Hoppa yfir valmynd

Nr. 87/2022 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 24. febrúar 2022 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 87/2022

í stjórnsýslumáli nr. KNU22010016

 

Beiðni um endurupptöku í máli

[...]

  1. Málsatvik

    Með úrskurði kærunefndar útlendingamála í máli nr. KNU21060036, dags. 21. október 2021, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. maí 2021, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita [...], vera fædd [...] og vera ríkisborgari Sómalíu (hér eftir nefnd kærandi), um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa henni frá landinu. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda hinn 8. nóvember 2021. Hinn 15. nóvember 2021 barst kærunefnd beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa á úrskurði nefndarinnar og var þeirri beiðni hafnað með úrskurði kærunefndar hinn 16. desember 2021 í stjórnsýslumáli KNU21110051.

    Hinn 24. janúar 2022 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku ásamt fylgiskjölum. Beiðni kæranda um endurupptöku á máli hennar er reist á grundvelli á 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

  2. Málsástæður og rök kæranda

    Kærandi byggir beiðni sína um endurupptöku á því að ákvörðun í máli hennar hafi verið byggð á ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik, auk þess sem atvik hafi breyst verulega frá því úrskurður kærunefndar var kveðinn upp.

    Kærandi vísar í því samhengi til þess að komin sé upp ný málsástæða sem hafi verulegt vægi við mat á því hvort sérstök ástæða sé til þess að taka mál hennar til efnismeðferðar hér á landi. Þá leggur kærandi áherslu á að leggja verði heildstætt mat á alla þætti málsins með hliðsjón af nýjum gögnum. Kærandi sé ung kona sem tilheyri minnihlutahóp í Grikklandi sökum uppruna síns, hún sé þolandi kynferðisofbeldis og glími við afleiðingar þess. Auk þess sé hún ein á ferð.

    Kærandi kveðst hafa sótt viðtöl sálfræðings í fjögur skipti. Þau viðtöl hafi samkvæmt vottorði sálfræðings, dags. 20. desember 2021, leitt í ljós að kærandi hafi mátt þola kynferðisofbeldi, ekki eingöngu í heimaríki sínu heldur einnig af hálfu lögregluyfirvalda í Grikklandi. Kærandi hafi mátt þola kynferðisbrot í æsku og hafi flúið heimaríki sitt eftir að hún hafi horft upp á […] sinn drepinn. Kærandi hafi upplifað og horft upp á ýmiskonar ofbeldi í flóttamannabúðunum í Grikklandi og óttist að vera drepin eða beitt kynferðisofbeldi verði hún send aftur þangað. Þá kveðst kærandi með vísan til vottorðs sálfræðings glíma við alvarleg einkenni kvíða og streitu auk einkenna áfallastreituröskunar og þunglyndis.

    Kærandi vísar til þess að samkvæmt mati sálfræðings geti einkennin valdið henni vanlíðan og truflun í daglegu lífi. Því sé mikilvægt að hún upplifi stöðugleika og öryggi. Ljóst sé að kærandi eigi engan möguleika á slíku öryggi verði henni gert að snúa aftur til Grikklands. Kærandi kveðst ekki hafa fengið fjárhagsaðstoð og hafa verið vikið úr húsnæðisúrræði stjórnvalda í Grikklandi eftir að henni hafi verið veitt alþjóðleg vernd þar í landi. Þá hafi hún orðið fyrir fordómum og ekki haft aðgang að heilbrigðisþjónustu. Kærandi telur mikilvægt, með vísan til mats sálfræðings, að hún fái ítarlegri greiningu og aðstoð til að vinna úr áfallastreitu, þunglyndi og kvíða.

    Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til fyrirliggjandi heilsufarsgagna, m.a. frá kvensjúkdómalækni og sálfræðingi sem hafi ekki legið fyrir þegar úrskurður kærunefndar hafi verið kveðinn upp.

    Í ljósi alls framangreinds telur kærandi að skýr og haldgóð rök séu fyrir því að 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga verði beitt í máli hennar. Framlögð gögn feli í sér ný atriði sem lágu ekki fyrir þegar ákvörðun hafi verið tekin á fyrri stigum og því beri kærunefnd útlendingamála að endurupptaka málið.

  3. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála um endurupptöku stjórnsýslumáls

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda hinn 21. október 2021. Með úrskurðinum var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið að nærtækast væri að hún fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka umsókn hennar um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku ásamt þeim fylgigögnum sem liggja fyrir. Á meðal þeirra gagna sem kærandi lagði fram voru heilsufarsgögn sem kærunefnd hafði þegar lagt mat á í úrskurði í máli kæranda hinn 21. október 2021. Það gagn sem kærunefnd hafði ekki áður lagt mat á var vottorð frá sálfræðingi hjá Stígamótum, dags. 20. desember 2021. Þar kemur fram að samkvæmt mati sálfræðings séu vísbendingar um að kærandi glími við einkenni áfallastreituröskunar. Einnig hafi sjálfsmatskvarði gefið vísbendingar um miðlungs einkenni þunglyndis og alvarleg einkenni kvíða og streitu. Þau einkenni sem kærandi sé með samsvari einkennum þeirra sem hafa upplifað alvarleg áföll. Þar sem þessi einkenni valdi kæranda vanlíðan og truflun í daglegu lífi sé mikilvægt að kærandi upplifi öryggi og stöðugleika. Þá þurfi hún faglega aðstoð til þess að vinna úr áðurnefndum veikindum.

Við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd lágu fyrir upplýsingar um að kærandi hafi mátt þola kynferðislegt ofbeldi og kynfæralimlestingar í æsku. Þá hafi hún notið þjónustu sálfræðings vegna andlegrar heilsu sinnar og átt bókaðan tíma hjá sérfræðingi hjá Stígamótum. Var það mat kærunefndar að gögn málsins bæru ekki með sér að heilsufar kæranda væri með þeim hætti að hún teldist glíma við mikil og alvarleg veikindi, s.s. skyndilegan og lífshættulegan sjúkdóm og meðferð við honum væri aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. 2. mgr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Í úrskurði kærunefndar, dags. 21. október 2021, er vísað til þess að í skýrslum um aðstæður í Grikklandi komi fram að einstaklingar með alþjóðlega vernd eigi rétt á endurgjaldslausri grunnheilbrigðisþjónustu, m.a. nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu og lyfjum í Grikklandi. Það er mat kærunefndar að framlögð viðbótargögn hafi aðeins að geyma nýrri og ítarlegri upplýsingar um heilsufar kæranda og séu aðeins til fyllingar þeim upplýsingum sem lágu fyrir við meðferð máls hennar hjá nefndinni.

Í endurupptökubeiðni greinir kærandi frá því að hún hafi mátt þola kynferðislegt ofbeldi af hálfu lögreglu í flóttamannabúðunum í Grikklandi og að hún óttist um öryggi sitt þar í landi. Kærandi var spurð út í aðstæður sínar í Grikklandi í viðtali hjá Útlendingastofnun hinn 29. apríl 2021, einkum er varðar fordóma, ofbeldi og löggæslu. Kærandi kvaðst ekki vera tilbúin til að tala um það þá þegar en að líf hennar í Grikklandi hafi verið hræðilegt og valdið henni andlegum heilsufarsvandamálum. Kærandi kvaðst hafa orðið fyrir fordómum og að lögreglan hafi ekki aðhafst neitt þegar hún hafi leitað til hennar. Í úrskurði kærunefndar, dags. 21. október 2021, var það mat nefndarinnar að óttist kærandi um öryggi sitt geti hún leitað til lögregluyfirvalda eða annarra þar til bærra stjórnvalda í Grikklandi. Þá beri gögn með sér að konum sem séu þolendur kynbundins ofbeldis, standi til boða úrræði, þ. á m. aðgengi að skýlum á vegum grískra stjórnvalda og sálfræðiaðstoð. Jafnframt séu ofbeldisbrot rannsökuð af grísku lögreglunni en embætti umboðsmanns rannsaki meint brot lögreglu.

Að teknu tilliti til gagna málsins er það mat kærunefndar að ekkert bendi til þess að aðstæður kæranda hafi breyst svo verulega að tilefni sé til að endurupptaka fyrri úrskurð nefndarinnar. Í ljósi framangreinds er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 21. október 2021, hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.

 

Úrskurðarorð

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

 

The appellant’s request to re-examine the case is denied.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                                       Sandra Hlíf Ocares


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta