Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 69/2014

Úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála
Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 101 Reykjavík

                                                      

Miðvikudaginn 28. janúar 2015 var á fundi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála tekið fyrir mál nr. 69/2014:


Kæra A

á ákvörðun

Hafnarfjarðarbæjar

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

A hefur með kæru, dags. 26. nóvember 2014, skotið til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála meðferð Fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðarbæjar vegna úthlutunar á félagslegu leiguhúsnæði.

 

I. Málavextir og málsmeðferð

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi sótti um félagslega leiguíbúð hjá Hafnarfjarðarbæ með umsókn, dags. 28. mars 2011. Umsókn kæranda var samþykkt og hún skráð á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði. Aðstæður kæranda voru metnar til sex stiga af tíu en kærandi hefur ekki fengið úthlutað húsnæði þar sem margar aðrar umsóknir voru metnar til fleiri stiga. Þar sem húsnæðisaðstæður kæranda breyttust var staða hennar á biðlista endurmetin og er hún nú með níu stig.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála 26. nóvember 2014. Með bréfi, dags. 3. desember 2014, óskaði úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar vegna málsins ásamt tilheyrandi gögnum. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 30. desember 2014. Með bréfi úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála, dags. 7. janúar 2014, var bréf Hafnarfjarðarbæjar sent kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 13. janúar 2015 og voru þær sendar Hafnarfjarðarbæ með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. janúar 2015. Viðbótarathugasemdir bárust frá Hafnarfjarðarbæ með bréfi, dags. 20. janúar 2015, og voru þær sendar kæranda með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 21. janúar 2015. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

II. Málsástæður kæranda

Kærandi greinir frá því að Fjölskylduþjónusta Hafnarfjarðarbæjar hafi haft vitneskju um að hún myndi missa húsnæði sitt í nóvember 2014 og að hún hafi ekki efni á því að leigja á almennum markaði. Hún hafi fengið þau svör að það sé ekki til húsnæði og engin neyðarúrræði. Kærandi fer fram á að fá húsnæði fyrir sig og dóttur sína sem hún geti búið í örugg næstu árin.

 

III. Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að kærandi hafi leigt félagslega leiguíbúð hjá Hafnarfjarðarbæ um árabil en sagt henni upp árið 2008 og flutt út á land. Hún hafi þá í nokkur ár skuldað talsverða húsaleigu og skuldi enn 115.653 krónur. Kærandi hafi sótt um félagslega leiguíbúð á ný í mars 2011 og hafi verið sett á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði. Hún hafi þá fengið leiguíbúð á almennum markaði og fengið lán hjá Fjölskylduþjónustunni til að greiða tryggingu vegna íbúðarinnar.

Í 5. gr. reglna um úthlutun á almennu leiguhúsnæði og sérstakar húsaleigubætur hjá Hafnarfjarðarbæ segi að meta skuli umsóknir um leiguhúsnæði eftir ákveðnu matskerfi og hverjum umsækjanda skuli reiknuð tíu stig á kvarða. Við forgangsröðun skuli hafa til viðmiðunar tekjur umsækjanda, húsnæðisaðstæður og félagslegar aðstæður. Kæranda hafi verið reiknuð sex stig, fimm stig vegna fjárhags og eitt vegna félagslegra aðstæðna. Þar sem kærandi hafi verið komin í öruggt leiguhúsnæði hafi hún ekki fengið neitt stig vegna húsnæðisaðstæðna. Hún hafi því ekki komið til greina varðandi úthlutun þar sem margar umsóknir hafi verið metnar til fleiri stiga. Þar sem húsnæðisaðstæður kæranda hafi nú breyst hafi staða hennar á biðlista verið endurmetin og hún sé nú með níu stig á listanum. Umsókn hennar komi því væntanlega til álita næst þegar úthlutað verði íbúð sem henti hennar þörfum. Hafnarfjarðarbær bendi þó á að samkvæmt 5. gr. reglnanna skuli við mat á umsóknum þeirra sem áður hafi verið leigutakar hjá sveitarfélaginu meðal annars tekið tillit til þess hvort umsækjendur hafi staðið í skilum með húsaleigu.

 

IV. Niðurstaða

Málskotsheimild kæranda er reist á 63. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Fyrir nefndinni liggja reglur um úthlutun á almennu leiguhúsnæði hjá Hafnarfjarðarbæ og sérstakar húsaleigubætur frá 3. maí 2005, með síðari breytingum.

Í 1. mgr. 63. gr. laga nr. 40/1991 kemur fram að málsaðili geti skotið ákvörðun félagsmálanefndar til úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála og skal kæra til nefndarinnar lögð fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls barst vitneskja um ákvörðun. Til þess að úrskurðarnefndin geti tekið kæru til efnislegrar meðferðar þarf að liggja fyrir stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er einungis að ræða hafi stjórnvald tekið ákvörðun um rétt eða skyldu tiltekins aðila í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga segir að ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verði ekki kærð til æðra stjórnvalds fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Ákvarðanir sem teknar eru um meðferð stjórnsýslumáls og fela ekki í sér endalok málsins, svokallaðar formákvarðanir, verða því ekki kærðar til úrskurðarnefndarinnar.

Ákvörðun um úthlutun félagslegs leiguhúsnæðis er stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að í máli kæranda hafi verið tekin stjórnvaldsákvörðun. Tekið skal fram að það er ekki á valdsviði úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna heldur einskorðast endurskoðun úrskurðarnefndarinnar við að skera úr um lögmæti stjórnvaldsákvarðana. Kæru þessari verður því vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

Úrskurð þennan kváðu upp Bergþóra Ingólfsdóttir formaður, Arnar Kristinsson og Gunnar Eydal, meðnefndarmenn.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Kæru A er vísað frá úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála.

 

Bergþóra Ingólfsdóttir, formaður

Arnar Kristinsson

Gunnar Eydal

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta