Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 231 Umönnunargreiðslur

Grein

Miðvikudaginn 14. nóvember 2007

 231/2007

 

A

v/B

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

 

 

Ú r s k u r ð u r

 

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

 

Með kæru, dags. 29. ágúst 2007, mótt. 3. september 2007, kærir A umönnunarmat Tryggingastofnunar ríkisins frá 8. ágúst 2007 vegna B, þar sem synjað er umönnunargreiðslna.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að umönnunarmat var fyrst gert vegna B 20. desember 1995 og var B þá metinn í 4. flokk.  Frá 5. desember 1997 hefur B verið metinn í 3. flokk, fyrst 35% en frá 1. október 1999 25%.  Í hinu kærða umönnunarmati kemur fram að B þurfi aðstoð í daglegu lífi vegna fötlunar og að mat sé ákvarðað samkvæmt 3. flokki, 0%, frá 1. mars 2006 til 30. september 2007, þar sem drengurinn sé í vistun greiddri af félagsmálayfirvöldum.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

 „  Ég undirrituð, A, uni ekki úrskurði Tryggingastofnunar ríkisins, sem dagsettur er 08.08.2007, varðandi umönnunarbætur fyrir B, en B er barn með Asperger's heilkenni og hreyfisamhæfingarörðugleika. Þess er krafist að málið verði tekið fyrir hjá Úrskurðarnefnd almannatrygginga og eru þær kröfur gerðar fyrir úrskurðarnefndinni að umönnunarbætur verði ákvarðaðar í samræmi við umsókn mína.

Móðir mín, C, fór með forsjá B. Móðir mín lést þann 04.03.2006. Eftir lát móður minnar tók ég forsjá B.

Móðir mín fékk ætíð umönnunarbætur með B. Engar breytingar hafa orðið á högum B og fæ ég því ekki ég séð að rök séu fyrir því að hafna umönnunarbótum fyrir það eitt að ég undirriðuð hef tekið við forsjá B. Barnið B þarfnast síst minni þjónustu en áður. Viðkvæmur aldur hans kallar á frekari umönnun og eftirlit.”

 

Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi, dags. 3. september 2007.  Barst greinargerð, dags. 18. september 2007, þar sem segir m.a.:

  Fyrsta umönnunarmat Tryggingastofnunar var dagsett 20.12.1995. Eftir það hafa farið fram endurmöt dags. 05.12.1997, 26.11.2003, 28.03.2006 og 24.07.2006. Hið kærða mat er dagsett 08.08.2007, 3. flokkur 0% frá 01.03.2006 til 30.09.2007. Kemur fram í því að synjað sé um umönnunargreiðslur þar sem drengurinn sé í vistun greiddri af félagsmálayfirvöldum.

 ...

Kveðið er á um heimild til fjárhagslegrar aðstoðar við framfærendur fatlaðra og langveikra barna í 4. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007. Nánar er fjallað um heimildir og skilyrði greiðslna í reglugerð nr. 504/1997 með síðari tíma breytingum.

Í lagaákvæðinu og í l. gr. reglugerðarinnar er það gert að skilyrði fyrir fjárhagslegri aðstoð frá Tryggingastofnun að barn sé haldið sjúkdómi eða andlegri eða líkamlegri hömlun, og að sjúkdómur eða andleg eða líkamleg hömlun hafi í för með sér sannanleg tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu.

Í 2. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð segir að almenn leikskóla- og skólaþjónusta skerði ekki umönnunargreiðslur, en að önnur dagleg sértæk þjónusta og vistun utan heimilis, þar með talin umtalsverð skammtímavistun, skerði greiðslur.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997 er lagaákvæðið nánar útfært. Þar segir í 4. mgr. að umönnunargreiðslur til framfærenda falli niður við vistun á vistheimili eða vistun greidda af félagsmálayfirvöldum.

Almennt er litið svo á að venjulegur framfærslukostnaður barns sé fjárhæð sem svarar til tvöfalds barnalífeyris, þ.e. einfalds frá hvoru foreldri. Tryggingastofnun telur að sem meginreglu skuli líta á fósturráðstöfun, þar sem greiðslur til fósturforeldra með barni eru umfram venjulegan framfærslukostnað, sem vistun greidda af félagsmálayfirvöldum í skilningi ofangreinds reglugerðarákvæðis. Umönnunargreiðslum er ætlað að mæta sannanlegum tilfinnanlegum útgjöldum og kostnaði við sérstaka umönnun eða gæslu barna, sbr. 4. gr. laga nr. 99/2007. Þessum útgjöldum má, eðli málsins samkvæmt, ekki vera mætt af öðrum aðilum samtímis því að umönnunargreiðslur eiga sér stað.

Í málinu liggja fyrir bréf frá Barnavernd X, dags. 26. apríl 2006 og 12. maí 2006 þar sem kemur fram að Barnaverndarnefnd X sé forsjáraðili B og að hann sé í fóstri hjá móðursystur sinni, þ.e. kæranda. Þá liggur einnig fyrir bréf frá Barnaverndarstofu dags. 26. mars 2007 þar sem kemur fram að kærandi teljist hæf til að taka B í fóstur. Í bréfinu er ekki talað um hver fari með forsjá barnsins né getið um greiðslur með barninu.

Í bréfi kæranda dags. 29. mars 2007, sem barst Tryggingastofnun fyrir hið kærða mat, segist kærandi fara með forsjá B og vísar í ofangreint bréf frá Barnaverndarstofu því til stuðnings. Þá segir kærandi að ekki hafi enn verið gerður fóstursamningur.

Tryggingastofnun sendi kæranda bréf dags. 16. apríl 2007, í framhaldi af bréfi kæranda, þar sem óskað var eftir formlegri staðfestingu á því hver fari með forsjá barnsins eða staðfestingu frá barnaverndaryfirvöldum um formlega ráðstöfun barnsins. Þá var einnig óskað eftir afriti af fóstursamningi vegna barnsins þar sem með slíkum upplýsingum væri unnt að staðfesta ráðstöfun barnsins í fóstur og upplýsa um fósturgreiðslur, en slíkt yrði að liggja fyrir ætti nýtt umönnunarmat að fara fram. Ekkert formlegt svar barst við þessari fyrirspurn.

Þrátt fyrir fullyrðingar kæranda um að hún fari með forsjá drengsins hefur það ekki fengist formlega staðfest af barnaverndaryfirvöldum. Einungis hefur komið fram að Barnaverndarnefnd X sé forsjáraðili barnsins. Þá hefur enginn fóstursamningur verið lagður fram né aðrar upplýsingar veittar um mögulegar greiðslur til kæranda vegna umönnunar barnsins. Af þeim sökum taldi Tryggingastofnun rétt að hafna umönnunargreiðslum með B með þeim rökum að drengurinn væri í vistun greiddri af félagsmálayfirvöldum.”

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 28. september 2007 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum.  Athugasemdir kæranda, ásamt afriti af hluta fóstursamnings, bárust úrskurðarnefnd almannatrygginga 10. október 2007 og hafa verið kynnt Tryggingastofnun ríkisins.

 

Þá fór úrskurðarnefnd almannatrygginga þess á leit við kæranda að nefndinni yrði sent afrit af fóstursamningum í heild sinni og barst það nefndinni þann 8. nóvember 2007.

 

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Mál þetta varðar umönnunarmat Tryggingastofnunar ríkisins frá 8. ágúst 2007, þar sem B var metinn í 3. flokk en umönnunargreiðslur ákveðnar 0%, þar sem drengurinn væri í vistun greiddri af félagsmálayfirvöldum.  Gildistími matsins er 1. mars 2006 til 30. september 2007.

 

Í rökstuðningi með kæru segir kærandi að móðir hennar og amma B hafi farið með forsjá drengsins og ætíð fengið umönnunarbætur með honum.  Eftir lát hennar þann 4. mars 2006 hafi kærandi tekið við forsjá drengsins.  Engar breytingar hafi orðið á högum hans og hann þarfnist síst minni þjónustu en áður.  Því fái kærandi ekki séð að rök séu fyrir því að hafna umönnunarbótum fyrir það eitt að hún hafi tekið við forsjá hans.

 

Í greinargerð Tryggingstofnunar er vísað til gildandi laga- og reglugerðarákvæða um umönnunargreiðslur.  Síðan segir að þrátt fyrir fullyrðingar kæranda um að hún fari með forsjá drengsins hafi það ekki fengist formlega staðfest af barnaverndaryfirvöldum.  Einungis hafi komið fram að barnaverndarnefnd X sé forsjáraðili barnsins.  Enginn fóstursamningur hafi verið lagður fram né aðrar upplýsingar veittar um mögulegar greiðslur til kæranda vegna umönnunar drengsins.  Af þeim sökum hafi Tryggingastofnun talið rétt að hafna umönnunargreiðslum með drengnum með þeim rökum að hann væri í vistun greiddri af félagsmálayfirvöldum.

 

Samkvæmt framlögðum gögnum laut drengurinn B forsjár barnaverndarnefndar X eftir lát ömmu hans og forsjáraðila, C, sem lést í mars 2006.  Kæranda máls þessa var falið að hafa varanlegt fóstur hans og í fóstursamningi samkvæmt 68. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, dags. 25. apríl 2007, segir að drengurinn verði í varanlegu fóstri hjá henni frá 22. mars 2007 til 15. september 2007.  Í samningum segir jafnframt að barnavernd Reykjavíkur skuli greiða fósturmóðurinni fjórfaldan barnalífeyri með drengnum mánaðarlega.

 

Ákvæði um umönnunargreiðslur er í 4. gr. laga um félagslega aðstoð nr. 99/2007.  Þar segir í 1. mgr. að Tryggingastofnun sé heimilt að inna af  hendi umönnunargreiðslur til framfærenda fatlaðra og langveikra barna með mánaðargreiðslum og/eða með því að taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hefur í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu.  Ennfremur eru umönnunargreiðslur heimilar vegna barna með alvarleg þroskafrávik, sem jafna má við fötlun og barna með alvarleg hegðunarvandamál, sem jafna má við geðræna sjúkdóma.

 

Í 3. mgr. 4. gr. segir að um framkvæmd ákvæðisins fari samkvæmt reglugerð.  Gildandi reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna er nr. 504/1997.

 

Í 5. gr. reglugerðarinnar  er mælt fyrir um 5 mismunandi flokka vegna sjúkra barna og 5 flokka fatlaðra barna og barna með þroska- og atferlisraskanir.  Falla alvarlegustu tilvikin í 1. flokk en þau vægustu í 5. flokk.  Vegna þeirra barna sem falla í 5. flokk eru gefin út skírteini til lækkunar lyfja- og lækniskostnaðar, en ekki eru greiddar sérstakar mánaðarlegar greiðslur, en það er gert vegna annarra flokka og fara þær greiðslur stighækkandi.

 

B á gilt umönnunarmat skv. 3. flokki 5. gr. reglugerðar nr. 504/1997, en Tryggingastofnun hefur synjað um umönnunargreiðslur þar sem drengurinn sé í vistun greiddri af félagsmálayfirvöldum.

 

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð skerðir almenn leikskóla- og skólaþjónusta ekki umönnunargreiðslur.  Önnur dagleg, sértæk þjónusta og vistun utan heimilis, þar með talin umtalsverð skammtímavistun, skerðir umönnunargreiðslur.  Svo sem fyrr segir fer um framkvæmd 4. gr. laga um félagslega aðstoð eftir reglugerð nr. 504/1997.  Í 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segir að umönnunargreiðslur til framfærenda falli niður við vistun á vistheimili eða vistun greidda af félagsmálayfirvöldum.

 

Í tilviki því sem hér er til úrlausnar hagar svo til að barnaverndarnefnd X tók við forsjá B í mars 2006 en samkvæmt framlögðum fóstursamningi var kæranda falið að hafa hann í varanlegu fóstri frá því í mars 2007.  Þá segir í fóstursamningum að barnavernd X greiði fósturmóðurinni, þann tíma sem hún hafi drenginn í varanlegu fóstri, fjórfaldan barnalífeyri.

 

Almennt er litið svo á að venjulegur framfærslukostnaður barns sé fjárhæð sem nemur  tvöföldum barnalífeyri.  Þegar félagsmálayfirvöld inna greiðslur af hendi til fósturforeldra umfram venjulegan framfærslukostnað, þ.e. tvöfaldan barnalífeyri, þá er það álit úrskurðarnefndar almannatrygginga að um sé að ræða vistun greidda af félagsmálayfirvöldum í skilningi 3. mgr. 5. gr. reglugerðar 504/1997, sem er afdráttarlaust ákvæði og á sér ótvíræða stoð í 4. gr. laga nr. 99/2007.

 

Með vísan til þess sem að framan er rakið telur úrskurðarnefndin að samkvæmt framlögðum fóstursamningi hafi B þann tíma sem hann var í varanlegu fóstri kæranda verið í vistun greiddri af félagsmálayfirvöldum og því beri að staðfesta synjun Tryggingastofnunar um greiðslu umönnunarbóta.

 

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Staðfest er synjun Tryggingastofnunar á umönnunargreiðslum vegna B, tímabilið 1. mars 2006 til 30. september 2007.

  

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

 

____________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður

 

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta