Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 28/2014

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 13. mars 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 28/2014.


  1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 11. nóvember 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans þar sem hann hafi þegið atvinnuleysisbætur án þess að eiga rétt til þeirra. Hann sé eigandi og reki fyrirtækið B. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Jafnframt var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að endurkrefja kæranda um ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 28. janúar til 31. október 2013, samtals að fjárhæð 1.188.763 kr. með 15% álagi inniföldu sem yrði innheimt samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 6. mars 2014. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 17. janúar 2011.

Kærandi kom í boðað viðtal hjá Vinnumálastofnun 18. febrúar 2013 þar sem fram kom hjá honum að hann hefði verið í starfskynningu hjá fyrirtækinu B síðustu þrjár vikurnar og að fyrirtækið vildi ráða sig í vinnu. Hann óskaði upplýsinga um það hvort styrkur yrði greiddur með störfum kæranda í gegnum Vinnumálastofnun. Honum var tilkynnt í kjölfarið, 27. febrúar 2013, að fyrirtækið yrði að sækja um þátttöku í verkefninu Liðsstyrk til að hægt væri að taka afstöðu til þess hvort fyrirtækið gæti ráðið hann til vinnu.

Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 22. október 2013, var honum tilkynnt að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um að hann hafi starfað sem C og blaðamaður samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Vinnumálastofnun bárust skýringar frá kæranda 28. október 2013 þar sem fram kom að hann hafi verið í eins konar starfskynningu hjá fyrirtækinu B og hafi prófað þar að skrifa fréttir og komið lítillega að C en fyrirtækið væri með áform um að fara að selja E í gegnum annað fyrirtæki. Þá tók kærandi fram að hann hafi aldrei þegið laun frá fyrirtækinu eða nokkurs konar fríðindi. Fyrirtækið sé að byrja í rekstri og hafi engan starfsmann á launagreiðendaskrá og þess vegna hafi það ekki getað ráðið hann til starfa í gegnum Liðsstyrksverkefnið. Kærandi hafi tekið þátt í raunveruleikasjónvarpsþættinum „F“ sem sýndur hafi verið á X og þar sem hann hafi ekki viljað nefna það í sjónvarpsþætti að hann væri atvinnulaus hafi hann ákveðið að segjast vera blaðamaður og C.

Með bréfi Vinnumálastofnunar til kæranda, dags. 11. nóvember 2013, var honum tilkynnt um hina kærðu ákvörðun eins og rakið hefur verið. Kærandi fór fram á endurupptöku málsins með bréfi, dags. 25. nóvember 2013. Í bréfinu kemur meðal annars fram að kærandi hafi aldrei haft neinar tekjur af B, hann hafi lítið sem ekkert komið að starfsemi félagsins og sá litli tími sem farið hafi í heimasíðuna hafi ætíð verið í frítíma hans á kvöldin eða um helgar. Mál kæranda var tekið fyrir að nýju á fundi Vinnumálastofnunar 5. desember 2013 og var fyrri ákvörðun stofnunarinnar staðfest. Kæranda var birtur rökstuðningur fyrir ákvörðun sinni með bréfi, dags. 12. desember 2013.

Af hálfu lögmanns kæranda kemur fram í kæru, dags. 6. mars 2014, að kærandi telji það óumdeilt að hann hafi ekki haldið neinum upplýsingum leyndum frá Vinnumálastofnun. Kærandi telji mikilvægt að taka þetta fram í ljósi þess að reglum þeim sem beita eigi til grundvallar ákvörðuninni séu byggðar á huglægri beitingu reglunnar en ekki þeirri hlutlægu og óumdeildu staðreynd að hann hafi aldrei hlotið neinar tekjur af erindisrekstri sínum fyrir félagið. Í öðru lagi bendir kærandi á að hann hafi ekki haft neinar tekjur af erindisrekstri sínum og að ákvörðunin sé alfarið byggð á rúmum lögskýringum laga um atvinnuleysistryggingar og þá eftir atvikum huglægri afstöðu Vinnumálastofnunar. Ekki sé byggt á hlutlægum raunveruleika málsins og ekki sé hægt að skilja rökstuðning Vinnumálastofnunar á annan hátt en að hún fallist alfarið á þá staðreynd að erindisrekstur kæranda fyrir B hafi aldrei haft nein áhrif á hagi hans.

Kærandi telur að það hljóti að teljast bæði rúm og frumleg sú skilgreining á vinnu að hún uppfylli skilyrði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, en engin önnur skilyrði neinna annarra laga, né laganna sjálfra sem fjalla um vinnu. Til dæmis falli bloggfærslur kæranda fyrir B ekki undir lög um starfsmenn í hlutastörfum, nr. 10/2004. Engir kjarasamningar nái utan um störf bloggara. Jafnvel reglur félagaréttarins, sem þó séu með þétta möskva hvað slík atriði varði nái ekki yfir stöðu hans enda sé þar ávallt sett sem skilyrði að viðkomandi eigandi sé jafnframt launþegi.

Það hugtak, launþegi, sé önnur leið til þess að njóta góðs af starfa fyrir félag og sé skylt, sbr. reglur um reiknað endurgjald, að njóta einnig tekna. Með því móti sé þjónusta á annað borð seld, ásamt því sem hægt sé að njóta arðs úr félagi. Sá sem eigi félag sé ekki nauðsynlega starfsmaður þess og sá sem starfar fyrir félag sé ekki nauðsynlega eigandi þess. Þannig sé ekki hægt að fallast á þá skýringu Vinnumálastofnunar að jafnvel þótt kærandi hafi ekki verið starfsmaður, í vinnu eða þegið laun, hafi hann verið þátttakandi á vinnumarkaði með eignarhaldi sínu einu á félaginu B. Félagið hafi aldrei verið á vinnumarkaði enda hafi það aldrei verið með starfsmann í vinnu, né neinar tekjur eða eigið fé til að greiða slíkum starfsmanni laun.

Það sé ánægjulegt að Vinnumálastofnun hafi fallið frá fyrri skýringum sínum á hugtakinu „að hafa hag af“, enda sé skýrt að kærandi hafi aldrei haft neinn hag af félaginu. Hins vegar sé ekki fallist á rúmar hugtakaskýringar um að með eignarhaldi sínu í félaginu einu og sér sé hann þátttakandi á innlendum vinnumarkaði. Forsendur Vinnumálastofnunar fyrir ákvörðun sinni að telja kæranda vinnandi séu tæmandi talin útprentun af heimsíðu félagsins B og viðtal við kæranda og kærustu hans í sjónvarpsþætti á X. Tilvik séu til þar sem Vinnumálastofnun taki ákvörðun um að svipta þann bótum sem hafi tekið þátt í atvinnurekstri, svo sem fasteignasölu, og sú ákvörðun tekin á huglægum forsendum fyrirtækjarekstursins eins og sér. Bent er á að þau sjónarmið eigi ekki við í tilviki kæranda enda sé ólík aðstaðan þegar sérfræðingur stofni félagsskap á sínu sérfræðisviði og þegar stofnað sé til bloggsíðu og einkahlutafélags til að dreifa kostnaði með þægilega skilgreindum hætti af rekstri hennar. Í þeim úrskurðum hafi einnig verið ákveðin huglæg afstaða bótaþega, hylmingar, en kærandi hafi lýst þeim fyrirætlunum fyrir Vinnumálastofnun með skýrum hætti. Ljóst sé að kærandi hafi aldrei verið þátttakandi á vinnumarkaði enda hljóti að teljast skilyrði fyrir slíkri þátttöku tekjurnar sem af þeim hljótast. Kærandi uppfylli engin þau skilyrði sem nauðsynleg séu til að teljast vinnu- eða launamaður í neinum skilningi og í ljósi þess sé það verulega ósanngjarnt að telja hann þátttakanda á vinnumarkaði í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á grundvelli loðinna yfirlýsinga í sjónvarpi og á Netinu.

Fram kemur að kærandi hafi verið ötull í atvinnuleit og hafi stofnun félagsins B verið liður í þeirri atvinnuleit. Þeirri atvinnuleit hafi þó hvergi nærri verið lokið og hafi kærandi haldið statt og stöðugt áfram atvinnuleit sinni.

Reynt sé að hylma yfir frumlega skýringu á 60. gr. laganna með því að gera því skóna að kærandi hafi með einhverju móti ekki upplýst Vinnumálastofnun um verkefni sín. Málið beri skýrlega með sér að forsendur Vinnumálastofnunar byggist aðallega á frásögn kæranda sjálfs á því sem hafi verið að gerast í atvinnuleit hans. Vinnumálastofnun hafi að fyrra bragði verið sagt frá B.

Kærandi getur þess að kærasta hans sem kynnt hafi verið sem C á síðunni sé í fullu starfi sem verkfræðingur. Hinn eigandi B og aðalumsjónarmaður heimasíðunnar sé í fullri vinnu. Aðrir þátttakendur síðunnar séu allir í fullri vinnu og aldrei hafi neinn fengið greitt fyrir aðkomu sína að henni.

Sé þátttakan ekki skilgreind sem atvinnuleit sé ekki hægt að skilja hana sem annað en tómstund. Nærtækari lýsing væri blogg en fréttasíða, en marga þyrfti að svipta bótum ef blogg væri vinna eða kæmi í veg fyrir virka atvinnuleit, en þó séu margir sem hafi, ólíkt kæranda, góðar tekjur af bloggi. Því hafi reyndar ekki verið haldið fram af Vinnumálastofnun að um sé að ræða vinnu í neinum skilningi, enda uppfylli þessi atvinnuleit og tómstund kæranda engin þau skilyrði að teljast vinna.

Hér sé höggið þegar réttar væri að umbuna. Kærandi hafi sýnt af sér fyrirmyndarframkomu og hátterni. Ekki séu leidd nein rök að því að þátttaka kæranda í B verkefninu hafi takmarkað eða með öðrum hætti haft áhrif á atvinnuleit hans. Sérstök athygli er vakin á því að kærandi hafi veitt tímanlega og án þess að eftir því hafi verið kallað allar þær upplýsingar um hagi hans sem skipti máli til Vinnumálastofnunar.

Í greinargerð til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 8. apríl 2014, bendir Vinnumálastofnun á að mál þetta varði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar auk þess sem kæranda hafi verið gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil er hann hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar. Vinnumálastofnun bendir á að annar málsliður 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar taki á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldur sínar skv. 10. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar um að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín.

Vinnumálastofnun vísar til þess að í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segi jafnframt að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laganna að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. sömu laga sé að finna nánari útfærslu á því hvað telst til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfar á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu eða í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar, hvort sem hann þiggi laun fyrir eða ekki.

Fyrir liggi að kærandi hafi starfað hjá fyrirtækinu B og er vísað í því sambandi til útprentana af heimasíðunni http://B.com/ þar sem fram komi að kærandi sé verkefnisstjóri (e. project manager) og blaðamaður (e. reporter) hjá B. Þá liggi fyrir samkvæmt hlutafélagaskrá Creditinfo að kærandi sitji í stjórn einkahlutafélagsins B, ásamt því að vera framkvæmdastjóri, prókúruhafi og stofnandi þess. Af skýringum kæranda megi ráða, þ.e. bréfi sem ritað sé fyrir hans hönd 25. nóvember 2013 og í rökstuðningi fyrir kæru, að kærandi hafi sinnt verkefnum fyrir B en aldrei fengið greidd laun vegna þess. Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi verið við störf hjá B samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta.

Varðandi þær röksemdir lögmanns kæranda að hann hafi ekki haft nein laun frá B bendir Vinnumálastofnun annars vegar á að í athugasemdum í frumvarpi er varð að 23. gr. laga nr. 134/2009, en með ákvæðinu hafi orðalagi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verið breytt í þá veru sem það sé í dag, segi meðal annars að ákvæðinu sé ætlað að sporna gegn „svartri atvinnustarfsemi“. Hins vegar bendi Vinnumálastofnun á úrskurð úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 108/2012 þar sem ákvörðun stofnunarinnar um að kærandi skyldi sæta viðurlögum samkvæmt 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi verið staðfest, en í málinu hafi meðal annars legið fyrir að kærandi hafi ekki þegið nein laun fyrir þá vinnu sem hann hafi innt af hendi. Jafnframt bendi Vinnumálastofnun á úrskurð úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli nr. 157/2012 þar sem ákvörðun Vinnumálastofnunar um að kærandi skyldi sæta viðurlögum samkvæmt 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi verið staðfest, en kærandi í málinu hafi starfað sem sjálfstætt starfandi einstaklingur og rekstur hans hafi skilað tapi. Af tilgreindum úrskurðum, orðalagi 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og athugasemda við 23. gr. frumvarps er orðið hafi að lögum nr. 134/2009 sé ljóst að enginn áskilnaður sé gerður til launa eða að einstaklingur verði að hagnast á vinnu sinni svo hann teljist starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það sé mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi starfað á innlendum vinnumarkaði og hann hafi ekki tilkynnt um starf sitt með fullnægjandi hætti.

Kæranda beri enn fremur að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil er hann hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, samtals að fjárhæð 1.188.763 kr. með 15% álagi, sbr. 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 10. apríl 2014, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum til 5. maí 2014. Frekari athugasemdir bárust með bréfi lögmanns kæranda, dags. 5. maí 2014. Þar kemur meðal annars fram að kærandi telji að úrskurðir úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 108/2012 og 157/2012 hafi ekki fordæmisgildi í máli hans. Í máli nr. 108/2012 hafi verið um að ræða vinnu sem unnin hafi verið í þeim tilgangi að fá fyrir það greitt sem hafi verið ólíkt tilfelli kæranda. Vinnumálastofnun hafi lagt á það áherslu í tilvitnuðu máli að kærandi hefði brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldu sinni gagnvart stofnuninni. Kærandi hafi hins vegar sinnt upplýsingaskyldu sinni í hvívetna. Kærandi hafi aldrei unnið eiginlega vinnu og B hafi aldrei átt og eigi ekki neina viðskiptavini ólíkt því sem hafi verið í máli nr. 108/2012. Í máli nr. 157/2012 hafi kærandi verið að byggja upp eigin rekstur án þess að tilkynna það til Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi aldrei fengið greiðslu samhliða atvinnuleysisbótum og fyrirtækið B hafi frá upphafi verið tekjulaust.


  1. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með hliðsjón af mikilvægi ákvæðisins við framkvæmd atvinnuleysistryggingakerfisins þykir réttlætanlegt að varpa ítarlegu ljósi á forsögu þess og tilgang. Markmiðið með þessu er að setja fram skýr viðmið um hvernig beri að túlka ákvæðið.

Þegar lög um atvinnuleysistryggingar voru upphaflega sett var kveðið á um þá meginreglu í fyrstu málsgrein 60. gr. laganna að sá sem aflar sér eða reynir að afla sér atvinnuleysisbóta samkvæmt lögunum með svikum getur misst rétt sinn í allt að tvö ár og þurft að sæta sektum. Það var hvergi skýrlega skilgreint hvað væru svik í skilningi ákvæðisins og er sú ályktun nærtæk að ákvæðinu hafi sjaldan verið beitt fram til þess tíma sem því var breytt með setningu 23. gr. laga nr. 134/2009. Þessi nýja regla tók gildi 1. janúar 2010 og veigamesti tilgangur hennar var að sporna gegn „svartri atvinnustarfsemi“.

Í athugasemdum greinargerðar við 23. gr. frumvarps þess er síðar varð að lögum nr. 134/2009 kom meðal annars fram að beita ætti ákvæðinu í þrenns konar tilvikum, í fyrsta lagi þegar atvinnuleitandi veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar í umsókn um atvinnuleysisbætur sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögunum, í öðru lagi þegar atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. laganna og í þriðja lagi þegar atvinnuleitandi verður uppvís að þátttöku á vinnumarkaði án þess að hafa tilkynnt um tilfallandi vinnu, sbr. nú 35. gr. a.

Með setningu 4. gr. laga nr. 103/2011 var orðalagi fyrsta málsliðar 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar breytt. Frá og með 3. september 2011 hefur ákvæðið verið svohljóðandi:

Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Þegar þessi texti er skýrður er óhjákvæmilegt að horfa til þeirra athugasemda sem vitnað var hér til að framan um 23. gr. laga nr. 134/2009. Þannig er ljóst að fyrsti málsliður ákvæðisins á við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir annan málslið ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að annar málsliðurinn tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku.

Sérstök ástæða er til að taka fram að orðalagið „[h]ið sama gildir“ í upphafi annars málsliðar 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar vísar einvörðungu til viðurlaganna sem upp eru talin í fyrsta málslið ákvæðisins en ekki til þeirra huglægu skilyrða sem þar þurfa að vera uppfyllt. Þessi túlkun byggir meðal annars á því að greiðsla atvinnuleysisbóta er ekki ætluð þeim sem sinna störfum á vinnumarkaði og því teljast það svik í skilningi annars málsliðar 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ef atvinnuleitandi sinnir starfi á vinnumarkaði án þess að láta Vinnumálastofnun vita af því með þeim hætti sem kveðið er á um í 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar. Þessi skilningur er í samræmi við orðalag annars málsliðar 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og fær einnig stoð í athugasemdum greinargerðar við 23. gr. frumvarps þess er síðar varð að lögum nr. 134/2009.

Hvort sem háttsemi fellur undir fyrsta eða annan málslið 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eru viðurlög við bótasvikum ströng en þau fela í sér að atvinnuleitanda ber ekki að eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Jafnframt ber atvinnuleitanda að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr. laganna, sbr. lokamálslið 60. gr. laganna.

 Af hálfu kæranda hefur komið fram í máli þessu að hann hafi verið í „eins konar starfskynningu“ hjá fyrirtækinu B og hafi hann prófað að skrifa þar fréttir og komið lítillega að C, en fyrirtækið sé að plana að fara að selja E gegnum annað fyrirtæki. Samkvæmt hlutafélagaskrá frá 21. nóvember 2013 er kærandi stofnandi, meðstjórnandi, framkvæmdastjóri og með prókúruumboð fyrir einkahlutafélagið B. Á heimasíðu fyrirtækisins var kærandi titlaður verkefnisstjóri og blaðamaður.

Í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um þá skyldu atvinnuleitanda að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar á högum viðkomandi eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, eins og námsþátttöku og tekjur fyrir tilfallandi vinnu. Þá er atvinnuleitanda skv. 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skylt að tilkynna til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit, sbr. einnig 35. gr. a laganna um tilkynningu um tilfallandi vinnu.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið telur úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að háttsemi kæranda hafi réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda ber því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um. Skal kærandi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði.

Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um leiðréttingar á atvinnuleysisbótum og hljóðar 2. mgr. lagagreinarinnar svo:

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Í ljósi alls framanskráðs og samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber kæranda einnig að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar eða tímabilið frá 28. janúar til 31. október 2013 að fjárhæð 1.033.707 kr. auk 15% álags eða samtals 1.188.763 kr.

Með vísan til framangreinds, og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, er hún staðfest.

 

Úrskurðarorð

 Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 7. nóvember 2013 í máli A, þess efnis að hann skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og að hann skuli endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar, að fjárhæð 1.033.707 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð samtals 1.188.763 kr., er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta