Mál nr. 15/2000
ÁLIT
KÆRUNEFNDAR FJÖLEIGNARHÚSAMÁLA
Mál nr. 15/2000
Fundargerð: Gjaldtaka.
I. Málsmeðferð kærunefndar
Með bréfi, dags. 28. mars 2000, beindi A, X nr. 17, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélagið X nr. 15-17, hér eftir nefnt gagnaðili.
Erindið var lagt fram á fundi nefndarinnar 21. maí sl. Áður hafði verið samþykkt að gefa gagnaðila kost á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.
Greinargerð gagnaðila, dags. 26. apríl 2000, var lögð fram á fundi nefndarinnar 23. maí sl. og málið tekið til úrlausnar.
II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni
Um er að ræða fjöleignarhúsið X nr. 15-17. Í húsinu eru 50 íbúðir, þar af er ein húsvarðaríbúð. Ágreiningur er um gjaldtöku fyrir fundargerðir.
Krafa álitsbeiðanda er:
Að álitsbeiðandi fái afhent afrit af fundargerðum húsfélagsins þegar hann óskar þess sér að kostnaðarlausu.
Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi hafi ítrekað óskað eftir afriti af fundargerðum húsfunda með skriflegum hætti. Með bréfi, dags. 21. nóvember 1998, hafi álitsbeiðandi óskað eftir fundargerðum tveggja húsfunda og að fá send afrit af fundargerðum eftirleiðis. Skjótt hafi verið brugðist við þeirri ósk og afrit af fundargerðunum afhent. Með bréfi, dags. 12. febrúar 1999, hafi álitsbeiðandi vísað til fyrra bréfs þar sem óskað var eftir að fundargerðir húsfunda yrðu sendar og beðið um að fundargerð aðalfundar húsfélagsins yrði send. Þetta hafi verið ítrekað með bréfi, dags. 3. mars 1999. Fundargerðirnar hafi verið afhentar um mitt árið. Í kjölfarið hafi verið haldnir fleiri fundir en álitsbeiðanda ekki send afrit af fundargerðum. Þann 9. mars 2000 hafi álitsbeiðandi sent ítrekun með vísan til bréfs, dags. 12. febrúar 1999. Í bréfi stjórnar húsfélagsins, dags. 21. mars 2000, komi fram að á fundi stjórnarinnar hafi verið samþykkt að verða við ósk álitsbeiðanda um afrit af fundargerðum húsfélagsfunda og þurfi álitsbeiðandi að greiða 2000 kr.ónur fyrir hverja fundargerð sem muni renna í hússjóð. Álitsbeiðandi bendir á að samkvæmt 4. mgr. 64. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús skulu fundargerðir jafnan vera aðgengilegar fyrir félagsmenn og eigi þeir rétt á að fá staðfest endurrit eða ljósrit þeirra. Hvergi komi fram í lögunum að stjórninni sé heimilt að innheimta sérstakt gjald fyrir. Álitsbeiðandi telur að stjórninni sé óheimilt að viðhafa slíka gjaldtöku sem fram komi í bréfinu og sem dæmi megi nefna að gjaldtaka fyrir ljósritun A4 blaðs hjá opinberu þjónustufyrirtæki sé 20 krónur.
Í greinargerð gagnaðila kemur fram að á fundi hússtjórnar 12. apríl sl. hafi verið samþykkt með öllum atkvæðum að standa við ákvörðun hússtjórnar frá 21. mars sl., um að taka 2000 króna gjald fyrir afrit af hverri fundargerð sem renni í hússjóð.
Gagnaðili bendir á að stjórn húsfélagsins auglýsi húsfundi með löglegum fyrirvara og séu ákvarðanir teknar í samræmi við lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Erfitt sé að fá fólk til að starfa í hússtjórn og taka að sér ólaunuð störf fyrir húsfélagið. Fundarsókn hafi minnkað og því hafi reynst erfitt að taka nauðsynlegar viðhalds- og rekstrarákvarðanir á lögmætan hátt. Stjórn húsfélagsins líti á gjaldtökuna sem vörn við minnkandi fundarsókn og bendir á að fundargerðir húsfunda séu alltaf aðgengilegar fundarmönnum sér að kostnaðarlausu.
Gagnaðili bendir á að álitsbeiðandi hafi ekki mætt á húsfundi síðastliðin tvö ár. Gagnaðili telur ekki sanngjarnt að íbúðareigandi geti gerst ókeypis áskrifandi að fundargerðum húsfélagsins, án þess að færa rök fyrir því af hverju hann vilji ekki sækja húsfundi og taka þátt í lögboðnum störfum þeirra.
III. Forsendur
Samkvæmt 1. mgr. 56. gr. laga nr. 26/1994, um fjöleignarhús, er kveðið á um að húsfélög séu til í öllum fjöleignarhúsum og þarf ekki að stofna þau sérstaklega. Eigendur eru félagsmenn í húsfélagi og geta þeir ekki synjað þátttöku í því eða sagt sig úr því nema með sölu eignarhluta síns, sbr. 2. mgr. 56. gr. laganna. Á eigendum hvíla margþættar skyldur til þátttöku í því starfi sem lögin gera ráð fyrir að fram fari á vegum húsfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 66. gr. laganna skal vera stjórn í húsfélagi sem kosin er á aðalfundi, sbr. þó 1. mgr. 67. gr., en sú undantekningarregla á ekki við í máli þessu. Í lögunum er ekki fjallað um það sérstaklega hvernig félagsmenn skuli almennt skipta með sér þeim störfum sem þarf að sinna í þágu húsfélagsins, en kærunefnd telur að vinnuframlag félagsmanna eigi sér nokkra stoð, t.d. í 13., 34., 35. og 56. gr. laganna.
Svo sem kveðið er á um í 1. mgr. 39. gr. eiga allir hlutaðeigandi eigendur óskoraðan rétt á að eiga og taka þátt í öllum ákvörðunum er varða sameignina, bæði innan húss og utan, og sameiginleg málefni sem snerta hana beint og óbeint. Meginreglan er sú að sameiginlegar ákvarðanir skulu teknar á sameiginlegum fundi eigenda, húsfundi, sbr. 4. mgr. sömu greinar. Þessi réttur félagsmanna til að taka þátt í húsfundum er tryggður með fyrirmælum um hvernig boðað skuli til funda í félaginu, sbr. 60. gr. Hins vegar hvílir ekki skylda samkvæmt lögum nr. 26/1994 um að mæta á húsfundi nema þar sem kveðið er á í 5. mgr. 58. gr. um mætingarskyldu stjórnarmanna, framkvæmdastjóra og húsvarðar.
Samkvæmt 4. mgr. 64. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús skulu fundargerðir jafnan vera aðgengilegar fyrir félagsmenn og eiga þeir rétt á því að fá staðfest endurrit eða ljósrit þeirra. Kærunefnd telur eðli máls samkvæmt að leiði það til kostnaðar fyrir húsfélagið að endurrita fundargerð eða að ljósrita hana þá teljist sá kostnaður til sameiginlegs kostnaðar við rekstur húsfélagsins, sbr. 6. tl. B-liðar 1. mgr. 45. gr. laganna.
Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið skorti með öllu lagaheimild fyrir samþykkt á fundi hússtjórnar frá 12. apríl sl. þess efnis að afhenda álitsbeiðanda aðeins fundargerð húsfunda gegn sérstöku gjaldi.
IV. Niðurstaða
Það er álit kærunefndar að álitsbeiðandi eigi rétt á að fá afrit af fundargerðum húsfélagsins án þess að greiða fyrir það sérstaklega.
Reykjavík, 23. maí 2000.
Valtýr Sigurðsson
Guðmundur G. Þórarinsson
Karl Axelsson