Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 149/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 149/2017

Miðvikudaginn 17. janúar 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 5. apríl 2017, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. mars 2017 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta hans vegna ársins 2015.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2015. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 27. mars 2017, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur á tekjutengdum bótagreiðslum til hans á árinu 2015 hefði leitt í ljós ofgreiðslu að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til innborgunar. Með bréfinu var kærandi krafinn um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. apríl 2017. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 3. maí 2017, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. maí 2017. Þann 15. maí 2017 bárust viðbótargögn frá kæranda og voru þau send Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. maí 2017. Með bréfi, dags. 8. júní, bárust athugasemdir og viðbótargögn Tryggingastofnunar ríkisins við viðbótargögnum kæranda og voru þau send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. júlí 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að uppgjör ársins 2015 verði endurreiknað með hliðsjón af upplýsingum sem fram koma í kæru og gögnum málsins.

Í kæru segir að árið 2015 hafi verið gerður starfslokasamningur á milli kæranda og B. Með samningnum hafi B greitt kæranda X NOK án tillits til vinnuskyldu. Þessi upphæð hafi verið færð sem „laun“ á skattskýrslu kæranda. Tryggingastofnun hafi notfært sér fyrrnefnda upphæð til að skerða íslenska ellilífeyri kæranda. Að mati kæranda sé hér um að ræða eftirlaun í lagalegu samhengi.

Mistök hafi verið gerð hjá NAV í Noregi að færa óskattskylda lífeyrisuppbót sem fjármagnstekjur (n. kapitalinntekt) sem í tilfelli kæranda hafi verið X NOK. NAV hafi leiðrétt þessi mistök í maí 2016. Upphæðin hafi ekki átt neitt erindi á skattskýrslu kæranda.

B Pensjonkasse hafi greitt kæranda ellilífeyri frá X 2014 til X 2014 í janúar 2015. Það hafi svo komið fram á skattframtali kæranda fyrir árið 2015. Að mati kæranda geti Tryggingastofnun ríkisins ekki notast við norskan ellilífeyri ársins 2014 til að skerða íslenskan ellilífeyri ársins 2015.

Kærandi óskar eftir því að endurreikningur verði miðaður við eftirfarandi „tekjur“ kæranda í norskum krónum fyrir árið 2015:

„Ellilífeyri frá NAV X

Grunn lífeyrir X

Gjöf frá B X

Ekki skattskyld uppbót Afp X

Ellilífeyrir frá B [X]

Samtals: X X

Sundurgreining

Ellilífeyrir frá NAV X

Ellilífeyrir frá B X

Eftirgreiðsla B frá 2014 [X]

Ellilífeyrir samtals X“

Kærandi telur að grunnlífeyrir og óskattskyld lífeyrisuppbót eigi ekki að hafa áhrif á útreikning tekjutengdra greiðslna ef marka megi íslensk lög. Samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands hafi miðgengi norsku krónunnar verið 17,06 þann 2. janúar 2015 og 14,75 þann 31. desember 2015. Meðalgengi sama árs hafi verið 16,367.

Með hliðsjón af framangreindu fari kærandi fram á að uppgjör ársins 2015 verði endurreiknað. Ef Tryggingastofnun ríkisins þóknist að endurreikna uppgjörið samviskusamlega muni kærandi draga kæruna til baka.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærandi hafi notið ellilífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun frá 1. maí 2014 og hafi fengið áframhaldandi greiðslur allt árið 2015.

Árið 2015 hafi kærandi fengið eingreiðslu frá sínum vinnuveitanda, B, upp á X NOK. Hafi sú upphæð verið færð inn á skattskýrslu kæranda sem laun en síðar verið leiðrétt af NAV í Noregi, sbr. bréf frá NAV, dags. 7. apríl 2017, um að slík greiðsla væri skattfrjáls. Kærandi haldi því fram að greiðslurnar frá B hafi haft áhrif við endurreikning og uppgjör bóta fyrir árið 2015 en slíku sé ekki fyrir að fara í hans tilviki.

Með bréfi, dags. 10. febrúar 2017, hafi Tryggingastofnun sent upplýsingar til kæranda vegna andmæla hans við uppgjöri og endurreikningi ársins 2015 og bent honum á að launatekjur sem hann hefði haft á árinu 2015 hefðu ekki áhrif á útreikning á greiðslum til hans þar sem þær væru undir frítekjumarki atvinnutekna fyrir árið 2015. Það ár var frítekjumarkið 1.315.200 kr.

Í sama bréfi frá Tryggingastofnun komi einnig fram að á norsku framtali kæranda hafi fjármagnstekjur að upphæð X NOK verið tilgreindar sem eftir gengisumreikning séu X kr. Á íslensku skattframtali kæranda hafi vextir að upphæð X kr. verið tilgreindir. Fjármagnstekjur kæranda reiknist þar af leiðandi X kr. en sökum þess að frítekjumark fjármagnstekna hafi verið X kr. fyrir árið 2015 þá reiknist aðeins X kr. sem tekjur við útreikning á tekjutengdum bótum fyrir árið 2015.

Tryggingastofnun hafi síðan sent annað bréf til kæranda, dags. 27. mars 2017, vegna uppgjörs fyrir árið 2015. Í því bréfi komi fram að þar sem NAV í Noregi hafi verið búið að senda út tilkynningu um leiðréttingu þá hafi Tryggingastofnun endurreiknað uppgjör fyrir árið 2015 þar sem ekki sé gert ráð fyrir þeim greiðslum sem getið hafi verið um í leiðréttingunni frá NAV. Niðurstaðan af þeim endurútreikningi hafi því verið sú að það breyti ekki fyrri niðurstöðu varðandi endurútreikning.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Fram komi í 2. mgr. 16. gr. að til tekna skuli teljast tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli tekjuáætlunar viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Ábyrgð á tekjuáætlun sé í höndum bótaþegans sem beri að upplýsa Tryggingastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans, sbr. 1. mgr. 39. gr. laga um almannatryggingar og 3. gr. reglugerðar nr. 568/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta.

Samkvæmt 7. mgr. 16. gr. skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Jafnframt komi fram í 6. mgr. að Tryggingastofnun skuli hafa eftirlit með því að áætlaðar tekjur séu í samræmi við upplýsingar sem stofnunin afli úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda.

Það sé ekki rétt sem kærandi haldi fram í kæru sinni að tekjur vegna eingreiðslu frá B að upphæð NOK X hafi haft þau áhrif að skuld hafi myndast við Tryggingastofnun heldur hafi skuldin komið til vegna breytinga á lífeyrisgreiðslum sem viðkomandi hafi fengið á árinu 2015.

Stofnunin hafi látið framkvæma endurútreikning með tilliti til leiðréttingar NAV. Sá endurútreikningur hafi ekki leitt til breytinga á niðurstöðu stofnunarinnar þar sem kærandi hafi verið undir frítekjumörkum.

Í upprunalegri tekjuáætlun kæranda fyrir árið 2015 hafi ekki verið gert ráð fyrir eins háum greiðslum og hann hafi síðan fengið á árinu. Með öðrum orðum hafi tekjuáætlun kæranda verið of lág vegna tekjuársins 2015, sbr. norskt skattframtal kæranda. Sú endurkrafa sem hafi myndast sé því tilkomin vegna vanáætlunar á tekjum kæranda en ekki vegna þess að ekki hafi verið tekið tillit til leiðréttingar NAV á greiðslum á norsku skattframtali.

Tryggingastofnun beri samkvæmt 16. gr. laga um almannatryggingar að framkvæma endurútreikning með tilliti til endanlegra tekna kæranda á árinu 2015. Ef um misræmi sé að ræða á milli tekjuáætlunar og raunverulegra tekna geti myndast mismunur sem kærandi þurfi síðan að standa skil á. Niðurstaða vegna endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2015 hafi leitt til skuldar kæranda að upphæð X kr., sbr. bréf til kæranda, dags. 27. mars 2017.

Tryggingastofnunin bjóði skjólstæðingum stofnunarinnar upp á ýmis greiðsluúrræði vegna skulda sem hafi myndast vegna vanáætlunar á tekjuáætlunum og standi þau kæranda til boða eins og öðrum.

Að öllu virtu telji Tryggingastofnun að framkvæmd endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna hafi verið framkvæmd á réttmætan hátt samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að stofnunin hafi látið framkvæma endurútreikning í máli kæranda bæði fyrir árin 2014 og 2015 með og án tekna vegna þeirra viðbótargagna sem bárust stofnuninni 18. maí 2017. Samkvæmt útreikningi stofnunarinnar þá breyti endurútreikningurinn engu varðandi áhrif tekna á útreikning bóta til kæranda.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2015.

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur á árinu 2015. Af gögnum málsins verður ráðið að tekjutrygging og orlofs- og desemberuppbót kæranda hafi verið skert vegna tekna hans frá Noregi. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Um tekjutryggingu er fjallað í 22. gr. laganna. Samkvæmt reglugerð nr. 1230/2015 skal greiða orlofs- og desemberuppbót á fjárhæð tekjutryggingar. Í 2. málsl. 3. mgr. 22. gr. laganna segir að hafi lífeyrisþegi tekjur samkvæmt 2. og 4. mgr. 16. gr. skuli skerða tekjutrygginguna um 38,35% þeirra tekna uns hún fellur niður. Í 2. mgr. 16. gr. laganna kemur fram að til tekna skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Sé litið til þeirra laga kemur fram að til tekna skuli telja eftirlaun og lífeyri, sbr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. tekjuskattslaga.

Þá hljóðaði þágildandi 4. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar svo:

„Þegar um er að ræða tekjutryggingu skv. 22. gr. teljast ekki til tekna þrátt fyrir 2. mgr. bætur samkvæmt lögum þessum og lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingavernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Sama á við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við skv. 68. gr.“

Af framangreindum ákvæðum má ráða að greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum geta skert tekjutryggingu og orlofs- og desemberuppbót örorkulífeyrisþega. Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. almannatryggingalaga er ríkisstjórninni heimilt að semja við erlend ríki um gagnkvæm réttindi og skyldur samkvæmt lögunum og ráðherra að semja við erlendar tryggingastofnanir í samningsríkjum um nánari framkvæmd slíkra samninga. Noregur er eitt af aðildarríkjum EES-samningsins og því skerða lífeyrissjóðstekjur frá Noregi tekjutryggingu samkvæmt almannatryggingalögum.

Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Samkvæmt gögnum málsins gerði upphafleg tekjuáætlun kæranda fyrir árið 2015 ráð fyrir lífeyrissjóðstekjum að fjárhæð X kr. Í endurreikningi Tryggingastofnunar, sem byggðist á íslensku og norsku skattframtali kæranda ársins 2015 auk norskri ársskýrslu kæranda um tekjur og frádrátt vegna ársins 2015, kemur fram að launatekjur séu að fjárhæð X kr., iðgjald í lífeyrissjóð til frádráttar að fjárhæð X kr., lífeyrissjóðstekjur að fjárhæð X kr. og vextir og verðbætur að fjárhæð X kr. Samkvæmt framangreindum gögnum fékk kærandi greiddan ellilífeyri á árinu 2015 frá NAV, annars vegar „grunnpensjon“ og hins vegar „tilleggspensjon“, auk þess að fá greitt „pensjon“ frá B Pensjonkasse og „avtalefestet pensjon i privat sektor“ frá NAV. Í endurútreikningi Tryggingastofnunar er miðað við að „grunnpensjon“ séu bætur sambærilegar greiðslum samkvæmt lögum um almannatryggingar og skerði því ekki bótaréttindi frá stofnuninni en að „tilleggspensjon“, „pensjon“ og „avtalefestet pension i privat sektor“ flokkist sem tekjur sambærilegar greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og skerði því bótaréttindi frá stofnuninni.

Af lögum um almannatryggingar má ráða að nauðsynlegt er að greina þær tekjur sem bótaþegar afla og flokka þær, enda er að öðrum kosti ekki hægt að kveða á um hvaða skerðingaráhrif tekjurnar hafa samkvæmt lögunum. Þannig geta til dæmis atvinnutekjur og lífeyrissjóðstekjur haft ólíkt skerðingaráhrif á mismunandi bótaflokka. Að því er varðar tekjur kæranda vegna „tilleggspensjon“ þá hefur úrskurðarnefnd velferðarmála komist að þeirri niðurstöðu að „tilleggspensjon“ sé sambærilegt við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum og skerði því bótaréttindi frá stofnuninni lögum samkvæmt, sbr. úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála frá 13. desember 2017 í máli nr. 486/2016 og frá 8. febrúar 2017 í máli nr. 107/2016. Þá fellst úrskurðarnefnd einnig á að flokka „pensjon“ frá B Pensjonkasse og „avtalefestet pensjon i privat sektor“ frá NAV sem lífeyrissjóðsgreiðslur sambærilegar við greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, enda er um lífeyri tengdan atvinnustarfsemi að ræða en ekki bætur almannatryggingakerfis. Í því samhengi skiptir ekki máli þó að um óskattskyldar tekjur hafi verið að ræða.

Niðurstaða endurreiknings Tryggingastofnunar var sú að kærandi hefði fengið ofgreidda tekjutryggingu og orlofs- og desemberuppbót, samtals að fjárhæð X kr. að teknu tilliti til innborgunar. Af gögnum málsins verður ráðið að endurgreiðslukröfuna megi rekja til þess að lífeyrissjóðstekjur kæranda vegna ársins 2015 voru hærri en gert varð ráð fyrir. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að benda á að greiðsla til kæranda frá B að fjárhæð X NOK er undir frítekjumörkum ársins 2015 og hefur því ekki áhrif á endurútreikninginn. Úrskurðarnefnd velferðarmála hefur yfirfarið útreikninga Tryggingastofnunar ríkisins og fellst á að kærandi hafi fengið ofgreiddar bætur að fjárhæð X kr. á árinu 2015.

Í kæru kemur fram að B Pensjonkasse hafi greitt kæranda ellilífeyri frá maí 2014 til desember 2014 í janúar 2015. Að mati kæranda getur Tryggingastofnun ekki notast við norskan ellilífeyri ársins 2014 til að skerða íslenskan ellilífeyri ársins 2015. Úrskurðarnefnd velferðarmála horfir til þess að samkvæmt 2. málsl. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar er bótagreiðsluár almanaksár. Umræddar tekjur voru greiddar kæranda í janúar 2015 og tilheyra því ári samkvæmt skattframtali kæranda vegna þess árs, þrátt fyrir að um sé að ræða lífeyri vegna tiltekins tímabils á árinu 2014. Tryggingastofnun er ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem birtast á framtali bótaþega, en úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að benda á að mögulegt sé að leita til skattyfirvalda til þess að fá skattframtalinu breytt, ef forsendur eru til þess. Þá lítur úrskurðarnefnd til þess að um er að ræða tekjustofn sem skerðir tekjutryggingu samkvæmt framangreindum lagaákvæðum. Að þessu virtu fellst úrskurðarnefnd ekki á málsástæðu kæranda um að tekjurnar skerði ekki tekjutengd bótaréttindi frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2015.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2015.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta