Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 369/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 369/2015

Miðvikudaginn 15. júní 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 15. desember 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. nóvember 2015 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað en honum metinn örorkustyrkur tímabundið.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 20. júlí 2015. Með örorkumati, dags. 23. nóvember 2015, var umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur synjað en honum metinn örorkustyrkur tímabundið frá 1. júlí 2015 til 31. október 2017. Með tölvubréfi þann 25. nóvember 2015 gerði móðir kæranda athugasemdir við örorkumatið og óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Rökstuðningur var veittur með bréfi, dags. 7. desember 2015.

Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 21. desember 2015. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd almannatrygginga eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 4. janúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 11. janúar 2016, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu, en ráða má af kæru að hann óski eftir því að synjun Tryggingastofnunar verði felld úr gildi og umsókn hans um örorkulífeyri samþykkt.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi fengið endurhæfingarlífeyri í fjóra mánuði en ekki hlotið neinn árangur af endurhæfingunni. Kærandi hafi verið greindur með ADHD í kringum X ára aldur auk þess sem hann hafi verið greindur með mótþróaþrjóskuröskun einhverju síðar. Eftir margra ára ferli hafi hann verið greindur með Asperger heilkenni um X ára aldur.

Kærandi hafi verið með stuðning í leik- og grunnskóla og eftir mikla vinnu útskrifast úr grunnskóla með ágætis einkunn. Eftir grunnskólann hafi hann farið í C og gengið vel fyrsta árið sitt þar. Eftir fyrsta árið hafi hins vegar verið lítill námsárangur og hætti kærandi í C um áramótin X, eftir að hafa fallið í öllum fögunum síðustu þrjár annirnar.

Kærandi hafi aldrei stundað vinnu og hann sé heldur ekki fær um það. Hann geti ekki hugsað sér að vinna þar sem hann þurfi að umgangast fólk, eins og til dæmis á búðarkassa í verslun. Hann sé einnig haldinn ýmsum fóbíum sem geri honum meðal annars erfitt að vinna við garðyrkjustörf eins og hann hafi unnið við í vinnuskólanum. Sérstaklega sé kóngulóafóbían á háu stigi hjá honum. Síðan kærandi hætti í skólanum hafi hann verið í „D“ með fasta viðveru frá klukkan tíu til tvö á daginn, alla daga.

Kærandi sé mjög félagslega einangraður og eigi ekki vini fyrir utan þá sem hann eigi í samskiptum við í tölvunni. Hann lendi alls staðar á milli kerfa. Hann fái ekki atvinnuleysisbætur vegna þess að hann hafi ekki verið í vinnu. Þar sem hann hafi ekki verið í vinnu eigi hann engan rétt hjá lífeyrissjóði, því hann hafi aldrei greitt í lífeyrissjóð. Hann eigi ekki rétt á aðstoð frá VIRK þar sem hann hafi ekki misst vinnu eða slasast við vinnu.

Ljóst sé að kærandi eigi við fötlun að stríða sem komi í veg fyrir að hann komi sér áfram í lífinu eins og heilbrigðir einstaklingar geti gert. Hann hafi engar tekjur fyrir utan nú nýlega þegar hann hafi fengið örorkustyrk. Margir sem séu í svipaðri stöðu í umhverfi kæranda fái örorkubætur, auk þess sem margir séu betur settir en hann. Sótt hafi verið um örorkubætur til þess að auka sjálfstæði kæranda með von um að úr muni rætast síðar og hann fái vinnu sem verði til þess að örorkubætur falli niður.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins á örorku kæranda til úrskurðarnefndar almannatrygginga.

Þann 20. júlí 2015 hafi Tryggingastofnun móttekið umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur ásamt spurningalista vegna færniskerðingar. Kæranda hafi verið metin endurhæfing á tímabilinu 1. mars 2015 til 30. júní 2015. Samkvæmt meðfylgjandi gögnum hafi kærandi verið greindur með Asperger heilkenni ásamt ofvirkniröskun.

Með örorkumati lífeyristrygginga þann 23. nóvember 2015 hafi kæranda verið metinn örorkustyrkur frá 1. júlí 2015 til 31. október 2017. Kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði staðals um hæsta örorkustig, en færni hans til almennra starfa talin skert að hluta.

Við mat á örorku styðjist stofnunin við staðal Tryggingastofnunar en honum sé skipt í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá fimmtán stig í líkamlega hlutanum eða tíu stig í andlega hlutanum. Þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta fyrir sig. Kærandi hafi ekkert stig hlotið á líkamlega þættinum en hann hafi hlotið átta stig á andlega þættinum.

Við skoðun með tilliti til staðals hafi komið fram að kærandi geti ekki einbeitt sér að því að lesa tímaritsgrein eða að hlusta á útvarpsþátt, geðrænt ástand kæranda komi í veg fyrir að hann sinni áhugamálum sem hann hafi notið áður, svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf, andlegt álag hafi átt þátt í því að kærandi lagði niður starf, hann forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi og geðræn vandamál valdi honum erfiðleikum í tjáskiptum við aðra.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Stofnuninni sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur samkvæmt 19. gr. almannatryggingalaga sé greiddur þeim sem skorti a.m.k. helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Tryggingastofnun hafi lagt heildarmat á þau gögn sem liggi fyrir í máli þessu og það sé niðurstaða stofnunarinnar að sú afgreiðsla á umsókn kæranda hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. nóvember 2015, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en honum metinn örorkustyrkur tímabundið frá 1. júlí 2015 til 31. október 2017. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin a.m.k. 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkubætur samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 með reglugerðinni. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast a.m.k. 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast a.m.k. 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn  a.m.k. 75% öryrki nái hann a.m.k. sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð E, dags. X, þar sem fram kemur að sjúkdómsgreiningar kæranda séu sem hér greinir:

„Asperger´s syndrome

Attention deficit hyperactivity disorder“

Í læknisvottorðinu segir svo um fyrra heilsufar og sjúkrasögu kæranda:

„Drengur sem var í eftirliti hjá F læknis frá X ára aldri. Fór á þeim aldri að glíma við erfiðleika í aðlögum. Uppfyllti greiningarviðmið um ofvirkni. Athugun á BUGL síðar benti einnig til mótþróaþrjóskuröskunar og byrjandi andfélagslegrar hegðunar. Jafnframt afmörkuð frávik í þroska, erfiðleikar í fínhreyfingum og skynúrvinnslu. Þá hefur hann líka einkenni um ofvirkniröskun, ADHD meðferð reynd með Ritalini án árangurs. Gekk þokkalega að læra til að byrja með en síðar miklir erfiðleikar með nám og gafst endanlega upp X áramót, án þess að taka próf.

Grunur um Asperger árið X sú greining staðfest af sérfræðingum á Bugl X. Er [...], býr hjá móður sinni, á enga nána vini og er því félagslega frekar einangraður.

[…]

A er X ára drengur á einhverfurólinu. Gafst endanlega upp á skólagöngunni X áramót. Er með mjög svo takmarkaða félagslega færni og gæti ekki eins og staðan er í dag bjargað sér einn og óstuddur.“

Um skoðun á kæranda þann X segir svo í vottorðinu:

„Hraustlegur drengur, líkamlega vel gerður. Það næst þokkalegur kontakt við hann með því að tala um áhugamál hans sem er [...].Annars er hann rólegur í viðtalinu en ekki beint málgefinn..“

Í greinargerð G frá endurhæfingaraðila við lok endurhæfingar, dags. X, segir meðal annars svo:

 „A er greindur með Asperger F84.5 og ofvirknihegðunarröskun F90.1 frá t-teymi BUGL árið X. Hann fékk sem barn sérstuðning í skóla og með félagslegum úrræðum vegna þroskafrávika. Hann býr hjá móður sinni sem er einstæð en ekki er stuðningur frá föður. Á heimili er A fremur ósjálfstæður varðandi dagleg verk og sjálfsumhirðu. Hann hefur verið með liðsmann á vegum H, þjónustumiðstöðvar I en hann er félagslega einangraður.

A hefur á endurhæfingartímabilinu mætt vel til D og látið vita þegar hann hefur verið veikur eða hefur ekki komist. Hann mætir kl. 10.00 á morgnanna og lýkur degi kl. 14.00. Á tímabilinu hefur verið unnið að aukinni þátttöku hans í öllu því sem boðið er upp á og hefur þátttakan smám saman verið að aukast. A vill ekki taka þátt í leikfimi, slökun né yoga en honum finnst það ekki eiga við sig. Hann hefur sett sér það markmið að taka strætó á morgnanna til D og að hjóla að dagskrá lokinni heim (frá [...] í [...]). Þetta vill hann setja inn í dagskránna í stað [...]. Í sumar mun verða haldið áfram hjá D á sömu braut og verið hefur s.l mánuði en með haustinu verður skoðað hjá D hvar A getur farið í starfsþjálfun en [...] eru það sem helst kemur til greina. Á liðnu endurhæfingartímabili var á áætlun að hann færi í starfsþjálfun og starfskynningar en af því hefur ekki orðið. Það veldur einhverjum vandkvæðum að ekki sé hægt að gera svokallaða vinnusamninga án þess að einstaklingur sé með örorkugreiðslur sem greitt geta laun hans auk þess sem erfitt hefur verið að finna störf. Þetta verður því áframhaldandi markmið í haust. Það er mat starfsfólks D að afar mikilvægt sé að fara rólega af stað með starfsþjálfun og að gefa A nægan tíma til að verða öruggari með sjálfan sig. A hefur litla reynslu af vinnumarkaðnum en eina starfsreynsla hans er frá Vinnuskólanum. Það liggur ekki enn fyrir hjá D mat á Vinnufærni hans né hvar styrkleikar hans og veikleikar liggja hvað vinnufærni varðar. A hefur ekki viljað taka þátt í félagsstarfi D. Hann hefur t.d. ekki viljað fara á kaffihús með hópnum, sér ekki tilgang í því og vill ekki fara. Hefur þó farið í nokkrar gönguferðir með þeim. Áframhaldandi áherslur og áætlun næstu mánaða hjá D verða því að efla félagsfærni A og fá hann til að taka virkari þátt í félagsstarfi D.

Það sem hefur áunnist á endurhæfingartímabilinu er að A lauk námskeiði hjá J í [...] og er nú að undirbúa sig fyrir að taka [...] próf. Með þessu og ef hann lýkur [...] prófi í [...] munu starfsmöguleikar hans aukast nokkuð. A hefur mikinn áhuga á að fara í starfsþjálfun s.s. á [...]. A er mjög góður í allri samvinnu, mætir vel og er viljugur en þó er spurning um raunverulega stafsgetu hans og úthald til vinnu.

A hefur verið hjá D síðan í X og framfarir verið mjög hægar. Undirrituð efast því mjög um vinnuhæfni hans og er þeirrar skoðunar að endurhæfing gangi hægt, þó vissulega séu framfarir. Ljóst er að enn er langt í land hvað starfshæfni varðar og því telur undirrituð ekki forsendur fyrir áframhaldandi endurhæfingu. Áframhaldandi hæfingar er þó þörf bæði félagslega og starfsmiðaðrar en til lengri tíma en endurhæfing tekur til. A myndi að mati undirritaðrar vel geta nýtt sér styrkt atvinnuúrræði eins og t.d. Atvinnu með stuðningi með utanumhaldi og stuðningi.

Ekki verður því sótt um áframhaldandi endurhæfingarlífeyri en A hefur verið bent á að hefja örorkumatsferli. Hjá Tryggingastofnun ætti að vera læknisvottorð frá því í X er staðfestir óvinnufærni hans. “

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar, dags. 20. júlí 2015, sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að hann sé með greiningu á einhverfurófi ásamt ADHD og mótþróaþrjóskuröskun. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi við geðræn vandamál að etja játandi sé Asperger skilgreint sem geðrænt vandamál, en hann eigi ekki við líkamlega fötlun að etja.

Skýrsla K skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hann að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann X. Samkvæmt skýrslunni telur skoðunarlæknir að kærandi eigi ekki við líkamlega færniskerðingu að etja. Hvað varðar  andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að kærandi geti ekki einbeitt sér að því að lesa tímaritsgrein eða að hlusta á útvarpsþátt. Geðrænt ástand kæranda komi í veg fyrir að hann sinni áhugamálum sem hann hafi notið áður. Svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi lagði niður starf. Kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Þá valdi geðræn vandamál kæranda erfiðleikum í tjáskiptum við aðra. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun á kæranda þannig í skýrslu sinni:

„Í rétt rúmum meðalholdum. Líkamsskoðun eðlileg en hreyfiþroski aðeins slakur en þó nokkuð eðlileg samhæfingargeta.“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Asperger heilkenni.“

Í athugasemdum skoðunarskýrslunnar segir svo:

„Ungur maður sem er í ferli sem gæti leitt til starfa á almennum vinnumarkaði hugsanlega með stuðningi.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, metur örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, engin. Að mati læknis er andleg færniskerðing kæranda sú að hann geti ekki einbeitt sér að því að lesa tímaritsgrein eða að hlusta á útvarpsþátt. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að geðrænt ástand kæranda komi í veg fyrir að hann sinni áhugamálum sem hann hafi notið áður. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi lagði niður starf. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Þá metur skoðunarlæknir það svo að geðræn vandamál valdi kæranda erfiðleikum í tjáskiptum við aðra. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því andleg færniskerðing kæranda metin til átta stiga samtals.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda a.m.k. 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar hefur ekkert komið fram sem bendir til að það eigi við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefnd velferðarmála leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að nokkurs misræmis gæti í gögnum málsins varðandi mat á andlegri færni kæranda. Í mati skoðunarlæknis kemur fram að kæranda sé annt um útlit sitt og aðbúnað í lífinu. Í rökstuðningi fyrir því svari skoðunarlæknis segir hann að kærandi komi snyrtilegur og hreinlegur til viðtals. Hins vegar segir í niðurstöðum T- teymis á BUGL, dags. X, að kærandi sé ósjálfstæður varðandi dagleg verk og sjálfsumhirðu. Í greingargerð endurhæfingaraðila við lok endurhæfingar segir að á heimili sé kærandi fremur ósjálfstæður varðandi dagleg verk og sjálfsumhirðu. Einnig segir í tölvubréfi móður kæranda til Tryggingastofnunar ríkisins frá 25. nóvember 2015 að færni kæranda hafi fremur hrakað heldur en batnað og þá sérstaklega varðandi hans eigin líkamsumhirðu eins og bað og tannburstun. Hann taki ekki til eða þrífi í kringum sig. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að gögnin gefi til kynna að kæranda sé ekki annt um útlit sitt og aðbúnað í lífinu. Ef fallist yrði á að kæranda sé ekki annt um útlit sitt og aðbúnað í lífinu fengi kærandi eitt stig til viðbótar samkvæmt örorkustaðli.

Í mati skoðunarlæknis kemur einnig fram að kærandi geti séð um sig sjálfur án aðstoðar annarra. Í rökstuðningi fyrir því svari segir skoðunarlæknir að það sé samkvæmt mati hans. Hins vegar segir í læknisvottorði E dags. X, að kærandi sé með mjög takmarkaða félagslega færni og geti ekki eins og staðan sé í dag bjargað sér einn og óstuddur. Þá segir í greinargerð frá endurhæfingaraðila við lok endurhæfingar að kærandi sé fremur ósjálfstæður varðandi dagleg verk og sjálfsumhirðu. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að gögnin gefi til kynna að kærandi geti ekki séð um sig sjálfur án aðstoðar annarra. Ef fallist yrði á að kærandi geti ekki séð um sig sjálfur án aðstoðar annarra fengi kærandi tvö stig til viðbótar samkvæmt örorkustaðli.

Kærandi fengi því ellefu stig vegna andlegrar færniskerðingar og uppfyllti læknisfræðileg skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris. Með hliðsjón af framangreindu misræmi er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki verði hjá því komist að nýtt mat fari fram á örorku kæranda. Er æskilegt að í örorkumatinu verði tekin rökstudd afstaða til þess sem misræmið lýtur að. Hafa ber í huga að miklir hagsmunir eru því tengdir fyrir kæranda hvort hann uppfyllir skilyrði örorkulífeyris.

Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að ekki verði hjá því komist að fella ákvörðun Tryggingastofnunar úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta