Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 13/2022 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

 

A

gegn

Knattspyrnufélaginu Þrótti

 

Uppsögn. Mismunun vegna þjóðernisuppruna og kynþáttar. Fjölþætt mismunun. Fallist á brot.

A kærði ákvörðun K um að segja sér upp störfum. Af kæru mátti ráða að kærandi héldi því fram að henni hefði verið mismunað á grundvelli kynþáttar og þjóðernisuppruna með uppsögninni, sbr. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði. Í ljósi þeirra gagna sem A lagði fram í málinu og þess að K lagði engin gögn fram sem hnekktu staðhæfingum A var talið að A hefði leitt líkur að því að kynþáttur og þjóðernisuppruni hefði haft áhrif á ákvörðun K um starfslok hennar, sbr. 15. gr. laga nr. 86/2018. Þá varð ekki séð að hlutlæg og málefnaleg sjónarmið hefðu legið til grundvallar ákvörðun K. Var því talið að K hefði gerst brotlegur við lög nr. 86/2018.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála 8. ágúst 2023 er tekið fyrir mál nr. 13/2022 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dags. 31. ágúst 2022, kærði A ákvörðun Knattspyrnufélagsins Þróttar um að segja henni upp störfum sem þjálfari yngri flokka. Af kæru má ráða að kærandi telji að Knattspyrnufélagið Þróttur hafi með uppsögninni brotið gegn lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dags. 20. október 2022. Greinar­gerð kærða barst með bréfi, dags. 5. janúar 2023, og viðbót kærða við greinargerð barst með bréfi, dags. 26. s.m. Greinargerð kærða og viðbót kærða við greinargerð voru kynntar kæranda 1. febrúar s.á.

     

    MÁLAVEXTIR

     

  4. Kærandi, sem er frá Bretlandi og dökk á hörund, var 13. október 2021 ráðin þjálfari yngri flokka kvenna í knattspyrnu hjá Knattspyrnufélaginu Þrótti úr hópi umsækjenda. Var ráðningartíminn frá 1. desember 2021 til 1. september 2022. Á fundi með fulltrúum stjórnar kærða 5. júlí 2022 var kærandi leyst undan störfum.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

     

  5. Kærandi tekur fram að hún sé hörundsdökk og bresk og hafi verið viðloðandi fótbolta í yfir 30 ár. Hún hafi starfað sem yfirþjálfari yngri flokka og sem knattspyrnuþjálfari í níu ár en þar af hafi hún verið handhafi hæsta stigs þjálfararéttinda á heimsvísu (UEFA A) í fimm ár en fáar konur séu í þeim hópi. Hafi hún að mestu starfað utan Englands sem þjálfari. Telur kærandi að meðferð yfirþjálfara hjá kærða gagnvart sér hafi verið ósanngjörn og að sú háttsemi hafi falið í sér mismunun sem hafi leitt til þess að ráðningarsamningi við hana hafi verið sagt upp.
  6. Kærandi tekur fram að hún hafi verið ráðin af yfirþjálfara yngri flokka hjá kærða í október 2021 en samningurinn hafi haft gildistíma frá 1. desember 2021 til 1. september 2022. Hún hafi verið boðuð á fund með fulltrúum stjórnar kærða 5. júlí 2022 en ástæður fundarins hafi verið sagðar „órói“ í flokki 16 ára og yngri sem hún þjálfaði og mögulegar leiðir til að leysa hann. Fyrir fundinn hafi hún haft samband við hóp foreldra, sem sjái um samskipti foreldra og þjálfara, en þeir hafi ekki kannast við umræddan óróa og beðið hana um að upplýsa þá að fundi loknum.
  7. Kærandi bendir á að á fundinum hafi fulltrúarnir nefnt nokkur atriði með ónákvæmum hætti. Þegar hún hafi óskað frekari skýringa hafi svörin verið á þá leið að um hafi verið að ræða upplýsingar frá yfirþjálfaranum sem ekki sat fundinn. Hún hafi tekið eftir ákveðinni hegðun hans gagnvart sér þegar hún hóf störf sem hafi gert hana óörugga þar sem hún hafi upplifað sig óvelkomna.
  8. Kærandi tekur fram að yfirþjálfarinn hafi sjaldan talað við hana. Hún hefði sent honum skýrslur eftir leiki en hann hefði ekki brugðist við þeim. Hann hafi sjaldan svarað texta­skilaboðum eða símtölum hennar. Hún hafi reynt að koma skilaboðum til hans en ekki fengið viðbrögð við þeim. Þegar hún reyndi að tala við hann á skrifstofunni hans hefði hann ekki litið upp frá tölvunni eða símanum en það hefði ekki átt við aðra sem komu á sama tíma að tala við hann, auk þess sem hann hefði vísað henni frá. Hefði verið tekið eftir þessu og það nefnt við hana. Hann hefði einnig rætt við aðra þjálfara um leiki kæranda og talað almennt við aðra þjálfara yngri flokka varðandi þjálfunina. Þá hefði hann eingöngu talað við samþjálfara hennar og rætt við foreldra leikmanna sem hún þjálfaði en þeir hefðu komið upplýsingum til hennar. Að sama skapi hefði hann rætt við leikmennina að henni viðstaddri en ekki við hana sjálfa en það hefði vakið athygli þeirra. Hafi hún því upplifað að hún fengi óhagstæðari meðferð en aðrir þjálfarar.
  9. Kærandi tekur fram að yfirþjálfarinn hefði svarað henni óvinsamlega í hóptölvupósti. Hefði stjórnarmaður tekið eftir því sem leitt hafi til þess að henni hafi verið boðið á fund 5. apríl 2021 með fulltrúum stjórnar. Á fundinum hefði stjórnar­for­maðurinn tekið fram að honum væri kunnugt um að það væri erfitt að vinna með yfir­þjálfaranum. Hefði henni fundist óþægilegt að heyra það. Hún bendir á að allir erlendir þjálfarar kærða hafi deilt skrifstofu. Það hafi oft komið til tals milli þeirra að yfirþjálfarinn beitti þau óhagstæðari meðferð en innlenda þjálfara.
  10. Kærandi bendir á að á fundinum 5. júlí 2022 hafi komið fram að ákvörðun um uppsögn á ráðningarsamningi hafi eingöngu byggt á upplýsingum frá yfirþjálfaranum. Hafi hún ekki getað brugðist við þeirri gagnrýni sem fram kom á fundinum gagnvart henni þegar henni var tilkynnt ákvörðun um uppsögn, m.a. um að þjálfunaraðferðir hennar væru í ósamræmi við námskrá og gildi kærða. Hafi uppsögnin því verið óréttmæt.
  11. Kærandi tekur fram að hún hafi verið ósátt við framkomu kærða frá því að hún hóf störf. Þannig hafi launagreiðslur dregist án skýringa, auk þess sem húsnæðið sem henni var boðið hafi ekki verið í samræmi við ráðningarsamning. Þá gerir hún athuga­semdir við vinnufyrirkomulagið, skipulag leikja, vinnufatnaðinn, skort á fundum og að nám­skráin sem hún hafi átt að fylgja hafi verið á íslensku. Að auki gerir hún athuga­semdir við hvernig staðið hafi verið að starfslokum gagnvart sér. Hafi hún ítrekað kvartað við stjórnina en henni hafi ekki verið svarað.

     

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

     

  12. Kærði hafnar því að hafa brotið jafnréttislög við ákvörðun um að hafna vinnuframlagi kæranda. Hafi hann í einu og öllu gætt að ákvæðum jafnréttislaga í tengslum við ráðn­ingarsamband sitt við kæranda en um hafi verið að ræða tímabundna ráðningu þjálfara til níu mánaða. Kærði tekur fram að hann hafi efnt samninginn að fullu og hafi launa­greiðslur til kæranda verið gerðar upp að fullu í samræmi við samninginn.
  13. Kærði telur kæruna ekki tæka til efnismeðferðar og því beri að vísa henni frá nefndinni. Kæruefni sé óljóst og ekki sé tekið fram á hvaða lagagrundvelli hún sé byggð. Þá hafi kærandi ekki leitt líkur að því að mismunun hafi átt sér stað. Til þess að ákvæði lag­anna eigi við þurfi að vera orsakasamband milli þeirrar mismununar sem einstaklingur telur sig hafa orðið fyrir og tilgreinds mismununar­þáttar, þ.e. kynþáttar, þjóðernis­uppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfs­getu, aldurs, kyn­hneigðar, kyn­vitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar þess sem í hlut á, en kærandi hafi ekki reynt að færa rök fyrir því að slíkt orsakasamband sé fyrir hendi í málinu. Þá sé hvergi í kæru haldið fram að kærandi hafi sætt mismunun á grundvelli þeirra þátta sem talin séu upp í 1. gr. laga nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnu­markaði.
  14. Kærði tekur fram að alvarlegur og viðvarandi samskipta- og frammistöðuvandi kær­anda í starfi hafi leitt til þess að á endanum hafi verið tekin ákvörðun um að óska ekki eftir vinnu­framlagi kæranda síðustu átta vikur samningstímans eða frá 5. júlí 2022. Hafi óviðunandi hegðun kæranda í störfum sínum fyrir félagið og ítrekuð brot á ráðn­ingarsamningi legið ákvörðun um riftun til grundvallar. Hafi kærði áður veitt kæranda tækifæri til úrbóta með samtali, leiðbeiningum og stuðningi en án árangurs. Hafi ákvörðunin verið tekin fyrst og fremst með hagsmuni iðkenda að leiðarljósi. Bendir kærði á að lögð sé áhersla á að velja þjálfara sem séu reiðubúnir að vinna í samræmi við metnaðarfulla stefnu félagsins og leggja sitt af mörkum við að byggja upp öflugt og heildstætt uppeldis- og afreksstarf hjá yngri flokkum í knattspyrnu.
  15. Kærði bendir á að starf kæranda hafi orðið minna en reiknað var með og ábyrgð hennar takmarkaðri þar sem hann hafi þurft að draga eitt þriggja liða sem kærandi var ráðin til að þjálfa úr keppni. Hafnar kærði því að framkoma yfirþjálfara gagnvart kæranda hafi falið í sér mismunun þó djúpstæður samskiptavandi hafi verið milli þeirra.
  16. Kærði tekur fram að fljótlega eftir að kærandi hóf störf hafi komið fram merki þess að kærandi og yfirþjálfari hafi ekki átt skap saman. Hafi virst sem kærandi væri ósam­mála kærða um meginstefnu í þjálfun. Meðal skyldna hennar samkvæmt ráðningar­samningi hafi verið að útbúa æfingaáætlanir í samræmi við kennsluskrá félagsins og þjálfa og nálgast leikmenn í samræmi við stefnu félagsins á æfingum og í leikjum. Hafi virst sem kæranda hafi þótt stefnu áfátt að einhverju leyti, sem hafi birst í samskiptum hennar við yfirþjálfara og lélegri fylgni hennar við kennsluskrána. Hafi þannig verið ágreiningur milli kæranda og yfirþjálfara og þar með félagsins um aðferða- og hug­myndafræði í þjálfun. Hafi engu breytt þótt hugmyndafræði félagsins hafi legið fyrir allt frá því í ráðningarferlinu. Ekki verði séð að kærandi hafi reynt að fá ítarlegar skýr­ingar eða beiðni um frekari fræðslu hafi hún ekki fengið nægjanlega útlistun á kennslu­áætlun.
  17. Kærði bendir á að vandkvæði í samskiptum kæranda og hennar næsta yfirmanns hafi ekki komið til vitundar stjórnarmanna knattspyrnudeildar fyrr en vorið 2022. Hafi þá verið boðað til fundar með kæranda þar sem málin voru rædd og farið yfir atriði sem væru athugasemdaverð. Ekki hafi verið talið tilefni til frekari aðgerða á þeim tíma­punkti, enda ekkert komið fram í máli kæranda sem hafi gefið tilefni til að ætla að henni væri mismunað af hálfu yfirþjálfara í starfi sínu, einungis að þau ættu í sam­starfsörðugleikum. Í kjölfarið hafi komið upp óásættanleg atvik í samskiptum kæranda við iðkendur, þar sem iðkendur hefðu upplifað að kærandi lítillækkaði þær fyrir framan hópinn auk atvika þar sem hún talaði niðrandi um iðkendur við aðra iðkendur.
  18. Kærði tekur fram að eftir því sem liðið hafi á sumarið hafi orðið ljóst að kærandi hafi ekki gert breytingar á starfsháttum sínum. Hafi því verið afráðið að leysa hana undan vinnuskyldu. Ástæður þessa hafi verið annars vegar samskiptavandi við yfirþjálfara og hins vegar samskiptavandi við iðkendur og vanlíðan hjá þeim. Tekur kærði fram að engin önnur atriði sem nefnd eru í kæru hafi legið til grundvallar eða verið nefnd sem ástæða uppsagnar. Hafi það verið mat kærða að upplifun iðkenda af fyrirhugaðri keppnisferð til Noregs hefði verið stefnt í hættu og því hefði verið ákveðið að leysa kæranda undan starfsskyldum en innan við tveir mánuðir voru þá eftir af ráðningartíma hennar. Hafi ákvörðunin verið tekin fyrst og fremst með hag iðkenda að leiðarljósi og til þess að þeir gætu notið þess að fara erlendis með liði sínu í keppnisferð sem sé ávallt stór upplifun fyrir unga iðkendur. Jafnframt hafi kærði talið, sér í lagi í ljósi þess að draga þurfti U20 ára lið félagsins úr keppni, að koma yrði í veg fyrir mögulegt brottfall iðkenda.
  19. Kærði tekur fram að á fundi þar sem kærandi var leyst undan starfsskyldum hafi ekkert komið fram í máli hennar um að hún hefði sætt mismunun af hálfu yfirþjálfara eða annarra starfsmanna félagsins. Þó hafi engum dulist hinn djúpstæði samskipta­vandi á milli þeirra. Áréttar kærði að aldrei hafi nein kvörtun komið frá kæranda, hvorki formleg né óformleg, í þá veru að hún hafi sætt mismunun af hálfu yfirþjálfara. Hafi kæra til nefndarinnar komið kærða mjög á óvart.
  20. Tekur kærði fram að það sé afstaða félagsins að kærandi hafi ekki sætt mismunun hjá félaginu og ekkert á starfstíma hennar sem gefi til kynna að hún hafi getað talið sig hafa orðið fyrir mismunun. Séu því ekki forsendur til að telja félagið brotlegt við ákvæði laga nr. 86/2018.

     

    NIÐURSTAÐA

     

  21. Af kæru má ráða að mál þetta snúi að því hvort kærði hafi brotið gegn lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, með því að segja kæranda, sem er af öðrum þjóðernis­uppruna en íslenskum og dökk á hörund, upp störfum, sbr. 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018. Kærði heldur því fram að hann hafi leyst kæranda undan starfs­skyldum. Hvort sem um hafi verið að ræða uppsögn eða lausn undan starfsskyldum fellur það undir 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. laganna og þar með undir valdsvið kærunefndarinnar og verður kæran því tekin til efnismeðferðar.
  22. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 86/2018 kemur fram að lögin gildi um jafna meðferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfs­getu, aldri, kynhneigð, kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu, m.a. hvað varðar ákvarðanir í tengslum við laun, önnur starfskjör og uppsagnir. Í 1. mgr. 2. gr. er tekið fram að markmið laganna sé að vinna gegn mismunun og koma á og viðhalda jafnri með­ferð einstaklinga á vinnumarkaði óháð þeim þáttum sem um getur í 1. mgr. 1. gr. Nánar er fjallað um bann við mismunun við uppsögn í 8. gr. laganna.
  23. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 151/2020, um stjórnsýslu jafnréttismála, gilda lögin um stjórn­sýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, m.a. lög um jafna meðferð á vinnumarkaði, og um störf kærunefndar jafnréttismála. Verkefni kæru­nefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga nr. 86/2018 hafi verið brotin, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 151/2020.
  24. Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 86/2018 er tekið fram að hvers kyns mismunun á vinnumarkaði, hvort heldur bein eða óbein, vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1.gr. laganna sé óheimil. Jafnframt er tekið fram að fjölþætt mismunun sé óheimil. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 86/2018 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf vegna einhverra þeirra þátta sem um getur í 1. mgr. 1. gr., sbr. þó 2. mgr. 1. gr., 10., 11. og 12. gr. Sama gildir um stöðuhækkun, stöðubreytingu, endurmenntun, sí­menntun, starfsþjálfun, námsleyfi, uppsögn, vinnuaðstæður og önnur starfskjör starfs­manna. Samkvæmt sönnunarreglu 15. gr. laga nr. 86/2018 kemur það í hlut einstaklings sem telur á sér brotið að leiða líkur að því að honum hafi verið sagt upp störfum á grund­velli kynþáttar og þjóðernisuppruna. Takist sú sönnun skal atvinnurekandi sýna fram á að uppsögnin eða önnur ákvörðun um starf hafi grundvallast á öðrum þáttum en kyn­þætti og þjóðernisuppruna. Af framangreindu er ljóst að það kemur í hlut kæranda að færa fram staðreyndir eða önnur gögn og upplýsingar sem leiða líkur að því að kynþáttur og þjóðernisuppruni hafi haft áhrif á ákvörðun kærða.
  25. Fyrir liggur að kærandi var ráðin tímabundinni ráðningu í níu mánuði frá 1. desember 2021 til 1. september 2022 til að þjálfa yngri flokka hjá kærða. Hún þjálfaði einn flokkinn ásamt öðrum íslenskum þjálfara, aðstoðarþjálfari hennar var íslenskur sem og yfir­þjálfari en kærandi er hörundsdökk og af öðrum þjóðernisuppruna en þessir starfsmenn kærða. Hún var leyst frá störfum 5. júlí 2022 á fundi með fulltrúum stjórnar en ástæður þær sem voru gefnar fyrir þeirri ákvörðun voru annars vegar samskiptavandi við yfir­þjálfara og hins vegar samskiptavandi við iðkendur og vanlíðan hjá þeim. Af kæru má ráða að kærandi hafi verið ósátt við framkomu yfirþjálfara yngri flokka kærða gagnvart sér sem hafi falið í sér mismunun á grundvelli kynþáttar og þjóðernisuppruna. Þannig hafi ákveðin lítilsvirðandi hegðun hans beinst eingöngu að kæranda en ekki öðrum sem störfuðu með henni. Hefur kærandi vísað máli sínu til stuðnings til tiltekinna tilvika og nefnt einstaklinga sem voru vitni að þessari hegðun yfirþjálfarans gagnvart kæranda. Þá hefur kærandi lagt fram gögn frá iðkendum og foreldrum þeirra sem sýna ánægju með störf kæranda. Kærði hefur hins vegar engin gögn lagt fram í málinu sem hnekkja þessum staðhæfingum kæranda, þ.m.t. enga greiningu á umræddum samskiptavanda. Með vísan til þessa verður fallist á að kærandi hafi leitt líkur að því að kynþáttur og þjóðernisuppruni hafi haft áhrif á ákvörðun kærða um að leysa hana frá störfum, sbr. 1. mgr. 8. gr. og 15. gr. laga nr. 86/2018. Samkvæmt því kemur það í hlut kærða að sýna fram á að starfslokin skýrist af öðrum þáttum en kynþætti og þjóðernisuppruna.
  26. Kærði hefur vísað til þess að ástæður þess að kærandi hafi verið leyst frá störfum hafi verið alvarlegur og viðvarandi samskipta- og frammistöðuvandi hennar í starfi. Þá vísar kærði til óviðunandi hegðunar kæranda í störfum sínum fyrir félagið og ítrekaðra brota á ráðningarsamningi. Hafi kærði veitt kæranda tækifæri til úrbóta með samtali, leið­beiningum og stuðningi en án árangurs. Hafi ákvörðunin verið tekin fyrst og fremst með hagsmuni iðkenda að leiðarljósi. Af þessu tilefni er rétt að taka fram að kærði hefur ekki lagt fram nein gögn í málinu sem styðja þessar staðhæfingar hans. Þannig liggja engar fundargerðir fyrir í málinu, hvorki af fyrri fundi fulltrúa stjórnar né þeim síðari en kærandi var boðuð á þá báða, engin gögn um samskipti milli aðila, til að mynda tölvu­póstar eða sambærileg gögn, eða að minnsta kosti minnispunktar þar sem skráðar voru upplýsingar um þessi tilvik, eins og nauðsyn stóð til við þessar aðstæður. Að auki virðist engin greining hafa farið fram á umræddum samskiptavanda og liggja því engin gögn fyrir um það í hverju hann var fólginn. Þá liggur ekki heldur neitt fyrir um það að kærandi hafi ekki verið tilbúin að vinna í samræmi við stefnu félagsins og leggja sitt af mörkum við uppbyggingu uppeldis- og afreksstarfs hjá yngri flokkum í knattspyrnu hjá kærða. Þvert á móti verður af þeim upplýsingum og gögnum sem kærandi hefur lagt fram í málinu ekki dregin önnur ályktun en sú að kærandi hafi reynt að leggja sig fram í starfi. Stendur það kærða nær að tryggja sönnur um óviðunandi hegðun kæranda, ítrekuð brot á ráðningarsamningi og að hún hafi ekki staðið sig í starfi. Verður hann því að bera hallann af því að hafa ekki gert það.
  27. Á það skal bent að kærandi hefur lagt fram fundarboð kærða frá 5. júlí 2022. Í því kemur fram að tilefni fundarins hafi verið órói innan þriðja flokks kvenna, ástæður hans og mögulegar lausnir. Bar fundarboðið hins vegar ekki með sér að á fundinum ætti að leysa kæranda frá störfum og var kæranda því ekki fært að undirbúa sig að því leyti til.
  28. Að öllu þessu virtu verður ekki séð að hlutlæg og málefnaleg sjónarmið hafi legið til grundvallar ákvörðun kærða um að leysa kæranda frá störfum. Samkvæmt því verður að telja að kærða hafi ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kynþáttur og þjóðernis­uppruni hafi legið til grundvallar fyrrnefndri ákvörðun hans, sbr. 15. gr. laga nr. 86/2018.
  29. Með vísan til framangreinds verður ekki talið að sýnt hafi verið fram á að aðrar ástæður en kynþáttur og þjóðernisuppruni hafi legið til grundvallar ákvörðun kærða um að leysa kæranda frá störfum. Samkvæmt því verður fallist á að kærði hafi gerst brotlegur við 1. mgr. 8. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 86/2018. Þá verður fallist á að kærði hafi gerst sekur um fjölþætta mismunun, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 86/2018.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, Knattspyrnufélagið Þróttur, braut gegn lögum nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði, við ákvörðun um starfslok kæranda, A.

 

Kristín Benediktsdóttir

 

Andri Árnason

 

Ari Karlsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta