Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 21/2013.

Kærunefnd barnaverndarmála

Hafnarhúsinu v/Tryggvagötu, 150 Reykjavík

 

 

 

Á fundi kærunefndar barnaverndarmála 8. janúar 2014 var tekið fyrir mál nr. 21/2013, A gegn fjölskylduráði Garðabæjar, en fjölskylduráðið fer með hlutverk barnaverndarnefndar Garðabæjar, vegna dóttur kæranda, B.

 

Kærð er ákvörðun fjölskylduráðs Garðabæjar um að loka máli kæranda.

 

Kveðinn var upp svohljóðandi

             

 

Ú R S K U R Ð U R

 

 

I. Málavextir og kröfugerð

 

Mál þetta varðar barnaverndarmál A, vegna dóttur hans, B. Móðir stúlkunnar er C, en foreldrarnir skildu árið 2006. Við skilnað sömdu foreldrar um sameiginlega forsjá stúlkunnar og að hún byggi hjá móður sinni á Álftanesi Faðir býr í Reykjavík. Fram kemur í gögnum málsins að miklir samskiptaerfiðleikar hafi verið á milli foreldra vegna málefna stúlkunnar eftir skilnaðinn.

 

Kærandi kærir þá ákvörðun fjölskylduráðs Garðabæjar að loka máli vegna dóttur hans að tilefnislausu og án samráðs og vitundar hans. Kærandi kveður grundvöll kæru sinnar vera samning eða áætlun sem undirrituð var að Bjarnastöðum 10. október 2011.

 

Fjölskylduráð Garðabæjar krefst þess að máli þessu verið vísað frá kærunefnd barnaverndarmála, þar sem engin ákvörðun hafi verið tekin af hálfu fjölskylduráðsins um að loka máli dóttur kæranda.

 

Barnaverndarafskipti voru af máli stúlkunnar frá skilnaði hjónanna. Haustið 2011 hóf barnaverndarnefnd Álftaness könnun máls samkvæmt 21. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, vegna tilkynningar um lélega skólasókn stúlkunnar, áfengisneyslu móður og samskiptaerfiðleika foreldra vegna málefna stúlkunnar og samskiptaerfiðleika á heimili móður. Unnin var áætlun um meðferð málsins samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga og var hún undirrituð af kæranda og móður 10. október 2011. Fram kemur í áætluninni að niðurstöður könnunar staðfesti að skólasókn barnsins sé ábótavant og samskiptaerfiðleikar foreldra séu til staðar vegna málefna stúlkunnar. Enn fremur séu samskiptaerfiðleikar stúlkunnar við móður sína. Fljótlega eftir að áætlunin var undirrituð kom upp ágreiningur milli foreldra um meðlagsgreiðslur og kom barnaverndarnefndin að þeim ágreiningi og reyndi enn fremur að aðstoða foreldra við að ná markmiðum áætlunarinnar. Kærandi tilkynnti barnaverndarnefnd Álftaness 17. janúar 2012 að stúlkan væri komin með lögheimili hjá honum í E og teldi hann því ekki ástæðu til að ræða mál hennar frekar við nefndina. Í framhaldi þessa var ekki unnið frekar í máli stúlkunnar af hálfu barnaverndarnefndar Álftaness og rann meðferðaráætlunin sem var undirrituð í október 2011 út í lok skólaársins 2011–2012.

 

Í kjölfar tilkynningar kæranda til fjölskylduráðs Garðabæjar vegna aðbúnaðar stúlkunnar hjá móður í byrjun maí 2013 var aftur ákveðið að hefja könnun málsins. Greinargerð Félagsráðgjafans ehf. lá fyrir 21. júní 2013 og greinargerð fjölskylduráðs Garðabæjar samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 lá fyrir 12. ágúst 2013. Í niðurstöðum greinargerðarinnar kemur fram að það sé staðfest að móðir hafi átt við áfengisvanda að etja og hafi hún leitað sér aðstoðar vegna þess. Jafnframt hafi komið fram að samskipti foreldra væru erfið og að stúlkan væri á milli foreldra í deilum þeirra. Deilurnar hafi haft veruleg áhrif á stúlkuna og það sé ljóst að foreldrar þurfi að fá aðstoð við að bæta samskipti sín til að bæta líðan stúlkunnar auk þess sem vinna þurfi með hana og vanlíðan hennar vegna þessa. Fjölskylduráðið lagði fram drög að meðferðaráætlun 15. ágúst 2013 en kærandi neitaði að skrifa undir hana, þar sem ekki lægi fyrir niðurstaða í meðlagsdeilu hans og barnsmóður hans hjá sýslumanni. Fjölskylduráðið lagði fram nýja meðferðaráætlun vegna stúlkunnar 25. september 2013 sem móðir hennar undirritaði og er nú unnið eftir þeirri áætlun. Í áætluninni kemur fram að ástæða íhlutunarinnar sé vanlíðan barnsins vegna samskiptaerfiðleika foreldra og einnig erfiðleikar móður við uppeldi dóttur sinnar. Markmið áætlunarinnar er að bæta mætingar í skóla, ástundun í námi og líðan barnsins. Enn fremur að aðstoða móður við að vinna með eigin vanda og foreldrahlutverkið.

 

Í byrjun janúar 2013 sameinuðust sveitarfélög Garðabæjar og Álftaness undir nafninu Garðabær. Við það voru barnaverndarnefndir sveitarfélaganna sameinaðar undir nafninu fjölskylduráð Garðabæjar.

 

 


 

 

II. Sjónarmið kæranda

 

Í kærunni er því lýst af hálfu kæranda að engu af ákvæðum samnings frá 10. október 2011 hafi verið fylgt eftir og hafi honum síðan verið lokað að sögn Bergljótar, yfirmanns félagsmála hjá Garðabæ. Hann ásamt dóttur hans hafi fengið að kenna á lokun málsins og séu afleiðingar þess að hafa ekki fengið stuðning við nám og tilveru dóttur hans nánast óafturkræfar. Nám dóttur hans sé í uppnámi sem og umgengni enda hafi ákvæði samningsins átt að standa vörð um líf og nám stúlkunnar. Honum hafi verið heitið stuðningi og eftirfylgni en því hafi ekki verið sinnt. Mikilvægi þess að áætlunin væri virt skipti dóttur hans verulegu máli og hafi verið grundvallarforsenda fyrir inngöngu hennar í D skóla í annað skiptið á haustdögum árið 2011. Þetta hafi verið öllum hlutaðeigandi ljóst en megintilgangur áætlunarinnar hafi verið að laga mikla umgengnisóreglu móður og koma í veg fyrir að hún færi á flakk með stúlkuna milli skóla á nýjan leik. Áætlunin hafi meðal annars verið gerð vegna þess að móðir hafi staðfastlega neitað að láta lögheimili dóttur þeirra af hendi en það hafi verið krafa stjórnenda D og kæranda. Stuðningur barnaverndaryfirvalda hafi verið stúlkunni og kæranda afar mikils virði en hans hafi einungis notið við undirritun áðurnefndar áætlunar. Í stað þess hafi óábyrg móðir sem hafi brennt allar brýr að baki sér náð að brjóta nám dóttur þeirra ítrekað niður sem og umgengni. Þá beri að líta á samninginn/áætlunina í heild sinni sem afar gallaðan gjörning. Hafi samningurinn valdið dóttur kæranda miklu tjóni og allt stefni í að samningurinn valdi honum miklu fjártjóni og hafi hann í því sambandi átt fund með bæjarstjóra Garðabæjar.

 

Í andmælum kæranda 28. nóvember 2013 vegna greinargerðar fjölskylduráðs Garðabæjar kemur fram að hann hafi þurft að hafa samband við fjölskylduráðið í upphafi árs 2013 þegar barnsmóðir hans hafi horfið fyrirvaralaust í áfengismeðferð 4. janúar 2013. Hann hafi þá haft samband við Bergljótu, yfirmann félagsmála í Garðabæ, og lýst málavöxtum fyrir henni. Bergljót hafi ekki fundið málið og sagst ekki geta gert neitt þar sem málið væri lokað. Guðrún Hrefna Sverrisdóttir félagsráðgjafi hafi síðan hringt í hann 15. janúar 2013 og hafi hann sagt henni frá áfengisvanda C. Guðrún Hrefna hafi þá sagst myndu opna málið á ný og taka það fyrir.

 

 


 

 

III. Sjónarmið fjölskylduráðs Garðabæjar

 

Greinargerð fjölskylduráðs Garðabæjar er dagsett 14. nóvember 2013. Þar kemur fram að haustið 2011 hafi barnaverndarnefnd Álftaness hafið könnun máls samkvæmt 21. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 vegna tilkynningar um lélega skólasókn stúlkunnar, áfengisneyslu móður og samskiptaerfiðleika foreldra vegna málefna stúlkunnar. Í framhaldi hafi verið unnin áætlun um meðferð máls samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga og hafi hún verið undirrituð af kæranda, móður og starfsmanni barnaverndarnefndar 10. október 2011. Markmið áætlunarinnar hafi meðal annars verið að bæta líðan og hegðun stúlkunnar, að koma henni í skóla, en hún hafi óskað að vera í D veturinn 2011–2012, og að bæta samskipti foreldra til hagsbóta fyrir dóttur þeirra. Í áætluninni komi fram að hún yrði endurskoðuð í lok skólaárs 2011–2012 eða fyrr ef þurfa þætti. Meðferðaráætlunin hafi runnið út samkvæmt efni sínu í lok skólaársins 2011–2012.

 

Í umræddri greinargerð fjölskylduráðs Garðabæjar er sett fram sú krafa að málinu verði vísað frá kærunefnd barnaverndarmála þar sem engin ákvörðun hafi verið tekin af hálfu fjölskylduráðsins um að loka máli dóttur kæranda. Málinu sem farið hafi af stað haustið 2011 hafi ekki verið lokað með formlegum hætti samkvæmt barnaverndarlögum. Málið sé því enn opið en verði væntanlega tekið fyrir á næsta meðferðarfundi ráðsins og þá verði tekin ákvörðun um hvort málið verði sameinað því máli sem farið hafi af stað með könnun í maí 2013 eða því lokað með formlegri ákvörðun.

 

Í byrjun maí 2013 hafi kærandi tilkynnt fjölskylduráði Garðabæjar að C hefði farið í meðferð á Vog án þess að láta hann og stúlkuna vita af því. Hafi hann einnig tilkynnt um skort á aðstoð við heimanám fyrir stúlkuna af hálfu móður hennar. Ákveðið hafi verið af hálfu fjölskylduráðs Garðabæjar 13. maí 2013 að hefja könnun máls. Óskað hafi verið eftir greinargerð Félagsráðgjafans ehf. vegna stúlkunnar og hafi hún legið fyrir 21. júní 2013.

 

Af hálfu fjölskylduráðsins er vísað til þess að greinargerð ráðsins samkvæmt 1. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga hafi legið fyrir 12. ágúst 2013 og 15. sama mánaðar hafi fjölskylduráðið lagt fram drög að meðferðaráætlun vegna barnsins fyrir foreldrana. Kærandi hafi neitað að skrifa undir þar sem ekki lægi fyrir niðurstaða í meðlagsdeilu hans og barnsmóður hans hjá sýslumanni. Hann hafi einnig gert kröfu um að meðferðaráætlun innihéldi ákvæði um umgengni við barnið og meðlag með því. Fjölskylduráð hafi lagt fram nýja meðferðaráætlun vegna barnsins 25. september 2013. Móðirin hafi skrifað undir áætlunina og sé unnið eftir henni af hálfu fjölskylduráðs.

 

Kærandi sendi erindi til Barnaverndarstofu 4. september 2013 vegna vinnslu máls hans hjá fjölskylduráði Garðabæjar og er málið þar enn til meðferðar.

 

Fjölskylduráð Garðabæjar byggir kröfu sínu um frávísun málsins á því að engin ákvörðun hafi verið tekin um að loka máli dóttur kæranda sem hófst haustið 2011. Það mál sem hófst í maí 2013 sé til meðferðar hjá fjölskylduráðinu og sé í gangi meðferðaráætlun sem gildi til 31. desember 2013. Þá verði ekki ráðið af kærunni hvaða ákvörðun verið sé að kæra. Þar komi eingöngu fram að kærandi kæri þá ákvörðun að loka máli dóttur hans að tilefnislausu og án samráðs og vitundar hans. Þessari fullyrðingu er mótmælt. Þá verði ekki séð að kærandi hafi neina lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins fyrir kærunefnd barnaverndarmála og eigi að vísa málinu frá kærunefndinni.

 

Fjölskylduráðið vísar einnig til 23. gr. barnaverndarlaga, sbr. breytingalög nr. 80/2011, sem og lögskýringargagna með ákvæðinu. Fjölskylduráð Garðabæjar telur ljóst að það sé einungis ákvörðun um lokun máls sem sé kæranleg til kærunefndar barnaverndarmála en ekki einstaka ágreiningsatriði um hvernig beri að kanna mál eða hvaða úrræða rétt sé að grípa til eða ágreining um einstakar tillögur barnaverndarnefndar um tiltekin úrræði. Skilyrði fyrir því að hægt sé að kæra lokun barnaverndarmála til kærunefndar barnaverndarmála sé að ákvörðun um það hafi verið tekin af hálfu barnaverndarnefndar.

 

Fjölskylduráðið vísar einnig til 51. gr. barnaverndarlaga um málskot til kærunefndar. Þar komi fram að það séu úrskurðir eða stjórnvaldsákvarðanir barnaverndarnefnda sem aðilar máls geti skotið til kærunefndar barnaverndarmála. Kæra kæranda snúi hvorki að úrskurði né ákvörðun barnaverndarnefndar. Það sé með öllu óljóst hvað kærandi sé að kæra. Þá er einnig vísað til stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar komi fram í 1. mgr. 26. gr. laganna að það sé stjórnvaldsákvörðun sem sé kæranleg til æðra stjórnvalds.

 


 

 

 

IV. Forsendur og niðurstaða

Fjölskylduráð Garðabæjar hóf könnun máls dóttur kæranda haustið 2011 en foreldrar stúlkunnar fara sameiginlega með forsjá hennar. Könnunin leiddi í ljós að skólasókn stúlkunnar var ábótavant svo og að samskiptaerfiðleikar voru milli foreldranna um málefni hennar og milli móðurinnar og stúlkunnar. Í kjölfar þess var ákveðið að gera skriflega áætlun um meðferð málsins samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga. Foreldrarnir samþykktu áætlunina fyrir sitt leyti og var hún undirrituð 10. október 2011.

 

Markmið hinnar skriflegu áætlunar voru að bæta líðan og hegðun stúlkunnar, að koma henni í skóla og að bæta samskipti foreldranna til hagsbóta fyrir stúlkuna. Í meðferðaráætluninni er lýst þeim úrræðum og aðgerðum sem beita skuli til að markmiðunum verði náð. Hlut félagsmálanefndar er lýst þannig að aðstoða beri foreldra við að koma dóttur þeirra í D, að veita foreldrum ráðgjöf og stuðning vegna málefna dóttur þeirra, að hafa eftirlit með dótturinni á heimili móður og föður, að hafa eftirlit með henni í gegnum skóla og aðra fagaðila sem komi að málefnum hennar og að starfsmaður félagsmálanefndar verði í samvinnu við móður og föður stúlkunnar varðandi málefni hennar með hagsmuni hennar að leiðarljósi. Einnig er hlut foreldra og stúlkunnar lýst í meðferðaráætluninni, þar á meðal um skólasókn stúlkunnar, búsetu hennar, lögheimili, dvalarstað, umgengni, meðlag og samstarf. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að áætlunin hafi gengið eftir varðandi skólasókn stúlkunnar og samvinnu foreldranna við skólann um málefni stúlkunnar. Í bréfi aðstoðarskólastjóra D, deildarstjóra og umsjónarkennara 14. maí 2012 er því lýst að samskipti skólans við kæranda hafi verið með miklum ágætum. Hann hafi sinnt þeim af kostgæfni og umhyggju fyrir dóttur sinni. Hann hafi haft jákvætt eftirlit með utanumhaldi og eftirfylgni á námi stúlkunnar og framfarir í námi séu jákvæðar. Hann hafi jafnframt stutt við bak dóttur sinnar með þátttöku í félagsstarfi, ýmsum viðburðum og skemmtunum sem tengdust skólastarfinu. Samskipti skólans við móður stúlkunnar hafi einnig verið jákvæð. Hún hafi mætt á formlega samráðsfundi með kennurum.

 

Í kjölfar tilkynningar kæranda var ákveðið að hefja könnun málsins að nýju 13. maí 2013. Kom þá í ljós að samvinna foreldranna hafði ekki gengið sem skyldi og áætlanir til að bæta líðan stúlkunnar skiluðu ekki viðunandi árangri. Fjölskylduráðið lagði fram drög að meðferðaráætlun 15. ágúst 2013 en kærandi hefur neitað að skrifa undir hana. Ný meðferðaráætlun var lögð fram 25. september 2013 vegna stúlkunnar sem móðir hennar skrifaði undir og gildir hún til 31. desember 2013.

 

Í 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er fjallað um áætlun um meðferð máls og eru 1. og 2. mgr. lagagreinarinnar svohljóðandi:

 

23. gr. Áætlun um meðferð máls.

 

Þegar mál hefur verið nægjanlega kannað að mati barnaverndarnefndar skal nefndin taka saman greinargerð þar sem lýst er niðurstöðum könnunar, tiltekið er hverra úrbóta sé þörf og settar eru fram tillögur að heppilegum úrræðum ef því er að skipta. [Ákvörðun barnaverndarnefndar um að loka máli á þessu stigi geta foreldrar skotið til kærunefndar barnaverndarmála.]1)

Ef könnun leiðir í ljós að þörf er á beitingu sérstakra úrræða samkvæmt lögum þessum skal barnaverndarnefnd, í samvinnu við foreldra og eftir atvikum barn sem náð hefur 15 ára aldri, gera skriflega áætlun um frekari meðferð máls. Hafa skal samráð við yngri börn eftir því sem aldur þeirra og þroski gefur tilefni til. Áætlun skal gera til ákveðins tíma og endurskoða eftir þörfum. [Ákvörðun barnaverndarnefndar um að loka máli þegar áætlun rennur út geta foreldrar skotið til kærunefndar barnaverndarmála.]1)

 

Samkvæmt því sem hér að framan hefur verið rakið var hin upphaflega skriflega áætlun um meðferð málsins gerð í samvinnu við báða foreldra. Markmiðum áætlunarinnar virðist hafa að mestu verið náð hvað varðar skólasókn stúlkunnar og samvinnu foreldranna við skólann. Þegar kærandi leitaði til fjölskylduráðs Garðabæjar í maí 2013 í tilefni af því að hann taldi barnið í mikilli vanlíðan vegna vanrækslu móðurinnar hófst í kjölfar þess könnun af hálfu fjölskylduráðsins.

 

Samkvæmt því sem fram hefur komið af hálfu fjölskylduráðs Garðabæjar var málinu aldrei lokað með formlegum hætti. Staðhæfingum kæranda um að því hafi verið lokað er því mótmælt. Þær staðhæfingar kæranda eru heldur ekki studdar viðhlítandi gögnum. Verður því að líta svo á að málinu hafi ekki verið lokað samkvæmt því sem gert er ráð fyrir í barnaverndarlögum. Ný áætlun um meðferð málsins var gerð í september 2013 sem unnið hefur verið eftir og gert er ráð fyrir að gildi til ársloka. Eins og fram kemur í 2. og 3. mgr. 23. gr. barnaverndarlaga nær kæruheimild aðeins til þeirrar ákvörðunar að loka máli, hvort sem ákvörðun er tekin þegar könnun hefur farið fram eða þegar málsmeðferð lýkur samkvæmt áætlun sem gerð hefur verið samkvæmt lagagreininni. Eins og mál þetta liggur fyrir verður ekki séð að kæruheimild sé fyrir hendi. Samkvæmt því ber að vísa máli þessu frá kærunefnd barnaverndarmála.

 

 

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

 

 

Máli þessu er vísað frá kærunefnd barnaverndarmála.        

 

 

 

Sigríður Ingvarsdóttir,

formaður

 

 

 

            Guðfinna Eydal                                                                    Jón R. Kristinsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta