Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 116/2011

Miðvikudaginn 11. janúar 2012 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir eftirfarandi mál nr. 116/2011:

A

gegn

félagsmálaráði Kópavogs

og kveðinn upp svohljóðandi 

 

ÚRSKURÐUR :

Með bréfi velferðarsviðs Kópavogs til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dagsettu 22. ágúst 2011, var framsend ódagsett kæra A, vegna synjunar um námsstyrk.

 

I. Málavextir.

Kærandi sótti um námsstyrk hjá Félagsþjónustu Kópavogs í júní 2011. Honum var synjað um styrkinn eins og fram kemur í bókun frá teymisfundi 7. júlí 2011 með þeim rökum að hann ætti að öllum líkindum bótarétt hjá Vinnumálastofnun. Kærandi skaut ákvörðun félagsþjónustunnar til félagsmálaráðs Kópavogs með bréfi, dags. 14. júlí 2011. Þeirri ákvörðun skaut kærandi til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála eins og fram hefur komið.

Kærandi er 23 ára gamall maður í sambúð og á eitt barn sem fætt er árið 2010. Hann starfaði hjá fyrirtækinu B í tæpt ár en missti vinnuna þann 29. apríl 2011. Kærandi skráði sig atvinnulausan þann 2. ágúst 2011. Unnusta kæranda er einnig atvinnulaus og þiggur atvinnuleysisbætur að hluta, en hún hefur 57% bótarétt. Kærandi hafði hug á námi í trésmíðum við Iðnskólann í Hafnarfirði haustið 2011. Af hálfu kæranda kemur fram að trésmíðanámið sé ekki lánshæft hjá LÍN fyrr en eftir fyrsta árið eða tvær annir. Ef kærandi hefði hafið námið hefði hann misst atvinnuleysisbæturnar og hann gat ekki gert námssamning við Vinnumálastofnun þar sem hann hefði þurft að hafa skráð sig atvinnulausan fyrir 1. mars 2011 til þess að það hefði verið unnt. Kærandi sótti því um námsstyrk hjá Kópavogsbæ, en var synjað eins og fram hefur komið.

Kærandi átti við erfiðleika að etja í námi þar sem hann er greindur D. Hann fór í FG eftir grunnskóla á almenna braut þar sem hann féll í samræmdu prófunum. Hann lauk almennu brautinni og byrjaði í námi á félagsfræðibraut. Honum gekk illa, hætti í náminu og fór á vinnumarkaðinn.

Meðal gagna málsins er bréf frá Vinnumálastofnun, dags. 13. júlí 2011. Þar er staðfest að kærandi eigi fullan rétt á atvinnuleysisbótum þegar hann verði atvinnulaus 1. ágúst 2011. Hann eigi hins vegar ekki rétt á að stunda nám samhliða atvinnuleysisbótum þar sem skilyrði fyrir þeirri undanþágu sé að hafa verið kominn á atvinnuleysisskrá fyrir 1. mars 2011. Kærandi sé skráður í nám við Iðnskólann í Hafnarfirði á haustmisseri 2011 og hann fengi á þeim forsendum synjun á umsókn um atvinnuleysisbætur.

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála sendi Félagsþjónustu Kópavogs bréf, dags. 3. nóvember 2011, og spurðist fyrir um það hvernig afgreiðsla máls þessa samræmdist markmiði laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, sbr. sérstaklega 1. gr. laganna. Í svarbréfi Félagsþjónustunnar, dags. 11. nóvember 2011, er vísað til 1. gr. laganna og tekið fram að í frumvarpi með lögunum segi um þá lagagrein að þar sé kveðið á um að áhersla skuli lögð á að einstaklingurinn beri ekki aðeins ábyrgð á sjálfum sér heldur einnig meðborgaranum. Opinber félagsþjónusta megi ekki verða til þess að deyfa tilfinninguna fyrir ábyrgð einstaklingsins á sjálfum sér og öðrum. Þá er vitnað til greinargerðar sem unnin var af starfshópi á vegum Sambands íslenskra sveitarfélaga sem hafi skoðað þau faglegu og lögfræðilegu atriði sem hafa þyrfti í huga við endurskoðun á fyrirkomulagi og framsetningu reglna sveitarfélaga um fjárhagsaðstoð. Þar segi um beitingu reglnanna að starfsfólk félagsþjónustu sveitarfélaganna hafi almennt ekki tekið undir þá afstöðu að fjárhagsaðstoð sé framfærslukerfi hliðsett öðrum opinberum framfærslukerfum. Þeirra sjónarmið byggi á því að fjárhagsaðstoðin sé öryggisnet til þrautavara, þ.e. tímabundið úrræði og neyðarráðstöfun til þess að forða þeim einstaklingum og fjölskyldum frá örbirgð sem ekki eigi neinna annarra kosta völ til þess að eiga í sig og á.

Með vísan til framangreinds sé það afstaða Félagsþjónustu Kópavogs sem og annarra sveitarfélaga að þeir sem geti séð fyrir sér sjálfir eigi ekki rétt á aðstoð. Kærandi hafi búið við fjárhagslegt og félagslegt öryggi meðan hann hafi þegið atvinnuleysisbætur. Þeir sem eigi rétt til framfærslu annars staðar en hjá sveitarfélaginu beri að nýta þann rétt sinn. Á þann hátt sé fólk hvatt til þess að bera ábyrgð á sjálfu sér. Vegna réttinda kæranda hjá Atvinnuleysistryggingasjóði hafi hann ekki rétt til fjárhagsaðstoðar frá sveitarfélaginu sem sé grunnforsenda þess að umsókn um greiðslu námsstyrks sé tekin til umfjöllunar.

Þá er vísað til þess í umræddu bréfi að í reglum sveitarfélagsins komi fram að heimildinni um námsstyrk verði aðeins beitt í tengslum við umsókn viðkomandi um fjárhagsaðstoð og að umsækjandi sé með tekjur undir grunnaðstoð samkvæmt reglunum. Kærandi eigi rétt til atvinnuleysisbóta sem séu hærri en grunnfjárhæð samkvæmt reglum sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð.

Loks kemur fram í nefndu bréfi að með vísan til þeirrar meginreglu að hver einstaklingur beri ábyrgð á sjálfum sér geti sveitarfélagið ekki samþykkt að umsækjanda sé heimilt að hafna atvinnuleysisbótum til þess eins að fara á námsstyrk frá félagsþjónustu sveitarfélagsins. Hver einstaklingur verði að sníða sér stakk eftir vexti og þótt félagsþjónustan viðurkenni gildi náms fyrir hvern einstakling verði hver og einn að huga fyrst að framfærslu sinni og þeirra sem honum beri skylda til framfærslu.

 

II. Málsástæður kæranda.

Í ódagsettri kæru kæranda, en móttekinni 25. ágúst 2011, vísar kærandi til 25. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð, en greinin fjallar um námsaðstoð. Í bréfinu kemur meðal annars fram að kærandi sé að taka ábyrgð á lífi sínu og styrkja sig til sjálfshjálpar í framtíðinni með því að fara í iðnnám. Hann hafi verið láglaunamaður alla sína starfsævi og þegar hann hafi starfað hjá síðasta vinnuveitanda hafi hann verið með innan við 190.000 kr. í útborguð mánaðarlaun og hann kveðst gera ráð fyrir því að hann falli undir ákvæði tilvitnaðrar 25. gr. um að vera með tekjur undir svonefndri grunnfjárhæð. Kærandi bendir á að hann uppfylli skilyrði 25. gr. um að vera á aldursbilinu 18–30 ára. Hann hafi ekki lokið framhaldsskóla vegna sértækra námserfiðleika eins og D. Þá kveður kærandi grundvöll umsóknar sinnar um fjárhagsaðstoð vera þá að hann sé atvinnulaus og hafi ekki lokið grunnnámi sem gefi rétt á námslánum. Kærandi bendi einnig á að hann hafi lagt inn umsókn tveimur mánuðum áður en nám hafi hafist við Iðnskólann í Hafnarfirði.

Af hálfu kæranda kemur fram að markmið hans sé að ljúka fyrstu tveimur önnunum svo hann geti hafið lánshæft nám. Til þess þurfi hann aðstoð og hann óskar eftir að úrskurðarnefndin taki þá afstöðu til umsóknar hans um námsstyrk að hann geti hafið nám við Iðnskólann í Hafnarfirði og menntað sig til sjálfsbjargar.

 

III. Málsástæður kærða.

Félagsmálaráð Kópavogs vísar til 25. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð. Bent er á að í 25. gr. komi fram að heimild til veitingar námsstyrks verði aðeins beitt í tengslum við umsókn viðkomandi um fjárhagsaðstoð og að tekjur umsækjanda verði að vera undir grunnfjárhæð samkvæmt reglunum. Þá segi að við ákvörðun um beitingu heimildar til að veita fjárhagsaðstoð vegna náms beri að taka mið af því fjármagni sem ætlað sé til slíkrar aðstoðar í fjárhagsáætlun hverju sinni. Samkvæmt nefndu ákvæði beri starfsmönnum félagsþjónustu að afgreiða umsókn kæranda um námsstyrk í tengslum við umsókn hans um fjárhagsaðstoð. Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga sé skv. 1. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar. Þá segi í 19. gr. sömu laga að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Kærandi sé í þeirri aðstöðu að hann njóti fulls bótaréttar frá Vinnumálastofnun og teljist því ekki búa við fjárhagslegt óöryggi. Fullar bætur Vinnumálastofnunar séu hærri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar, sem sé í sveitarfélaginu 135.000 kr. Þá er bent á að eitt af vinnumarkaðsúrræðum Vinnumálastofnunar séu námsstyrkir, til að mynda til iðn- og verknáms í framhaldsskólum.

Ávallt sé litið til þess við mat á umsókn um fjárhagsaðstoð hvort umsækjandi eigi rétt til framfærslu hjá til dæmis Vinnumálastofnun, Tryggingastofnun eða Fæðingarorlofssjóði. Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga komi ekki til fyrr en önnur úrræði hafi verið tæmd eða sem uppbót ef umsækjandi eigi ekki fullan bótarétt annars staðar. Kærandi uppfylli jafnframt ekki það skilyrði 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð að þeim sem sæki um aðstoð sé skylt að leita sér atvinnu og taka þeirri atvinnu er bjóðist nema veikindi, örorka, aldur eða aðrar gildar vottfestar ástæðu hamli því.

Félagsþjónusta Kópavogs krefst þess að ákvörðun félagsmálaráðs Kópavogs verði staðfest.

  

IV. Niðurstaða.

Málskotsheimild kæranda er reist á 3. tölul. 64. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum. Fyrir nefndinni liggja reglur Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð.

Fjallað er um rétt til fjárhagsaðstoðar til þeirra sem eigi fá séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára í IV. og VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja sér reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf miðað við aðstæður á hverjum stað hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfsstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í máli þessu er ágreiningur um það hvort félagsmálaráði Kópavogs hafi borið að veita kæranda aðstoð til náms við trésmíðar í Iðnskólanum í Hafnarfirði á haustönn 2011. Þegar hin kærða ákvörðun var tekin í máli kæranda var hann atvinnulaus og átti fullan rétt til atvinnuleysisbóta. Hann skráði sig í nám í trésmíði á haustönn 2011 í Iðnskólanum í Hafnarfirði. Hann átti þó ekki rétt á að stunda nám samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur þar sem hann hafði ekki verið skráður hjá Vinnumálastofnun fyrir 1. mars 2011. Hann sótti því um námsaðstoð hjá Félagsþjónustu Kópavogs en fékk synjun.

Í 25. gr. reglna Kópavogsbæjar um fjárhagsaðstoð sem samþykktar voru í bæjarráði 30. desember 2003 og með breytingum síðast 3. febrúar 2011, er fjallað um námsaðstoð. Í greininni kemur fram að í samræmi við það markmið laga um félagsþjónustu sveitarfélaga að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og styrkja hann til sjálfshjálpar sé félagsþjónustunni heimilt að veita þeim aðstoð til náms, sem eigi við erfiðar félagslegar aðstæður að etja. Heimild þessari verði aðeins beitt í tengslum við umsókn viðkomandi um fjárhagsaðstoð og að umsækjandi sé með tekjur undir grunnfjárhæð samkvæmt reglunum. Fram kemur að heimilt sé að veita lán eða styrk vegna náms til fólks sem er á aldrinum 18–30 ára gamalt og hefur ekki lokið grunnskóla eða framhaldsskóla vegna félagslegra erfiðleika, er atvinnulaust eða þiggur fjárhagsaðstoð og hefur ekki lokið grunnnámi sem gefur rétt á námsláni. Aðstoð vegna náms skal miðast við grunnfjárhæð, eftir aðstæðum og eða bókakostnað og skólagjöld.

Samkvæmt gögnum málsins átti kærandi rétt á atvinnuleysisbótum en þær bætur eru hærri en grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar. Hann uppfyllti því ekki það skilyrði 25. gr. framangreindra reglna um fjárhagsaðstoð að vera með tekjur undir grunnfjárhæð. Við meðferð framangreinds máls hefur af hálfu úrskurðarnefndar einnig verið litið til þess hvort framangreindar reglur stangist á við reglur laga nr. 40/1991 og þá meginreglu að einstaklingar skuli eiga rétt til fjárhagsaðstoðar geti þeir ekki séð fyrir sjálfum sér, maka sínum og börnum yngri en 18 ára. Eins og upplýst var af hálfu Kópavogsbæjar hefur við afgreiðslu umsókna um fjárhagsaðstoð verið út frá því gengið að við mat á umsókn um fjárhagsaðstoð sé fyrst litið til þess hvort umsækjandi eigi rétt til framfærslu annars staðar, svo sem hjá Vinnumálastofnun, Tryggingastofnun eða Fæðingarorlofssjóði. Jafnframt hefur komið fram komi slík aðstoð ekki til fyrr en önnur úrræði hafi verið tæmd eða sem uppbót ef umsækjandi eigi ekki fullan bótarétt annars staðar. Þá hefur jafnframt komið fram að skv. 3. gr. reglna um fjárhagsaðstoð Kópavogsbæjar sé þeim sem sæki um fjárhagsaðstoð skylt að leita sér atvinnu og taka þeirri atvinnu er bjóðist nema veikindi, örorka, aldur eða aðrar gildar vottfestar ástæður hamli því. Verður ekki talið að framangreindar reglur teljist, eins og hér stendur á, ómálefnalegar eða í andstöðu við lög að öðru leyti en upplýst er að kærandi átti kost á greiðslu atvinnuleysisbóta auk þess sem hann uppfyllti ekki ákvæði 3. gr. framangreindra reglna. Með framangreindum athugasemdum er hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Úrskurð þennan kváðu upp Ása Ólafsdóttir formaður, Gunnar Eydal og Margrét Gunnlaugsdóttir, meðnefndarmenn.
 

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun velferðarráðs Kópavogs, frá 9. ágúst 2011, varðandi umsókn A um námsstyrk, er staðfest.

 

 

 

Ása Ólafsdóttir

 

 

 

Gunnar Eydal                                               Margrét Gunnlaugsdóttir

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta