Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 371/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 371/2019

Mánudaginn 20. janúar 2020

A

gegn

Barnavernd B

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Björn Jóhannesson lögfræðingur og Guðfinna Eydal sálfræðingur.

Með kæru, dags. 4. september 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndar B, sem var kynnt kæranda með bréfi, dags. 8. ágúst 2019, um niðurstöðu könnunar samkvæmt 22. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.), vegna sonar kæranda, C.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Drengurinn C er rúmlega X ára gamall sonur kæranda og D. Kærandi er móðir drengsins og fer hún ein með forsjá hans. Drengurinn á lögheimili hjá kæranda og hefur átt umgengni við föður á heimili hans.

Nafnlaus tilkynning barst Barnavernd B þann X sem fram komu áhyggjur af líkamlegu ofbeldi föður gagnvart drengnum.

Málið var tekið fyrir á fundi Barnaverndar B samdægurs og ákveðið að það yrði sett í farveg könnunar samkvæmt 22. gr. bvl. Með bréfi til kæranda, dags. X, var kæranda tilkynnt að tilkynning hefði borist samkvæmt 16. gr. bvl. Í kjölfarið komu foreldrar drengsins í viðtöl hjá barnavernd og tekið var viðtal við drenginn. Þá aflaði barnavernd upplýsinga um líðan drengsins, umhirðu, mætingar og samskipti frá leikskóla drengsins. Með ákvörðun, dags. X, var kæranda tilkynnt um þá niðurstöðu könnunar að ekki væri þörf á frekari afskiptum og málinu væri því lokið.

Í niðurstöðu könnunar kom fram að efni tilkynningar hafi verið staðfest, þ.e. að faðir hafi beitt drenginn ofbeldi. Föður hafi verið ráðlagt að sækja aðstoð hjá E. Hann hafi verið jákvæður fyrir því en ekki sé ljóst hvort hann hafi fylgt því eftir. Drengurinn sé opinn gagnvart móður sinni og segir frá þegar eitthvað kemur upp á. Hafi það verið mat starfsmanna Barnaverndarnefndar B að ekki væri þörf á frekari afskiptum nefndarinnar og málinu því verið lokað.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki sérstakar kröfur í málinu en hefur margvíslegar athugasemdir fram að færa vegna meðferðar Barnaverndar B í máli sonar síns. Skilja verður kæru hennar svo að þess sé krafist að ákvörðun Barnaverndar B um að loka málinu verði felld úr gildi.

Í kæru segir að tilkynnt hafi verið þann X um vanrækslu og ofbeldisbrot af hendi föður gagnvart barninu þegar það var X ára gamalt. Brot sem tilkynnt hafi verið um varði sektum og jafnvel fangelsi samkvæmt bvl. Börn eigi rétt á vernd samkvæmt fyrstu grein laganna  og segir þar að óheimilt sé að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Þá sé réttur barna til verndar einnig varinn í alþjóðalögum, svo sem Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Málinu hafi verið lokað rúmum sex mánuðum síðar, eða X, þar sem barnaverndarnefndin taldi ekki ástæðu til frekari afskipta. Kærandi telur það forkastanlegt að slíkum brotum sé leyft að viðgangast þegar barn eigi í hlut.

Í 4. gr. bvl. segi að hafa þurfi hagsmuni barna í fyrirrúmi í barnaverndarstarfi. Yfirvöld skuli leitast við að eiga góða samvinnu við börn og foreldra og sýna þeim fyllstu nærgætni og virðingu. Í 43. gr. laganna segi að foreldrum sé skylt að veita barnaverndarnefnd liðsinni, enda skuli nefndin sýna þeim ýtrustu nærgætni. Þá eigi að gæta fyllsta trúnaðar um hagi barna og foreldra. Ekki sé að sjá að þessum og öðrum reglum hafi verið fylgt við málsmeðferð þessa máls. Trúnaðarbrestur hafi orðið þegar ráðgjafi barnaverndar hafi lesið upp úr punktum, sem ráðgjafi tók niður í samtali á milli hans og móður, fyrir föður að henni óafvitandi og án hennar leyfis. Það hafi orðið til þess að móðir hafi þurft að þola aðdróttanir frá föður og sitja undir ásökunum.

Í 41. gr. bvl. komi fram að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því samkvæmt rannsóknarreglu. Samkvæmt 22. gr. laganna skal afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns í samræmi við hagsmuni og þarfir barnsins. Þá skal nefndin kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað barns á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan þess. Leita skuli aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefji. Ekki verði séð að þessu hafi verið fylgt í málinu. Til dæmis sé orðalag og innihald greinargerðar barnaverndarnefndar ámælivert og farið með rangt mál. Það hafi orðið til þess að hagsmunir og velferð barnsins, sem tryggja á samkvæmt lögum, hafi verið virt að vettugi. Barnaverndarnefndin hafi brugðist því hlutverki sínu með þessum hætti.

Kærandi bendir á að hún og faðir drengsins hafi verið tilgreind sem forsjáraðilar í upphafsgrein/ávarpi í tilkynningarbréfi um niðurstöðu málsins en það sé rangt. Kærandi hafi frá upphafi ein farið með forsjá drengsins og foreldrar aldrei verið skráðir í sambúð. Könnun samkvæmt 22. gr. getur því ekki talist hafa uppfyllt kröfur um upplýsingaöflun.

Aðbúnaður á heimili og hagir föður séu bágbornir, bæði séu þar slysagildrur og hreinlæti verulega ábótavant, til að mynd sé hvorki sturta né baðkar á heimilinu og engin þvottavél sem sé undarlegt að teljist ásættanlegt að mati barnaverndarnefndarinnar. Þá hafi ekki verið tekið mark á upplýsingum um hegðun og líðan drengsins, hvorki frá aðstandendum né leikskóla, um vanlíðan og leiða.

Í kaflanum „Fjölskylduviðtal“ í greinargerð starfsmanns barnaverndar sé orðalagi ábótavant og orðfæri misvísandi, illskiljanlegt og samsvarar ekki því sem fram fór í viðtalinu sjálfu. Farið sé með rangt mál oftar en einu sinni og atvik nefnd sem aldrei áttu sér stað. Þá sé farið með alvarleg ósannindi og kærandi höfð fyrir rangri sök. Það hafði slæmar afleiðingar fyrir kæranda þar sem faðir brást illa við. Samantektir á viðtölum, bæði við kæranda og föður, innihaldi rangfærslur og sé orðalag misvísandi og ábótavant.

Líkt og komið hafi fram og segi í barnaverndarlögum skal börnum tryggð vernd, öryggi og gæta skal hagsmuna þeirra. Kæranda hafi verið tilkynnt um niðurstöðu könnunar barnaverndarnefndarinnar símleiðis, að hennar frumkvæði. Þá hafi verið sagt að föður hafi verið bent á að sækja viðtöl í E. Ekkert hefði komið fram hjá nefndinni sem yrði til þess að nefndin teldi að faðir ætti ekki að hitta drenginn. Hann yrði að fá tækifæri til að bæta sig. Þetta telur kærandi vera óásættanlegt, faðir hafi nú þegar fengið ótal tækifæri til að bæta fyrir brot sín án árangurs.

Kærandi velti því fyrir sér hvað hafi komið fram hjá nefndinni sem gefið hafi til kynna að drengnum sé óhætt og öryggi hans tryggt hjá föður, hvort hagsmunir barns og réttur þess til umönnunar og verndar vegi ekki þyngra en réttur foreldra til þess að „fá að bæta sig“. Hvernig ofangreind niðurstaða hafi verði rökstudd með vísan í sannanir og upplýsinga sem aflað hafi verið við könnunina og á hvaða grundvelli ákvörðun hafi verið tekin um að barninu væri best borgið með áframhaldandi umgengni við föður. Þá leiti kærandi svara við því hvernig könnun og upplýsingaöflun hafi verið háttað og hvort það sé ábending til föður um að sækja viðtöl í E sem sé nægileg trygging fyrir því að framvegis verði öryggi barnsins tryggt hjá föður, í ljósi ofangreinds, hvort málið geti talist vera nægjanlega upplýst og rannsóknarskyldu fullnægt af hálfu barnaverndarnefndarinnar og hvenær mál teljist nægjanlega kannað af hálfu barnaverndarnefndarinnar samkvæmt 23. gr. bvl. Að lokum velti kærandi þvi fyrir sér hvaða ástæður geti legið að baki ákvörðun um að setja barn í umhverfi þar sem ekki sé fyllilega hægt að tryggja og færa sönnur á að barnið sé óhult og verndað, sér í lagi þegar grunur leikur á misferli.

Eftir að málinu hafi verið lokað af hálfu barnaverndarnefndarinnar hafi kæranda verið gert að hefja umgengni barnsins við föður að nýju líkt og ekkert hefði í skorist. Það sé átakanlegt að vera knúinn til að láta barnið sitt af hendi óviljugt í óöruggar aðstæður til manns sem ekki sé treystandi og hafi játað í viðtali við barnaverndarnefnd að hafa beitt drenginn ofbeldi. Með því að fylgja lagarammanum og hefja aftur umgengni við föður, sé kærandi þó á sama tíma brotleg við lögin sem forsjáraðili um að standa ekki vörð um öryggi barnsins. Það sé skelfilegt að vera móðir í nútíma velferðarsamfélagi undir slíkri kúgun og valdníðslu. Kærandi kveðst vona að réttlætið nái fram að ganga og að velferð barnsins verði höfð að leiðarljósi.


 

III.  Sjónarmið Barnaverndar B

Í greinargerð Barnaverndarnefndar B kemur fram að tilkynning hafi borist undir nafnleynd þann X. Í tilkynningunni hafi komið fram að faðir hafi beitt drenginn líkamlegu ofbeldi í einhver skipti þegar hann hafi verið hjá honum í umgengni. Drengurinn hafi greint frá því eftir síðustu veru sína hjá föður sínum að faðir hans hefði rassskellt hann svo mikið að hann sveið í rass og bak. Drengurinn hafi verið dapur og með mikla vanlíðan. Ákveðið hafi verið að hefja könnun máls sem lauk með greinargerð samkvæmt 1. mgr. 23. gr. bvl., dags. X.

Drengurinn búi hjá kæranda og fari í umgengni til föður en ekki hafi verið fyrir hendi skriflegur umgengnissamningur eða úrskurður sýslumanns. Haft hafi verið samband við kæranda áður en málinu hafi verið lokað hjá barnavernd. Í því samtali, sem fór fram X hafi komið fram að ágætlega hafi gengið hjá drengnum og kærandi merki ekki vanlíðan eða kvíða hjá drengnum nú þegar kærandi hafi breytt fyrirkomulagi umgengni. Ekki hafi borist frekari tilkynningar um aðstæður drengsins og því hafi málinu verið lokað.

Eins og málið snúi að barnavernd snerist tilkynning um aðstæður barns í umgengni við forsjárlausan föður. Umgengnismál séu á verksviði sýslumanns samkvæmt barnalögum nr. 76/2003. Skriflegur umgengnissamningur hafi ekki verið fyrir hendi. Kærandi hafi verið í aðstöðu til að tryggja öryggi drengsins sem hún gerði og staðfesti hún við starfsmenn barnaverndar að líðan drengsins væri góð. Könnun málsins hafi leitt í ljós að heimilisaðstæður væru góðar. Ekki hafi verið talin þörf á frekari aðgerðum barnaverndar þar sem barnið búi við góðar aðstæður hjá hæfu foreldri sem hafi gripið til ráðstafana sjálft til þess að tryggja hagsmuni drengsins.

VI.  Niðurstaða

C er X ára gamall og lýtur forsjá móður sinnar sem er kærandi þessa máls. Með hinni kærðu ákvörðun Barnaverndar B var ákveðið að loka barnaverndarmáli drengsins í kjölfar könnunar máls.

Samkvæmt 22. gr. bvl. er það markmið könnunar máls að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl., allt í samræmi við hagsmuni og þarfir barns. Í þessu skyni skal barnaverndarnefnd kappkosta að afla sem gleggstra upplýsinga um hagi barns, svo sem andlegt og líkamlegt ásigkomulag, tengsl við foreldra eða aðra, hagi foreldra, aðbúnað á heimili, skólagöngu, hegðun og líðan barns. Leita skal aðstoðar sérfræðinga eftir því sem þörf krefur. Um könnun máls, rannsóknarheimildir barnaverndarnefnda, skyldu til að láta barnaverndarnefndum í té upplýsingar og málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd almennt, gilda ákvæði VIII. kafla bvl.

Samkvæmt 23. gr. bvl. skal barnaverndarnefnd taka saman greinargerð þegar mál hefur að mati nefndarinnar verið kannað nægilega. Í greinargerð skal lýst niðurstöðum könnunar, tiltekið hverra úrbóta er þörfog settar fram tillögur að heppilegum úrræðum ef því er að skipta. Ef könnun leiðir í ljós að þörf sé á beitingu sérstakra úrræða samkvæmt bvl. skal barnaverndarnefnd, í samvinnu við foreldra og eftir atvikum barns sem náð hefur 15 ára aldri, gera skriflega áætlun um frekari meðferð málsins. Hafa skal samráð við börn eftir því sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til. Áætlun skal gera til ákveðins tíma og endurskoða eftir þörfum.

Í 1. mgr. 41. gr. bvl. kemur fram að barnaverndarnefnd skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. einnig rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Með þessu er reynt að tryggja að ákvarðanir nefndanna séu bæði löglegar og byggðar á réttum grunni. Ekki verða settar fram nákvæmar reglur um það hvernig staðið skuli að könnun máls og hverra gagna skuli aflað, enda er það matsatriði og breytilegt eftir eðli máls hverju sinni. Í því sambandi ber þó að gæta að 2. mgr. 41. gr. bvl. þar sem fram kemur að könnun barnaverndarmáls skuli ekki vera umfangsmeiri en nauðsyn krefji og skuli henni hraðað svo sem kostur er. Í þessu felst meðal annars að barnaverndarnefnd skal ekki ganga lengra í gagnaöflun og könnun máls hverju sinni en nauðsynlegt er. Í þessu felst einnig að ekki séu notaðar harkalegri aðferðir við könnun máls og öflun gagna en efni standa til.

Í 2. gr. bvl. segir að markmið laganna sé að tryggja að börn, sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu, fái nauðsynlega aðstoð.

Í málinu liggur fyrir ein tilkynning frá X sem barst undir nafnleynd. Þann X tók Barnavernd B ákvörðun á fundi að taka málið til könnunar. Við meðferð máls tók barnavernd viðtöl við drenginn, föður hans og móður. Einnig var aflað upplýsinga frá leikskóla drengsins. Greinargerð samkvæmt 1. mgr. 23. gr. bvl. um niðurstöðu könnunar lá fyrir X þar sem fram kemur að faðir hafi beitt barnið ofbeldi og því hafi efni tilkynningar verið staðfest. Föður hafi verið ráðlagt að sækja aðstoð hjá E sem er meðferðarmiðstöð um ofbeldi í nánum samböndum. Faðir hafi verið jákvæður fyrir því en ekki sé ljóst hvort hann hafi leitað þangað. Drengurinn sé opinn gagnvart móður sinni og segi frá ef eitthvað komi upp á. Í niðurstöðu greinargerðarinnar komi fram að ekki verði séð að barnavernd geti aðhafst frekar í máli drengsins en fleiri tilkynningar hafi ekki borist í málinu og því leggi starfsmaður til að málinu verði lokað. Það var síðan ákveðið á fundi Barnaverndarnefndar B X. að loka málinu.

Samkvæmt 22. gr. bvl., sem vísað er til hér að framan, er markmið könnunar máls samkvæmt lögunum að afla nauðsynlegra upplýsinga um aðstæður barns og meta þörf fyrir úrræði samkvæmt ákvæðum bvl. Við úrlausn máls þessa ber úrskurðarnefndinni að leysa úr því hvort barnaverndin hafi réttilega metið það svo að ekki væri  þörf á að leita úrbóta eða beita sérstökum úrræðum samkvæmt ákvæðum bvl. að lokinni könnun og því ætti að loka málinu.

Í máli þessu liggur fyrir að faðir beitti barnið ofbeldi og samþykkti að leita sér aðstoðar. Ekkert liggur fyrir í málinu um hvort hann hafi gert það. Þá lá fyrir umsögn  leikskóla sem bar það með sér að drengurinn þyrfti á frekari aðstoð að halda. Í kjölfar könnunar málsins báru gögn málsins, að mati úrskurðarnefndar velferðarmála, sterklega til kynna að beita þurfti úrræðum bvl. í samvinnu við foreldra og gera áætlun um frekari meðferð málsins í samræmi við 1. mgr. 24. gr. bvl. Ákvæðið kveður meðal annars á um aðstoð með því að leiðbeina foreldrum um uppeldi og aðbúnað, útvega barni viðeigandi stuðning eða útvega barni eða fjölskyldu tilsjónarmann, persónulegan ráðgjafa eða stuðningsfjölskyldu.

Úrskurðarnefndin telur, með vísan til þess sem að framan er rakið, að lokun málsins hafi ekki verið tímabær og að frekari eftirfylgni hafi verið nauðsynleg. Úrskurðarnefndin lítur sérstaklega til þess sem fram kemur í I. kafla sem fjallar um markmið barnaverndarlaga og fleira, nánar tiltekið 2. mgr. 1. gr., um að allir sem hafa uppeldi og umönnun barna með höndum skulu sýna þeim virðingu og umhyggju og óheimilt er með öllu að beita börn ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi. Foreldrum ber að sýna börnum sínum umhyggju og nærfærni og gegna forsjár- og uppeldisskyldum við börn sín svo sem best hentar hag og þörfum þeirra. Þeim ber að búa börnum sínum viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra í hvívetna.

Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun felld úr gildi og málinu vísað til meðferðar Barnaverndar B að nýju.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndar B, um að loka máli vegna drengsins C, er felld úr gildi og málinu vísað til nýrrar meðferðar.

 

 

Kári Gunndórsson

 

 

                          Björn Jóhannesson                                                     Guðfinna Eydal                                      

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta