skoðunar í málinu.

Þá vísar kærandi til þess að samkvæmt heimasíðu ungversku Útlendingastofnunarinnar megi ráða að einstaklingur sem hlotið hefur vernd í Ungverjalandi eigi rétt á reglulegum stuðningi mánaðarlega frá stjórnvöldum þar til aðlögunarsamkomulag hefur verið gert en þó ekki lengur en í sex mánuði. Telur kærandi þetta ekki vera í fullu samræmi við þær upplýsingar sem Útlendingastofnun hefur byggt á þar sem segir að samningsaðili njóti fjárhagsstuðnings í allt að tvö ár frá því að hann fékk dvalarleyfi. Kærandi kveður að slíkur samningur hafi aldrei verið kynntur honum og því hafi hann aldrei haft tækifæri á að gera umræddan samning. Þá byggir kærandi einnig á skýrslu mannréttindastjóra Evrópuráðsins er fjallar um heimsókn hans til Ungverjalands í júlí 2014 ásamt skýrslu frá Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna frá apríl 2012.

Kærandi greinir frá því að verulegir annmarkar séu í tengslum við aðlögun flóttamanna og annarra með alþjóðlega vernd að ungversku samfélagi. Atvinnuleysi sé hátt í Ungverjalandi og erfitt sé fyrir flóttafólk að fá atvinnu. Algengt sé að flóttafólk verði fyrir mismunun, kynþáttahatri og áreiti. Þá séu í gildi lög í landinu sem geri það refsivert að sofa utandyra að nóttu til á opnum svæðum og eru refsingarnar fangelsi eða sektir. Þá hafi þýsk stjórnvöld stöðvað fjölda endursendinga einstaklinga með viðbótarvernd í Ungverjalandi sem höfðu sótt um hæli í Þýskalandi.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Afmörkun úrlausnarefnis

Útlendingastofnun lagði þann skilning í hælisumsókn kæranda að hann væri að sækja um hæli frá Ungverjalandi, því ríki sem þegar hafði veitt honum vernd. Í greinargerð kæranda til kærunefndar telur kærandi hins vegar að viðurkenna eigi réttarstöðu hans sem flóttamanns hér á landi og veita honum hæli á Íslandi með vísan til 46. gr. laga um útlendinga. Jafnframt telur kærandi að endursending hans til Ungverjalands brjóti gegn 45. gr. laga um útlendinga og því sé óheimilt að beita a- eða b-lið 1. mgr. 46. gr. laganna og synja kæranda um efnismeðferð á hælisumsókn sinni frá heimaríki sínu. Því skuli taka umsókn hans til efnismeðferðar líkt og kærandi sé að sækja um hæli frá heimaríki sínu, [...]

Kærunefnd telur að kærandi sé fyrst og fremst að sækja um hæli frá heimaríki sínu [...]Málsástæður hans gefa þó einnig til kynna að hann sé að sækja um hæli frá Ungverjalandi, því ríki sem þegar hefur veitt honum vernd. Tekur neðangreind umfjöllun mið af því.

Lagarammi

Í máli þessu gilda ákvæði laga nr. 96/2002 um útlendinga, með síðari breytingum, reglugerð nr. 53/2003 um útlendinga, með áorðnum breytingum, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951 ásamt viðauka við samninginn frá 1967 og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi framvísað ferðaskilríkjum útgefnum af ungverskum yfirvöldum og ungversku dvalarleyfiskorti. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi hafi sannað hver hann er með fullnægjandi hætti.

Mat á því hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu

Við meðferð máls er litið til þess hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem geti haft áhrif á niðurstöðu máls hans. Með því getur verið átt við hvort kærandi hafi mátt þola pyndingar, hvort kærandi sé barn eða hvort umsókn hans varði börn hans, hvort kynhneigð eða kynferði kæranda geti haft áhrif eða hvort kærandi geti verið ríkisfangslaus. Mat á stöðu kæranda fer ávallt fram og eru þau atriði sem koma til skoðunar ekki tæmandi.

Kærunefndin telur ekkert í gögnum málsins benda til þess að kærandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu.

Umsókn um hæli frá heimaríki. Ákvæði 45. og 46. gr. a laga um útlendinga

Í 1. mgr. 46. gr. laga um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 44. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, á samkvæmt umsókn rétt á að fá hér hæli frá heimalandi sínu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Stjórnvöld geta þó, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 46. gr. a, og með fyrirvara um ákvæði 45. gr., synjað því að taka til efnismeðferðar umsókn á grundvelli 46. gr. laganna ef umsækjanda hefur verið veitt hæli í öðru ríki.

Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga um útlendinga má ekki senda útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir sem gætu leitt til þess að hann skuli teljast flóttamaður eða ef ekki er tryggt að hann verði ekki sendur til slíks svæðis. Samsvarandi verndar skal útlendingur njóta sem vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð.

Útlendingastofnun fjallaði um mál kæranda eins og hann væri einungis að sækja um hæli frá Ungverjalandi. Kærunefnd telur að þrátt fyrir að megin málsástæður kæranda lúti að aðstæðum hans í Ungverjalandi hafi Útlendingastofnun einnig borið að fjalla um mál kæranda sem umsókn um hæli frá heimaríki hans. Í ákvörðun sinni fjallar Útlendingastofun hvorki efnislega um hæli né um hvort synja eigi umsókn kæranda um efnismeðferð með vísan til 46. gr. a útlendingalaga. Kærunefnd telur að með þessu hafi kærandi ekki fengið fulla og rétta umfjöllun á fyrsta stjórnsýslustigi um atriði sem kunna að hafa veigamikla þýðingu í máli hans. Ljóst er að meginmarkmiðið með kæruheimildum er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Því er það niðurstaða kærunefndar að fella skuli úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar og að stofnuninni skuli gert að taka mál kæranda til löglegrar meðferðar.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er ákvörðun Útlendingastofnunar felld úr gildi og lagt er fyrir stofnunina að taka málið að nýju til meðferðar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 33. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá því að beiðni um það er synjað. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því ákvörðun var tekin.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi.
Lagt er fyrir stofnuna að taka mál kæranda fyrir að nýju.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated.
The Directorate is instructed to reaxmine the appelantˈs case.

Pétur Dam Leifsson, varaformaður Vigdís Þóra Sigfúsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta