Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 697/2021-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 697/2021

Miðvikudaginn 23. nóvember 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 21. desember 2021, kærði B, fyrir hönd A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. september 2021 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2020 og skort á endurreikningi og uppgjöri ársins 2019.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árunum 2019 og 2020. Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2020 var sú að kærandi ætti inneign að fjárhæð X kr. sem yrði ráðstafað að hluta til lækkunar á eldri skuld. Kæranda var tilkynnt um framangreinda inneign með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. september 2021.

Eftir að kærandi lagði inn kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála endurreiknaði Tryggingastofnun búsetuhlutfall kæranda og náði sú leiðrétting með afturvirkni til 1. ágúst 2019, eða frá þeim tíma sem kærandi byrjaði að fá greiðslur frá stofnuninni. Með ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 16. febrúar 2022, fór búsetuhlutfall kæranda úr því að vera 51,61% í 75,18%. Í kjölfar leiðréttingar á búsetuhlutfalli fór fram leiðrétting á endurreikningi og uppgjöri hjá kæranda vegna tekjutengdra greiðslna fyrir árin 2019 og 2020. Með ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 3. febrúar 2022, var kæranda tilkynnt að niðurstaða á endurreikningi fyrir árið 2020 hafi leitt í ljós inneign að upphæð X kr. og að þeirri fjárhæð hafi verið ráðstafað að hluta til lækkunar á eldri skuld. Með ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 11. febrúar 2022, var kæranda tilkynnt að niðurstaða á endurreikningi fyrir árið 2019 hafi leitt í ljós inneign að fjárhæð X kr.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. desember 2021. Með bréfi, dags. 27. janúar 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 18. febrúar 2022, tilkynnti Tryggingastofnun að nýr útreikningur hefði farið fram og óskaði eftir að málið yrði fellt niður. Með bréfi, dags. 21. febrúar 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til bréfs Tryggingastofnunar. Umboðsmaður kæranda mótmælti niðurfellingu málsins með bréfi, dags. 15. mars 2022. Úrskurðarnefndin óskaði eftir efnislegri greinargerð frá Tryggingastofnun með bréfi, dags. 24. mars 2023. Með bréfi, dags. 8. apríl 2022, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. apríl 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 8. júní 2022 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 9. júní 2022. Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun 24. júní 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. júní 2022. Frekari efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru er greint frá því að kærður sé endurreikningur og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum greiðslum vegna ársins 2020, skortur á endurreikningi og uppgjöri vegna ársins 2019, verklag og rangar forsendur Tryggingastofnunar vegna áranna 2019 og 2020. Enn fremur sé kærð óviðunandi rannsóknar-, leiðbeiningar- og upplýsingaskylda Tryggingastofnunar ríkisins.

Kærandi sé búsett í Noregi og réttindi hennar hjá Tryggingastofnun séu 51,61% frá 1. ágúst 2019. Það sé grundvallaratriði að réttindi hennar í Noregi séu örorkulífeyrir, grunnlífeyrir, á grundvelli búsetu. Tryggingastofnun þurfi að leiðrétta og koma á framfæri hið fyrsta leiðréttum endurreikning og uppgjöri örorkulífeyris og tekjutengdra greiðslna vegna 2020. Einnig þurfi stofnunin að skila endurreikningi og uppgjöri vegna 2019 eins og mælt sé fyrir um í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Enn fremur þurfi Tryggingastofnun að gera grein fyrir innheimtubréfi, dags. 9. febrúar 2021. Forsendur kröfu skorti alveg. Tryggingastofnun þurfi að skýra verklag og rangar forsendur sem stofnunin gefi sér fyrir bæði árin, þ.e. 2019 og 2020. Leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu stofnunarinnar sé ábótavant og óviðunandi.

Greiðslur í Noregi vegna ársins 2020 séu skráðar erlendar lífeyrissjóðsgreiðslur sem eigi ekki við nein rök að styðjast. Þar skorti allar upplýsingar og útreikningur sé óljós og hvaða forsendur Tryggingastofnun gefi sér til að skerða greiðslur. Tekjur kæranda í Noregi vegna ársins 2020 séu örorkulífeyrir, grunnlífeyrir, þ.e. upphæð sem eigi ekki að skerða 51,61% réttindi kæranda hjá Tryggingastofnun. Einnig sé skuldfærð á uppgjöri vegna ársins 2020 greiðsla inn á eldri skuld, að fjárhæð X kr. Ekkert komi fram um á hvaða forsendum sú krafa sé byggð.

Það skuli tekið fram að Tryggingastofnun hafi sent kæranda eyðublað þann 12. mars 2020 til að skrá áætlaðar tekjur. Þar hafi verið einn liður merktur: „Pension“ (lífeyrir). Þar hafi hún skráð áætlaðar tekjur frá NAV vegna ársins 2020, X NOK. Hún hafi undirstrikað þar: „Invalidepension“ (örorkulífeyrir, grunnlífeyrir). Það skuli áréttað að kærandi hafi komið öllum umbeðnum gögnum og upplýsingum á framfæri við Tryggingastofnun þann 6. júní 2020 samkvæmt beiðni. Þar hafi meðal annars greiðsluseðill frá NAV vegna maímánaðar 2020, sem tekjuáætlun hennar byggi á, þ.e. X kr. á mánuði, verið margfaldaður með tólf mánuðum, samtals X NOK.

Í ljós hafi komið þegar kærandi hafi fengið aðgang að gögnum sínum á Mínum síðum hjá Tryggingastofnun í apríl 2021 að Tryggingastofnun hafi skráð áætlaðar tekjur í lið 2: „Pension“ (erlendur lífeyrir/íslenskur lífeyrissjóður) í tekjuáætlun. Þá hafi stofnunin tvöfaldað uppgefna tekjuáætlun 2020 og skráð tekjur X NOK. Tryggingastofnun hafi jafnframt valið, í stað þess að skrá upphæðina rétt í lið 5: „Grunnpensjon/garantipension“ (grunnlífeyrir) að skrá upphæðina sem lífeyrissjóð í lið 2. Þannig hafi Tryggingastofnun brugðist skjólstæðingi sínum og breytt innsendum forsendum í fjórgang.

Árstekjur kæranda samkvæmt skattframtali frá Noregi vegna 2020 hafi verið X NOK. Kærandi og umboðsmaður kæranda hafi komið rangfærslum Tryggingastofnunar á framfæri, þ.e. að tekjuáætlun 2020 sem útfyllt hafi verið af Tryggingastofnun væri röng og upphæðin tvöfölduð og að greiðslur NAV séu örorkulífeyrir ekki lífeyrissjóður. Því hafi ekki verið sinnt og ekki leiðrétt. Kærandi krefjist þess að Tryggingastofnun leiðrétti uppgjör sitt frá 17. september 2021 þannig að örorkulífeyrir, grunnlífeyrir frá NAV skerði ekki greiðslur Tryggingastofnunar. Kærandi leggi jafnframt fram þá kröfu að stofnunin komi með haldgóðar skýringar á því hvernig áðurnefnd mistök og rangfærslur hafi orðið til innan Tryggingastofnunar og hvaða starfsmenn hafi séð um það verklag og framkvæmd.

Tryggingastofnun hafi ekki skilað endurreikningi og uppgjöri á tekjutengdum greiðslum vegna ársins 2019 sem beðið hafi verið eftir. Það sé hér með kært til úrskurðanefndar velferðarmála og þess krafist að Tryggingastofnun skili uppgjöri vegna 2019 eins og mælt sé fyrir um í lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Það skuli áréttað að örorkumat kæranda hafi legið fyrir þann 1. ágúst 2019 í Noregi og réttindi hjá Tryggingastofnun ríkisins hafi tekið gildi frá sama tíma. Kærandi hafi sent allar upplýsingar um örorkubætur frá NAV í Noregi vegna ársins 2019 til Tryggingastofnunar þann 6. júní 2020 samkvæmt beiðni stofnunarinnar. Einnig skuli áréttað að kærandi hafi ekki verið beðin um að skrá upplýsingar í tekjuáætlun ársins 2019 þar sem skattframtali 2019 hafi verið skilað til Tryggingastofnunar. Það hafi því legið beint við að Tryggingastofnun gerði strax upp greiðslur ársins 2019. Það veki upp áleitnar spurningar hvernig Tryggingastofnun skrái innsendar upplýsingar frá norskum yfirvöldum, þ.e. skattskýrslu og launaseðli frá NAV vegna 2019. Tryggingastofnun skrái örorkulífeyri (uføretrygd) frá NAV 1. ágúst 2019 til 31. desember 2019 X NOK í tekjuáætlun 2019 og skrái sem lífeyrissjóð í lið 2: „Pension“ (erlendur lífeyrir/íslenskur lífeyrissjóður). Þar gangi Tryggingastofnun fram hjá lið 5: „Grunnpensjon/ garantipension“ (grunnlífeyrir) en það eigi að skrá þessar greiðslur í lið 5.1 „invalidepension“ (örorkulífeyrir, grunnlífeyrir). Hér gangi Tryggingastofnun fram með sama hætti og vegna tekna ársins 2020 og skrái örorkulífeyri frá NAV í tekjuáætlun sem lífeyrissjóð í stað þess að skrá tekjuupplýsingar í lið 5, þ.e. grunnlífeyri.

Þá skuli áréttað sérstaklega að tekjur fyrir örorkumat 1. ágúst 2019 komi þessu uppgjöri ekkert við, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Það sé spurning hvers vegna Tryggingastofnun taki upplýsingar úr skattakýrslu og launaseðli í Noregi 2019 sem greitt sé fyrir örorkumat, þ.e. tímabilið 1. janúar 2019 til 31. júlí 2019, og skrái þær upplýsingar í tekjuáætlun 2019. Tryggingastofnun hækki þá upphæð, X NOK um X NOK og skrái í tekjuáætlun X NOK, í lið 3: „Andre indtækter“ (aðrar tekjur). Ekki sé ljóst hvaða tilgangi það þjóni. Þess sé krafist að Tryggingastofnun skili uppgjöri vegna 2019 eins og mælt sé fyrir um í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Þar skuli einnig sýna hvaða reikniaðferðum og skerðingum sé beitt við uppgjör. Einnig hvaða starfsmenn hafi séð um uppgjör vegna ársins 2019.

Þegar aðgengi hafi fengist að gögnum kæranda hjá Tryggingastofnun á Mínum síðum hafi fleira komið í ljós. Kærandi kalli einnig eftir skýringum á greiðsluskjali inni á Mínum síðum, dags. 1. febrúar 2021, er lúti að innborgun á kröfu. Þann 2. febrúar 2021 sé annað greiðsluskjal sett inn vegna fyrirframgreiðslu. Þann 9. febrúar 2021 sé innheimtubréf frá Tryggingastofnun sett inn á Mínar síður. Kærandi spyrji hvaða kröfu sé verið að skuldfæra þar.

Leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu Tryggingastofnunar sé ábótavant og á hana skorti, sbr. 37., 38. og 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Tryggingastofnun hafi greitt X kr. vegna ársins 2019 en kærandi telji að réttindi hennar séu umtalsvert hærri. Tryggingastofnun hafi fyrst greitt X kr. og síðan X kr. vegna ársins 2020. Samtals hafi Tryggingastofnun greitt X kr. en kærandi telji að réttindi hennar séu umtalsvert hærri.

Kærandi hafi orðið fyrir slysi á vinnustað í I í x 20xx. Hún hafi gengist undir x aðgerðir á árunum 20xx til 20xx og hafi verið í stöðugri endurhæfingu til 20xx. Á þeim tíma hafi hún verið á endurhæfingarlífeyri (Arbeidsavklaringspenger) og hafi ekki haft neinar aðrar greiðslur frá 2013 þar til örorkumat hafi legið fyrir. Örorkumat hafi verið afgreitt hjá NAV […] þann 1. ágúst 2019, þ.e. 100% örorka. Rétt sé að ítreka að hún hafi ekki haft neinar lífeyrissjóðsgreiðslur eða launatekjur frá 1. ágúst 2019, aðeins örorkulífeyri frá NAV, grunnlífeyri, sem greiddur sé á grundvelli búsetu í Noregi. Það sé grundvallaratriði.

Kærandi gerir athugasemdir við að hún hafi ekki fengið send nein skjöl með fyrstu greiðslu frá Tryggingastofnun 28. júlí 2020. Hún hafi ítrekað óskað eftir að gögnin yrðu send henni en hafi ekki fengið aðgang að Mínum síðum fyrir en um miðjan apríl 2021.

Kærandi telji ámælisvert, miðað við forsendur og innsend gögn, að Tryggingastofnun leyfi sér að segja í bréfi, dags. 24. júlí 2020: „Greiðslur þessa árs byggja á tekjuupplýsingum frá þér og verða samkvæmt meðfylgjandi yfirliti.“ Ljóst megi vera að með þessari framsetningu séu erlend mál Tryggingastofnunar að setja ábyrgðina á kæranda, að upphæð lífeyrisjóðsgreiðslna sem Tryggingastofnun búi til í greiðsluáætlun 2020 séu komnar frá henni. Tryggingastofnun segi: „Það er á ábyrgð greiðsluþega að ofangreindar upplýsingar séu réttar.“ Tryggingastofnun ríkisins þurfi að upplýsa á hvaða forsendum slíkt sé gert og ranglega sagt.

Það veki einnig athygli að í þessu bréfi sé ekki minnst á réttindi og greiðslur. Þar skorti algerlega á, bæði upplýsinga- og leiðbeiningarskyldu Tryggingastofnunar, að útskýra réttindi, greiðsluflokka og upphæðir sem kærandi eigi rétt á og ef lífeyrisgreiðslur skerðist, á hvaða forsendum það sé gert. Það sé grundvallaratriði til að Tryggingastofnun uppfylli skyldur sínar samkvæmt 37., 38., og 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Rannsóknarskylda Tryggingastofnunar bregðist algjörlega. Það hljóti að vera lágmarksskylda stofnunarinnar að hafa samband ef eitthvað sé óljóst. Kærandi hafi komið því strax á framfæri við erlend mál Tryggingastofnunar þegar aðgangur hafi fengist að gögnum og mistökin komið í ljós að stofnunin yrði að leiðrétta þessar rangfærslur hið fyrsta. Kærandi hafi sagt tekjuáætlun Tryggingastofnunar 2020 alranga og upplýsingarnar ekki komnar frá kæranda. Hún hafi vísað í tekjuáætlun sína sem hafi verið innsend til Tryggingastofnunar og borið með sér rúmlega helmingi lægri upphæð. Í skjali frá henni hafi komið skýrt fram að greiðslur NAV væru örorkulífeyrir, grunnlífeyrir en ekki lífeyrissjóðsgreiðslur. Kærandi hafi beðið um að málið yrði tekið upp og leiðrétt hið fyrsta. Kærandi telji ljóst að hér sé um alger mistök að ræða og beinar rangfærslur. Engar upplýsingar hafi komið fram um hvernig erlend mál Tryggingastofnunar hafi fengið þá niðurstöðu að réttindi kæranda væru X kr. á mánuði. Sú niðurstaða passi ekki við upplýsingar sem kærandi hafi gefið upp og staðfestar séu með opinberum gögnum frá Noregi.

Kærandi gerir athugasemdir við að starfsmaður Tryggingastofnunar í erlendum málum hafi ekki getað svarað spurningum hennar þegar hún hafi farið til stofnunarinnar 7. maí 2021.

Kærandi leggi fram kröfu um leiðréttingu á örorkulífeyri og tengdum greiðslum vegna áranna 2019 og 2020. Til að fá full réttindi örorku hjá NAV í Noregi og Tryggingastofnun ríkisins þurfi fólk að hafa búið í 40 ár á aldrinum 16–67 ára. Þeir sem hafi búið í skemmri tíma í báðum löndunum fái örorkulífeyri greiddan á grundvelli og í hlutfalli búsetu. Bæði á Íslandi og í Noregi sé rekstur tryggingastofnana og lífeyrisgreiðslur til öryrkja, fjármagnaður með sköttum vinnandi fólks.

Kærandi hafi 51,61% réttindi á Íslandi til örorkubóta og tengdra greiðslna. Þá sé rökrétt að ætla að Tryggingastofnun geti að hámarki notað 51,61% af vöxtum í Noregi til að skerða 51,61% greiðslur örorku á Íslandi. Það segi sig sjálft að það sé ekki hægt að nota upphæð vaxta 100% til að skerða örorkulífeyri og tengdar greiðslur á Íslandi og jafnframt að nota sömu vexti 100% til að skerða örorkulífeyri í Noregi. Ekki sé hægt að nýta upphæð vaxta í Noregi tvisvar sinnum, þ.e. 200%, til að skerða 100% greiðslur vegna örorku.

Hér skuli ítreka að greiðslur í Noregi árið 2020 séu skráðar erlendar lífeyrissjóðsgreiðslur hjá Tryggingastofnun sem eigi ekki við nein rök að styðjast. Allar upplýsingar skorti, útreikningur sé óljós sem og hvaða forsendur Tryggingastofnun gefi sér til að skerða greiðslur. Árstekjur kæranda í Noregi 2020 séu örorkulífeyrir, grunnlífeyrir, upphæð sem eigi ekki að skerða 51,61% réttindi hennar hjá Tryggingastofnun. Einnig sé skuldfærð á uppgjöri 2020 greiðsla að fjárhæð X kr. inn á eldri skuld. Upplýsingar skorti á hvaða forsendum krafan sé byggð. Árstekjur kæranda samkvæmt skattframtali frá Noregi 2020 hafi verið X NOK. Þess sé krafist að Tryggingastofnun leiðrétti uppgjör sitt, dags. 17. september 2021. Kærandi leggi jafnframt fram þá kröfu að Tryggingastofnun komi með haldgóðar skýringar á því hvernig áðurnefnd mistök og rangfærslur hafi orðið innan stofnunarinnar og hvaða starfsmenn hafi séð um það verklag og framkvæmd. Hér sé vísað til álits umboðsmanns Alþingis nr. 10652/2020 um málsmeðferð stjórnvalda, tilgreiningu á nöfnum starfsmanna sem standi að baki ákvörðun og vandaða stjórnsýsluhætti.

Kærandi geri kröfu um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum 2020. Þá óski hún eftir því að staðgreiðsla verði dregin af inneign vegna 2020 og að það verði gert í frekara samráði við umboðsmann hennar.

Tryggingastofnun hafi ekki skilað endurreikningi og uppgjöri á tekjutengdum greiðslum 2019 sem beðið hafi verið eftir. Það sé hér með kært til úrskurðanefndar velferðarmála og þess krafist að Tryggingastofnun skili uppgjöri vegna 2019 eins og mælt sé fyrir í 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, en þar segi: „Ef um nýja umsókn um bætur er að ræða skulu tekjur áætlaðar á grundvelli upplýsinga frá þeim aðilum sem getið er um í [39. og 40. gr.] og bótaréttur reiknaður út frá þeim tekjum umsækjanda.“

Kærandi væntir þess að Tryggingastofnun leiðrétti greiðslur vegna 2019 sem fyrst. Kærandi óski eftir því að staðgreiðsla verði dregin af inneign vegna 2019 og óski jafnframt eftir því að það verði gert í frekara samráði við umboðsmann hennar.

Samkvæmt forsendum og niðurstöðum þessa mats eigi kærandi umtalsverða inneign hjá Tryggingastofnun ríkisins. Hún fari fram á að Tryggingastofnun standi skil á vangreiðslum sem fyrst ásamt orlofs- og desemberuppbótum árin 2019 og 2020 ásamt vöxtum.

Í athugasemdum kæranda, mótteknum 16. mars 2022, segir að með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 21. febrúar 2022, hafi verið óskað eftir afstöðu til greinargerðar Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. febrúar 2022, þar sem fram hafi komið að stofnunin hafi tekið nýja ákvörðun í málinu. Tryggingastofnun hafi farið fram á afturköllun á málinu þar sem stofnunin hafi breytt afgreiðslu sinni. Ekki verði séð að Tryggingastofnun hafi á neinn hátt tekið á kröfum sem settar séu fram til leiðréttingar í framangreindu máli þar sem stofnunin haldi sig við að örorkubætur (uføretrygd) frá NAV séu lífeyrissjóðstekjur. Það sé alrangt og verði ekki við slíkt unað.

Tryggingastofnun hafi sent bréf til kæranda þann 16. febrúar 2022 með yfirskriftinni „Endurskoðun á búsetuhlutfalli“. Í bréfinu segi meðal annars:

„Við skoðun á réttindum þínum þá uppfyllir þú skilyrðin fyrir að fá fullan framreikning á réttindum hjá Tryggingastofnun. Þú átt rétt á uføretrygd frá NAV að upphæð X NOK á mánuði (2022). Þar sem um er að ræða greiðslur sem eru ekki taldar vera sambærilegar greiðslum Tryggingastofnunar þá átt þú rétt á hækkuðu búsetuhlutfalli eða 01.08.2019 frá upphafi örorku. Ofangreindar tekjur eru skráðar í tekjuáætlun þína sem lífeyrissjóðsgreiðslur.“

Þessi framganga Tryggingastofnunar ríkisins veki ýmsar spurningar. Óhætt sé að segja að með framangreindu bréfi og greinargerð Tryggingastofnunar sé ekki verið að bregðast á nokkurn hátt við forsendum kærumála og kröfum til leiðréttingar í málinu. Hér sé farið fram á að Tryggingastofnun skýri nánar forsendur kröfu sinnar um afturköllun í málinu. Kærandi spyrji hvaða lög og lagagreinar liggi til grundvallar því að Tryggingastofnun haldi því fram að „uføretrygd“ frá NAV séu greiðslur sem séu ekki sambærilegar greiðslum Tryggingastofnunar. Þá spyrji kærandi á hvaða lögum og lagagreinum Tryggingastofnun byggi þá ákvörðun sína síðastliðið ár og segi meðal annars að tekjur frá NAV séu skráðar í tekjuáætlun hennar sem lífeyrissjóðstekjur. Enn fremur spyrji kærandi á hvaða lagalegu forsendum mat Tryggingastofnunar á búsetuhlutfalli og afgreiðslu sé byggt við ákvörðun þegar búsetuhlutfall sé ákveðið 51,61% og einnig þegar það sé hækkað í 75,18%. Ekki verði betur séð en að Tryggingastofnun reyni enn og aftur að beita röngum forsendum til að skerða réttindi.

Ljóst sé að stofnunin hafi hvorki tekið á kærumáli þessu né kröfum mála á réttum forsendum. Tryggingastofnun hafi engu breytt í afstöðu sinni og afgreiðslu og haldi áfram að skrá greiðslur almannatrygginga frá NAV í Noregi sem lífeyrissjóðsgreiðslur. Kærandi hafni því alfarið að málið verði afturkallað. Tryggingastofnun hafi fært tekjuáætlun 2020 úr skráningar­formi sem stofnunin hafi sent kæranda og endurskráð örorkubætur NAV sem lífeyrissjóðsgreiðslur. Þá hafi Tryggingastofnun rúmlega tvöfaldað árstekjur frá NAV 2020, þrátt fyrir að ítarleg opinber gögn frá Noregi, frá NAV og skattinum hafi sýnt að uppgefnar upphæðir hafi verið réttar. Enn fremur skrái Tryggingastofnun örorkubætur almannatrygginga NAV sem lífeyrissjóð. Þannig hafi Tryggingastofnun búið til rangar forsendur til að skerða réttindi harkalega.

Í samræmi við norræna almannatryggingasamninga, sem séu í gildi á milli Norðurlanda, njóti fólk réttinda að uppfylltum skilyrðum ef það flytji frá öðru norrænu landi. Í Noregi og á Íslandi hafi fólk fullgild réttindi hjá NAV og Tryggingastofnun á grundvelli búsetu, en einnig vegna atvinnu þar sem fólk greiðir skatta og skyldur.

Í Noregi hafi fast viðmið sem greiðslur almannatrygginga byggi á „G-grunnbeløp“ tekið gildi 1. janúar 1967 þegar almannatryggingar hafi verið lögfestar. Það hafi verið í sama formi síðan og uppreiknað 1. maí ár hvert. Lágmarksörorkubætur í Noregi árið 2000 hjá einstaklingi í sambúð hafi verið „2,33 x G (grunnbeløpet)“ og fyrir einhleypa hafi lágmarksgreiðslur verið nokkuð hærri. Ársgreiðslur almannatrygginga geti aldrei orðið hærri en „6 G“ í Noregi.

Í útreikningi örorkubóta kæranda hjá NAV 2019 og 2020 hafi verið miðað við stöðu hennar […]. Réttindi og upphæð hennar séu um það bil „X“. Greiðsla örorkubóta til kæranda hafi verið X NOK á mánuði árið 2020. Mánaðargreiðsla eftir skatt sé rúmlega X NOK. Það sé vandséð hvernig Tryggingastofnun ríkisins hafi ákveðið að örorkubætur frá NAV séu lífeyrissjóðsgreiðslur. Það sé hreinn uppspuni hjá Tryggingastofnun ríkisins og eigi sér enga stoð í veruleikanum. Til grunnlífeyris í Noregi teljist grunnlífeyrir og greiðslur byggðar á „særtillegg“. Að framansögðu sé ljóst að örorkubætur sem NAV hafi greitt kæranda árin 2019 og 2020 séu örorkubætur en ekki lífeyrissjóðsgreiðslur.

Í viðbótarathugasemdum kæranda, mótteknum 8. júní 2022, segir að það sé skýrt samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar að kærandi eigi fullan rétt á örorkubótum samkvæmt almannatryggingum á Íslandi, þ.e. grunnlífeyri, tekjutryggingu, aldurstengdri örorkuuppbót og barnalífeyri með einu barni, frá 1. ágúst 2019 til 25. nóvember 2021. Réttindi hennar séu samkvæmt búsetu á Íslandi.

Kærandi vísar í 1., 4. og 28. lið formálaorða reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa, með síðari breytingum,  um gildistöku reglugerðar Evrópusambandsins um almannatryggingar sem var innleidd í íslenskan rétt með 1. gr. reglugerðar nr. 442/2012. Einnig vísar kærandi til a-liðar 5. gr., 50. gr. og 52. gr. EB reglugerðarinnar.

Fram kemur að NAV hafi framfylgt þessum samningi um samræmingu almannatrygginga samkvæmt 52. gr. liðir a og b, liðir i og ii. og 3. mgr. Það komi meðal annars skýrt fram í ákvörðun NAV og útreikningi örorkubóta samkvæmt 52. gr. að þar sé áhersla á að velja þann útreikning örorkubóta sem komi best út fyrir kæranda og meðal annars valið að vinna eftir reglum „folketrygdeloven“.

Norðurlöndin, þ.e. Finnland, Noregur, Ísland, Svíþjóð og Danmörk, hafi gert með sér samstarfssamning um samræmingu almannatrygginga þann 12. júlí 2012. Þessi norræni samningur taki fyrst og fremst mið af reglugerðum EB, nr. 883/2004 og nr. 987/2009. Tilgangur samstarfssamningsins sé að ná fram samræmingu almannatrygginga í norrænum kerfum og taki hann einnig til ríkisborgara frá löndum utan EB sem búsettir séu á Norðurlöndunum. Samningur Norðurlanda hafi tekið gildi 1. maí 2014 og hafi þessi áðurnefndu ríki gert með sér framkvæmdasamning.

Í framkvæmdasamningi Norðurlanda um almannatryggingar, með vísan til 13. gr. Norðurlandasamnings um almannatryggingar, sé kveðið á um grunnlífeyri allra Norðurlanda. Hér séu réttindi íslenskrar konu, sem hafi búið í Noregi í […], til umfjöllunar. Hún eigi rétt á greiðslu örorkubóta á Íslandi, þ.e. 51,61% réttindi samkvæmt búsetu. Réttindi til almannatrygginga á Íslandi samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar séu grunnlífeyrir. Örorkubætur samanstandi af grunnlífeyri, tekjutryggingu og aldurstengdri örorkuuppbót. Barnalífeyrir sé greiddur með börnum undir átján ára aldri sem misst hafi annað foreldri eða báða eða foreldrar séu öryrkjar. Þessi skilgreining um réttindi öryrkja búsettra í Noregi sé bæði til kynningar á réttindum Íslendinga hjá Tryggingastofnun ríkisins og NAV. Réttindi til almannatrygginga í Noregi séu samkvæmt lov om folketrygd nr. 19 frá 1997. Þar sé grunnlífeyrir skilgreindur svo að örorkulífeyri megi veita einstaklingum á aldrinum 18–67 ára. Skilyrði sé að geta til tekjuöflunar hafi skerst varanlega vegna sjúkdóms, slyss eða fötlunar. Örorkubætur samanstandi af grunnlífeyri og viðbótarlífeyri (starfstengdur lífeyrir) eða sérstakri uppbót. Sérstök uppbót (særtillæg) sé greidd með grunnlífeyri til öryrkja sem hafi ekki unnið sér rétt til viðbótarlífeyris (þ.e. lífeyrissjóð). Kærandi sé með örorkulífeyri samkvæmt „særbestemmelser“. Þannig hafi réttindi um örorkulífeyri verið samansett í Noregi áður en breyting á lögum hafi verið gerð árið 2015. Þá hafi „G-grunnlífeyrir“ og „særtillæg“ verið sameinað í einn bótaflokk, „uføretrygd“. Viðbótarlífeyrir (starfstengdur lífeyrissjóður) sé áfram greiddur til viðbótar við „uføretrygd“, hafi fólk slík réttindi. Það hafi ekkert breyst nema nafnið.

Afleiðingar vinnuslyss kæranda séu metnar til 100% örorku. Réttindi hennar til örorkubóta (uføretrygd) séu byggð á lögum um almannatryggingar (lov om folketrygd), kafla 12 um vinnuslys og vinnusjúkdóma (uføretrygd ved yrkesskade 12-17). Í mati NAV segi að það þýði að örorkubætur hennar séu reiknaðar eftir sérstökum ákvæðum (særbestemmelser) sem gefi henni hærri greiðslur. Það undirstriki að kærandi eigi engin réttindi til lífeyrissjóðs í Noregi.

Í greinargerð NAV, dags. 15. júní 2021, segi meðal annars að áætlaðar árstekjur hennar þegar slysið hafi orðið hafi verið ákveðnar X NOK, en samkvæmt lögunum sé hámark örorkubóta í Noregi 6 G, þ.e. X NOK og 66% af þeirri upphæð á ári. Örorkubætur NAV séu reiknaðar samkvæmt þessu viðmiði. Mánaðarleg greiðsla kæranda sé ákveðin X NOK og X NOK með barni.

Við örorkumat NAV séu tekjur kæranda settar á X NAV og er það meðal annars gert með tilliti til eftirlauna. Það sé mikilvæg staðreynd að grundvallarréttindi hennar til örorkubóta séu byggð á „beregningsgrunnlaget“ sem sé að hámarki „6G“ og örorkubætur séu 66% af þeirri upphæð. Hæstu örorkubætur hjá NAV í Noregi séu miðaðar við „6G“ og 66% af þeirri upphæð. Það sé erfitt að heimfæra örorkubætur kæranda upp á fyrri tekjur hennar sem séu um X NOK og lækki í X NOK árið 2020. Ljóst sé af framansögðu að réttindi kæranda í „folketrygd“ byggi á búsetu hennar í Noregi í tæp X ár.

Örorkubætur í Noregi séu reiknaðar eftir ákveðnum grunnfasta, „G-grunnbeløp“. Þetta sé aðferð og grunnur sem almannatryggingar í Noregi hafi byggt á síðustu 55 árin. Grunnfjárhæðin (G-grunnbeløp) hafi verið viðmið útreikninga á örorkubótum hjá NAV síðan 1. janúar 1967 þegar lög um almannatryggingar hafi fyrst tekið gildi í Noregi. Grunnfjárhæðin (G) sé notuð til að reikna út margar af greiðslum NAV. Grunnfjárhæðin (G) sé leiðrétt 1. maí ár hvert og sé ákveðin samkvæmt uppgjöri almannatrygginga.

Það sé spurning hvort örorkubætur frá Noregi falli undir undantekningarreglu 4. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 og komi því ekki til skerðingar á tekjutengdum bótagreiðslum. Kærandi telji ljóst að örorkubætur frá Noregi falli undir undantekningarreglu 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og komi því ekki til skerðingar á tekjutengdum bótagreiðslum.

Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi nýlega komist að þeirri niðurstöðu í máli nr. 112/2021 að fjárhæð „uføretrygd“ ráðist af fyrri tekjum bótaþega og „trygdetyd“ og vísi þar í greinar 12-11 og 12-12 í folketrygdeloven. Með „trygdetyd“ sé átt við tímabilið sem viðkomandi hafi verið meðlimur almannatryggingakerfisins í Noregi, þ.e. með búsetu og/eða atvinnu í landinu. Úrskurðarnefndin segi að örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar taki aftur á móti ekki mið af tekjum bótaþega á vinnumarkaði heldur búsetulengd, sbr. 18. gr. og 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar, og öðrum tekjum. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar segi að full réttindi ávinnist með búsetu á Íslandi í að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16–67 ára. Samkvæmt folketrygdeloven 12-12 reiknist „X“ frá 16 ára aldri til og með árinu sem hann eða hún nái 66 ára aldri, það séu 40 almanaksár. Þetta séu nákvæmlega jafngild kerfi að þessu leyti hvað teljist fullgild aðild samkvæmt lögum um almannatryggingar í þessum löndum þó að Noregur miði við 66 ár en Ísland 67 ár. Það sé ekki rétt sem komi fram í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála að fjárhæð „uføretrygd“ ráðist af fyrri tekjum bótaþega. Fjárhæðin sé ákveðin út frá „G-grunnbeløp“ og geti aldrei orðið hærri en „6G“. Með vísan í árstekjur kæranda á árunum 2010 og 2011 hafi tekjur hennar bæði árin verið um X NOK í árslaun. Hún sé með hámarksgreiðslu örorkubóta í dag samkvæmt „særbestemmelser“, þ.e. X kr. á ári 2020. Hún hafi lækkað um 63% í tekjum. Í a-lið 5. gr. reglugerðar EB nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa segi að „ef almannatryggingabætur og aðrar tekjur hafa tiltekin réttaráhrif samkvæmt löggjöf í lögbæru aðildarríki skulu viðeigandi ákvæði þeirrar löggjafar einnig gilda um jafngildar bætur sem fást samkvæmt löggjöf annars aðildarríkis eða um tekjur sem aflað er í öðru aðildarríki.“ Í 68. gr. laga um almannatryggingar segi: „Í samningum skv. 1. mgr., má m.a. kveða á um að búsetu-, atvinnu- og tryggingatímabil í öðru samningsríki skuli talin jafngilda búsetutíma á Íslandi. Enn fremur er heimilt að kveða þar á um rétt til bótagreiðslna við búsetu í öðru samningsríki, jafnræði við málsmeðferð, skörun bóta og hvaða löggjöf skuli beita“. Þetta sé alveg skýrt. Það sé ljóst að jafnræði sé með lögum og framkvæmd almannatryggingalaga á Íslandi og í Noregi og „uføretrygd“ og örorkubætur séu jafngildar bætur. Sé öðru haldið fram sé það fyrst og fremst vegna skorts á þekkingu og rannsókn á þessum kerfum. Það skorti að uppfylla rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 8. apríl 2021, segir að kærð sé niðurstaða endurreiknings og uppgjörs Tryggingastofnunar fyrir árin 2019 og 2020.

Samkvæmt 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar ávinnist full réttindi með búsetu hér á landi í að minnsta kosti 40 almanaksár á aldursbilinu 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar sé mælt fyrir um endurreikning lífeyrisréttinda og komi eftirfarandi fram í 7. mgr. lagaákvæðisins:

„Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðslu ársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt þessari grein. Við þann endurreikning er Tryggingastofnun heimilt að taka tillit til almennra breytinga á launum frá þeim tíma sem ætlaðar tekjur tilheyra til þess tíma sem endanlegar tekjur varða.“

Í 8. tölul. 1. gr. almannatryggingalaga séu tekjur nánar skilgreindar. Í ákvæðinu komi eftirfarandi fram:

„Tekjur skv. II. kafla laga um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað telst ekki til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum; einnig sams konar tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi.“

Að auki sé að finna ákvæði í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags ásamt breytingareglugerðum. Í 2. gr. reglugerðarinnar komi eftirfarandi fram: „Tekjur: Til tekna samkvæmt reglugerð þessari teljast tekjur eins og þær eru skilgreindar í 16. gr. laga um almannatryggingar. Tekjur sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi, skulu sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi.“

Í 6. gr. reglugerðarinnar komi eftirfarandi fram: „Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skal endurreikna bótafjárhæðir ársins á grundvelli þeirra upplýsinga.“

Í 9. gr. reglugerðarinnar komi eftirfarandi fram varðandi ofgreiddar bætur: „Komi í ljós við endurreikning að tekjutengdar bætur hafi verið ofgreiddar skal það sem ofgreitt er dregið frá tekjutengdum bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til.“ Þetta eigi eingöngu við ef tekjur þær sem lagðar séu til grundvallar bótaútreikningi reynist hærri en tekjuáætlun samkvæmt 4. gr. gerði ráð fyrir og ofgreiðsla stafi af því að bótaþegi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður. Einnig eigi Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.

Við yfirferð og skoðun þessa kærumáls hafi komið í ljós að búsetuhlutfall hjá kæranda hafi ekki verið rétt reiknað út hjá Tryggingastofnun. Í kjölfarið hafi Tryggingastofnun leiðrétt búsetuhlutfallið og framkvæmt nýjan útreikning miðað við breytt búsetuhlutfall hjá kæranda. Í kjölfar leiðréttingar á búsetuhlutfalli hafi stofnunin svo óskað eftir því að málið yrði afturkallað hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þar sem ný ákvörðun hafði verði tekin í máli kæranda en af hálfu kæranda hafi verið óskað eftir efnislegri greinargerð í málinu.

Lífeyrisréttindi séu tekjutengd og séu réttindi síðan ákvörðuð út frá tekjuáætlunum sem lífeyrisþegar skili inn til Tryggingastofnunar og beri þeir sjálfir ábyrgð á að áætlun sé sem næst raunverulegum tekjum þeirra. Lögð sé áhersla á að tekjuáætlanir séu sem nákvæmastar svo að hvorki komi til ofgreiðslu né vangreiðslu við endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta á hverju almanaksári. Greiðsluþegar geti svo hvenær sem sé breytt sínum tekjuáætlunum rafrænt inni á Mínum síðum hjá Tryggingastofnun.

Með bréfi Tryggingastofnunar frá 16. febrúar 2022 um endurskoðun á búsetuhlutfalli, hafi kæranda verið tilkynnt að hún uppfyllti skilyrðin um að fá fullan framreikning á réttindum hjá Tryggingastofnun. Í áðurnefndu bréfi hafi kæranda jafnframt verið tilkynnt að þær greiðslur sem hún fái frá NAV væru ekki taldar vera sambærilegar greiðslum Tryggingastofnunar og ætti hún þar af leiðandi rétt á hækkuðu búsetuhlutfalli frá 1. ágúst 2019, eða frá upphafi örorku kæranda að telja. Búsetuhlutfall kæranda hafi síðan verið endurreiknað frá því sem áður hafi verið.

Samkvæmt 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 1. mgr. 17. gr. sömu laga, skuli búsetutími reiknaður með tímanum fram til ellilífeyrisaldurs umsækjanda. Nánar tiltekið sé búsetuhlutfall sú samtalstala af búsetu á Íslandi og fyrir örorku fram til 67 ára aldurs, sbr. 4. mgr. 18. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007. Búsetuhlutfall kæranda hafi því reiknast eftirfarandi: 30,07/40 = 75,18%.

Í kjölfar leiðréttingar á búsetuhlutfalli hafi einnig farið fram leiðrétting á endurreikningi og uppgjöri hjá kæranda vegna tekjutengdra greiðslna fyrir bæði árin 2019 og 2020. Ástæða þess að búsetuleiðrétting hafi farið fram hjá kæranda hafi verið sú að þær tekjur sem kærandi fái frá Noregi séu flokkaðar sem lífeyrissjóðstekjur og þar af leiðandi eigi kærandi rétt á fullum framreikningi hér á landi. Ef tekjur væru flokkaðar sem grunnlífeyrir færi ekki fram framreikningur á Íslandi heldur hlutfallslegur útreikningur, sbr. 55. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa, er gæfi lakari niðurstöðu fyrir kæranda hvað snertir upphæðir á greiðslum þar sem hækkun á búsetuhlutfalli væri þá ekki inni í myndinni.

Niðurstaða endurreiknings fyrir árið 2019 hafi leitt í ljós inneign upp á X kr. Niðurstaða endurreiknings fyrir árið 2020 hafi leitt í ljós inneign að upphæð X kr. og hafi henni verið ráðstafað til lækkunar eldri skuldar. 

Eins og fram komi í bréfi frá Tryggingastofnun um endurskoðun á búsetuhlutfalli, dags. 16. febrúar 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að greiðslur frá NAV í Noregi að upphæð X NOK á mánuði miðað við árið 2022 væru ekki sambærilegar greiðslum Tryggingastofnunar og þar af leiðandi ætti kærandi rétt á hækkuðu búsetuhlutfalli frá 1. ágúst 2019, eða frá upphafi örorku.

Í athugasemdum kæranda sé því haldið fram að greiðslur kæranda í Noregi séu ekki lífeyrissjóðsgreiðslur heldur grunnlífeyrir. Tryggingstofnun bendi hins vegar á að frá árinu 2015 þegar lagabreyting hafi átt sér stað í Noregi, sé örorkulífeyrir skattlagður sem launatekjur. Þau skattafríðindi sem lífeyrisgreiðslurnar hafi áður notið hafi verið afnumin með lagabreytingu á árinu 2015. Lífeyrisgreiðslur frá NAV skiptist ekki lengur upp í „grunnpensjon“, tilleggspensjon og eftir atvikum „særtilleggspensjon“. Bæturnar heiti núna „uføretrygd“ og séu reiknaðar í samræmi við búsetu og fyrri launatekjur viðkomandi einstaklings. Þeir einstaklingar sem uppfylli ekki fyrir fram ákveðið lágmark, sem sé breytilegt eftir hjúskaparstöðu og búsetuhlutfalli, fái greitt „minsteytelse“ sem hafi ekki áhrif á bætur frá Tryggingastofnun þar sem slíkar greiðslur séu sambærilegar íslenskum grunnlífeyri.

Þar sem nýtt kerfi hjá NAV sé alfarið byggt á launatekjum telji Tryggingastofnun að þær lífeyrisgreiðslur sem kærandi fái frá NAV, að undanskildu „minsteytelse“, hafi áhrif á bætur stofnunarinnar eins og um væri að ræða greiðslur frá íslenskum lífeyrissjóðum. Greiðslurnar sem kærandi fái frá NAV hafi þar af leiðandi áhrif á örorkulífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun og séu skattlagðar sem launatekjur þar sem skattafríðindi sem lífeyrisgreiðslur höfðu áður notið hafa verið afnumin.

Við yfirferð og flokkun tekna kæranda telji Tryggingastofnun að tekjur kæranda frá NAV séu sambærilegar greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum hér á landi og telji að þær skuli skerða tekjutryggingu hjá kæranda. Þar sem tekjur kæranda séu alfarið byggðar á launatekjum hafi þær áhrif á tekjutryggingu kæranda eins og um væri að ræða greiðslur úr íslenskum lífeyrissjóðum og falli því umræddar tekjur ekki undir undantekningarreglur 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Sambærilegt mál hafi farið fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála í máli nr. 86/2015 og hafi nefndin staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar.

Um „uføretrygd“ sé fjallað í 12. gr. norsku laganna um „folketrygd“, sbr. lov-1997- 02-28-19“. Í ákvæðum 12-11 og 12-12 ráðist fjárhæð „uføretrygd“ af fyrri tekjum bótaþega og „trygdetid“, en með „trygdetid“ sé átt við tímabilið sem viðkomandi einstaklingur hafi verið meðlimur almannatryggingakerfisins í Noregi, þ.e. með búsetu og/eða atvinnu í landinu. Ef einstaklingur hafi verið með lágar eða engar tekjur eigi hann rétt á ákveðinni lágmarksframfærslu „minsteytelse“ frá NAV sem fjallað sé um í ákvæði 12-13.

Í reglugerð nr. 598/2009 séu ákvæði um útreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og komi fram í 2. gr. reglugerðarinnar að til tekna samkvæmt reglugerðinni teljist tekjur eins og þær séu skilgreindar í 16. gr. laga um almannatryggingar. Enn fremur komi fram að tekjur, sem aflað sé erlendis og ekki séu taldar fram hér á landi, skuli sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi.

Einnig sé að finna ákvæði í 6. gr. reglugerðarinnar um að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli endurreikna bótafjárhæðir ársins á grundvelli þeirra upplýsinga. Tryggingstofnun hafi framkvæmt endurútreikning hjá kæranda fyrir bæði árin 2019 og 2020 og hafi sá útreikningur miðað við breytt búsetuhlutfall farið úr því að vera 51,61% í 75,18% þar sem enginn framreikningur hafi átt sér stað í fyrri útreikningi. Tryggingastofnun harmi að fyrri útreikningur hafi verið rangur og búsetuhlutfall hafi ekki verið rétt út reiknað en stofnunin hafi leiðrétt þau mistök eins fljótt og mögulegt hafi verið. Kæranda hafi verið tilkynnt um nýjan útreikning, sbr. bréf, dagsett 16. febrúar 2022, þar sem leiðrétt búsetuhlutfall hafi verið reiknað inn í útreikning hjá Tryggingastofnun. Breytt búsetuhlutfall hjá kæranda hafi gefið henni mun hagstæðari útkomu en fyrri útreikningur hjá Tryggingastofnun.

Fram komi í 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags ásamt breytingareglugerðum að tekjur sem aflað sé erlendis og ekki séu taldar fram hér á landi, skuli sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi.

Tryggingastofnun hafi farið yfir útreikning á greiðslum til kæranda og alla tekjuliði sem liggi þar að baki og telji að kærandi hafi fengið rétt reiknaðar greiðslur miðað við þær tekjuforsendur sem NAV hafi upplýst Tryggingastofnun um.

Með vísan til framangreinds telji Tryggingastofnun að greiðslur til kæranda séu rétt út reiknaðar.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. júní 2022, segir að stofnunin geri eftirfarandi athugasemdir við athugasemdir kæranda frá 4. júní 2022.

Tryggingastofnun vísi á bug þeim athugasemdum um að stofnunin búi til sínar eigin forsendur til að skerða örorkugreiðslur til kæranda. Bent skuli á að í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags ásamt breytingareglugerðum komi fram í 2. gr. að til tekna samkvæmt reglugerðinni teljist tekjur eins og þær séu skilgreindar í 16. gr. laga um almannatryggingar. Tekjur sem aflaðar séu erlendis og ekki séu taldar fram hér á landi, skuli sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi.

Tryggingastofnun vísi einnig á bug þeim athugasemdum að stofnunin hafi ekki gætt rannsóknar- og upplýsingaskyldu sinnar, meðal annars að afla þekkingar á örorkubótum „uføretrygd“ í Noregi. Bent skuli á að á heimasíðu NAV í Noregi sé að finna upplýsingar um „uføretrygd“ þar sem segi að örorkubætur séu skattlagðar sem launatekjur, auk upplýsinga sem koma fram í bréfi frá NAV frá 23. júlí 2019.

Tryggingastofnun afli ávallt gagna bæði hérlendis og erlendis við ákvörðun á málum og sinni þar með bæði upplýsinga- og rannsóknarskyldu sinni. Við ákvörðun í máli kæranda hafi bæði legið fyrir tekjuupplýsingar og úrskurður frá NAV 2019.

Hvað varði tilvísanir í lög og reglugerðir og réttindi til örorkubóta vegna vinnuslysa snúi kæra þessi fyrst og fremst að endurreikningi og uppgjöri bóta en ekki hvort kærandi falli undir vinnuslysakafla almannatrygginga. Kærandi hafi nú þegar fengið 75% örorkumat og fái örorkulífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun. Örorkulífeyrisgreiðslur séu tekjutengdar eins og áður hafi komið fram.

Tryggingastofnun vísi á bug þeim ummælum í athugasemdum kæranda að framkoma stofnunarinnar hafi einkennst af einbeittum vilja til að skapa forsendur til að brjóta á réttindum og skerða bætur. Í athugasemdum kæranda sé vitnað til a-liðar 5. gr. EB reglugerðar nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa, en þar komi eftirfarandi fram:

„ef almannatryggingabætur og aðrar tekjur hafa tiltekin réttaráhrif samkvæmt löggjöf í lögbæru aðildarríki skulu viðeigandi ákvæði þeirrar löggjafar einnig gilda um jafngildar bætur sem fást samkvæmt löggjöf annars aðildarríkis eða um tekjur sem aflað er í öðru aðildarríki“

Þessi grein komi einmitt inn á það að ef almannatryggingabætur hafi tiltekin réttaráhrif í aðildarríki skuli viðeigandi ákvæði einnig gilda um jafngildar bætur eða um tekjur sem aflað sé í öðru aðildarríki.

Eins og áður hafi komið fram í fyrri greinargerð Tryggingastofnunar þá hafi farið fram leiðrétting á búsetuhlutfalli hjá kæranda ásamt leiðréttingu á endurreikningi og uppgjöri vegna tekjutengdra greiðslna fyrir bæði árin 2019 og 2020. Ástæða þess að búsetuleiðrétting hafi farið fram hjá kæranda hafi verið að þær tekjur sem kærandi fái frá Noregi séu flokkaðar sem lífeyrissjóðstekjur og þar af leiðandi eigi kærandi rétt á fullum framreikningi hér á landi, sbr. ákvæði í 9. gr. Norðurlandasamnings um almannatryggingar nr. 119/2013, en þar komi eftirfarandi fram varðandi framreiknuð tímabil:

„Hafi skilyrðum fyrir því að lífeyrir sé einnig reiknaður út á grundvelli ætlaðra trygginga- eða búsetutímabila, sem hefðu komið til hefði lífeyrisatburður ekki gerst, verið fullnægt í fleiri en einu norrænu landi skal við útreikning í hverju einstöku landi eingöngu tekið tillit til hluta ætlaðra tímabila. Sá hluti er ákveðinn á grundvelli raunverulegra trygginga- eða búsetutímabila sem eru notuð við lífeyrisútreikninginn út frá hlutfallinu milli raunverulegra tímabila í landinu og samanlagðra raunverulegra tímabila í löndunum“

Tryggingastofnun hafi endurreiknað réttindi kæranda eins og áður hafi komið fram í fyrri greinargerð stofnunarinnar. Við þá yfirferð og flokkun á tekjum kæranda telji Tryggingastofnun að tekjur kæranda frá NAV séu sambærilegar greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum hér á landi og telji að þær skuli skerða tekjutryggingu hjá kæranda eins og fram komi í fyrri greinargerð frá Tryggingastofnun.

Með vísan til framangreinds telji Tryggingastofnun að greiðslur til kæranda séu rétt út reiknaðar. Að öðru leyti sé vísað til fyrri greinargerðar stofnunarinnar í þessu máli.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna áranna 2019 og 2020.

Kærandi fékk greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins á árunum 2019 og 2020. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með undantekningum. Í II. kafla síðastnefndu laganna er fjallað um skattskyldar tekjur í 7. gr. og falla lífeyrissjóðstekjur þar undir, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laganna. Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Upphafleg kæra laut að endurreikningi og uppgjöri á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2020 og skorti á endurreikningi og uppgjöri ársins 2019. Eftir að kærandi lagði inn kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála endurreiknaði Tryggingastofnun búsetuhlutfall kæranda og náði sú leiðrétting með afturvirkni til 1. ágúst 2019, eða frá þeim tíma sem kærandi byrjaði á greiðslum frá stofnuninni. Búsetuhlutfall kæranda fór úr því að vera 51,61% í 75,18%. Í kjölfar leiðréttingar á búsetuhlutfalli fór fram leiðrétting á endurreikningi og uppgjöri hjá kæranda vegna tekjutengdra greiðslna fyrir árin 2019 og 2020. Niðurstaða á endurreikningi fyrir árið 2019 leiddi í ljós inneign að fjárhæð X kr. Niðurstaða á endurreikningi fyrir árið 2020 leiddi í ljós inneign að fjárhæð X kr. og var X kr. af þeirri fjárhæð ráðstafað til lækkunar eldri skuldar.

Við endurreikning og uppgjör áranna 2019 og 2020 meðhöndlaði Tryggingastofnun „uføretrygd“ greiðslur til kæranda frá NAV sem lífeyrissjóðstekjur. Sá tekjustofn hefur áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt. Lífeyrissjóðstekjur hafa hvorki áhrif á útreikning grunnlífeyris né aldurstengdrar örorkuuppbótar, sbr. 3. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, en hafa aftur á móti áhrif á tekjutryggingu, sbr. 22. gr laga um almannatryggingar. Í 2. málsl. 3. mgr. 22. gr. segir að hafi lífeyrisþegi tekjur samkvæmt 2. og 4. mgr. 16. gr. skuli skerða tekjutrygginguna um 38,35% þeirra tekna uns hún fellur niður. 

Af gögnum málsins má ráða að kærandi sé ósátt við að „uføretrygd“ greiðslur sem hún fær frá NAV skerði greiðslur hennar frá Tryggingastofnun. Í tekjuáætlun kæranda frá 6. júní 2020 setur kærandi þær greiðslur undir örorkulífeyri, grunnlífeyri.

Ákvæði 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar hljóðar svo:

„Þegar um er að ræða ellilífeyri skv. 17. gr.,  tekjutryggingu skv. 22. gr. og ráðstöfunarfé skv. 48. gr. og 56. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum, lögum um slysatryggingar almannatryggingaog lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr.“

Af framangreindum ákvæðum má ráða að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum geta skert tekjutryggingu örorkulífeyrisþega. Aftur á móti skerða bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar ekki tekjutrygginguna og ekki heldur sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við samkvæmt 68. gr. laganna, sbr. 4. mgr. 16. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laganna er ríkisstjórninni heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Noregur er eitt af aðildarríkjum EES-samningsins og því skerða bætur frá Noregi, sem eru sambærilegar bótum samkvæmt lögum um almannatryggingar, ekki tekjutrygginguna. Tryggingastofnun telur að tekjur kæranda frá NAV séu sambærilegar greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og hafi áhrif á rétt kæranda til tekjutryggingar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að taka til skoðunar hvort Tryggingastofnun ríkisins hafi verið heimilt að líta á „uføretrygd“ greiðslur kæranda frá NAV í Noregi sem lífeyrissjóðstekjur við endurreikning á tekjutengdum bótagreiðslum hennar á árunum 2019 og 2020. Nánar tiltekið snýst ágreiningur málsins um hvort „uføretrygd“ greiðslur kæranda falli undir undantekningarreglu 4. mgr. 16. gr. laganna og komi því ekki til skerðingar á tekjutengdum bótagreiðslum.

Um „uføretrygd“ er fjallað í 12. kafla í lov om folketrygd (LOV-1997-02-28-19). Við mat á því hvort „uføretrygd“ sé sambærilegt við bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 4. mgr. 16. gr. laganna, lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess að samkvæmt ákvæðum 12-11 og 12-12 ræðst fjárhæð „uføretrygd“ af fyrri tekjum bótaþega og „trygdetid“. Með „trygdetid“ er átt við tímabilið sem viðkomandi hefur verið meðlimur almannatryggingakerfisins í Noregi, þ.e. með búsetu og/eða atvinnu í landinu. Örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar taka aftur á móti ekki mið af tekjum bótaþega á vinnumarkaði heldur búsetulengd, sbr. 18. gr. og 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar, og öðrum tekjum.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að „uføretrygd“ sé ekki alveg sambærilegt örorkulífeyrisgreiðslum samkvæmt lögum um almannatryggingar, enda ráðast örorkulífeyrisgreiðslurnar einungis af búsetu bótaþega hér á landi og öðrum tekjum en ekki af fyrri tekjum líkt og „uføretrygd“. Hins vegar telur úrskurðarnefndin „uføretrygd“ ekki heldur vera alveg sambærilegt við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Lífeyrissjóðirnir eru fjármagnaðir með iðgjaldagreiðslum og greiðendur iðgjalda ávinna sér þannig rétt til lífeyrisgreiðslna. Í Noregi er greiddur skattur af tekjum sem er kallaður „trygdeavgift“ og hann er notaður til að fjármagna almannatryggingakerfið, sbr. 23. kafla lov om folketrygd. Skatturinn stendur á hinn bóginn ekki undir kostnaði NAV og norska ríkið fjármagnar almannatryggingakerfið að öðru leyti, sbr. ákvæði 23-10.

Af lögum um almannatryggingar má ráða að nauðsynlegt er að greina þær tekjur sem bótaþegar afla og flokka þær, enda er að öðrum kosti ekki hægt að kveða á um hvaða skerðingaráhrif tekjurnar hafa samkvæmt lögunum. Þannig geta til dæmis atvinnutekjur og lífeyrissjóðstekjur haft ólík skerðingaráhrif á mismunandi bótaflokka. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst að þrátt fyrir að framangreindar tekjur kæranda frá NAV séu hvorki alveg sambærilegar við örorkulífeyrisgreiðslur samkvæmt lögum um almannatryggingar né greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum þá hafi tekjurnar mest líkindi við framangreinda tekjuflokka. Úrskurðarnefndin telur því að ekki verði komist hjá því að jafna tekjum kæranda við annan hvorn flokkinn, enda sé að öðrum kosti ekki hægt að kveða á um bótagreiðslur til kæranda. Úrskurðarnefnd almannatrygginga, forveri úrskurðarnefndar velferðarmála, hefur þegar tekið afstöðu til framangreinds álitaefnis. Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 86/2015, dags. 19. ágúst 2015, féllst úrskurðarnefndin á það mat Tryggingastofnunar ríkisins að „uføretrygd“ væri sambærilegt við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og að tekjurnar féllu því ekki undir 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Með hliðsjón af því og í ljósi þess að meginreglan er sú að skattskyldar tekjur skerði bætur frá Tryggingastofnun ríkisins, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að „uføretrygd“ falli ekki undir undantekningarreglu 4. mgr. 16. gr. laganna og skuli skerða tekjutrygginguna með sama hætti og greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Það mat er jafnframt í samræmi við niðurstöðu úrskurðarnefndar velferðarmála í málum nr. 188/2018 og 112/2021.

Við framangreinda túlkun lítur úrskurðarnefndin jafnframt til a-liðar 5. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 um samræmingu almannatryggingakerfa, sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 442/2012. Þar segir:

„ef almannatryggingabætur og aðrar tekjur hafa tiltekin réttaráhrif samkvæmt löggjöf í lögbæru aðildarríki skulu viðeigandi ákvæði þeirrar löggjafar einnig gilda um jafngildar bætur sem fást samkvæmt löggjöf annars aðildarríkis eða um tekjur sem aflað er í öðru aðildarríki“

Þrátt fyrir að „uføretrygd“ og örorkulífeyrisgreiðslur séu báðar örorkubætur telur úrskurðarnefnd þær ekki jafngildar bætur í skilningi framangreinds ákvæðis þar sem greiðslurnar eru ólíkar, eins og áður hefur verið greint frá.

Kærandi gerir ýmsar athugasemdir við málsferð Tryggingastofnunar ríkisins í máli hennar. Kærandi byggir á því að rannsókn Tryggingastofnunar hafi verið ófullnægjandi, samanber rannsóknarreglu 38. gr. laga um almannatryggingar og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi telur að Tryggingastofnun hafi átt að rannsaka viðfangsefnið frekar, sérstaklega með tilliti til þess að afla þekkingar á örorkubótum „uføretrygd“ í Noregi.

Samkvæmt 38. gr. laga um almannatryggingar skal Tryggingastofnun sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun um bótarétt er tekin, þar á meðal að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir. Mál telst nægjanlega upplýst þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að unnt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að nægilega skýr gögn hafi legið fyrir hjá stofnuninni til þess að unnt hafi verið að taka ákvörðun í málinu og þar af leiðandi hafi ekki verið þörf á frekari gagnaöflun. Með vísan til framangreinds telur úrskurðarnefndin að málið hafi verið nægjanlega upplýst samkvæmt rannsóknarreglu 38. gr. laga um almannatryggingar og 10. gr. stjórnsýslulaga.

Þá byggir kærandi á því að Tryggingastofnun ríkisins hafi brotið gegn leiðbeiningarskyldu sinni með því að útskýra ekki réttindi, greiðsluflokka og upphæðir sem kærandi eigi rétt á og enn fremur ef lífeyrisgreiðslur skerðist að útskýra á hvaða forsendum það sé gert. Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um almannatryggingar skal Tryggingastofnun ríkisins kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögunum og öðrum lögum sem stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skal staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Tryggingastofnun skal leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfa að fylgja umsókn og um framhald málsins. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ekkert bendi til þess að Tryggingastofnun hafi ekki veitt nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar. Að framangreindu virtu er ekki fallist á að Tryggingastofnun ríkisins hafi brotið gegn leiðbeiningarskyldu sinni, sbr. 1. mgr. 37. gr. laga um almannatryggingar og 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Enn fremur byggir kærandi á því að Tryggingastofnun ríkisins hafi brotið gegn upplýsingaskyldu sinni með því að hafa ekki sent henni gögn varðandi réttindi hennar hjá stofnuninni. Kærandi hafi haft samband við Tryggingstofnun um mitt ár 2020 og óskað eftir gögnum. Sú beiðni hafi verið ítrekuð 27. janúar 2021, 23. febrúar 2021 og 25. febrúar 2021. Samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á aðgangi að skjölum og öðrum gögnum sem mál varða. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun var afgreiðsla á umsókn kæranda send henni í pósti og telur úrskurðarnefndin ekki tilefni til að rengja þær upplýsingar stofnunarinnar. Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi svo aðgang að Mínum síðum Tryggingastofnunar í apríl 2021 og þar með gögnum stofnunarinnar sem varða mál hennar. Fellst úrskurðarnefndin því ekki á að brotið hafi verið gegn upplýsingarétti kæranda samkvæmt 15. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi óskar skýringa á því hvers vegna Tryggingastofnun hafi tvöfaldað uppgefnar árstekjur frá NAV í tekjuáætlun 2020, dags 6. júní 2020, og skráð tekjur hennar X NOK. Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni var það vegna mistaka starfsmanns sem tekjur hennar voru skráðar vitlaust. Meðal annars vegna þessa fékk kærandi greidda inneign við uppgjör ársins 2020.

Kærandi óskar skýringa á greiðsluskjölum, dags. 1., 2. og 9. febrúar 2021, þar sem kærandi fékk fyrst greiðslu og var síðan endurkrafin um fjárhæðina í nokkrum greiðslum. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun fékk kærandi fyrir mistök tvígreitt vegna breytingar á bankareikningi, þ.e. þegar kærandi óskaði eftir að greitt yrði á íslenskan bankareikning í stað erlends bankareiknings.

Með hliðsjón af öllu framangreindu telur úrskurðarnefndin ekki tilefni til að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi með vísan til athugasemda kæranda við málsmeðferð Tryggingastofnunar

Kæranda er jafnframt bent á að hún geti óskað eftir upplýsingum hjá Tryggingastofnun ríkisins um hvaða starfsmenn hafi komið að máli hennar hjá stofnuninni og verði hún ósátt við ákvörðun stofnunarinnar í kjölfarið geti hún kært þá niðurstöðu til úrskurðarnefndarinnar.

Kærandi krefst einnig vaxta vegna vangreiðslu Tryggingastofnunar á árunum 2019 og 2020. Úrskurðarnefndin telur rétt að benda kæranda á að beina þeirri kröfu til Tryggingastofnunar en samkvæmt gögnum málsins hefur það ekki verið gert. Verði kærandi ekki sátt við niðurstöðu Tryggingastofnunar getur hún kært ákvörðun stofnunarinnar til úrskurðarnefndarinnar.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um uppgjör og endurreikning á tekjutengdum bótum vegna áranna 2019 og 2020.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, vegna áranna 2019 og 2020, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta