Hoppa yfir valmynd

Nr. 3/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 15. janúar 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 3/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU18110041

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 27. nóvember 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita [...], vera fæddur [...] og vera ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 14. nóvember 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda til efnislegrar meðferðar hér á landi með vísan til 2. og 3. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga, sbr. 42. gr. sömu laga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 6. ágúst 2018. Við leit að fingraförum kæranda í Eurodac gagnagrunninum, þann 5. ágúst 2018, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Svíþjóð. Þann 8. ágúst 2018 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Svíþjóð, sbr. b-lið 1. mgr. 18. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Í svari frá sænskum yfirvöldum, dags. 14. ágúst 2018, samþykktu þau viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 14. nóvember 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 27. nóvember 2018 og kærði kærandi ákvörðunina samdægurs til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 7. desember 2018 ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að sænsk stjórnvöld bæru ábyrgð á meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Umsóknin yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Svíþjóðar ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefði kærandi ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Svíþjóðar.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Svíþjóð. Kærandi telji sig hafa hlotið ósanngjarna málsmeðferð þar en lögfræðingi hans hafi láðst að kæra ákvörðun sænsku útlendingastofnunarinnar til stjórnsýsludómstóls innan kærufrests. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi kveðið að hann glími við bakverki og þunglyndi auk þess sem honum líði illa vegna mikils álags og óvissu um framtíð sína. Þá hafi hann enn fremur þjáðst af sjálfsvígshugsunum. Kærandi hafi jafnframt greint frá því að hafa hlotið hnífskurði á fótlegg og handlegg í heimaríki og að honum hafi verið hótað lífláti. Þá hafi kærandi greint frá því að móðir hans hafi látist en hann hafi ekki getað heimsótt hana eða mætt í jarðarför hennar.

Í greinargerð sinni gerir kærandi athugasemdir í fjórum liðum við hina kærðu ákvörðun Útlendingastofnunar. Í fyrsta lagi telji kærandi sig í sérstaklega viðkvæmri stöðu í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, þrátt fyrir að stofnunin hafi ekki metið hann í slíkri stöðu. Vísar kærandi til þess að andleg heilsa hans sé brotin, hann sé þunglyndur og hafi þjáðst af sjálfsvígshugsunum, hann eigi erfitt með svefn og sé í miklu andlegu ójafnvægi. Þá sé kærandi [...] og fjölskylda hans hafi afneitað honum. Auk þess hafi hann skorað hátt á skimunarlista sem hafi verið lagður fyrir hann í þjónustuviðtali hjá Útlendingastofnun sem bendi til andlegrar vanlíðunar.

Í öðru lagi vísar kærandi til þess að í hinni kærðu ákvörðun sé aðeins að finna almenna tilvísun til þess að ekkert bendi til þess að mál kæranda fái ekki vandaða og efnislega málsmeðferð verði honum snúið til baka til Svíþjóðar enda bendi engin gögn til þess að slíkur kerfisbundinn galli sé á aðbúnaði og meðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd í Svíþjóð sem leiði til þess að umsækjandi standi frammi fyrir raunverulegri hættu á að sæta ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð þar í landi. Kærandi bendi á að kerfisbundinn galli sé ekki ákvörðunarástæða fyrir því að umsókn sé tekin til meðferðar í öðru aðildarríki en því sem beri ábyrgð á henni, sbr. dóm Hæstaréttar Bretlands frá árinu 2014. Þetta hafi enn fremur verið staðfest í dómum Mannréttindadómstóls Evrópu. Í þriðja lagi telur kærandi óraunhæft að Útlendingastofnun leggi til grundvallar að hann geti, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, átt þess kost að leggja fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd hjá sænsku útlendingastofnuninni. Kærandi bendi á að litlar líkur séu á að fyrri ákvörðun verði snúið við, sænsk yfirvöld geri strangar kröfur til viðbótarumsókna og lögfræðileg ráðgjöf sé ekki í boði við að leggja fram slíka beiðni.

Í fjórða lagi gerir kærandi athugasemd við tilvísun Útlendingastofnunar til 32. gr. a reglugerðar nr. 540/2017 um útlendinga, með síðari breytingum, í tengslum við 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í hinni kærðu ákvörðun gangi stofnunin út frá því að skilyrðin sem talin séu upp í ákvæði reglugerðarinnar þurfi að vera uppfyllt til þess að sérstakar ástæður séu uppi í málinu. Kærandi bendi á að þau viðmið sem sett séu fram í 32. gr. a reglugerðarinnar séu nefnd í dæmaskyni og sé því ekki um að ræða tæmandi talningu á þeim þáttum sem taka beri tillit til við mat á því hvort sérstakar ástæður eigi við. Þessi atriði geti með engum hætti komið í stað heildarmats á einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, en Útlendingastofnun hafi ekki framkvæmt slíkt heildarmat.

Kærandi byggir á því að taka skuli mál hans til efnislegrar meðferðar vegna sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í því sambandi vísi kærandi til ummæla í frumvarpi til laga nr. 81/2017, um breytingu á lögum nr. 80/2016 um útlendinga, og túlkunar kærunefndar á þeim ummælum. Kærandi bendir einnig á að á stjórnvöldum hvíli rík skylda til að leggja heildstætt mat á einstaklingsbundnar aðstæður kæranda og þær afleiðingar sem endursending geti haft í för með sér fyrir hann, líkamlegar og andlegar. Kærandi hafi dvalið í Svíþjóð í tvö og hálft ár og hafi hlotið lokaniðurstöðu á umsókn sinni þar. Hans bíði því nú áframsending til [...]. Kærandi telji sig hafa hlotið ósanngjarna málsmeðferð í Svíþjóð en lögfræðingur hans þar hafi ekki kært ákvörðun sænsku útlendingastofnunarinnar til stjórnsýsludómstóls innan kærufrests. Kærandi vísi til þriggja úrskurða kærunefndar m.a. í þessu sambandi, n.t.t. úrskurði nr. 241/2016 frá 28. júní 2016, nr. 553/2017 frá 10. október 2017 og nr. 582/2017 frá 24. október 2017. Að mati kæranda svipi aðstæður að einhverju leyti í framangreindum úrskurðum til málavaxta í máli kæranda. Í forsendum hinnar kærðu ákvörðunar hafi Útlendingastofnun ekkert minnst á framangreinda úrskurði og velti kærandi því fyrir sér hvort stofnunin hafi litið til fyrri framkvæmdar við ákvarðanatöku í málinu. Að öllu framangreindu virtu byggir kærandi á því að fyrir hendi séu slíkar sérstakar ástæður sem skyldi íslensk stjórnvöld til að taka beiðni kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Krafa kæranda er jafnframt byggð á því að hann njóti verndar 42. gr. laga um útlendinga sem mæli fyrir um grundvallarreglu þjóðaréttar um non-refoulement. Kærandi vísi sérstaklega til 2. mgr. 42. gr. laganna sem kveði á um skýrt bann við sendingu einstaklings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki áframsendur til svæðis þar sem líf hans eða frelsi kunni að vera í hættu. Fyrir liggi að kærandi hafi fengið lokasynjun í Svíþjóð og standi því frammi fyrir flutningi til [...] verði hann endursendur til Svíþjóðar. Kærandi vísi í þessu sambandi til ummæla um non-refoulement í greinargerð innanríkisráðuneytisins um endursendingar til Ítalíu frá desember 2015. Kærandi telji að ekki sé nægilegt að vísa til almennrar staðhæfingar þess efnis að Svíþjóð veiti fullnægjandi vernd gegn brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd til landa þar sem þeir eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra og frelsi sé ógnað, heldur beri að líta til raunverulegra og einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda í þessu máli. Með ákvörðun um endursendingu kæranda til Svíþjóðar tækju íslensk stjórnvöld ákvörðun um að senda kæranda til svæðis þar sem ekki sé tryggt að hann verði ekki sendur áfram til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sem brjóti gegn 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef krefja má annað ríki, sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli samninga sem Ísland hefur gert um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram hér á landi eða í einhverju samningsríkjanna, um að taka við umsækjanda. Í samræmi við samning ráðs Evrópusambandsins og Íslands og Noregs um þátttöku hinna síðarnefndu í framkvæmd, beitingu og þróun Schengen-gerðanna samþykkti Ísland áðurnefnda Dyflinnarreglugerð, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 1/2014.

Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Ábyrgð Svíþjóðar á umsókn kæranda er byggð á d-lið 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar þar sem kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi. Samkvæmt framansögðu er heimilt að krefja sænsk stjórnvöld um að taka við kæranda, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Kærandi er [...] gamall einstæður karlmaður sem kveðst vera [...] og [...]. Í viðtali hjá Útlendingastofnun lýsti hann andlegri heilsu sinni sem brotinni vegna álags og óvissu auk þess sem hann hafi haft sjálfsvígshugsanir. Af gögnum um heilsufar kæranda, sem hann hefur lagt fram við meðferð málsins, verður ráðið að hann sé almennt við ágæta líkamlega heilsu. Þá kemur fram að kærandi hafi glímt við svefnleysi og hafi áhyggjur af stöðu sinni, auk þess sem lagður hafi verið fyrir hann skimunarlisti vegna þunglyndis og kvíða (e. Depression Anxiety Stress Scales, DASS) sem hann hafi skorað í meðallagi á. Þá hefur kærandi hitt sálfræðing í tvígang.

Það er mat kærunefndar að gögn málsins, þ. á m. framlagðar komunótur og frásögn kæranda, beri ekki með sér að kærandi teljist vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Kærandi hefur þá borið fyrir sig að umsókn hans hafi fengið ósanngjarna málsmeðferð í Svíþjóð en honum hafi verið synjað um að áfrýja niðurstöðu sænsku útlendingastofnunarinnar til stjórnsýsludómstóls. Kærandi telur það miklum vandkvæðum bundið að fá málið tekið upp að nýju í Svíþjóð eða leggja fram viðbótarumsókn þar enda séu ströng skilyrði sett fyrir slíku. Því bíði kæranda áframsending til heimaríkis verði hann endursendur til Svíþjóðar. Þá óttast kærandi að hann verði settur í fangelsi í Svíþjóð uns hann verði áframsendur til heimaríkis.

Aðstæður í Svíþjóð

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Svíþjóð, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

  • Amnesty International Report 2017/18 (Amnesty International, 22. febrúar 2018),
  • Annual Report on the situation of Asylum in the European Union 2017 (European Asylum Support Office, 18. júní 2018),
  • Asylum Information Database, National Country Report: Sweden (European Council on Refugees and Exiles, 28. mars 2018),
  • Freedom in the World 2018 – Sweden (Freedom House, 28. maí 2018),
  • Good Advice for Asylum Seekers in Sweden (The Swedish Network of Refugee Support Group, janúar 2018),
  • Observations by the United Nations High Commissioner for Refugees Regional Representation for Northern Europe on the draft law proposal on restrictions of the possibility to obtain a residence permit in Sweden (The UN High Commissioner for Refugees, 10. mars 2016),
  • Sweden 2017 Human Rights Report (United States Department of State, 20. apríl 2018) og
  • Upplýsingar af vefsíðu sænsku útlendingastofnunarinnar (www.migrationsverket.se).

Í framangreindum gögnum kemur fram að sænska útlendingastofnunin (s. Migrationsverket) tekur ákvarðanir er varða umsóknir um alþjóðlega vernd. Umsækjandi um alþjóðlega vernd á þess kost að bera synjun útlendingastofnunarinnar á umsókn sinni undir stjórnsýsludómstól (s. Migrationsdomstolen) og þeim dómi er unnt að áfrýja til áfrýjunardómstóls (s. Migrationsöverdomstolen). Umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem hafa fengið endanlega synjun á umsókn sinni hjá sænsku útlendingastofnuninni og framangreindum dómstólum, eiga þess kost að leggja fram viðbótarumsókn hjá sænsku útlendingastofnuninni, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Ef nýjar upplýsingar eða ný gögn liggja fyrir í máli umsækjanda, aðstæður hafa breyst verulega eða verulegir annmarkar hafa verið á fyrri málsmeðferð, geta skilyrði fyrir viðbótarumsókn verið uppfyllt. Synjun sænsku útlendingastofnunarinnar um að taka viðbótarumsókn til skoðunar má kæra og engin takmörk eru á því hversu oft umsækjandi getur lagt fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd. Telji umsækjendur um alþjóðlega vernd að annmarkar hafi verið á meðferð umsóknar þeirra hjá sænsku útlendingastofnuninni eða að brotið hafi verið gegn lögum geta þeir jafnframt leitað til sænska umboðsmannsins (s. Riksdagens Ombudsmän) en hans hlutverk er að hafa eftirlit með starfsemi stjórnvalda og gæta þess að starfsemi stjórnvalda sé í samræmi við lög. Umsækjendur eiga rétt á takmarkaðri félagslegri aðstoð á meðan viðbótarumsókn er til meðferðar. Þá eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun, skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd og brottvísun til heimaríkis hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem muni brjóta í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

Samkvæmt framangreindri skýrslu gagnagrunns Evrópuráðsins um flóttamenn og landflótta einstaklinga eru ákvarðanir um varðhald umsækjenda um alþjóðlega vernd í Svíþjóð almennt teknar af sænsku útlendingastofnuninni, stjórnsýsludómstólunum eða af lögreglunni. Í 10. kafla sænsku útlendingalaganna eru talin upp skilyrði þess að setja megi einstaklinga í varðhald, þ.m.t. þá sem hafa verið umsækjendur um alþjóðlega vernd. Meðal annars má setja umsækjendur í varðhald ef þeim hefur verið vísað brott frá landinu á tilteknum grundvelli eða að líklegt sé að þeim verði synjað um inngöngu í landið. Slíkt er þó ekki gert nema á grundvelli almannaöryggis eða að hætta sé talin á að umsækjandi muni reyna að koma sér undan brottvísun.

Svíþjóð er aðildarríki Evrópusambandsins og hefur innleitt tilskipanir sambandsins vegna meðferðar og móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Samkvæmt framangreindum skýrslum um aðstæður og aðbúnað umsækjenda í Svíþjóð eiga þeir rétt á húsnæði, mataraðstoð og vasapeningum, geti þeir ekki framfleytt sér sjálfir. Þá kemur fram á heimasíðu sænsku útlendingastofnunarinnar og í gagnagrunni Evrópuráðsins um flóttamenn og landflótta einstaklinga, Asylum Information Database, að umsækjendum um alþjóðlega vernd í Svíþjóð er tryggður aðgangur að grunnheilbrigðisþjónustu. Sveitarfélagið sem umsækjandi um alþjóðlega vernd dvelst í hefur milligöngu um að útvega umsækjanda lækni og aðra heilbrigðisþjónustu við hæfi. Þá er tekið tillit til þarfa einstaklinga sem teljast vera í viðkvæmri stöðu, þ. á m. að því er varðar sérfræðiaðstoð. Greiða þarf vægt komugjald vegna heimsóknar á heilsugæslu en innlögn á spítala er umsækjanda að kostnaðarlausu. Fari kostnaður vegna heilbrigðisþjónustu fram úr ákveðinni upphæð er hægt að óska eftir fjárhagsaðstoð frá ríkinu. Umsækjandi um alþjóðlega vernd í Svíþjóð, sem fengið hefur neikvæða niðurstöðu í máli sínu, hefur aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu fram að brottför en nýtur hins vegar ekki fjárhagsstuðnings til að greiða fyrir slíka þjónustu eða lyf.

Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér er ljóst að sænsk stjórnvöld uppfylla skyldur sínar varðandi lögfræðiaðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd skv. tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 32/2013 um málsmeðferð við veitingu og afturköllun alþjóðlegrar verndar, sbr. 19. og 20. gr. hennar. Þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd leggja fram umsókn um vernd í Svíþjóð í fyrsta skipti eiga þeir rétt á lögfræði- og túlkaþjónustu án endurgjalds þegar umsókn er til meðferðar hjá sænsku útlendingastofnuninni og á kærustigum málsins. Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga hins vegar ekki rétt á lögfræðiþjónustu án endurgjalds við að leggja fram viðbótarumsókn en þeir geta átt rétt á að fá tilnefndan lögmann ef sænska útlendingastofnunin samþykkir að taka viðbótarumsóknina til skoðunar. Endurgjaldslaus túlkaþjónusta er ekki í boði við framangreinda málsmeðferð. Umsækjendur um alþjóðlega vernd geta einnig leitað til frjálsra félagasamtaka, t.d. ráðgjafarmiðstöðvar (s. Rådgivningsbyrån) sem veitir lögfræðiaðstoð og ráðgjöf.

Ákvæði 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 3. mgr. 36. gr. laganna kemur fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því ríki sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr. Við túlkun á inntaki 42. gr. laga um útlendinga telur kærunefnd jafnframt að líta verði til þess að ákvörðun aðildarríkis um brottvísun eða frávísun sem setur einstakling í raunverulega hættu á að verða fyrir pyndingum, ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu er í andstöðu við 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, sbr. jafnframt 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944.

Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið byggt á því að sú meðferð sem einstaklingur á von á við brottvísun eða frávísun verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til að ákvörðunin verði talin brot á 3. gr. mannréttindasáttmálans. Horfa verði til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar auk stöðu einstaklings hverju sinni, svo sem kyns, aldurs og heilsufars. Við mat á umræddu alvarleikastigi hefur dómstólinn jafnframt litið til annarra þátta, t.d. hvort einstaklingurinn er í viðkvæmri stöðu, sbr. t.d. dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Khlaifia o.fl. gegn Ítalíu (nr. 16483/12) frá 15. desember 2016. Í því sambandi hefur dómstólinn lagt ákveðna áherslu á að umsækjendur um alþjóðlega vernd tilheyri jaðarsettum og viðkvæmum þjóðfélagshóp sem þurfi sérstaka vernd, sbr. t.d. dóm í máli Tarakhel gegn Sviss (nr. 29217/12) frá 4. nóvember 2012. Þrátt fyrir það verði 3. gr. mannréttindasáttmálans ekki túlkuð á þann hátt að í greininni felist skylda aðildarríkja til að sjá umsækjendum um alþjóðlega vernd fyrir húsnæði eða fjárhagsaðstoð sem geri þeim kleift að viðhalda ákveðnum lífskjörum, sbr. dóm í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011.

Með vísan til umfjöllunar um aðstæður og móttökuskilyrði umsækjenda um alþjóðlega vernd í Svíþjóð er það niðurstaða kærunefndar að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd leiði ekki til brots gegn 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Áður hefur verið fjallað um málsmeðferð umsókna um alþjóðlega vernd í Svíþjóð, þ.m.t. möguleika umsækjenda til að fá ákvarðanir um synjun verndar endurskoðaðar hjá sænskum yfirvöldum. Sænsk yfirvöld eru bundin af sambærilegum reglum og Ísland um vernd gegn brottvísun umsækjenda um alþjóðlega vernd til ríkis þar sem einstaklingar eiga á hættu að verða fyrir ofsóknum og lífi þeirra og frelsi ógnað (non-refoulement), sbr. IV. kafli sænskra laga um útlendinga (s. Utlänningslagen 2005:716). Að mati kærunefndar veitir málsmeðferð sænskra yfirvalda nægilega tryggingu fyrir því að einstaklingsbundið mat sé lagt á aðstæður umsækjenda um alþjóðlega vernd í því skyni að tryggja að enginn umsækjandi sé sendur til þangað sem líf hans og frelsi er í hættu. Þá benda gögn sem kærandi hefur lagt fram varðandi meðferð máls hans hjá sænskum yfirvöldum eindregið til þess að mál hans hafi verið metið á einstaklingsgrundvelli. Samkvæmt framansögðu benda öll gögn til þess að kærandi hafi raunhæf úrræði í Svíþjóð, bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. jafnframt 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem tryggja að hann verði ekki sendur áfram til annars ríkis þar sem líf hans eða frelsi kann að vera í hættu, sbr. 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt framansögðu kemur 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga ekki í veg fyrir að umsókn kæranda verði synjað um efnismeðferð.

Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga

Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. laganna að ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Aðstæðum kæranda hefur þegar verið lýst og telur kærunefnd að þær séu ekki þess eðlis að viðmið sem talin eru upp í dæmaskyni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga eigi við í málinu. Í því sambandi hefur nefndin m.a. litið til þess að heilsufar kæranda sé ekki með þeim hætti að hann teljist glíma við mikil og alvarleg veikindi eða að aðstæður hans að því leyti séu svo einstaklingsbundnar og sérstakar að ekki verði framhjá þeim litið. Af gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda um alþjóðlega vernd í Svíþjóð verður ráðið að umsækjendur hafi aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og er það mat kærunefndar að kærandi komi til með að hafa aðgang að fullnægjandi heilbrigðisþjónustu þar í landi.

Í greinargerð heldur kærandi því fram að mál hans hafi ekki fengið sanngjarna meðferð í Svíþjóð, en honum hafi verið synjað um að áfrýja neikvæðri niðurstöðu sænsku útlendingastofnunarinnar. Kærunefnd áréttar að framangreindar landaupplýsingar um aðstæður í Svíþjóð benda til þess að kærandi geti lagt fram viðbótarumsókn að uppfylltum tilteknum skilyrðum, svo sem ef málsmeðferð eða úrlausn hafi verið ófullnægjandi eða verulegir annmarkar hafi verið á fyrri málsmeðferð. Þá geti kærandi eftir atvikum leitað ásjár þarlends umboðsmanns (s. Riksdagens ombudsmän). Í framangreindum upplýsingum um aðstæður í Svíþjóð, hvað varðar viðbótarumsókn, er þess þó m.a. getið að umsækjendur njóti ekki endurgjaldslausrar lögfræðiaðstoðar við að leggja fram slíka umsókn og þá sé gjaldfrjáls aðstoð túlks ekki í boði við málsmeðferðina. Telur nefndin því ljóst að kærandi yrði að reka mál sitt sjálfur fyrir sænsku Útlendingastofnuninni, a.m.k. fyrst um sinn, en sé viðbótarumsókn samþykkt getur kærandi átt rétt á að fá tilnefndan lögmann. Að mati nefndarinnar benda gögn málsins ekki til þess að heilsufar kæranda eða aðstæður hans að öðru leyti séu þess eðlis að vegna þessarar stöðu sinnar gæti hann talist eiga erfitt uppdráttar í Svíþjóð.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 27. september 2018 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 6. ágúst 2018.

Vegna athugasemdar í greinargerð kæranda tekur kærunefnd fram að aðstæður kæranda eru ekki sambærilegar aðstæðum sem fjallað var um í úrskurðum kærunefndar útlendingamála nr. 241/2016 frá 28. júní 2016, nr. 553/2017 frá 10. október 2017 og nr. 582/2017 frá 24. október 2017. Vísar kærunefnd einkum í því sambandi til aldurs kærenda í framangreindum úrskurðum nefndarinnar.

Athugasemdir kæranda við ákvörðun Útlendingastofnunar

Svo sem fram hefur komið gerir kærandi í greinargerð sinni athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, þ. á m. mat Útlendingastofnunar á einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda og beitingu 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og komist að niðurstöðu um að synja honum um efnismeðferð með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg en áður hefur komið fram í úrskurðum kærunefndar að reglugerðina skorti ekki lagastoð. Kærunefnd hefur endurskoðað alla þætti málsins og komist að sömu niðurstöðu og Útlendingastofnun. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um athugasemdir kæranda.

Frávísun

Kærandi kom hingað til lands þann 5. ágúst 2018. Hann sótti um alþjóðlega vernd þann 6. ágúst 2018. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal fluttur til Svíþjóðar eigi síðar en 6 mánuðum eftir birtingu þessa úrskurðar, sbr. til hliðsjónar 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í máli þessu hafa sænsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Svíþjóðar með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

Árni Helgason                                                                 Erna Kristín Blöndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta