Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 14/2013.

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

 

 

Föstudaginn 4. október 2013 tók kærunefnd barnaverndarmála fyrir mál A vegna umgengni við börn hans, A og B, nr. 14/2013.

 

 

Kveðinn var upp svofelldur

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

 

I.

Málsmeðferð og kröfugerð

 

Mál þetta varðar umgengni kæranda, A, við börn sín og D, þau B og C. Foreldrar barnanna bjuggu saman en slitu samvistum árið 2008. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2013 voru foreldrarnir sviptir forsjá barnanna. Þeim dómi hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar.

 

Kærður er úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 25. júní 2013 um umgengni barnanna við kæranda. Úrskurðarorð hins kærða úrskurðar eru svohljóðandi:

 

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur ákveður að B og C, hafi umgengni við föður sinn A, tvisvar á ári í allt að þrjár klukkustundir. Umgengni fari fram fyrstu helgi í mars og september ár hvert, á laugardegi eða sunnudegi. Eftirlit verði við upphaf og lok umgengni.

 

Föður er heimilt að hringja í börnin á jóladag og á afmælisdag barnanna. Tímasetningu símtala skal ákveða í samráði við starfsfólk Barnaverndar Reykjavíkur og fósturforeldra.

 

 

Kærandi krefst þess aðallega að umgengni hans við börnin verði fyrstu helgi annars hvers mánaðar, hún hefjist á laugardegi kl. 12:00 og standi til kl. 16:00 á sunnudegi. Símtöl verði leyfð á jólum, áramótum og á afmælum barnanna.

 

Kærandi krefst þess til vara að umgengnin verði fjórum sinnum á ári, hefjist á laugardegi kl. 12:00 og standi til kl. 16:00 á sunnudegi. Símtöl verði leyfð á jólum, áramótum og á afmælum barnanna.

 

Til þrautavara er þess krafist að umgengni verði fjórum til sex sinnum á ári og vari í hvert sinn daglangt frá kl. 10:00 til kl. 16:00. Símtöl verði leyfð á jólum, áramótum og á afmælum barnanna.

 

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.

 

Fósturforeldrar barnanna eru andvígir frekari umgengni en ákveðin hefur verið og óska eftir því að hún taki mið af þörfum barnanna.

 

 

II.

Málavextir

 

Foreldrar barnanna, B og C, eru A og D, en þau slitu samvistum. Foreldrarnir voru sviptir forsjá barnanna með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 28. maí 2013 og hefur þeim dómi verið áfrýjað til Hæstaréttar en niðurstaða réttarins liggur ekki fyrir. Börnin hafa búið á fósturheimili frá því í október 2010, fyrst í tímabundnu fóstri en í varanlegu fóstri frá 28. maí 2013 með fyrirvara um niðurstöðu Hæstaréttar í málinu.

 

 

 

Umgengni barnanna við foreldra sína hefur, samkvæmt úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 29. maí 2012 sem staðfestur var af kærunefnd barnaverndarmála 28. september 2012, verið með þeim hætti að þau hafa verið eina nótt í mánuði í umgengni, annan hvern mánuð hjá föður sínum og annan hvern mánuð hjá móður sinni. Gert var ráð fyrir að umgengnin væri frá kl. 12:00 á laugardegi til kl. 16:00 á sunnudegi. Fósturforeldrar fóru með börnin í umgengni og sóttu þau að umgengni lokinni. Eftirlit Barnaverndar Reykjavíkur var við upphaf og lok umgengni auk þess sem óboðað eftirlit var með henni. Úrskurðurinn gilti þar til niðurstaða í forsjármálinu lá fyrir.

 

Samkvæmt gögnum málsins hafa börnin aðlagast vel á fósturheimilinu og tekið þar miklum framförum. Samkvæmt upplýsingum frá fósturforeldrum er C allt annað barn en hún var þegar hún kom á fósturheimilið. Hún er glöð og kurteis en stendur þó föst á sínu. Hún er metnaðargjörn og vill læra og gera rétt. C hefur styrkst mikið líkamlega og er hætt að vera völt á fótunum og lin. Hún er orðin synd og fer í fjallgöngur með fósturforeldrum sínum. B er jákvæður drengur og hann hefur orðið gott sjálfstraust. Hann vaknar oftast syngjandi á morgnana og er kurteis.

 

Í greinargerð Erlu Þórðardóttur ráðgjafa hjá Barnavernd Reykjavíkur 14. júní 2013 kemur fram að við upphaf fósturs hafi umgengnin verið samkvæmt úrskurði barnaverndarnefndar Reykjavíkur við kæranda aðra hverja helgi frá föstudegi til sunnudags. Umgengni við móður barnanna hafi verið sömu helgar á laugardögum frá kl. 12:00 til 18:00 á heimili móðurömmu sem hafi séð um eftirlit með umgengninni. Kærandi hafi ekið börnunum til móður og sótt þau aftur að umgengni lokinni og hafi verið eftirlit af hálfu starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur við upphaf og lok umgengni hjá móður. Óboðað eftirlit hafi verið með heimili kæranda á meðan umgengnin hafi farið fram. Umgengni með þessum hætti hafi verið mikið rask fyrir börnin og hafi verið úrskurðað á ný í apríl 2011 á þann veg að börnin hafi farið eina helgi í mánuði til móður frá föstudegi til sunnudags og eins til föður. Hafi umgengni við móðurina verið á heimili móðurömmu sem hafi séð um eftirlit og óboðað eftirlit hafi einnig verið með heimili kæranda. Báðir foreldrar hafi séð um að fara með og sækja börnin í umgengni til E. Í október 2011 hafi foreldrar undirritað samning um umgengni á þann veg að börnin væru fyrstu helgi annan hvern mánuð hjá móður og eins hjá kæranda frá hádegi á laugardegi til hádegis á sunnudegi. Kærandi hafi síðar dregið samþykki sitt til baka og hafi þá verið úrskurðað um umgengni í maí 2012 eins og rakið hefur verið. Í áðurnefndri greinargerð Barnaverndar Reykjavíkur er haft eftir fósturforeldrum barnanna að þau virðist lítið vera tengd kæranda og tali eiginlega aldrei um hann og sérstaklega hafi B liðið illa að þurfa að fara í umgengni til hans. Börnin hafi oft komið í miklu ójafnvægi frá honum og dauðuppgefin og virðist mjög fegin að vera komin heim á fósturheimilið aftur úr umgengninni.

 

Í greinargerð Grunnskólans í E 29. janúar 2013 kemur fram að líðan barnanna virðist nokkuð góð, þó að stundum beri á því að þau séu óörugg. C hafi styrkst mikið frá því skólinn byrjaði haustið 2012. Umhirða um börnin sé einstaklega góð og allur aðbúnaður þeirra. Þá eigi börnin almennt góð samskipti við skólafélaga. Samskipti skólans við fósturforeldra hafi verið mjög góð. Loks kemur fram í bréfi skólans að C sé mjög tætt eftir umgengnishelgar, nánast með tárin í augunum og sé greinilegt að umgengnishelgarnar séu mikið álag fyrir hana. B hafi hegðað sér sérkennilega eftir umgengni í nóvember 2012, en með það hafi verið unnið í samvinnu við fósturforeldra og hafi hann bætt hegðun sína á einni viku.

 

Heiðrún Harpa Helgadóttir sálfræðingur mat líðan barnanna í fóstri, sbr. sálfræðiskýrslu hennar 8. apríl 2013. Í samantekt skýrslu sálfræðingsins kemur fram að á því tæpa ári sem hún hafi hitt börnin hafi afstaða þeirra til framtíðarbúsetu breyst frá því að þau vilji búa hjá kynforeldrum til þess að vilja búa hjá fósturforeldrum. Allt bendi til þess að þau séu búin að aðlagast lífinu hjá fósturforeldrum vel. Þar eigi þau góða vini, þau séu í tómstundum og virðist líðan þeirra almennt góð hjá fósturforeldrum og hlýtt virðist vera á milli þeirra og barnanna. Það sé mat sálfræðingsins að aðbúnaður barnanna hjá fósturforeldrum sé góður og aðstaða barnanna þar sé til fyrirmyndar. Börnin virðist vera búin að koma sér vel fyrir, þar eigi þau fallegt herbergi og hvort sitt gæludýrið. Hjá fósturforeldrum búi börnin við öryggi og stöðugleika og tengsl þeirra við fósturforeldrana hafi einnig orðið sterkari og traustari með tímanum. Samspil þessara þátta hafi haft jákvæð áhrif á þroska þeirra og líðan.

 


 

Guðrún Hrefna Sverrisdóttir var skipaður talsmaður beggja barnanna. Í skýrslu hennar sem talsmanns C 10. júní 2013 kemur fram að talsmaðurinn spurði stúlkuna um það hvernig henni liði þegar hún færi í umgengni til kynforeldra. Stúlkan sagði að hún væri ánægð að hitta mömmu sína og kærastann hennar. Stúlkunni var tjáð að þegar börn færu í fóstur hittu þau kynforeldra sjaldnar. Stúlkan sagðist vera sátt við það en að hún vildi fá að vera hjá mömmu sinni í umgengni í að minnsta kosti 4 klukkutíma í einu. Hún vildi ekki hafa minni tíma en það með mömmu sinni því að hún þyrfti líka að hitta köttinn sinn hjá mömmu.

 

Þegar C var spurð um viðhorf hennar til umgengni við kynföður sinn svaraði hún því til að það væri í lagi að fara til pabba, en hún hlakkaði eiginlega aldrei sérstaklega til að hitta hann. Innt eftir útskýringu á þessu sagðist hún ekki geta útskýrt það. Aðspurð um umgengnina hjá kæranda sagði C að þau systkinin færu yfirleitt í bíó og á skauta þegar þau færu til kæranda. Aðspurð um viðhorf C til þess hversu oft hún vildi hitta kæranda og hversu lengi kemur fram að hún hafi ítrekað að sér væri alveg sama og það væri í lagi að það væri minna en það hefði verið hingað til.

 

Þegar talsmaðurinn spurði B um viðhorf hans til umgengni við kæranda kemur fram að hann hafi orðið hugsi og ekki svarað spurningu talsmannsins strax. Talsmaðurinn hafi ítrekað spurninguna og hafi drengurinn þá sagt að honum liði ekki vel hjá kæranda og hann langi ekki neitt sérstaklega að fara til hans. Aðspurður hvers vegna það væri svaraði B að það væri meðal annars vegna þess að kærandi hefði alltaf verið að rífast einu sinni og hann væri hræddur um að það gerðist aftur. Hann var í framhaldinu spurður hvernig hann vildi hitta kæranda og svaraði hann því til að hann gæti hugsað sér að hitta hann bara stundum og þá í litla stund, ekki sofa hjá honum.

 

Aðspurður um það hvernig B vildi hafa umgengni við móður sína sagðist hann gjarnan vilja fara til hennar í heimsókn og þá í nokkra tíma á laugardegi. Honum liði vel í umgengni hjá mömmu og F kærastanum hennar. F væru skemmtilegur maður, hann væri stundum að gantast við B og það þætti honum gaman.

 




 

III.

Afstaða kæranda

 

Af hálfu kæranda kemur fram að börnin séu mjög ánægð þegar þau komi í umgengni til hans og vilji sjaldnast fara þegar umgengni lýkur. Börnunum þyki vænt um kæranda og konu hans og oft og tíðum hafi þau spurt í umgengni hvort dómarinn færi ekki að ákveða sig um forsjá þeirra og einnig að þau vildu fá að flytja til kæranda.

 

Það sé vitað að fósturforeldrum hafi ávallt verið í nöp við kæranda af óþekktri ástæðu. Sömuleiðist virðist starfsmenn Barnaverndar hafa eitthvað á móti kæranda. Hugsanlega sé það vegna þess að hann hafi barist fyrir réttindum sínum af miklum móð og verið óhræddur við að tjá sig þegar honum hafi fundist verið gengið á rétt sinn eða að ekki sé hugsað vel um börnin. Í bókun barnaverndarnefndar frá 25. júní 2013 komi fram að sálfræðingurinn hafi lýst því yfir að á fundi með fósturforeldrum hafi börnin sagt að þau væru hrædd við að vera ein með kæranda. Þetta telji kærandi að geti ekki verið rétt haft eftir börnunum. Rétt sé að benda á að á fundi nefndarinnar með kæranda, sem sálfræðingurinn hafi einnig setið, hafi verið gerðar alvarlegar athugasemdir við vinnubrögð sálfræðingsins. Í skýrslu hans komi nafnið „G mamma“ fram. Er spurt hafi verið hver þessi G mamma væri hafi sálfræðingurinn sagt sitt á hvað H mamma eða D mamma. Þannig að það sé óljóst um hvora manneskjuna verið sé að ræða, er sálfræðingurinn ræði um G mömmu í skýrslu sinni. Kærandi kannist ekki við að börnin séu hrædd við að vera ein með honum. Hann elski börnin sín og vilji þeim einungis það sem sé þeim fyrir bestu.

 

Varðandi talsmannaskýrslurnar verði að hafa hina huglægu afstöðu fósturforeldra og starfsmanna Barnaverndar í huga er þær eru lesnar. Kærandi telji að mikil hætta sé á að fósturforeldrar í það minnsta hafi haft áhrif á vilja barnanna. Fósturmóðir hafi viðurkennt fyrir dómi að hafa rætt málið við börnin og tjáð þeim að ef þau yrðu ekki svipt forsjá foreldra sinna, myndu börnin sennilega ekki hitta fósturforeldrana aftur. Það sé sjálfgefið að börnin hafi tengst fósturforeldrum og vilji hitta þau aftur. Það sé því mikil hætta á að fósturforeldrar hafi reynt að hafa áhrif á vilja barnanna skömmu áður en þau hittu talsmanninn. Hugsanlega hafi börnin því verið smeyk við að segja talsmanninum raunverulegan vilja sinn varðandi umgengnina. Bent sé á að í eldri úrskurði barnaverndarnefndar segi að starfsmenn telji að börnunum sé ekki hætta búin í umsjá kynforeldra á heimili þeirra.

 

 

Kærandi bendir á að þegar kynforeldrar hafi verið sviptir forsjá barna sinna sé umgengni algeng fjórum til sex sinnum á ári. Það sé sú umgengni sem kærandi fari fram á. Ekki sé réttlætanlegt að minnka umgengni barnanna við kynforeldra sína sökum þess að kynforeldrar séu skilin og ákvarða að börnin fái einungis að hitta þá tvisvar á ári. Það sé alkunn staðreynd að börn sem hafa verið svipt forsjá foreldra sinna hafi þörf fyrir að þekkja þá, ekki síst þegar til lengri tíma sé litið. Varðandi tímalengd umgengninnar sé bent á að börnin komi spennt í umgengnina og ef hún eigi aðeins að vara í þrjá klukkutíma nái börnin varla að átta sig áður en þau þurfi að fara aftur. Því sé umgengninni ætlaður of skammur tími.

 

Kærandi gerir ekki athugasemdir við að eftirlit sé við upphaf og lok umgengni.

 

Varðandi símtöl kemur fram að kærandi vilji fá að heyra í börnum sínum hið minnsta við hátíðleg tækifæri, svo sem á afmælum, jólum, áramótum og þess háttar viðburðum.

 

 

IV.

Afstaða fósturforeldra

 

Af hálfu fósturforeldra B og C kemur fram í tölvupósti þeirra til kærunefndarinnar frá 29. september 2013 að þeir sjái ekki ástæðu til að breyta núverandi umgengni B og C við D og A. Þeir segja ekki vera tilhlökkun í B og C að fara í umgengni til A og B hafi yfirleitt kviðið fyrir umgengnishelgunum og oftast ekki viljað fara. Börnin hafi verið sáttari við að fara til D.

 

Fósturforeldrarnir telja að óskir um umgengni séu alls ekki raunhæfar þar sem börnin séu nú komin í varanlegt fóstur og ekki verði séð að þau hafi meiri löngun til að hitta kynforeldra sína eftir að umgengni var breytt. Þar að auki vilji þeir ekki að meira rask verði í lífi barnanna eftir óvissutíma síðastliðinna ára.

 


 

Börnin virðist sátt við tilhögun umgengninnar eins og hún er í dag og jafnframt telji fósturforeldrarnir að það hafi komið skýrt fram í skýrslu talsmanns barnanna að þau séu sátt við núverandi umgengni.

 

Varðandi símtöl hafi A fengið úthlutað símatíma sem fósturforeldrarnir sjái enga ástæðu til að breyta eða bæta við.

 

 

V.

Afstaða barnaverndarnefndar Reykjavíkur

 

Af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur kemur fram að það hafi verið niðurstaða nefndarinnar á fundi 25. júní 2013 að ekki væru rök fyrir því að fallast á kröfur kæranda um umgengni. Með vísan til allra gagna málsins sem og með hliðsjón af hagsmunum barnanna, sjónarmiðum allra aðila málsins og barnanna sjálfra, hafi það verið niðurstaða nefndarinnar að hæfilegt væri að umgengni fari fram tvisvar sinnum á ári þrjár klukkustundir í senn. Umgengni verði fyrstu helgi í september og fyrstu helgi í mars á laugardegi eða sunnudegi. Eftirlit verði við upphaf og lok umgengni. Þá verði kæranda heimilt að hringja í börnin á jóladag og á afmælisdag barnanna. Tímasetning símtala skuli ákveðin í samráði við starfsfólk Barnaverndar Reykjavíkur og fósturforeldra.

 

Fram kemur að börnin séu vistuð í varanlegu fóstri og ekki sé annað fyrirséð en að þau verði vistuð utan heimilis kynforeldra til 18 ára aldurs. Þegar barni sé ráðstafað í fóstur sem ætlað sé að vara þar til barn verði lögráða sé yfirleitt mjög takmörkuð umgengni. Markmið fósturs sé þá að jafnaði að barn aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sem taki að sér uppeldi þess. Við slíkar aðstæður sé viðurkennt að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni verði takmörkuð allverulega en meta þurfi hagsmuni barnsins í hverju tilviki. Af gögnum málsins sé ljóst að jákvæðar breytingar hafi orðið á líðan og hegðun barnanna eftir að þau fluttu á heimili fósturforeldra sinna og virðist börnin njóta ástar, umhyggju og öryggis í umsjá fósturforeldra. Þá megi ráða af gögnum málsins að ekki séu sterk tengsl milli barnanna og kæranda.

 


 

Í ljósi forsögu málsins og upplýsinga um líðan barnanna og gengi á fósturheimilinu hafi það verið mat barnaverndarnefndar Reykjavíkur á fundi 25. júní 2013 að mikilvægt væri að skapa börnunum áframhaldandi stöðugleika og öryggi. Slíkt sé nauðsynlegt áfram til að þau fái að dafna og þroskast sem best í þeim aðstæðum sem þau búi nú við. Reynslan sýni að umgengni barna við kynforeldra og aðra nákomna raski í flestum tilvikum ró barna í fóstri jafnvel þótt ekki sé ágreiningur um hana.

 

 

VI.

Niðurstaða

 

Mál þetta lýtur að kröfu kæranda um rýmri umgengni við tvö sjö ára gömul börn sín en hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur kveður á um. Börnin eru í varanlegu fóstri hjá fósturforeldrum með fyrirvara um niðurstöðu Hæstaréttar í málinu. Í 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, er kveðið á um umgengni í fóstri. Í 1. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að barn á rétt til umgengni við foreldra og aðra sem því eru nákomnir. Með umgengni sé átt við samveru og önnur samskipti. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að foreldrar eiga rétt til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á þessu skuli meðal annars taka tillit til þess hversu lengi fóstri sé ætlað að vara.

 

Börnin hafa verið í fóstri frá því í september 2010, þar sem þau hafa náð góðu jafnvægi og tekið miklum framförum. Fóstrið hefur gengið vel og börnin hafa aðlagast nýjum aðstæðum. Með tilliti til hagsmuna barnanna er mikilvægt að tengslamyndunin í fósturfjölskyldunni nái að þróast eðlilega. Börnin þurfa að fá tækifæri til þess að tengjast fósturforeldrunum ótrufluð. Kærunefndin metur aðstæður barnanna þannig að umgengni við kæranda valdi þeim röskun og er þá sérstaklega litið til þess að þeim virðist ekki líða vel í umgengni hjá honum eins og fram kemur í gögnum málsins. Með tilliti til alls þessa er nauðsynlegt að takmarka umgengnina allverulega.

 


 

 

Kynforeldrar hafa nú verið sviptir forsjá barnanna og er því um að ræða fóstur sem ætlað er að vara til sjálfræðisaldurs barnanna með fyrirvara um niðurstöðu Hæstaréttar eins og fram hefur komið. Samkvæmt 3. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga skal við ráðstöfun barns í fóstur taka mið af því hvað þjónar hagsmunum barnsins best þegar tekin er afstaða til umgengni barns við foreldra. Það er mat kærunefndar barnaverndarmála að sú umgengni sem ákveðin var með hinum kærða úrskurði þjóni hagsmunum barnanna best og að meiri umgengni geti stefnt í hættu þeim stöðugleika sem að er stefnt í uppeldi þeirra og fóstri, sbr. 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga. Einnig verður að telja að réttilega hafi verið ákveðið að eftirlit skyldi vera við upphaf og lok umgengni enda er kærandi samþykkur því. Með vísan til röksemda hér að framan um hagsmuni barnanna verður að telja að takmarka beri símtöl til barnanna á þann hátt sem ákveðið var með úrskurðinum þannig að kæranda verði aðeins heimilt að hringja í börnin á jóladag og á afmælisdögum barnanna í samráði við starfsfólk Barnaverndar Reykjavíkur og fósturforeldra.

 

Af framangreindu leiðir að hafna ber öllum kröfum kæranda um rýmri umgengni við börnin en ákveðin var af hálfu barnaverndarnefndar Reykjavíkur með vísan til 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndarinnar frá 25. júní 2013 er með vísan til þessa staðfestur.

 

 


 

 

Úrskurðarorð

Hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar Reykjavíkur frá 25. júní 2013 um umgengni A við börn sín, B og C, er staðfestur.

 

 

 

Sigríður Ingvarsdóttir

formaður

 

 

Gunnar Sandholt                            Jón R. Kristinsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta