Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 334/2022 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 334/2022

Miðvikudaginn 31. ágúst 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, móttekinni 29. júní 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 4. maí 2022 um upphafstíma endurhæfingarlífeyris.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn 3. nóvember 2021 sótti kærandi um endurhæfingarlífeyri frá 22. júní 2020. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. maí 2022, var kæranda metinn endurhæfingarlífeyrir vegna tímabilsins 1. júní 2021 til 31. desember 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. júní 2022. Með bréfi, dags. 1. júlí 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 8. júlí 2022, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. júlí 2022.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi vilji útskýra ýmislegt varðandi sjúkdómssögu sína og endurhæfingu sem hún hafi farið í gegnum. Kærandi hafi verið greind með gigt X ára gömul og hún sé enn undir eftirliti gigtarlæknis vegna gigtarvandamála, auk þess sem augnlæknir fylgist með sjón hennar. Þá hafi kærandi einnig verið í B og hjá sérfræðingi í barnalækningum. Í öll þessi ár hafi kærandi verið í endurhæfingu hjá föður sínum sem sé sjúkraþjálfari og fengið stuðning og ráð frá mömmu sinni sem sé hjúkrunarfræðingur.

Gigtin hafi haft mikil áhrif á lífsgæði kæranda. Hún hafi þurft að hætta í fimleikum, hestamennsku og fótbolta sem hún hafi elskað, auk þess sem hún hafi ekki klárað síðasta árið sitt í unglingakór C. Kærandi hafi síðan greinst með brjósklos síðasta árið sitt í grunnskóla sem hafi haft enn meiri áhrif á líf hennar. Það hafi oft verið erfitt að stunda námið með gigtinni en hafi orðið enn verra eftir að kærandi hafi fengið brjósklos og ekki getað setið nema smá tíma í einu.

Það megi segja að fjarkennsla vegna Covid hafi bjargað miklu fyrir kæranda því að það hafi gert henni kleift að klára stúdentinn um jólin 2020, liggjandi í rúminu. Kærandi hafi verið óvinnufær lengi. Kærandi hafi stundum getað unnið hálfan dag, eins og í unglingavinnunni og aðstoðað við reiðnámskeið barna. Kærandi hafi aftur á móti fengið brjósklosið þegar hún hafi byrjað að vinna í D og hafi ekkert getað farið út á vinnumarkaðinn vegna verkja og skertrar hreyfigetu. Kærandi hafi verið í endurhæfingu vegna gigtar og verkja á E frá 22. júní til 10. júlí 2020 og svo aftur 27. júlí til 7. ágúst sama ár. Vegna versnunar á brjósklosinu hafi þó verið takmarkað gagn af dvölinni þar og kærandi hafi endað hálf rúmliggjandi heima hjá sér þar til hún hafi loks komist í aðgerð hjá  F heila- og taugaskurðlækni þann 16. apríl 2021.

Kærandi hafi verið í endurhæfingu síðan og bataferlið hafi tekið langan tíma. Kærandi hafi þurft að passa að ofgera sér ekki því að það hafi kallað á kulda- og verkjakast og jafnvel að hún þurfi að liggja í rúminu. Kærandi hafi þurft að láta skrifa fyrir sig prófin því að hún hafi ekki getað notað hendurnar vegna verkja. Hún hafi þurft að ganga við hækjur vegna þess að hún finni svo til í fótunum. Kærandi hafi ekki getað snúið sjálfri sér í rúminu eða komist upp úr rúminu án hjálpar. Marga daga hafi hún verið föst heima vegna verkja og hafi því ekki getað tekið þátt í lífinu.

Í dag líði kæranda betur þótt gigtin láti vita af sér þegar hún sé að ofgera sér. Hún taki gigtar- og verkjalyf á hverjum degi og svefnlyf til að sofa. Í haust hafi kærandi byrjað í áhugaverðu námi hjá Háskóla Íslands og líti bjartsýn fram á veg. Kæranda finnist matið á umsókn sinni um endurhæfingarlífeyri óréttlát. Hún hafi verið í endurhæfingu allan tímann þótt það komi ekki fram hjá Sjúkratryggingum Íslands. Kærandi sé lánsöm að hafa foreldra sem vinni í heilbrigðisgeiranum sem hafi hjálpað henni í gegnum stundum mjög erfitt tímabil, bæði líkamlega og andlega. Einnig hafi þau hjálpað kæranda fjárhagslega, en núna sé kominn tími til að standa á eigin fótum. Endurhæfingarlífeyrir geti hjálpað kæranda við það. Kærandi fari fram á að matið á endurhæfingartímabili verði endurskoðað. Hún telji endurhæfingartímabil frá 20. desember 2020 til 31. desember 2021 vera sanngjarnt og vonandi geti hún bjargað sér sjálf héðan í frá.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærður sé upphafstími greiðslna endurhæfingarlífeyris til kæranda sem tilkynntur hafi verið með bréfi, dags. 4. maí 2022.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum. Greinin hljóði svo:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. mr. laga um almannatryggingar, nr. 100/2007. Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga. Sjúkrahúsvist í endurhæfingarskyni skemur en eitt ár samfellt hefur ekki áhrif á bótagreiðslur.

Tryggingastofnun ríkisins hefur eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.

Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um hvaða aðila skuli falið að annast gerð endurhæfingaráætlunar.“

Sett hafi verið reglugerð nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.

Í 13. gr. laga um félagslega aðstoð segi að beita skuli V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna.

Í 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar segi að réttur til bóta stofnist frá og með þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til bótanna og skulu bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi. Bætur falli niður í lok þess mánaðar er bótarétti ljúki.

Kærandi hafi fengið samþykkt samtals sjö mánaða endurhæfingartímabil, eða frá 1. júní 2021 til 31. desember 2021. Mat á umsókn um greiðslur endurhæfingarlífeyris hafi farið fram 4. maí 2022. Í umsókn hafi verið óskað eftir að endurhæfingartímabil hæfist 20. desember 2020, eins og í kæru.

Við mat gert 4. maí 2022 hafi legið fyrir umsókn um endurhæfingarlífeyri, dags. 3. nóvember 2021, læknisvottorð frá G yfirlækni HSU, dags. 24. október 2021, endurhæfingaráætlun frá G yfirlækni HSU, dags. 31. október 2021, endurhæfingaráætlun frá H sjúkraþjálfara, dags. 28. september 2021 og staðfesting frá Háskóla Íslands, dags. 13. janúar 2022.

Í fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun frá lækni hafi verið óskað eftir endurhæfingartímabili frá október 2021, en í endurhæfingaráætlun frá sjúkraþjálfara hafi verið óskað eftir endurhæfingartímabili frá apríl 2021. Í læknisvottorði, dags. 24. október 2021, komi fram að kærandi hafi verið greind með barnagigt við 9-10 ára aldur. Hin síðari ár hafi einkenni mest verið frá baki og kærandi hafi verið greind með brjósklos við segulómskóðun árið 2017. Kærandi sé búin að vera í meðferð gigtarlækna, hafi verið í B á barnadeild og hafi lært ýmis bjargráð. Einnig hafi hún farið í gegnum sex vikna endurhæfingu á E og sé með heimaæfingar frá sjúkraþjálfara. Fram komi að þau endurhæfingarúrræði sem hún hafi fengið hafi ekki enn skilað aukinni vinnugetu.

Í endurhæfingaráætlun frá lækni, dags. 31. október 2021, sé vísað í meðfylgjandi áætlun frá sjúkraþjálfara, auk þess sem gert sé ráð fyrir eftirliti heimilislæknis. Í endurhæfingaráætlun frá sjúkraþjálfara, dags. 28. september 2021, hafi verið gert ráð fyrir að endurhæfing fælist í sjúkraþjálfun einu sinni til tvisvar sinnum í viku, auk heimaæfinga tvisvar til þrisvar sinnum á dag, nuddi, æfingum, viðhaldsmeðferð og fleiru. Í áætlun komi jafnframt fram að kærandi hafi verið í sjúkraþjálfun eftir brjósklosaðgerð vinstra megin sem gerð hafi verið 16. apríl 2021.

Í 5. gr. reglugerðar nr. 661/2020 komi fram að endurhæfingaráætlun skuli ávallt taka mið af heilsufarsvanda umsækjanda með það að markmiði að aðstoða umsækjanda við að leita lausna við þeirri færniskerðingu eða heilsubresti sem valdi skertri starfshæfni hans. Leitast skuli við að endurhæfingaráætlun byggi á heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta heilsu og auka starfsorku og starfshæfni. Í ofangreindri 5. gr. reglugerðarinnar komi einnig fram að Tryggingastofnun skuli leggja mat á það hverju sinni hvort fyrirhuguð endurhæfing sem gerð sé grein fyrir í endurhæfingaráætlun, þar með talið viðmið um ástundun og viðtöl, sé fullnægjandi með tilliti til markmiðs endurhæfingarinnar.

Í 4. gr. reglugerðarinnar komi fram að greiðslur skuli ekki ákvarðaðar lengur en til eins árs í senn og aldrei lengur en fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun segi til um. Ef einhverjir þættir í fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun þyki óljósir skuli greiðslutímabil að jafnaði ákvarðað til styttri tíma.

Í 7. gr. laga um félagslega aðstoð segi að greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Í fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun frá sjúkraþjálfara, dags. 28. september 2021 hafi verðið óskað eftir endurhæfingartímabili frá apríl 2021. Samkvæmt skrá Sjúkratrygginga Íslands yfir mætingar í sjúkraþjálfun sjáist að kærandi hafi byrjað að mæta í sjúkraþjálfun 17. maí 2021.

Með vísan í 53. gr. laga um almannatryggingar sé einungis heimilt að veita greiðslur frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi en réttur til bóta stofnist frá og með þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til bótanna. Skilyrðin hafi verið talin uppfyllt í maí 2021 þegar sjúkraþjálfun hafi byrjað og því hafi mat verið gert frá 1. júní 2021, þ.e. fyrsta degi næsta mánaðar. Ekki hafi verið talið heimilt að meta endurhæfingarlífeyri lengra aftur í tímann þar sem ekki hafi legið fyrir endurhæfingaráætlun á umbeðnu tímabili, auk þess sem litið hafi verið svo á að endurhæfing væri ekki í gangi á umbeðnu tímabili samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Endurhæfingarlífeyrir taki mið af því tímabili sem viðkomandi taki þátt í skipulagðri starfsendurhæfingu undir handleiðslu fagaðila þar sem tekið sé markvisst á þeim heilsufarsvanda sem valdi óvinnufærni. Óvinnufærni ein og sér veiti ekki rétt til greiðslna endurhæfingarlífeyris.

Tryggingastofnun telji ljóst að ákvörðun stofnunarinnar um upphafstíma endurhæfingarlífeyris til kæranda hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög um almannatryggingar, lög um félagslega aðstoð og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga. Tryggingastofnun telji því ekki ástæðu til þess að breyta ákvörðun sinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. maí 2022, um upphafstíma endurhæfingarlífeyris. Ágreiningur máls þessa snýst um hvort kærandi hafi uppfyllt skilyrði um endurhæfingarlífeyri á tímabilinu 1. janúar 2021 til 31. maí 2021, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Á grundvelli 5. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð var sett reglugerð nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segir um mat á líklegum árangri endurhæfingar:

„Tryggingastofnun skal meta heildstætt hvort líklegt sé að sú endurhæfing sem lagt er upp með í endurhæfingaráætlun muni stuðla að aukinni starfshæfni. Einnig skal stofnunin leggja mat á það hverju sinni hvort fyrirhuguð endurhæfing sem gerð er grein fyrir í endurhæfingaráætlun, sbr. 5. gr., þ.m.t. viðmið um ástundun og viðtöl, sé fullnægjandi með tilliti til markmiðs endurhæfingarinnar.“

Í 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. framangreindrar reglugerðar segir um upphaf greiðslna:

„Grundvöllur greiðslna er að endurhæfingaráætlun liggi fyrir og er heimilt að setja það skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris að umsækjandi hafi formlega hafið endurhæfingu hjá viðurkenndum umsjónaraðila endurhæfingaráætlunar, sbr. 6. gr.“

Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segir um endurhæfingaráætlun:

„Endurhæfingaráætlun skal ávallt taka mið af heilsufarsvanda umsækjanda með það að markmiði að aðstoða umsækjanda við að leita lausna við þeirri færniskerðingu eða heilsubresti sem veldur skertri starfshæfni hans. Leitast skal við að endurhæfingaráætlun byggi á heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta heilsu og auka starfsorku og starfshæfni. Tryggingastofnun metur heild­stætt í hverju tilviki hvort endurhæfingaráætlun teljist fullnægjandi til að skilyrði fyrir greiðslum séu upp­fyllt.“

Endurhæfingarlífeyrir er samkvæmt framangreindu bundinn ákveðnum skilyrðum sem uppfylla verður til að greiðslur séu heimilar. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort framangreind skilyrði hafi verið uppfyllt á umdeildu tímabili.

Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Þá segir í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð að beita skuli V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna. Í 1. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar kemur fram að réttur til bóta stofnist frá og með þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til bótanna og að bætur skuli reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi.

Í málinu liggur fyrir læknisvottorð G, dags. 24. október 2021, og þar eru tilgreindar eftirtaldar sjúkdómsgreiningar:

„Juvenile arthritis, unspecified

Lumbar and other intervertebral disc disorders with radiculopathy

Obesity, unspecified

Vefjagigt“

Um sjúkrasögu kæranda segir í vottorðinu:

„A er X ára kona sem var greind með barnagigt af I á stofu við X ára aldur. ANA jákvætt, RF og HLA-B27 neikv. J tók síðan við henni þegar hún var 12 ára. Óljóst var af hvaða undirflokki barnagigtin var. Einkenni hófust í ökklum sem þeim fannst bólgna og hún fór að haltra. Fékk síðan einkenni frá hnjám, mjöðmum, hálsi, úlnliðum og einnig fingrum. Síðan þá endurtekin tímabil þar sem henni finnst liðirnir bólgna og gefa verki, en sem svo batna aftur eftir eina eða fáar vikur. Aldrei haft liðbólgur við klíníska skoðun, og segulómskoðun af úlnliðum vorið 2019 var eðlileg. Almennar blóðprufur eðlilegar, ekki bólgumerki. D vítamín skortur.

Sem barn var hún í B, eftirlit hjá K barnalækni (ofþyngd). Vegna verkjavanda vísað á E til endurhæfingar sumarið 2020. Var þar í 6 vikur.

Hin síðari ár mest einkenni frá baki. Brjósklos greint með segulómskoðun árið 2017. Ekki sakroileit/merki um hryggikt. Versnandi með leiðnieinkennum niður vinstri fótlegg og ákv. að reyna aðgerð í apríl 2021. Í læknabréfi F eftir aðgerð kemur fram að þann 16/4 fór A í aðgerð. Var komist að brjósklosinu og það fjarlægt eins og skynsamlegt var og líka innan úr liðþófanum. Taugin leit mun betur út eftir aðgerð. Gangur eftir aðgerð: Hefur fylgt æfingarplani sjúkraþjálfara. Er í Háskólanum en þarf bara að mæta í einn tíma – hitt fjarkennsla. Hún er betri í bakinu og er að fá tilbaka aukna tilfinningu í vi fótlegg. Hún hefur verið betri af gigtinni sl 2 ár en fær af og til verki í ökklaliði. J barnagigtlæknir hefur vísað henni til fullorðinsgigtarlækna en hefur enn ekki komist að. Þegar hún reynir e-ð á sig segist hún þurfa heilan dag til að jafna sig. Á ekki gott með að sitja lengi og efast um að hún gæti verið í tímum í háskólanum meira en hálfan dag. Hún hefur ekki mikla vinnusögu vegna ofangreinds vanda, og hefur ekki unnið sl 2 ár. Úthald er skert og verkir há henni ef hún ofreynir sig.“

Fyrir liggur endurhæfingaráætlun G læknis, dags. 31. október 2021, þar sem fram kemur að áætlað endurhæfingartímabil sé frá 1. október 2021 til 30. september 2022. Um endurhæfingaráætlun er vísað til endurhæfingaráætlunar H sjúkraþjálfara, dags. 28. september 2021, og fram kemur að heimilislæknir sinni eftirliti. Í greinargerð H segir:

„A hefur verið í sjúkraþjálfun eftir brjósklosaðgerð L5S1 vi. megin þ 15. apríl 2021. Hún er einnig með gigtarsjúkdóm ( barnaliðagigt ) og hefur verið undir eftirlit hjá gigtarlækni og í endurhæfingu á E. Hún er að jafna sig eftir aðgerðin en er enn með máttleysi í vi fæti og er með skerta álagsþol. Það þýðir að hún þolir minna álag en áður. Gigtarsjúkdómi hefur truflandi áhrif á bakendurhæfingu en má gera ráð fyrir hæg bataferli. Hún er byrjuð í háskólanámi og er í erfðleikum með ADL, s.s að sita lengi, að lyfta og bera.

Hún þarf áframhaldandi meðferð skv endurhæfingaráætlun. Endurhæfingarlífeyrir gerir henni kleift að vinna í sínum málum.“

Í endurhæfingaráætluninni kemur fram að kærandi verði í verkjameðferð í 8-12 vikur, meðal annars með sjúkraþjálfun 1-2x í viku, auk heimaæfinga 2-3x á dag. Þá kemur fram að hún verði í 4-12 mánaða meðferð til að auka álagsþol og starfsgetu, meðal annars með bakæfingum, viðhaldsmeðferð 1x í viku og viðtalsmeðferð.

Ágreiningur í máli þessu snýst um það hvort kærandi eigi rétt á greiðslum endurhæfingarlífeyris vegna tímabilsins 1. janúar 2021 til 31. maí 2021. Tryggingastofnun ríkisins telur að skilyrði fyrir greiðslum endurhæfingarlífeyris hafi ekki verið uppfyllt fyrr en 1. júní 2021 þar sem kærandi hafi ekki byrjað að mæta í sjúkraþjálfun fyrr en 17. maí 2021 samkvæmt skrá Sjúkratrygginga Íslands yfir mætingar í sjúkraþjálfun.  

Við mat á upphafstíma greiðslu endurhæfingarlífeyris lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess að skýrt er kveðið á um það í 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð að endurhæfingarlífeyrir greiðist á grundvelli endurhæfingaráætlunar og tekur mið af því tímabili sem viðkomandi tekur þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði. Í fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun frá sjúkraþjálfara var tímabil endurhæfingar frá apríl 2021. Samkvæmt áætluninni fólst endurhæfing fyrst og fremst í sjúkraþjálfun í upphafi, auk heimaæfinga. Samkvæmt skráningu Sjúkratrygginga Íslands yfir mætingar í sjúkraþjálfun byrjaði kærandi að mæta í sjúkraþjálfun 17. maí 2021. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar, sem meðal annars er skipuð lækni, að virk endurhæfing hafi ekki hafist fyrr en í maí 2021. Að mati úrskurðarnefndar uppfyllti kærandi því ekki skilyrði fyrir greiðslum endurhæfingarlífeyris fyrr en 1. júní 2021 sem var fyrsti dagur næsta mánaðar eftir að endurhæfing hófst, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð og 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar.

Með hliðsjón af því, sem rakið hefur verið, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma endurhæfingarlífeyris kæranda.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma endurhæfingarlífeyris A A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta