Nr. 497/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 20. september 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 497/2023
í stjórnsýslumáli nr. KNU23070060
Beiðni […] um endurupptöku
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 266/2023, dags. 10. maí 2023, var staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. mars 2023, um að synja umsókn […], fd. […], ríkisborgara Írak (hér eftir nefndur kærandi), um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Niðurstaða kærunefndar var birt fyrir kæranda 11. maí 2023.
Hinn 11. júlí 2023 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins ásamt fylgiskjölum.
Í greinargerð óskaði móðir kæranda og eiginmaður hennar eftir að fá að koma fyrir nefndina og tjá sig um efni málsins. Samkvæmt 7. mgr. 8. gr. laga um útlendinga skal málsmeðferð fyrir kærunefnd útlendingamála að jafnaði vera skrifleg. Með vísan til málsatvika og fyrirliggjandi gagna taldi kærunefnd ekki ástæðu til að gefa móður kæranda og eiginmanni hennar kost á að koma fyrir nefndina.
Beiðni kæranda um endurupptöku byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
II. Málsástæður og rök kæranda
Ráða má af beiðni kæranda um endurupptöku samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga að hann telji að ákvörðun í máli hans hafi verið byggða á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, auk þess sem að atvik hafi breyst verulega frá því úrskurður kærunefndar var kveðinn upp.
Í greinargerð kæranda kemur fram að móðir hans búi hér á landi og sé í hjúskap með manni sem sé íslenskur ríkisborgari og hafi verið búsettur hér á landi í yfir aldarfjórðung. Kærandi sé einstæður og eini fjölskyldumeðlimur hans sem hann sé í tengslum við í heimaríki sínu sé systir hans. Hún geti þó varið takmörkuðum tíma með honum þar sem hún starfi sem læknir í fullu starfi, auk þess sem hún sé kvænt og með eigin fjölskyldu. Kærandi vísar til greinargerðar móður sinnar, dags. 1. febrúar 2022, um að hún óttist um líf hans í heimaríki þeirra þar sem hann verði stöðugt fyrir áreiti af hálfu yfirvalda vegna þátttöku hans í mótmælum sem hafi varðað hagsmunabaráttu fyrir betri réttindum ungs fólks í Kúrdistan. Hvað varði framfærslu þá hafi kærandi lagt fram vottorð frá Ashty bank, kúrdískum banka, um að hann eigi þar 20 þúsund bandaríska dollara. Að auki hafi kærandi aðgang að fríu húsnæði hjá móður sinni og stjúpföður á Íslandi sem og fæði. Þá sé kærandi sjúkratryggður hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. (VÍS). Kærandi sé búinn að læra íslensku í gegnum netið og sé hann tilbúinn að mynda sterk tengsl við landið og aðlagast íslensku samfélagi.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans verði tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Með úrskurði nr. 266/2023, dags. 10. maí 2023, staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd komst að þeirri niðurstöðu að aðstæður kæranda væru ekki þess eðlis að honum yrði veitt dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 1 og 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Var þá einkum horft til þess að kærandi væri fullorðinn einstaklingur sem hefði verið búsettur í Írak alla sína ævi. Hann væri vinnufær, hafi lokið menntun í heimaríki og stundað þar atvinnu. Þar ætti hann jafnframt að eigin sögn ættingja, m.a. föður, systur og stjúpmóður. Horfði nefndin m.a. til þess að ekkert benti til þess að umönnunarsjónarmið önnur en framfærsla mælti með veitingu dvalarleyfis.
Kærunefnd telur að leggja megi þann skilning á beiðni kæranda að hann byggi endurupptökubeiðni sína á því að ákvörðun í máli hans hafi byggst á ófullnægjandi og röngum upplýsingum um málsatvik og hins vegar að atvik hafi breyst verulega frá því að ákvörðun var tekin í máli hans, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. laga um útlendinga.
Kærunefnd hefur farið yfir beiðni kæranda um endurupptöku ásamt þeim fylgiskjölum sem liggja fyrir. Með endurupptökubeiðni sinni lagði kærandi fram ýmsar ljósmyndir og hlekki að myndböndum á vefsíðunni Youtube, m.a. af einhvers konar óeirðum í heimaríki hans, bréf þar sem hann kveðst ætla að læra íslensku og tölvubréf þar sem hann lýsir ósk sinni að búa hér á landi. Þá lagði kæranda auk þess fram frekari gögn er lutu að greiðslum til hans frá fyrirtæki að tilstuðlan móður hans og innistæðu á bankareikningi hans.
Í úrskurði kærunefndar í máli kæranda, dags. 10. maí 2023, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið væru ekki uppfyllt, sbr. 1. og 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Kærandi hefur ekki lagt fram ný gögn með endurupptökubeiðni sinni sem nefndin telur til þess fallin að hafa áhrif á niðurstöðu nefndarinnar hvað þetta varðar. Þá hafa almennar aðstæður í heimaríki kæranda eða einstaklingsbundnar aðstæður hans þar í landi ekki áhrif á mat á skilyrðum 78. gr. laga um útlendinga nema að því marki er lýtur að umönnunarsjónarmiðum.
Að teknu tilliti til þeirra gagna sem kærandi hefur lagt fram við meðferð endurupptökumálsins hjá kærunefnd og þess sem að framan er rakið er það mat kærunefndar að ekkert bendi til þess að atvik málsins hafi breyst svo verulega að tilefni sé til að endurupptaka fyrri úrskurð nefndarinnar. Í ljósi framangreinds er það jafnframt niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.
Úrskurðarorð:
Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.
The request of the appellant to re-examine the case is denied.
Þorsteinn Gunnarsson
Sandra Hlíf Ocares Gunnar Páll Baldvinsson