Mál nr. 625/2020 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 625/2020
Fimmtudaginn 20. maí 2021
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 30. nóvember 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. mars 2020, um innheimtu ofgreiddra bóta.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi þáði greiðslur atvinnuleysisbóta frá Vinnumálastofnun á árinu 2019. Í apríl og júlí 2019 kom til ofgreiðslu vegna orlofs sem kærandi tók. Var kæranda tilkynnt um það með greiðsluseðlum 15. maí 2019 og 2. september 2019. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 23. febrúar 2020, var farið fram á að kærandi myndi endurgreiða stofnuninni 95.589 kr. á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og vísað til framangreindra greiðsluseðla. Með erindi, dags. 3. mars 2020, gerði kærandi athugasemd við útreikning Vinnumálastofnunar vegna ofgreiðslunnar og óskaði eftir skýringum á fjárhæðinni. Í kjölfarið var orlofsskráningunni breytt og með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. mars 2020, var kæranda tilkynnt að heildarskuld hennar næmi 66.459 kr. Kærandi gerði á ný athugasemd við útreikning Vinnumálastofnunar og óskaði eftir nánari skýringum. Skýringar Vinnumálastofnunar bárust kæranda 2. júlí 2020. Með erindi, dags. 8. júlí 2020, óskaði kærandi eftir frekari skýringum vegna ofgreiðslunnar og upplýsingum um hvar hún gæti sótt um lækkun á fjárhæðinni. Kærandi ítrekaði erindi sitt 30. nóvember 2020 og lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála sama dag.
Með bréfi, dags. 8. desember 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Sú beiðni var ítrekuð 9. febrúar 2021. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 9. mars 2021, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. mars 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda 23. mars 2021 og voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. mars 2021. Þá bárust frekari athugasemdir frá kæranda 20. maí 2021.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi greinir frá því að hún hafi fengið bréf frá Vinnumálastofnun, dags. 23. febrúar 2020, um skuld að fjárhæð 95.589 kr. vegna atvinnuleysisbóta sem hún hafi fengið í apríl og júlí 2019. Sá útreikningur hafi ekki verið réttur eins og útreikningur kæranda sýni fram á. Kærandi hafi hringt til Vinnumálastofnunar og sent tölvupóst 3. mars 2020. Vinnumálastofnun hafi fallist á útreikning kæranda og stoppað ferlið til að endurskoða málið, eins og kæranda hafi verið tilkynnt um 4. mars 2020. Þann 26. mars 2020 hafi kærandi fengið ófullnægjandi upplýsingar sem réttlættu ekki upphæð skuldarinnar. Kærandi hafi strax svarað en ekki fengið neitt svar. Þann 26. maí 2020 hafi kærandi aftur haft samband við Vinnumálastofnun með von um að fá skýringar. Frá 27. til 28. þess mánaðar hafi kærandi fengið einhver svör og hafi fjárhæðin verið lækkuð í 66.459 kr. en engin ákvörðun send. Kærandi hafi verið í tölvupóstsamskiptum við Vinnumálastofnun í júní og júlí 2020 þar sem hún hafi ekki enn verið sammála útreikningi skuldarinnar. Kærandi hafi óskað eftir útskýringum og síðasti tölvupósturinn hafi verið sendur 8. júlí 2020 en engin frekari svör hafi borist frá stofnuninni.
Í athugasemdum kæranda kemur fram að málið snúist um það að hún hvorki skilji mistök Vinnumálastofnunar né hafi fengið fullnægjandi skýringar. Kærandi skilji ekki hvernig ofgreiðslan fyrir orlof í tíu daga í apríl og þrjá daga í júlí hafi verið reiknuð. Það sé skiljanlegt að kærandi hafi ekki fengið greiddar atvinnuleysisbætur í fríi sínu og því hafi hún tilkynnt dagsetningar ferða fyrir fram. Varðandi ferðina í júlí 2019 þá hafi kærandi tilkynnt um hana 25. júlí en ekki 30. júlí eins og Vinnumálastofnun nefni í greinargerð sinni. Kærandi hafi frá byrjun verið í góðri trú og fylgt réttum málsmeðferðarreglum. Á þessum tíma hafi kærandi reglulega og réttilega upplýst Vinnumálastofnun um ferðir sínar fyrir fram og að hún hafi fengið tímabundið starf. Þrátt fyrir það sé í bréfi Vinnumálastofnunar vísað til skuldar í stað mistaka stofnunarinnar á útreikningi vegna dagsetninga og launa. Að lokum vilji kærandi spyrjast fyrir um rétt sinn til niðurfellingar skuldarinnar þar sem hún hafi ekki stofnað til skuldarinnar.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 12. desember 2018 og reiknast með 100% bótarétt. Þann 2. mars 2020 hafi kærandi hringt í stofnunina og tilkynnt að orlof væri ekki rétt skráð hjá henni. Orlofskráning kæranda hafi verið leiðrétt þann 16. mars 2020 með tilliti til upplýsinga frá kæranda og flugfarseðla sem hafi legið til grundvallar, þ.e. skráningu hjá kæranda hafi verið breytt þannig að kærandi hafi verið skráð í orlof þann 28. mars til 3. apríl 2019 og 21. apríl til 4. maí 2019. Þá hafi kærandi einnig verið skráð í orlof 30. júlí 2019 á tímabilinu 28. júlí til 17. ágúst 2019 vegna ferðar erlendis. Þegar orlofsskráning kæranda hafi verið leiðrétt hafi kærandi þegar fengið greiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli fyrri skráningar. Af þeim sökum hafi kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur í apríl og júlí 2019. Kærandi hafi fyrst fengið tilkynningu um ofgreiðslu atvinnuleysisbóta með tilkynningu á Mínum síðum Vinnumálastofnunar þann 15. maí 2019, að fjárhæð 116.181 kr., án álags. Þann 29. ágúst 2019 hafi kærandi fengið tilkynningu um ofgreiðslu atvinnuleysisbóta, að fjárhæð 3.450 kr., án álags. Á þeim tíma hafi heildarskuld kæranda við stofnunina verið 95.589 kr. en skuldinni hafi verið skuldajafnað mánaðarlega við greiðslur atvinnuleysisbóta. Þann 23. febrúar 2020 hafi kærandi síðan fengið innheimtubréf frá stofnuninni. Höfuðstóll skuldar hafi verið 95.589 kr., án álags. Þess hafi verið farið á leit við kæranda að skuldin yrði greidd innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins. Kæranda hafi verið tilkynnt um ákvörðun þessa með bréfi, dags. 23. febrúar 2020, verið leiðbeint um rétt sinn til endurupptöku á málinu fyrir viðeigandi stjórnvaldi, heimild sinni til að óska eftir rökstuðningi stofnunarinnar sem og um kæruheimild sína til úrskurðarnefndar velferðarmála. Í kjölfar beiðni kæranda um leiðréttingu á orlofi sínu í mars 2020 hafi heildarskuld kæranda numið 66.459 kr.
Mál þetta varði þá ákvörðun Vinnumálastofnunar að hefja innheimtuaðgerðir vegna skuldar kæranda sem tilkynnt hafi verið með bréfi, dags. 23. febrúar 2020. Þess hafi verið farið á leit í því bréfi að kærandi greiddi skuld sína vegna ofgreiddra atvinnuleysisbóta, samtals að fjárhæð 95.589 kr. innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins, ella yrði málið sent til Innheimtumiðstöðvarinnar á Blönduósi til frekari innheimtu. Í kjölfar leiðréttingar á orlofsskráningu kæranda hafi skuldin verið lækkuð.
Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og að innheimta ofgreiddar bætur. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslunnar hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð.
Þann 2. júlí 2020 hafi kærandi fengið tölvupóst frá stofnuninni þar sem útreikningur skuldar hennar við stofnunina hafi verið útskýrður. Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi verið erlendis tímabilið 28. mars til 3. apríl 2019, 21. apríl til 4. maí 2019 og einnig hafi kærandi verið skráð í orlof 30. júlí 2019 á tímabilinu 28. júlí til 17. ágúst 2019 vegna ferðar erlendis. Kærandi hafi því ekki átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta á meðan á orlofinu hafi staðið, sbr. lög nr. 54/2006. Af þeim sökum hafi kærandi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu og því hafi myndast skuld í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar. Í febrúar 2020 hafi skuld kæranda enn verið ógreidd og hafi henni verið sent bréf þess efnis þann 23. febrúar þar sem þess hafi verið farið á leit að skuldin yrði greidd innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins. Þar sem skuld kæranda að fjárhæð 66.459 kr., án 15% álags, sé enn ógreidd telji Vinnumálastofnun að ákvörðun stofnunarinnar um að hefja frekari innheimtuaðgerðir samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi verið rétt.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. mars 2020, um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir apríl og júlí 2019, að fjárhæð 66.459 kr., vegna orlofs sem kærandi tók á sama tíma og hún fékk greiddar atvinnuleysisbætur.
Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 30. nóvember 2020. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun var ekki leiðbeint um kæruleið og kærufrest til úrskurðarnefndarinnar svo sem bar að gera samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Að því virtu þykir afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr en liðnum kærufresti og verður hún því tekin til efnismeðferðar með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.
Í upphafi telur úrskurðarnefndin rétt að gera athugasemd við að Vinnumálastofnun hafi ekki svarað erindi kæranda frá 8. júlí 2020. Það er í ósamræmi við þá grundvallarreglu stjórnsýsluréttarins að hver sá sem ber upp skriflegt erindi við stjórnvald eigi rétt á að fá skriflegt svar nema svars sé ekki vænst. Úrskurðarnefndin brýnir fyrir Vinnumálastofnun að gæta framvegis að þeirri skyldu þegar erindi berast stofnunni.
Í 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna er heimilt að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum sama einstaklings en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur 25% af síðarnefndu atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:
„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.
Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“
Samkvæmt framangreindu er ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur fyrir tímabil sem skilyrði laganna er ekki uppfyllt. Í c-lið 1. mgr. 13. gr. laganna, eins og ákvæðið var orðað þegar kærandi þáði atvinnuleysisbætur, kemur fram að launamaður sé tryggður samkvæmt lögunum sé hann búsettur og staddur hér á landi. Óumdeilt er að kærandi var stödd erlendis í apríl og júlí 2019 á sama tíma og hún þáði greiðslur atvinnuleysisbóta. Ljóst er að skráning kæranda hjá Vinnumálastofnun vegna þess orlofs var ekki rétt og því fékk kærandi ekki greiddar réttar atvinnuleysisbætur fyrir þá mánuði, þ.e. hún fékk hærri greiðslur en hún átti rétt á. Það að Vinnumálastofnun hafi greitt kæranda bætur þrátt fyrir að hún hafi verið búin að tilkynna um orlof hefur ekki áhrif á endurgreiðsluskylduna. Þá er ekki fyrir að fara heimild í lögum nr. 54/2006 fyrir Vinnumálastofnun að fella niður kröfur um ofgreiddar bætur í heild eða að hluta líkt og kærandi hefur farið fram á. Í máli þessu hefur ekkert álag verið lagt á skuld kæranda og því er ekki ágreiningur um það atriði. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 29. mars 2020, í máli A, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir