Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 19/1997
(2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973, 18. gr. laga nr. 42/1983, reglugerð nr. 264/1971, raforkuvirki, rafmagnslína, raflína, háspennulína, raflínumöstur, vegir, línuvegir, byggingabann, helgunarsvæði, umferðarréttur, sumarbústaðaland, sjónmengun, hávaðamengun, skipulagsuppdráttur, landbúnaðarland, segulsvið, rafsegulsvið, útivistarsvæði, skipulag)
Fimmtudaginn 1. júlí 1999 var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta matsmálið nr. 19/1997
Landsvirkjun
gegn
Eigendum Hæðarenda,Grímsneshreppi, Árnessýslu
og kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður:
I. Skipan Matsnefndar eignarnámsbóta:
Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.
II. Matsbeiðni, aðilar og andlag eignarnámsins:
Með matsbeiðni dags. 5. desember 1997, sem lögð var fram í Matsnefnd eignarnámsbóta þann 15. desember 1997 fór Landsvirkjun, kt. 420269-1299, Háaleitisbraut 68, Reykjavík (eignarnemi), þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á hluta úr jörðinni Hæðarenda, Grímsneshreppi, Árnessýslu. Eignarnámsþolar eru eigendur jarðarinnar, en þeir eru
Guðmundur Sigurfinsson, kt. 121242-3389 og Birgir Sigurfinnsson, kt. 020159-4569. Samkvæmt matsbeiðni er tilefni eignarnámsins lagning Búrfellslínu 3A, 220 kV raflínu um jörð eignarnámsþola. Undir rekstri matsmálsins varð sú breyting gerð að eignarnema var veitt heimild til lagningar 400 kV línu um jörðina.
Andlag eignarnámsins í landi eignarnámsþola er eftirfarandi:
Land undir 900 m. langan og 4 m. breiðan vegslóða ásamt nauðsynlegum fláum meðfram fyrirhuguðu línustæði í landi jarðarinnar. Eignarnemi mun hafa óheftan umferðarrétt um vegslóðann vegna línulagningarinnar, svo og til þess að sinna framvegis viðhaldi, endurbótum og eftirliti með línunni og möstrum í landi jarðarinnar.
Land undir 4 raflínumöstur til að bera háspennulínuna í landi eignarnámsþola. Eignarnumin landspilda undir hverju mastri er 2.916 m² að stærð. Samtals eru því teknir 11.664 m² eignarnámi undir raflínumöstur í landi eignarnámsþola.
Sú kvöð leggst á land undir raflínunni að ekki má byggja nein mannviki á 54 m. breiðri landræmu undir og meðfram línunni, en línan er u.þ.b. 1.450 m. löng í landi eignarnámsþola.
Í matsbeiðni er krafa um að eignarnema verði á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973 fengin umráð þeirra réttinda sem eignarnámið tekur til þó mati sé ekki lokið.
Heimild til eignarnámsins byggist á 18. gr. laga nr. 42/1983 um Landsvirkjun, en heimild iðnaðarráðuneytisins til eignarnámsins liggur fyrir.
III. Málsmeðferð:
Mál þetta var fyrst tekið fyrir hjá Matsnefnd eignarnámsbóta mánudaginn 15. desember 1997. Af hálfu eignarnema var lögð fram matsbeiðni ásamt fylgigögnum. Vegna kröfu eignarnema um að fá strax umráð hins eignarnumda á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973 var aðilum veittur frestur til að koma að skriflegum sjónarmiðum sínum vegna þess þáttar málsins til 19. desember 1997. Að því búnu gekk matsnefndin á vettvang og kynnti sér aðstæður. Málinu var að því búnu frestað um ótiltekinn tíma.
Mánudaginn 22. desember 1997 kvað matsnefndin upp úrskurð vegna kröfu eignarnema um umráðatöku á grundvelli 14. gr. laga nr. 11/1973. Úrskurðarorðið hljóðar svo: "Eignarnema, Landsvirkjun, er heimiluð umráð hins eignarnumda lands að Hæðarenda, Grímsneshreppi, og að hefja framkvæmdir á svæðinu þó mati sé ekki lokið."
Föstudaginn 29. maí 1998 var málið tekið fyrir. Eignarnemi hafði þá fengið heimild til að leggja 400 kV línu um hið eignarnumda land, í stað 220 kV línu eins og áður hafði verið ráðgert. Tilefni fyrirtökunnar var krafa eignarnema um að fá umráð hins eignarnumda og að hefja framkvæmdir við línuna þrátt fyrir þessa breytingu. Matsnefndin heimilaði eignarnema umráðin með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973 og úrskurðarins frá 22. desember 1997. Málinu var að því búnu frestað um ótiltekinn tíma. Af hálfu matsnefndarinnar var sú ákvörðun tekin að hefja ekki eiginleg matsstörf fyrr en raflínan væri komin upp og búið að hleypa straumi á hana.
Mánudaginn 8. mars 1999 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnema var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögnum og var málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnámsþola.
Föstudaginn 9. apríl 1999 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnámsþola var lögð fram greinargerð ásamt fylgigögnum. Málinu var að því búnu frestað til munnlegs flutnings.
Mánudaginn 3. maí 1999 var málið tekið fyrir. Aðilar fluttu málið munnlega fyrir nefndinni og var það að því búnu tekið til úrskurðar.
Auk þeirra bókuðu fyrirtekta málsins sem gerð hefur verið grein fyrir hefur matsnefndin farið nokkrum sinnum til viðbótar á vettvang og kynnt sér aðstæður, bæði í fylgd aðila málsins og án þeirra.
IV. Sjónarmið eignarnema:
Af hálfu eignarnema hafa eignarnámsþolum verið boðnar bætur er nema kr. 678.750- vegna þess tjóns sem þeir verða fyrir við eignarnámið. Að mati eignarnema er þar um fullnaðarbætur að ræða, en eignarnámsþolar hafa ekki fallist á þá lausn málsins. Eignarnemi bendir sérstaklega á að kunnáttumaður um landverð hafi verið fenginn í lið með eignarnema til að reikna út þær bætur sem boðnar voru eignarnámsþolum.
Að mati eignarnema er ekki á það fallist að allt það land sem línan fari um skuli metið sem sumarbústaðaland. Sérstaða landsins á þessu svæði sé almennt ekki slík, að hún réttlæti hærri bætur, en tíðkast annars staðar við línuna, þótt svo kunni að vera í einstaka tilvikum. Eignarnemi leggur sérstaka áherslu á að eignarnámið nái ekki til allra réttinda á landi eignarnámsþola. Aðeins sé um að ræða raunverulegt eignarnám á þeim hluta landsins sem fer undir veginn og raflínumöstrin auk þess sem byggingabann undir línunni takmarki nýtingu þess lands. Eignarnemi gerir hins vegar ekki athugasemd við hefðbundna nýtingu þess lands sem er undir línunni eða umferð um það, að svo miklu leyti sem það valdi ekki hættu. Eignarnemi telur að meta skuli bæturnar með tilliti til þessa, enda telur hann að ekki hafi verið sýnt fram á að tjóni hafi verið valdið á landinu vegna framkvæmdanna, umfram það sem nefnt hefur verið. Í þessu sambandi bendir eignarnemi sérstaklega á að ekkert sé því til fyrirstöðu að aðrir hlutar jarðarinnar séu nýttir undir sumarhúsabyggð, þrátt fyrir tilvist raflínunnar.
Eignarnemi telur að ekki hafi verið sýnt fram á fjárhagslegt tjón af völdum hávaða frá línunni, en slíkt tjón verði að sanna með óyggjandi hætti svo unnt sé að fallast á að greiða bætur vegna þessa. Á landsvæðinu sem línan liggur um hafa löngum verið rafmagnslínur, en vindgnauð í þeim er óháð spennunni sem um línurnar fer. Þá telur eignarnemi ekki hafa verið sýnt fram á, að hávaði frá línunum sé slíkur, að tjón hljótist af fyrir landeigendur.
Eignarnemi mótmælir því að uppsetning línunnar feli í sér slíka sjónmengun að það valdi verðrýrnun á landi eignarnámsþola. Eignarnemi bendir á að Hæstiréttur hafi með dómi sínum frá árinu 1997 bls. 52 slegið því föstu að við eignarnám skuli einungis fjárhagsleg réttindi bætt. Eignarnemi telur kröfu eignarnámsþola um bætur vegna sjónmengunar vera kröfu um bætur fyrir ófjárhagslegt tjón og af þeim sökum hefur kröfunni verið hafnað. Í þessu sambandi bendir eignarnemi sérstaklega á að eftir því sem landið byggist og þéttbýli stækki, verði sífellt erfiðara að koma að sjónarmiðum um sjónmengun af mannvirkjum í útjaðri byggðar eða mannvirkjum sem tengjast byggðinni. Þá bendir eignarnemi á að fólk geri sífellt ríkari kröfur til aðbúnaðar t.d. í sumarhúsum. Þannig sé það nú sjálfsagt mál að þar sé rafmagn og e.t.v. heitt vatn auk þess sem kostur þyki ef stutt er í einhverja þjónustukjarna. Þessu fylgi að fólk dregur úr kröfum sínum varðandi sjónræn áhrif af nálægðri byggð. Einnig vekur eignarnemi athygli að við hlið hinnar nýju raflínu sé eldri raflína í landi eignarnámsþola.
Eignarnemi mótmælir því að línunni fylgi áhrif á heilsu og líðan manna og dýra vegna raf- eða segulssviðs. Af hálfu eignarnema hefur verið lögð fram skýrsla sem unnin var af Eymundi Sigurðssyni og fjallar um rafsegulsvið auk þess sem umfjöllun er um það sama í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum Búrfellslínu 3A sem einnig hefur verið lögð fram í málinu. Niðurstaðan í þessum gögnum er sú að rannsóknir sýni að áreiti af raf- eða segulsviði ógni ekki heilsufari manna. Sérstaklega er tekið fram að enginn fullnægjandi vitnisburður gefi tilefni til að ætla að áreiti frá raf- og segulsviði valdi krabbameini, eða hafi áhrif á sálarlíf einstaklinga, taugaboð, æxlun eða þroska. Með hliðsjón af þessum niðurstöðum neitar eignarnemi því alfarið að honum beri að greiða bætur vegna þessa.
Eignarnemi leggur á það ríka áherslu að eignarnámsþolum hafi mátt vera það ljóst löngu áður en lagning Búrfellslínu 3A hófst, að til stæði að leggja línuna. Skipulagsuppdráttur, þar sem kveðið er á um legu línunanar, hafi verið samþykktur af viðkomandi hreppsnefndum og staðfestur og auglýstur af umhverfisráðuneytinu, þegar á árinu 1991. Undirbúningur og kynning hafi þá staðið um nokkra hríð. Eignarnemi telur að hafa verði þetta í huga við matið, sérstaklega þegar litið er til ákvarðana landeigenda um nýtingu á landinu, sem teknar voru eftir að ljóst var í hvað stefndi.
Eignarnemi telur hugmyndir eignarnámsþola um bótafjárhæð vera fjarri öllum raunveruleika. Eignarnemi hefur í þessu sambandi lagt fram fasteignamat jarðarinnar allrar sem á að endurspegla raunhæft staðgreiðsluverð hennar. Af þessu mati megi sjá að kröfugerð eignarnámsþola er úr öllum tengslum við mögulega verðmætarýrnun jarðarinnar vegna lagningar raflínunnar.
V. Sjónarmið eignarnámsþola:
Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að matsnefndin ákveði bætur að fjárhæð kr. 13.549.356- auk málskostnaðar og vaxta frá október 1998. Eignarnámsþolar halda því fram að þeir hafi ávallt verið mótfallnir því að Búrfellslína 3A yrði lögð yfir land þeirra.
Eignarnámsþolar telja línuna valda verðlækkun á landi í nágrenni línunnar og á allri jörð þeirra vegna sjónmengunar og vegna geislunar frá línunni. Eignarnámsþolar segja æ meiri kröfur gerðat til verndunar óspilltrar náttúru og að fólk leiti eftir því að vera úti í náttúrunni þar sem athafnir mannsins hafa ekki sett svip sinn á landið. Eignarnámsþolar telja tilvist raflínu til sveita spilla til muna ánægju fólks á veru þar, enda séu slík mannvirki almennt talin ljót og fólk sækist ekki eftir að dvelja nærri þeim. Eignarnámsþolar leggja nálægð línunnar að jöfnu við að þar væru sorphaugar. Eignarnámsþolar benda sérstaklega á að jarðhiti sé í jörð á Hæðarenda og sé hann nýttur með ýmsum hætti, þar sé m.a. rekin garðyrkjustöð sem stundi lífræna ræktun og takmarki raflínan möguleika á þeirri ræktun og stækkunarmöguleika stöðvarinnar. Þá takmarki raflínan einnig nýtingarmöguleika jarðhitans til sölu í sumarhús, en skipulagt sumarhúsasvæði, með lóðum ýmist seldum eða óseldum, sé staðsett í landi jarðarinnar, þar sem línan blasir við í 500-700 m. fjarlægð.
Eignarnámsþolar telja margs konar geislun og hávaða stafa frá línunni og það rýri verðmæti lands þeirra og íbúðarhúss. Eignarnámsþolar benda á að þrátt fyrir að reglugerð um raforkuvirki heimili byggingar í næsta nágrenni við háspennulínur, þá verði til þess að líta að enginn sækist eftir því að byggja þar sem menn eða dýr þurfa að dveljast í nágrenni við slíkt mannvirki. Eignarnámsþolar telja að línunni fylgi ýmis hljóð, sérstaklega við vissar veðuraðstæður, sem valdi óþægindum og fælni.
Varðandi rafsegulsvið línunnar telja eignarnámsþolar í raun ekki skipta máli hvort slík áhrif hafi verið sönnuð, þar sem það sé í raun trú fólks að raflínum fylgi slíkar bylgjur og hafi það því þegar af þeirri ástæðu fælandi áhrif og geri landið umhverfis lítt fýsilegt til útiveru. Þetta hljóti að leiða til þess að land eignarnámsþola lækki í verði við tilkomu raflínunnar.
Eignarnámsþolar telja landið undir línunni verða þeim algerlega ónýtt, þrátt fyrir að þeir hafi heimild til umferðar um það og tilkoma raflínunnar eyðileggi í raun miklu stærri hluta landsins en þá 54 metra sem byggingarbannið nái til, þar sem enginn hafi áhuga á því að kaupa spildu eða dvelja í næsta nágrenni við línuna. Þannig séu eignarnámsþolar í raun enn verr settir með tilkomu línunnar, heldur en væri ef sambærileg landspilda væri seld t.d. undir sumarbústaði. Þá telja eignarnámsþolar að byggingabannið ætti að vera 105 m. breitt en ekki 54 m.
Eignarnámsþolar hafa lagt fram upplýsingatöflu Fasteignamats ríkisins um verðmæti á landspildum í Grímsnesi. Eignarnámsþolar telja jörðina liggja um afar vinsælt útivistarsvæði og því sé verðmæti landsins kr. 80.94 pr. m² skv. upplýsingatöflunni. Eignarnámsþolar reikna tjón sitt vegna lagningar raflínunnar með eftirfarandi hætti:
1.450 m. löng lína x 54 m. breitt helgunarsvæði = 78.300 m² x kr. 80.94 = 6.337.602-. Við þá fjárhæð bætast síðan 3.168.801- sem er áætluð helmings lækkun á tveimur 27 metra ræmum sitthvorum megin við byggingasvæðið, þar sem ljóst er að enginn vilji dveljast þar. Við þá fjárhæð telja eignarnámsþolar að bæta eigi tjón vegna umferðar og vegagerðar eignarnemans og vegna skerðingar á nýtingarmöguleikum jarðarinnar sjálfrar sem leiði til verðlækkunar jarðarinnar í heild. Telja eignarnámsþolar ekki óeðlilegt að þessi þáttur verði metinn á kr. 3.168.801-. Samtals telja því eignarnámsþolar verðrýrnun jarðarinnar nema kr. 13.549.356- (6.337.602 + 3.168.801 + 3.168.801-). Að auki er krafist málskostnaðar skv. gjaldskrá lögmanns eignarnámsþola.
Eignarnámsþolar segja augljóst að raflínan muni minnka verðmæti jarðarinnar og því hljóti það að vera í verkahring eignarnemans að sanna ef svo er ekki. Eignarnámsþolar mótmæla sérstaklega hugleiðingum í greinargerð eignarnema um að landeigendur hafi átt að miða framtíðarskipulag um nýtingu jarða sinna við það að línan væri væntanleg og að ef þeir hafi ekki gert það eigi að lækka bætur til þeirra. Eignarnámsþolar benda á að línan valdi allt að einu skerðingu á verðmæti jarðarinnar, hvenær sem ákvörðun um byggingu hennar var tekin.
VI. Niðurstaða matsnefndarinnar:
Svo sem fram hefur komið hefur matsnefndin farið nokkrum sinnum á vettvang og kynnt sér aðstæður, bæði fyrir og eftir uppsetningu raflínunnar. Þá hefur nefndin leitað álits löggilts fasteignasala á landverði á því svæði sem línan fer yfir. Einnig hafa verið lögð fram í málinu ýmis gögn sem nýst hafa nefndinni í störfum hennar. Hlutverk matsnefndarinnar skv. 2. gr. laga nr. 11/1973 er að skera úr ágreiningi um eignarnámsbætur og annað endurgjald, sem ákveða á samkvæmt lögum um framkvæmd eignarnáms. Bætur fyrir ófjárhagslegt tjón í tengslum við eignarnámið koma ekki til skoðunar hjá matsnefndinni. Við ákvörðun eignarnámsbóta er höfð hliðsjón af grundvallarreglunni sem fram kemur í 72. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, þ.e. að fullt verð komi fyrir hin eignarnumdu réttindi.
Búrfellslína 3A liggur að stórum hluta um einn búsældarlegasta hluta Íslands. Línan er víða áberandi í landslaginu og nærri híbýlum manna. Í nágrenni hins eignarnumda lands eru víða vinsæl svæði fyrir sumarhúsabyggð og þykir nefndinni land eignarnámsþola sem fer undir línuna, hentugt til þeirra nota. Fallast ber á það með eignarnámsþolum að þegar svo hagar til, sé tilkoma línunnar til þess fallin að rýra verðmæti jarðarinnar allrar vegna sjónrænna áhrifa af línunni, jafnvel þó í landinu sé önnur eldri lína. Einnig er það álit nefndarinnar að fólk forðast að vera nærri slíkum mannvirkjum, jafnvel þó skaðleg áhrif þess hafi ekki verið sönnuð. Þá liggur fyrir að land undir línunni á þeim svæðum, sem hentað gæti fyrir sumarhúsabyggð, kemur aldrei til með að nýtast til þeirra hluta og ber að hafa það til hliðsjónar við matið, en tekið er mið af því við ákvörðun bóta fyrir þann hluta landsins, að ekki er um fullkomið eignarnám að ræða og að eignarnámsþolar halda þar eftir ákveðnum réttindum til nýtingar landsins.
Þrátt fyrir að hið eignarnumda land hafi ekki verið sérstaklega skipulagt fyrir sumarhúsabyggð þykir ljóst að landið geti að mörgu leyti hentað fyrir lóðir undir sumarhús og næsta nágrenni er vinsælt til þeirra nota svo sem að framan greinir. Verður því við matið að miða við þann möguleika á framtíðarnýtingu landsins. Í þessu sambandi er sérstaklega vísað til dóms Hæstaréttar frá árinu 1984 bls. 906.
Þrátt fyrir það sem að framan greinir þykja verðhugmyndir eignarnámsþola fyrir hið eignarnumda allt of háar. Ekki hefur verið sýnt fram á að eignarnámið hafi valdið eignarnámsþolum því fjárhagstjóni sem haldið er fram af þeirra hálfu í málinu og er því ekki fallist á kröfur þeirra í málinu.
Svo sem fram hefur komið liggur Búrfellslína 3A á u.þ.b. 1.450 m. kafla um land eignarnámsþola og fjögur raflínumöstur eru í landinu. Þá eru línuvegir í landi eignarnámsþola 900 m. langir og taldir u.þ.b. 4 m. breiðir að meðaltali, án fláa, sem víða breikka svæðið sem fer undir veginn töluvert. Helgunarsvæði raflínunnar spannar 54 m. samkvæmt undanþáguheimild Löggildingarstofu dags. 7. janúar 1999 og er við þá breidd miðað í matinu. Tekið hefur verið tillit til þess að hluti vega liggur á helgunarsvæði línunnar.
Með hliðsjón af því sem að framan segir þykja hæfilegar bætur til eignarnámsþola vera sem hér segir:
Bætur fyrir eignarnumið landundir raflínumöstur og veg: kr. 520.000-Bætur fyrir takmörkun á nýtingarmöguleikumlands undir raflínunni kr. 1.330.000-Verðlækkun jarðarinnar vegnasjónrænna áhrifa línunnarkr. 450.000-Samtalskr. 2.300.000-
Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþolum kr. 180.000- auk virðisaukaskatts í kostnað vegna reksturs málsins fyrir matsnefndinni og kr. 243.500- í ríkissjóð vegna kostnaðar af störfum Matsnefndar eignarnámsbóta við málið. Við ákvörðun málskostnaðar til eignarnámsþola, hefur verið höfð hliðsjón af því að lögmaður þeirra rak samhliða máli þessu nokkur önnur mál fyrir matsnefndinni, vegna eignarnáms eignarnema á spildum úr öðrum jörðum í nágrenninu í þágu lagningar Búrfellslínu 3A, og hefur sú vinna sem innt var af hendi að verulegu leyti nýst í öllum málunum.
ÚRSKURÐARORÐ
Eignarnemi, Landsvirkjun, kt. 420269-1299, Háaleitisbraut 68, Reykjavík, greiði eignarnámsþolum, Guðmundi Sigurfinnssyni, kt. 121242-3389 og Birgi Sigurfinnssyni, kt. 020159-4569, sameiginlega kr. 2.300.000- í eignarnámsbætur og kr. 180.000- auk virðisaukaskatts í málskostnað.Þá greiði eignarnemi kr. 243.500- í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta við mál þetta.
__________________________________
Helgi Jóhannesson, hrl.
Vífill Oddsson, verkfræðingur Kristinn Gylfi Jónsson, vskfr. og bóndi