Hoppa yfir valmynd

Nr. 104/2020 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 25. mars 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 104/2020

í stjórnsýslumálum nr. KNU20010007, KNU20010008 og KNU20010009

 

Beiðni […], […] og […] um endurupptöku

I. Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 389/2019, dags. 14. ágúst 2019, staðfesti nefndin ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 24. júlí 2019, um að taka umsóknir einstaklinga er kveðast heita […], vera fædd […] (hér eftir A), […], er kveðst vera fædd […] (hér eftir B) og […], er kveðst vera fædd […] (hér eftir C), er kveðast allar vera ríkisborgarar [...], um alþjóðlega vernd hér á landi ekki til efnismeðferðar og vísa þeim frá landinu.

Kærendur lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 6. mars 2019. Niðurstaða kærunefndar var birt talsmanni kærenda þann 19. ágúst 2019. Þann 26. ágúst 2019 lögðu kærendur fram beiðni um frestun réttaráhrifa á úrskurði kærunefndar og barst nefndinni greinargerð í málunum þann 1. september 2019. Þeirri beiðni synjaði kærunefnd þann 11. september 2019 með úrskurði nr. 441/2019. Þann 22. október 2019 barst kærunefnd beiðni kærenda um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar nr. 389/2019 og synjaði kærunefnd beiðni þeirra þann 7. nóvember 2019 með úrskurði nr. 523/2019. Þann 8. janúar 2020 barst kærunefnd öðru sinni beiðni kærenda um endurupptöku málanna ásamt fylgigögnum. Þá bárust kærunefnd viðbótargögn þann 14. febrúar 2020. Þann 6. mars 2020 bárust kærunefnd upplýsingar frá stoðdeild ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun sem óskað hafði verið eftir af hálfu kærunefndar sama dag.

Endurupptökubeiðni kærenda er reist á 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 enda hafi ákvarðanir í málum þeirra byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik og þá hafi ákvarðanirnar byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að þær voru teknar.

II. Málsástæður og rök kærenda

Kærendur byggja beiðni sína um endurupptöku m.a. á því að A sé einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016. Telji kærendur að mat kærunefndar á aðstæðum A hafi ekki verið nægjanlegt í ljósi heilsufars hennar. Þá reisa kærendur beiðni sína um endurupptöku á breyttum atvikum, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, enda hafi heilsufari A hrakað auk þess sem að ekki hafi verið hægt að flytja kærendur til viðtökuríkis vegna bágs heilsufars hennar. Þá hafi atvik einnig breyst sökum þess að syni A, bróður B og C, hafi nú verið veitt viðbótarvernd hér á landi og því ljóst að fjölskyldan hafi sérstök tengsl við landið. Þá reisi kærendur endurupptökubeiðni sína jafnframt á því að úrskurður kærunefndar hafi byggst á röngum upplýsingum um málsatvik í skilningi 1. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga enda telji þær ljóst að stjórnvöld hafi vanmetið alvarleika heilsufars A og þörf hennar á læknismeðferð.

III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál hans sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga kemur fram að flóttamaður skv. 37. gr. laganna, sem er hér á landi eða kemur hér að landi, hefur samkvæmt umsókn rétt á að fá hér alþjóðlega vernd. Stjórnvöldum er þó heimilt, á grundvelli a-, b- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laganna, að taka umsókn ekki til efnismeðferðar við þær aðstæður sem tilgreindar eru í umræddum stafliðum.

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Af orðalagi 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga leiðir að umrætt 12 mánaða tímabil hefst þegar umsækjandi leggur fyrst fram umsókn um alþjóðlega vernd hjá stjórnvöldum. Þá telur kærunefnd að tímabilinu ljúki þegar endanleg niðurstaða stjórnvalda er framkvæmd með flutningi umsækjanda til viðtökuríkis eða þegar kærandi fer úr landi sjálfviljugur eftir að ákvörðun í máli hans hefur verið tekin.

Kærunefnd telur að túlka beri 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga á þann hátt að þó að 12 mánaða fresturinn sé liðinn fari umsókn ekki í efnismeðferð af þeim sökum ef tafir á málsmeðferð eða flutningi verði raktar til athafna eða athafnaleysis umsækjanda sem hann ber að einhverju leyti ábyrgð á, nema þær tafir hafi verið óverulegar og ljóst er að hægt hefði verið að flytja kæranda áður en 12 mánaða fresturinn var liðinn.

Líkt og áður hefur komið fram sóttu kærendur um alþjóðlega vernd hér á landi þann 6. mars 2019 og hafa þær ekki enn yfirgefið landið. Því eru liðnir rúmlega 12 mánuðir frá því að umsóknir kærenda bárust fyrst íslenskum stjórnvöldum.

Þann 6. mars 2020 óskaði kærunefnd útlendingamála eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun og stoðdeild ríkislögreglustjóra. Sneri fyrirspurn nefndarinnar að því hvort tafir hefðu orðið á meðferð umsókna kærenda og ef svo væri, hvort tafir væru á ábyrgð kærenda, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Svör frá Útlendingastofnun og stoðdeild bárust samdægurs og var það mat þeirra að kærendur hefðu ekki tafið mál sín að nokkru leyti.

Af framangreindum upplýsingum frá stoðdeild ríkislögreglustjóra og Útlendingastofnun má því ráða að þær tafir sem hafi orðið á málinu hafi ekki verið af völdum kærenda. Að auki hefur kærunefnd farið yfir málsmeðferð í málum þeirra og er að mati kærunefndar ekkert sem bendi til þess að þær verði taldar bera ábyrgð á töfum á afgreiðslu umsókna sinna, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Í ljósi alls framangreinds og samfelldrar dvalar kærenda hér á landi síðan þær lögðu fram umsóknir um alþjóðlega vernd þann 6. mars 2019, er fallist á að atvik hafi breyst verulega í málum þeirra á þann hátt að þær eigi rétt á endurupptöku mála sinna, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Það er jafnframt niðurstaða kærunefndar að fella ákvarðanir Útlendingastofnunar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsóknir kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli 2. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í ljósi alls framangreinds þykir ekki tilefni til frekari umfjöllunar um aðrar málsástæður kærenda.

 

Úrskurðarorð

 

Fallist er á beiðni kærenda um endurupptöku á málum þeirra.

Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir stofnunina að taka mál kærenda til efnismeðferðar.

 

The appellants request for re-examination of their cases is granted.The decisions of the Directorate of Immigration are vacated.

The Directorate shall examine the merits of the applicants applications for international protection in Iceland.

 

Áslaug Magnúsdóttir                                 Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta