Hoppa yfir valmynd

Endurupptekið mál nr. 648/2021-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Endurupptekið mál nr. 648/2021

Fimmtudaginn 25. ágúst 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 2. desember 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. október 2021, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 6. júlí 2020 og var umsóknin samþykkt 15. október 2020. Þann 14. október 2021 bárust Vinnumálastofnun þær upplýsingar að kærandi hefði hafnað starfi hjá B. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 19. október 2021, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda vegna höfnunar á atvinnutilboði hjá B. Þann 21. október 2021 bárust skýringar frá kæranda. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. október 2021, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans hefðu verið stöðvaðar frá og með 27. október 2021 á grundvelli 5. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni þann 1. nóvember 2021 sem barst með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 15. nóvember 2021.

Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar velferðarmála 2. desember 2021. Á meðan mál kæranda var til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni óskaði hann eftir endurupptöku hjá Vinnumálastofnun eða þann 24. janúar 2022 og lagði fram læknisvottorð. Vinnumálastofnun féllst á endurupptöku málsins og tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 27. janúar 2022, að fyrri ákvörðun væri staðfest. Þann 31. janúar 2022 sendi kærandi úrskurðarnefndinni afrit af því bréfi Vinnumálastofnunar og læknisvottorð, dags. 24. janúar 2022. Úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð í máli kæranda 3. mars 2022 þar sem hin kærða ákvörðun frá 28. otkóber 2021 var staðfest. Í kjölfarið kvartaði kærandi til umboðsmanns Alþingis vegna úrskurðarins. Með bréfi umboðsmanns Alþingis, dags. 9. maí 2022, óskaði hann eftir nánari skýringum og upplýsingum frá nefndinni. Í ljósi þeirra upplýsinga sem fram komu í erindi umboðsmanns ákvað úrskurðarnefndin að endurupptaka málið. Kæranda og umboðsmanni Alþingis var greint frá þeirri ákvörðun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. maí 2022. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 27. júní 2022, var óskað eftir rökstuddri afstöðu Vinnumálastofnunar til framangreinds læknisvottorðs sem lá til grundvallar ákvörðun stofnunarinnar frá 27. janúar 2022. Svar barst frá Vinnumálastofnun 28. júní 2022 og var það kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 29. júní 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann vilji kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar um greiðslustöðvun sem hann telji óréttmæta. Kærandi sé búinn að vera í atvinnuleit í nokkurn tíma, enda leiðsögumaður í miðjum heimsfaraldri. Þann 14. október 2021 hafi honum boðist starf hjá B sem stuðningsfulltrúi fyrir fimm, stundum sex, einhverfa drengi á grunnskólaaldri í C. Kærandi hefði þurft að sinna þeim öllum á sama tíma á meðan skólastarf stæði yfir. Hann telji sig engan veginn færan um slíkt, enda geti verið gífurlega krefjandi að vinna með einhverfum börnum. Kærandi hafi hvorki menntun, taugar né næga reynslu til að geta sinnt því starfi og því hafi hann séð sig tilneyddan til að hafna því. Vinnumálastofnun hafi krafið hann um bréf með útskýringum sem hann hafi skilað inn, en rök hans hafi ekki verið tekin gild og hafi greiðslur atvinnuleysisbóta til hans verið stöðvaðar.

Einstaklingur hafi rétt á að hafna starfi ef hann telji sig ekki geta valdið því, til dæmis bakveikur maður sem bjóðist starf sem feli í sér að lyfta þungum hlutum. Kærandi telji það sama eiga við í máli sínu því að ekki sé hægt að gera kröfu um að hver sem er sé fær um að vera stuðningsfulltrúi fyrir börn með einhverfu, hvað þá fimm til sex einhverf börn á sama tíma.

Kærandi hafi ekki einungis verið að hugsa um eigin hag heldur einnig hag einhverfu barnanna. Það myndi ekki gera þeim gott að fá mann sem ekki geti sinnt þeim á þann hátt sem þau þurfi og myndi svo vafalaust hverfa á braut skömmu eftir að hann hæfi störf þar.

Kærandi vilji að Vinnumálastofnun taki skýringarbréf hans gilt, að fallið verði frá greiðslustöðvuninni og að hann fái þann mánuð greiddan sem hafi tapast.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 6. júlí 2020. Með bréfi, dags. 15. október 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hans hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur hans væri 100%. Þann 14. október 2021 hafi Vinnumálastofnun borist þær upplýsingar að kærandi hefði hafnað starfi hjá B. Um hafi verið að ræða starf stuðningsfulltrúa í C, en kæranda hafi verið miðlað í umrætt starf af Vinnumálastofnun. Samkvæmt upplýsingum frá B hafi kærandi hafnað starfinu því að erfitt yrði að sameina vinnutímann við fjölskyldulífið. Þá hafi kærandi sagst vera að sækja um frumkvöðlastyrk hjá Vinnumálastofnun. Jafnframt hafi kæranda þótt launin ekki í samræmi við það sem hann væri vanur og hafi talið líklegt að hann myndi leita að annarri vinnu þó að hann tæki umræddu starfi hjá B. Af þeirri ástæðu meðal annars hafi hann ekki viljað taka starfinu þar sem hann kæmi til með að tengjast nemendum skólans en myndi svo hefja störf annars staðar.

Með erindi, dags. 19. okóber 2021, hafi verið óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda á höfnun á starfi hjá B. Athygli kæranda hafi jafnframt verið vakin á því að hafi atvinnuleitandi hafnað atvinnutilboði eða atvinnuviðtali án gildra ástæðna gæti hann þurft að sæta biðtíma eftir greiðslum atvinnuleysistrygginga.

Þann 21. október 2021 hafi Vinnumálastofnun borist skýringar kæranda. Kærandi hafi kveðið ástæðu þess að hann hafi hafnað umræddu starfi vera þá að starfið fælist í því að vera stuðningsfulltrúi fyrir fimm til sex einhverfa drengi í grunnskóla. Kærandi hefði hvorki menntun né reynslu á því sviði og því hafi hann ekki treyst sér til þess að vinna svo krefjandi vinnu. Þá hafi kærandi greint frá því að hann hefði í eitt sinn unnið sem stuðningsfulltrúi fyrir tíu ára dreng en þar hefði hann notið aðstoðar annarra starfsmanna. Honum hafi samt sem áður þótt starfið krefjandi. Kærandi hafi talið að það myndi aðeins valda nemendum skólans vanlíðan ef hann tæki starfinu og byggði upp traust og tengingu við þá en þyrfti svo frá að hverfa vegna þess að hann myndi ekki valda starfinu.

Með erindi, dags. 28. október 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að skýringar hans vegna höfnunar á starfi hjá B hefðu ekki verið metnar gildar. Af þeirri ástæðu væru greiðslur atvinnuleysisbóta til hans stöðvaðar. Ákvörðun þessi hafi verið tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 5. mgr. sömu greinar.

Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun stofnunarinnar samkvæmt 21. gr. stjórnsýslulaga þann 1. nóvember 2021. Kæranda hafi verið veittur rökstuðningur þann 15. nóvember 2021.

Ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslu atvinnuleysistrygginga til kæranda hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 2. desember 2021. Í kæru séu skýringar kæranda samhljóða þeim sem hann hafi veitt Vinnumálastofnun. Kærandi telji að einstaklingur eigi rétt á því að hafna starfi telji hann sig ekki valda því. Kærandi líki aðstæðum sínum við aðstæður bakveiks manns sem boðið hafi verið starf sem felist í því að lyfta þungum hlutum. Kærandi fari fram á að skýringar hans verði teknar gildar og að ákvörðun stofnunarinnar verði felld úr gildi.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna.

Markmið laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir séu að leita sér að nýju starfi. Með þessu sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Gert sé ráð fyrir að þeir sem teljist tryggðir séu í virkri atvinnuleit þann tíma og séu jafnframt reiðubúnir að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum sem þeim standi til boða. Atvinnuleysistryggingar veiti þannig þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu. Ríkar kröfur beri að gera til þeirra sem hafni starfi á innlendum vinnumarkaði að hafa til þess gildar ástæður samkvæmt lögunum, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi.

Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslu atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virkri atvinnuleit, sbr. a. lið 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í 14. gr. laganna sé nánar kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé útlistað að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem sé á Íslandi, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu. Að öðrum kosti verði ekki litið á hlutaðeigandi í virkri atvinnuleit

Í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um viðurlög vegna höfnunar á starfi. Ákvæðið sé svohljóðandi:

,,Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Fyrir liggi að kærandi hafi hafnað starfi hjá B og hann hafi veitt skýringar á ástæðum höfnunar á umræddu starfi. Því komi til álita hvort skýringar hans séu gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Samkvæmt 4. mgr. 57. gr. skuli Vinnumálastofnun meta við ákvörðun um viðurlög samkvæmt 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg, en í 4. mgr. segi orðrétt:

,,Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Vinnumálastofnun sé gert að meta skýringar atvinnuleitanda vegna höfnunar á atvinnutilboði með hliðsjón af þeirri ríku skyldu sem hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til að vera reiðubúnir að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu. Gert sé ráð fyrir því að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs hins tryggða, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laganna. Enn fremur sé Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum.

Skýringar kæranda lúti einkum að því að starfið hafi hvorki hentað reynslu hans né menntun. Kærandi hafi áhyggjur af því að hann valdi ekki starfinu. Rík skylda hvíli á atvinnuleitendum að taka því starfi sem þeim bjóðist, enda eigi almennt ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Þá þurfi atvinnuleitendur jafnframt að vera reiðubúnir að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, án sérstaks fyrirvara, og hafa til þess vilja og getu, sbr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með vísan til framangreinds telji Vinnumálastofnun að atvinnuleitendur geti ekki hafnað störfum á þeim forsendum að reynsla þeirra og menntun liggi í annarri atvinnugrein, eða að þau laun sem greidd séu fyrir starfið séu ekki í samræmi við væntingar. Þá þyki Vinnumálastofnun ljóst að aðstæður kæranda séu ekki þær sömu og aðstæður bakveiks manns sem hafi boðist starf sem felist í því að lyfta þungum hlutum. Í slíkum tilfellum beri atvinnuleitanda að framvísa læknisvottorði, veikindum sínum til staðfestingar. Þeim atvinnuleitanda verði þá ekki gert að taka starfi sem falli illa að veikindum hans, enda geri lög um atvinnuleysistryggingar beinlínis ráð fyrir undanþágu í slíkum tilfellum. Skýringar kæranda snúi jafnframt að því að það færi gegn hag þeirra barna sem honum yrði gert að annast, ef hann tæki starfinu. Að mati Vinnumálastofnunar verði slíkum skýringum ekki fundin stoð í lögum um atvinnuleysistryggingar.

Með vísan til alls framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda séu ekki þess eðlis að þær réttlæti höfnun á atvinnutilboði, sbr. 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda beri því að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laganna. Kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga með umsókn, dags. 6. júlí 2021. Þegar ákvörðun um viðurlög á grundvelli 1. mgr. 57. gr. hafi verið tekin hafði kærandi þegið atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun í 25,47 mánuði. Greiðslur til kæranda hafi því verið stöðvaðar og geti hann fyrst átt rétt til atvinnuleysisbóta að nýju þegar hann uppfylli skilyrði 31. gr. laganna, sbr. 5. mgr. 57. gr.

Með vísan til alls framangreinds sé það mat Vinnumálastofnunar að kæranda beri að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar vegna höfnunar á starfi hjá B.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar frá 28. júní 2022 kemur fram að mál kæranda varði í grunninn höfnun á starfi og viðurlög á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi hafi hafnað starfi sem stuðningsfulltrúi hjá B í október 2021. Kærandi hafi gefið þær skýringar til atvinnurekanda og Vinnumálastofnunar að erfitt væri að samræma vinnutímann við fjölskyldulíf, kærandi væri að sækja um frumkvöðlastyrk hjá Vinnumálastofnun og að launin væru ekki í samræmi við það sem hann væri vanur. Þá hafi kærandi talið sig hvorki hafa menntun né reynslu á þessu starfsviði og ekki treyst sér í svo krefjandi vinnu. Læknisvottorðið sé dagsett 24. janúar 2022 og hafi borist stofnuninni þann dag. Fulltrúi stofnunarinnar sem hafi afgreitt beiðni kæranda hafi ekki verið ljóst að mál hans væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og að Vinnumálastofnun hafði þegar skilað umsögn í málinu. Fyrir mistök hafi mál kæranda því verið tekið fyrir að nýju með tilliti til nýrra gagna í stað þess að vísa beiðni hans frá. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi birt úrskurð í máli kæranda þann 3. mars 2022. Það hafi verið niðurstaða nefndarinnar að staðfesta upprunalegu ákvörðun Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt umræddu læknisvottorði hafi kærandi verið að glíma við undirliggjandi astma sem hafi haft áhrif á andlega líðan, valdið þreytu, einbeitingarleysi og skertu þoli fyrir áreiti. Þá hafi meðferð haft þau áhrif að kærandi hafi misst rödd sína. Einnig komi fram að þetta hafi valdið því að kærandi hafi verið með takmarkaða vinnufærni við störf sem krefjist líkamlegrar áreynslu eða beitingu á rödd hans. Vinnumálastofnun sé gert að meta skýringar atvinnuleitenda þegar atvik kunni að leiða til viðurlaga á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar. Í 4. mgr. 57. gr. segi að Vinnumálastofnun sé heimilt að taka tillit til þess þegar atvinnuleitandi geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni. Þá sé heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Þá geti komið til viðurlaga samkvæmt 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.

Í athugasemdum með 57. gr. frumvarps þess er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram að það megi gera ráð fyrir að sjaldan reyni á þessa undanþágu, enda eigi ekki að bjóða atvinnuleitendum störf sem þeir séu ekki færir um að sinna, enda hafi viðkomandi tekið það fram þegar í upphafi atvinnuleitar. Þá segi að komi upplýsingar um óvinnufærni fyrst upp þegar starfið sé í boði kunni að koma til viðurlaga samkvæmt 59. gr. frumvarpsins þar sem hinn tryggði hefði þegar átt að hafa gefið upp allar nauðsynlegar upplýsingar um vinnufærni sína. Þegar Vinnumálstofnun berist læknisvottorð um óvinnufærni eftir að atvinnuleitandi hafi hafnað starfi þurfi stofnunin að meta hvort rétt sé að taka tillit til skertrar vinnufærni við mat á því hvort viðkomandi skuli sæta viðurlögum. Þá komi einnig til skoðunar hvort viðkomandi atvinnuleitandi sé almennt fær til flestra starfa og hafi heilsu til að taka störfum, sbr. a- og b-liði 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Telji stofnunin að skert vinnufærni atvinnuleitanda sé gild ástæða fyrir höfnun á starfi þurfi að meta hvort viðkomandi eigi engu að síður að sæta viðurlögum á grundvelli 59. gr. laganna sökum þess að atvinnuleitandi hafi ekki gefið upp nauðsynlegar upplýsingar um vinnufærni sína. Þá þurfi einnig að kanna hvort réttlætanlegt sé að atvinnuleitandi hafi ekki tilkynnt um vinnufærni sína fyrr.

Niðurstaðan í málum atvinnuleitenda sem hafni starfi geti því verið sú að þeir þurfi að sæta viðurlögum þó svo að læknisvottorð sýni seinna fram á að þeir hafi ekki verið færir um að sinna starfinu. Þegar svo hátti og gögn í máli berist fyrst eftir að ákvörðun hafi verið birt hafi Vinnumálastofnun ekki fallist á að atvinnuleitendur geti frestað viðurlögum eða átt rétt á atvinnuleysisbótum frá þeim tíma er tilkynnt hafi verið um ákvörðun og þar til ný ákvörðun sé tekin á grundvelli nýrra gagna. Endurskoðun á máli viðkomandi leiði með öðrum orðum til sömu niðurstöðu. Atvinnuleitendum beri að tilkynna Vinnumálastofnun um breytingar sem verði á vinnufærni án ástæðulausrar tafar, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þær takmarkanir á vinnufærni kæranda sem lýst sé í læknisvottorði hafi bersýnilega áhrif á getu kæranda til að vera í virkri atvinnuleit og honum hafi borið að tilkynna þær til Vinnumálastofnunar án tafar.

Kærandi hafi ekki tilkynnt um skerta færni til að taka að sér starf þegar ákvörðun um viðurlög hafi verið tekin á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Tilkynning um veikindi og óvinnufærni hafi hvorki borist stofnuninni áður en kærandi hafi fengið starfstilboð né eftir að stofnunin hafi leitað eftir skýringum hans á því hvers vegna hann hefði hafnað starfi hjá atvinnurekanda. Kærandi hafi upplýst um skerta vinnufærni og fært fram umrætt læknisvottorð við meðferð máls síns hjá úrskurðarnefndinni. Vinnumálastofnun telji að skert vinnufærni kæranda, eins og henni sé lýst í læknisvottorði, sé gild ástæða fyrir því að hafna starfi. Þar sem kærandi hafi ekki upplýst um skerta vinnufærni áður en honum hafi boðist starf sé það afstaða stofnunarinnar að kærandi eigi engu að síður að sæta viðurlögum á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. framangreinda umfjöllun um 57. gr. laganna.

IV.  Niðurstaða

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. október 2021, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 5. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Á meðan mál kæranda var til meðferðar hjá úrskurðarnefnd velferðarmála óskaði hann eftir endurupptöku hjá Vinnumálastofnun og lagði fram læknisvottorð. Vinnumálastofnun féllst á endurupptöku og tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 27. janúar 2022, að fyrri ákvörðun væri staðfest þar sem sú ákvörðun hefði að geyma efnislega rétta niðurstöðu, þrátt fyrir að ný gögn hafi borist.

Úrskurðarnefndin telur ástæðu til að gera athugasemd við framangreinda málsmeðferð Vinnumálastofnunar. Þegar beiðni kæranda um endurupptöku barst Vinnumálastofnun var stofnunin þegar búin að skila greinargerð til úrskurðarnefndarinnar. Stofnuninni átti því að vera ljóst að mál kæranda væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Áður en stjórnvald á lægra stjórnsýslustigi endurskoðar eigin ákvörðun er grundvallaratriði að gengið sé úr skugga um að málið sé ekki til meðferðar hjá æðra stjórnvaldi, enda verður ekki fjallað um mál á tveimur stjórnsýslustigum á sama tíma. Úrskurðarnefndin brýnir fyrir Vinnumálastofnun að hafa framangreind sjónarmið til hliðsjónar telji stofnunin rétt að taka eigin ákvörðun til endurskoðunar sem kærð hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:

„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Í 5. mgr. 57. gr. segir að hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 24 mánuði eða lengur á sama tímabili samkvæmt 29. gr. þegar atvik sem lýst sé í 1. mgr. eigi sér stað skuli hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfylli skilyrði 31. gr. Í því ákvæði kemur fram að nýtt tímabil samkvæmt 29. gr. hefjist þegar hinn tryggði sækir að nýju um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar eftir að hafa starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti 24 mánuði frá því að hann fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt gögnum málsins hafnaði kærandi starfi hjá B í október 2021. Í skýringum kæranda kemur fram að hann hafi hvorki menntun né reynslu til þess að vera stuðningsfulltrúi fyrir fimm til sex einhverfa drengi. Þá gaf kærandi þær skýringar að hann treysti sér ekki til að vinna svo krefjandi vinnu. Einnig hafi hann ekki viljað valda drengjunum vanlíðan ef hann tæki starfinu og byggði upp tengingu við þá en myndi svo þurfa að hætta þar sem hann myndi ekki valda starfinu. Í fyrirliggjandi læknisvottorði, dags. 24. janúar 2022, kemur fram að frá haustmánuðum hafi kærandi glímt við versnun á undirliggjandi astma. Mikil veikindi hafi tekið á andlega, minnkað streituþol, stutt verið í kvíða, pirring og áhyggjur. Veikindin hafi sannarlega áhrif á andlega líðan. Kærandi hafi glímt við þreytu, einbeitingarleysi og þol fyrir áreiti hafi verið mjög skert. Innúðasterar hafi þau áhrif að hann missi röddina. Þá kemur fram í vottorðinu að vinnufærni kæranda sé takmörkuð við störf sem krefjist ekki líkamlegrar áreynslu og eða þess að hann þurfi að beita röddinni mikið.

Vinnumálastofnun hefur vísað til þess að skert vinnufærni kæranda, eins og henni sé lýst í framangreindu læknisvottorði, sé gild ástæða fyrir því að hafna starfi. Það sé þó afstaða stofnunarinnar að kærandi eigi engu að síður að sæta viðurlögum á grundvelli 57. gr. laga nr. 54/2006 þar sem hann hafi ekki upplýst um skerta vinnufærni áður en honum hafi boðist starf.

Líkt og að framan greinir lýtur hin kærða ákvörðun að viðurlögum á grundvelli 57. gr. laga nr. 54/2006. Vinnumálastofnun hefur fallist á að kærandi hafi haft gilda ástæðu fyrir því að hafna starfi hjá B vegna skertrar vinnufærni með vísan til framangreinds ákvæðis. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður kærandi ekki beittur viðurlögum á grundvelli ákvæðis 57. gr. með vísan til þess að hann hafi ekki áður upplýst um skerta vinnufærni. Unnt er að beita viðurlögum á grundvelli ákvæðis 59. gr. laganna vegna slíkrar háttsemi, að fullnægðum skilyrðum þess ákvæðis, en Vinnumálastofnun hefur ekki tekið afstöðu til þess. Niðurstaða máls þessa lýtur einungis að þeirri ákvörðun sem kærð var þar sem tekið var á viðurlögum á grundvelli 57. gr. laganna. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun felld úr gildi.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 28. október 2021, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A, er felld úr gildi.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta