Mál nr. 123/2011
Miðvikudaginn 16. nóvember 2011 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 123/2011:
A
gegn
Íbúðalánasjóði
og kveðinn upp svohljóðandi
Ú R S K U R Ð U R:
A, hér eftir nefndur kærandi, hefur með kæru sem er ódagsett en sem barst úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála þann 1. september 2011, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála ákvörðun Íbúðalánasjóðs, hér eftir nefndur kærði, frá 8. júní 2011 vegna umsóknar um endurútreikning lána hjá sjóðnum.
I. Helstu málsatvik og kæruefni
Kærandi kærði ákvörðun um endurútreikning lána hjá Íbúðalánasjóði sem hvíla á fasteigninni að B, í samræmi við samkomulag lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila.
Samkvæmt endurútreikningi Íbúðalánasjóðs, dags. 8. júní 2011, var skráð fasteignamat íbúðar kæranda að B 18.300.000 kr. Uppreiknað verðmat íbúðarinnar var 110% af skráðu fasteignamati, eða 20.130.000 kr. Áhvílandi á íbúðinni voru 22.657.145 kr. Í endurútreikningnum kemur fram að kærandi er eigandi bifreiðanna X sem metin er á 1.300.000 kr. og Y sem metin er á 150.000 kr. og hengivagnanna Z metinn á 100.000 kr. og Æ metinn á 250.000 kr. Í endurútreikningnum kemur einnig fram að kærandi er eigandi hlutabréfa að andvirði 125.000 kr. og sumarhúss að C, metin á 7.578.675 kr. Aðfararhæfar eignir kæranda sem komu til frádráttar á niðurfærslu lána hans hjá Íbúðalánasjóði voru því alls 9.503.675 kr.
II. Málsmeðferð
Með bréfi, dagse. 2. september 2011, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir upplýsingum um meðferð málsins og frekari gögnum ef þau væru fyrir hendi hjá Íbúðalánasjóði. Að auki var þess farið á leit við Íbúðalánasjóð að tekin yrði afstaða til kærunnar. Afstaða kærða barst með bréfi, dags. 21. september 2011. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 27. september 2011, var bréf Íbúðalánasjóðs sent kæranda til kynningar. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
III. Sjónarmið kæranda
Kærandi kærir niðurstöðu útreikninga Íbúðalánasjóðs vegna leiðréttingar lána í 110% leiðinni. Í rökstuðningi með kæru til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála segir kærandi að umræddur sumarbústaður að C sé í eigu barna hans sem hafi löngu tekið við honum, en að dregist hafi að þinglýsa sumarbústaðnum á þeirra nöfn.
Þá segir kærandi að það sé einlæg ósk hans að ákvörðun Íbúðalánasjóðs verði endurskoðuð vegna slæmrar stöðu lána sem hvíli á fasteign hans að B.
IV. Sjónarmið kærða
Íbúðalánasjóður áréttar að fyrirliggjandi sé ákvörðun og niðurstaða útreikninga í máli kæranda þar sem veðrými á aðfararhæfum eignum miðað við áramótastöðu lækki niðurfærslu á veðkröfum, sbr. 1. gr. laga nr. 29/2011. Þá vísar Íbúðalánasjóður til þess að eignatilfærsla á sumarhúsi hafi ekki átt sér stað fyrr en með afsali, dags. 20. júní 2011, eins og ráða megi af framlögðum gögnum málsins.
V. Niðurstaða
Málskot kærenda er reist á 1. mgr. 42. gr. laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Hlutverk úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála er meðal annarsað skera úr ágreiningsmálum er kunna að rísa vegna ákvarðana Íbúðalánasjóðs og húsnæðisnefnda, sbr. 1. mgr. 41. gr. laganna.
Í máli þessu er ágreiningur um aðfararhæfar eignir í eigu kæranda sem komu til frádráttar niðurfærslu á lánum hans hjá Íbúðalánasjóði. Kærandi hefur fært fram þau rök að ekki beri að taka tillit til sumarbústaðar í eigu hans þar sem umrædd fasteign sé í raun í eigu barna hans, en láðst hafi að þinglýsa þeim eignaskiptum. Í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011, og í lið 2.2 í 2. gr. samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila frá 15. janúar 2011 kemur fram að lántaki skuli upplýsa kröfuhafa um aðrar aðfararhæfar eignir samkvæmt lögum um aðför, nr. 90/1989. Reynist veðrými vera til staðar á aðfararhæfum eignum á niðurfærsla skulda að lækka sem því nemur. Með aðfararhæfum eignum er átt við allar eignir nema þær séu sérstaklega undanþegnar fjárnámi. Aðfararhæfar eignir eru til dæmis fasteignir, bifreiðar og bankainnstæður.
Í 1. gr. laga nr. 29/2011 kemur fram að Íbúðalánasjóði sé heimilt að færa niður veðkröfur sjóðsins á hendur einstaklingum að uppfylltum skilyrðum laganna, enda sé uppreiknuð staða veðkrafna þann 1. janúar 2011 umfram 110% af verðmæti umræddrar fasteignar. Af þessu leiðir að miða ber við stöðu veðkrafan þann 1. janúar 2011. Af því má ráða að miða ber frádrátt eigna eftir 2. mgr. 1. gr. laganna við sama tímamark, en af lögskýringargögnum með lögum nr. 29/2011 má ráða að Íbúðalánasjóði sé heimilt að miða þar við skattframtöl til þess að hraða afgreiðslu mála. Þótt það breyti engu um rannsóknarskyldu Íbúðalánasjóðs í hverju og einu máli, meðal annars um verðmæti þeirra eigna sem dragast frá við afgreiðslu umsókna um niðurfærslu skulda, má af tilvísun til skattframtala umsækjenda í lögskýringargögnum ráða þá meginreglu að miða skuli við verðmæti þessara eigna eins og þær eru þann 1. janúar 2011. Verður ekki séð hvernig jafnræðis verði að öðrum kosti gætt við afgreiðslu umsókna um lækkun veðskulda.
Þegar kærði tók umsókn kæranda til afgreiðslu var því við afgreiðslu umsóknar kæranda tekið tillit til hlutabréfaeignar kæranda, bifreiðar hans ásamt tengivögnum og sumarhúss eins og rakið hefur verið, til samræmis við ákvæði 2. mgr. 1. gr. laga nr. 29/2011.
Meðal fyrirliggjandi gagna í málinu er afrit af afsali kæranda að umræddum sumarhúsi að C til barna hans, dags. 20. júní 2011. Kærða ber að gæta jafnræðis og samræmis í úrlausn þeirra umsókna sem honum berast. Þá ber kærða að fylgja fyrrgreindum reglum og þar er ekki að finna undanþágur. Þar kemur skýrt fram að ef veðrými er á aðfararhæfum eignum lækkar niðurfærsla veðskulda sem því nemur. Er hvergi að finna heimild til handa Íbúðalánasjóði um að taka tillit til seinna tilkominna atvika eins og því að kærandi hafi afsalað umræddum sumarbústað til barna sinna þann 20. júní 2011, samkvæmt framlögðum gögnum.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og skv. 1. gr. laga nr. 29/2011 og 2. gr. 2.2 í samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila verður því að staðfesta hina kærðu ákvörðun Íbúðalánasjóðs.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Íbúðalánasjóðs, um synjun um endurútreikning á lánum A, áhvílandi á íbúðinni að B, er staðfest.
Ása Ólafsdóttir,
formaður
Margrét Gunnlaugsdóttir Gunnar Eydal