Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 233 Slysatrygging

Grein

Miðvikudaginn 24. október 2007

 

 233/2007

 

 

A

 

gegn

 

Tryggingastofnun ríkisins

 

 

Ú r s k u r ð u r.

 

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

 

Með bréfi dags. 28. ágúst 2007 kærir B hdl. f.h. A til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Trygginga­stofnunar ríkisins um synjun slysabóta.

 

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með tilkynningu um slys til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. mars 2006, var tilkynnt um slys sem kærandi hefði orðið fyrir við fall í stiga heima á leið í vinnu. Slysdagur er ekki tilgreindur í tilkynningu en þar segir að kærandi hafi verið matsveinn á C sem gert var út frá D.

 

Í læknisvottorði dags. 18. apríl 2006 segir:

 ,,Slysdagur: 1. febrúar 2006

 Ástæða komu:

Það vottast hér með að A leitaði á slysa- og bráðadeildar Landspítala háskólasjúkrahúss í Fossvogi þ. 02.02.2006 eftir vinnuslys sem hann kveðst hafa orðið fyrir deginum áður eða 01.02.2006. Kvartar um verki í hægra hné. Samkvæmt sögu sjúklings hefur hann undanfarna daga haft vaxandi einkenni frá hægra hné. Saga um bólgu í hnénu en nú ekki að finna neinn vökva.

Skoðun: Við skoðun á hnénu er eins og áður segir ekki um að ræða neinn vökva í hnénu en eymsli yfir laterala hlið liðþófans.

Sjúkdómsgreining slysadeildar: Grunur um gamlan liðþófaáverka hægra hné.

Meðferð:

Sjúklingur fékk teygjusokk og ráðlagt að taka Voltaren rapid sem hann á heima 1 tbl. x 3 á dag. Sjúklingur treysti sér ekki til að fara á sjó eins og hnéð er núna og bendi ég honum á trúnaðarlækni skipafélagsins vegna vottorðs.

Sjúklingur hefur ekki leitað slysadeildar í annan tíma vegna þessara einkenna.”

 

Tryggingastofnun synjaði umsókninni með bréfi dags. 20. júní 2007. Segir í synjunarbréfi að sameign húss, þar sem umrætt slys hafi átt sér stað teljist vera heimili viðkomandi. Þar af leiðandi sé ekki um vinnuslys að ræða í skilningi almannatryggingalaga.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

,,Málavextir eru þeir að umbj. minn var á leið til vinnu sinnar hjá E hf. er hann datt í stiga í sameign heimilis síns með þeim afleiðingum að hann meiddist á hægra hné.

Umsókn umbj. míns var hafnað með þeim rökum að sameign húss, þar sem umrætt slys hafi átt sér stað teljist vera heimili viðkomandi og að þar af leiðandi sé ekki um vinnuslys að ræða í skilningi almannatryggingalaga.

Samkvæmt 22. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, nú 27. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 telst maður vera við vinnu m.a. í nauðsynlegum ferðum til og frá vinnu.

Ljóst er að umrætt sinn var umbj. minn á leið til vinnu sinnar, hann hafði farið út af heimili sínu, þ.e. íbúð sinni sem hann telur heimili sitt, og var kominn út á sameiginlegan stigagang á leið út úr húsinu er hann féll í stiga og slasaðist. Umbj. minn getur ekki fallist á það að hann teljist enn hafa verið á heimili sínu er slysið varð. Var um að ræða slys sem varð í beinum tengslum við nauðsynlega ferð umbj. míns til vinnu en ljóst er að umbj. minn hafði hafið för sína frá heimili sínu er slysið varð.

Af framangreindu lagaákvæði verður ekki séð að tekið sé á skýran hátt á því hvenær maður telst vera kominn út fyrir heimili sitt og er þar aðeins talað um nauðsynlega ferð frá heimili til vinnu. Eins og áður er rakið er ljóst að umbj. minn hafði hafið för sína út af heimili sínu. Þá verður ekki séð að tekið sé á því í athugasemdum við ákvæðið í frumvörpum til almannatryggingalaga hvenær maður telst hafa hafið nauðsynlega ferð sína til vinnu eða hvenær hann telst vera kominn út fyrir heimili sitt.

Heimili er skilgreint í íslenskri orðabók Eddu útgáfu þannig: 1 bústaður (með tilheyrandi húsgögnum og áhöldum) til einkanota manns (fjölskyldu) að staðaldri. Sjá meðfylgjandi ljósrit úr orðabókinni. Ljóst er því að samkvæmt íslenskri orðnotkun er ekki átt við sameign húss þegar orðið heimili er notað heldur íbúð manns sem hann hefur til einkanota. Umbj. minn hafnar því þar af leiðandi alfarið að hann teljist hafa verið innan marka heimilis síns er hann datt og slasaðist umrætt sinn í sameign hússins.

Þá má benda á að í 11. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 er sameign skilgreind sem hluti fasteignar en með þessu er þó ekki sagt að sameign teljist sem heimili enda gengur það gegn viðurkenndri orðnotkun orðsins heimili.”

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 4. september 2007 eftir greinargerð Trygginga­stofnunar. Greinargerðin er dags. 17. september 2007.  Þar segir:

,,I.

Um slysatryggingar almannatrygginga er fjallað í IV. kafla laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Þar kemur m.a. fram að launþegar eru slysatryggðir við vinnu. Samkvæmt 27. gr. almannatryggingalaga telst maður vera við vinnu:

   a.    þegar hann er á vinnustað á þeim tíma sem honum er ætlað að vera að störfum, svo og í matar og kaffitímum.

   b.     í sendiferð í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem farnar eru samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar. Sama gildir um lengri ferðir af þessu tagi ef starfsmaður er á launum hjá vinnuveitanda í ferðinni.

Ennfremur er talið að tildrög slyss verði að hafa verið viðkomandi því starfi sem launþegi sinnir og tryggingagjöld eru greidd vegna.

Samkvæmt framkomnum gögnum er kærandi starfsmaður E hf. og starfar sem matsveinn á skipinu C sem lögskráð er á D.

Í slysatilkynningu segir „féll í stiga heima á leið í vinnu.” Frekari lýsing á aðstæðum segir að hann hafi verið kominn út úr íbúð sinni á F og verið að ganga niður stiga í sameign hússins niður á jarðhæð. Ekki kemur fram hvenær slys varð en skv. læknisvottorði varð það þann 1. febrúar 2006.

Megin tilgangur slysatryggingar almannatrygginga er að tryggja starfsmenn fyrir þeim hættum sem bundnar eru við framkvæmd vinnu. Við beitingu ákvæðis b. liðar 2. mgr. 27. gr. verður því að áskilja a.m.k. nokkur tengsl ferða við vinnu og framkvæmd hennar. Tryggingastofnun hefur ávallt miðað við að viðkomandi sé kominn út úr húsi til að teljast vera á leið til vinnu. Slys sem verða innanhúss hafa ekki talist falla undir umrætt ákvæði.

Sameign húss er hluti fasteignar sbr. 8. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Í sameign er einstaklingur tryggður við heimilisstörf hafi hann óskað eftir slíkri tryggingu á skattframtali sbr. 30. gr. atl. Eigandi fasteignar greiðir hita, rafmagn og fasteignagjöld að hluta vegna sameignar húss, og er um að ræða einka afnotasvæði hans og annarra íbúa viðkomandi húss.

Málinu var því hafnað á ofangreindum grundvelli og var málið ekki skoðað frekar efnislega.

II. Þess skal þó getið að óljóst er hvenær slys varð enda þess ekki getið í slysatilkynningu. Samkvæmt læknisvottorði varð það 1. febrúar 2006. Málið er því fyrnt þar sem það var ekki tilkynnt Tryggingastofnun innan eins árs tilkynningarfrests, auk þess kemur ekki fram nákvæmlega hvað gerðist heldur eingöngu getið um fall í stiga. Læknisvottorð vísar til áverka á hné en getur þess um leið að saga sé um bólgu í hné. Orsakasamband er því óljóst.

Auk þess má nefna að þegar slysið átti sér stað mun kærandi hafa verið á leið til skips. Skipið var skv. upplýsingum á þeim tíma staðsett D höfn. Kærandi hefur lögheimili í R, og var hann því á leið frá R til D til þess að stunda vinnu sína. Miða verður við það að tryggingaverndin nái til ferða frá heimili/dvalarstað sem sé í sama bæjarfélagi og vinnustaðurinn, þar sem þar var dvalist þegar vinna var stunduð og telst sá staður því heimili í skilningi b. liðar 2. mgr. 27. gr. atl. Er bótaskylda því bundin við ferðir á milli vinnustaðar og lögheimilis innan sama sveitarfélags eða svæðis. Telst ferð til vinnu frá R til D því til einkaerinda sem falla ekki undir slysatryggingar almannatrygginga.”

 

Greinargerðin var send lögmanni kæranda með bréfi dags. 28. september 2007 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Bréf lögmanns kæranda barst 4. október 2007. Bréfið var kynnt Tryggingastofnun. Barst viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar dags. 10. október 2007. Var hún kynnt lögmanni kæranda.

 

 Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar um bótaskyldu samkvæmt slysatryggingum almannatrygginga vegna meints vinnuslyss.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir að ljóst sé að kærandi hafi verið á leið til vinnu er hann slasaðist, því hann hafi verið kominn út úr íbúð sinni og fram á sameiginlegan stigagang. Hann hafi því verið kominn út af heimili sínu og verið á leið til vinnu sinnar er hann slasaðist.

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að Tryggingastofnun hafi ávallt miðað við að viðkomandi sé kominn út úr húsi til að teljast vera á leið til vinnu. Þá segir í greinargerðinni að málið sé fyrnt þar sem það hafi ekki verið tilkynnt Tryggingastofnun innan eins árs tilkynningarfrests. Læknisvottorð vísi til áverka á hné en geti þess um leið að saga sé um bólgu í hné. Orsakasamband sé því óljóst. Þá segir að samkvæmt upplýsingum hafi skip kæranda verið staðsett í Vopnafjarðarhöfn er kærandi slasaðist, en bótaskylda sé bundin við ferðir á milli vinnustaðar og lögheimilis innan sama sveitarfélags eða svæðis.

 

Slysdagur kæranda er tilgreindur 1. mars 2006. Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að ljósrit tilkynningar um slys hafi borist 11. apríl 2006 og í synjunarbréfi Tryggingastofnunar dags. 20. júní 2007 segir að tilkynning um slys hafi borist 13. mars 2006. Af þessum gögnum verður ekki annað ráðið en að slysið hafi verið tilkynnt Tryggingastofnun innan eins árs, en það sé ekki fyrnt eins og haldið er fram í greinargerð Tryggingastofnunar. Málið verður því tekið til efnislegrar meðferðar.

 

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar sem giltu er slys kæranda varð og tilkynnt var um slys til Tryggingastofnunar taka slysa­tryggingar laganna til slysa við vinnu.

 

Í 2. mgr. 22. gr. segir:

Maður telst vera við vinnu:

a.  þegar hann er á vinnustað á þeim tíma sem honum er ætlað að vera að störfum, svo og í matar- og kaffitímum.

b.  í sendiferðum í þágu atvinnurekstrar eða í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, enda sé aðeins um að ræða ferðir sem farnar eru samdægurs milli vinnustaðar og heimilis eða matstaðar.  Sama gildir um lengri ferðir af þessu tagi ef starfsmaður er á launum hjá vinnuveitanda í ferðinni.”

 

Í 2. mgr. 22. gr. laga nr. 117/1993 kemur fram að launþegi er tryggður í nauðsynlegum ferðum til vinnu og frá, og er þá litið svo á að ferð til og frá vinnustað sé nauðsynlegur þáttur í rækslu starfans.  Úrskurðarnefndin telur að ætlan löggjafans hafi verið sú að tryggingavernd næði til þeirrar  slysahættu sem fylgir þeim ferðum sem starfsmaður verður að takast á hendur til að sinna vinnunni. Hefur í framkvæmd verið litið svo á að launþegi sé tryggður á beinni og eðlilegri leið milli heimilis og vinnustaðar.   

 

Í lagaákvæðinu er talað um ferðir milli vinnustaðar og heimilis. Í máli þessu er deilt um það hvort tryggingavernd nái til sameiginlegs rýmis í húsi, þ.e. eftir að komið er út úr íbúð hins tryggða og þar til komið er út úr húsinu. Við skýringu slysatrygginga- ákvæða almannatryggingalaga skiptir mestu máli að líta til tilgangs laganna um tryggingavernd. Í lögunum er talað með almennum hætti um ferðir milli “ vinnustaðar og heimilis” án þess að það sé skýrt frekar hvenær tryggingaverndin hefst og endar. Til að tilgangi laganna sé örugglega náð ber að mati úrskurðarnefndarinnar að skýra orðalag laganna rúmum skilningi. Ekki þykir skipta meginmáli hvernig fasteign er skilgreind í sérlögum heldur hvað sé eðlileg skilgreining á heimili með tilliti til tryggingaverndar almannatryggingalaga. Það er mat úrskurðarnefndar að með heimili sé átt við séreign hins tryggða en komið sé út fyrir heimili hans þegar komið er í sameiginlegt rými. Á heimilinu í þessum skilningi fer fram undirbúningur vinnudagsins. Menn vakna, klæðast og borða morgunmat og eftir atvikum kveðja fjölskylduna áður en haldið er af stað til vinnu. Úrskurðarnefndin er því ósammála túlkun Tryggingastofnunar og telur að það skuli ekki valda synjun um bótaskyldu að kærandi hafi verið í stiga í sameign er hann hafi slasast. Hins vegar kann að vera að önnur bótaskilyrði séu ekki uppfyllt. Því verður ekki hjá því komist að vísa málinu aftur til Tryggingastofnunar til frekari meðferðar.

 

Samkvæmt skráningu í Þjóðskrá er einungis ein fjölskylda skráð til heimilis að F, það þarf því að skýra nánar hvað átt er við með sameiginlegur stigagangur og gefa kæranda kost á að tjá sig um þetta atriði..

 

Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að bótaskylda sé bundin við ferðir á milli vinnustaðar og lögheimilis innan sama sveitarfélags eða svæðis. Ekki er kveðið á um þetta atriði í almannatryggingalögum og að mati úrskurðarnefndar er ekki heimilt að takmarka tryggingavernd við ferðir innan sama sveitarfélags eða svæðis. Úrskurðarnefndin lítur svo á að með heimili í b. lið 2. mgr. 22. gr. almannatryggingalaga sé átt við lögheimili eins og það er skilgreint skv. lögum um lögheimili nr. 21/1990. Þó verði að skoða í hverju tilviki hvað telja beri heimili manns en meginregla skuli vera að miða við lögheimilisskráningu.

 

Ekki liggja nægilegar upplýsingar fyrir um ferðir C í janúar og febrúar 2006, svo sem hvaðan og hvenær það lagði úr höfn. Þá liggja ekki fyrir nægilegar upplýsingar um það hvernig slys kæranda atvikaðist og hvernig hann hugðist haga ferð sinni til skips þann 1. febrúar 2006.

 

Það er niðurstaða úrskurðarnefndar að m.a. vegna þessara atriða þá sé nauðsynlegt að rannsaka mál kæranda betur áður en hægt er að leggja mat á það hvort skilyrði bótaskyldu samkvæmt slysatryggingum almannatrygginga eru uppfyllt. Málinu er því vísað aftur til Tryggingastofnunar til nýrrar og fyllri meðferðar.

 

 

Ú R S K UR Ð A R O R Ð:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja bótaskyldu í máli A er felld úr gildi en málinu er vísað aftur til Tryggingastofnunar til nýrrar og fyllri meðferðar.

 

 F. h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

_______________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta