Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 374/2022 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 374/2022

Miðvikudaginn 14. september 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 22. júlí 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. maí 2022 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 1. maí 2022. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 5. maí 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing hefði ekki verið reynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. júlí 2022. Með bréfi, dags. 27. júlí 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 10. ágúst 2022, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi glími daglega við verki, mígreni og þreytu sem geri það að verkum að hún sé ófær um að sinna hefðbundnum athöfnum og marga daga komist hún ekki fram úr rúminu. Kærandi hafi reynt margskonar meðferðir í gegnum árin í B, meðal annars sjúkraþjálfun, þjálfun í sundi (e. aquatic therapy), meðferð hjá kírópraktor, nudd og fleira. Kærandi hafi einnig verið í sjúkraþjálfun á Íslandi en vegna þess hvar hún búi og sökum þess að hún eigi lítil börn geti hún ekki ferðast til Reykjavíkur til að fara í yfirgripsmikla meðferð.

Kærandi fari í segulómmyndun árlega eftir að hafa greinst með heilaæxli. Kærandi þjáist af mígreni tvo til þrjá daga í viku. Einkennin séu meðal annars svimi, ógleði, eyrnasuð, fyrirboði (e. aura) og verkir í hálsi. Lyf hjálpi einungis við sumum einkennum. Krónískir verkir í hálsi og baki geri það að verkum að kærandi geti ekki staðið, setið og gengið í langan tíma. Beygjur og lyftur valdi auknum verkjatímabilum. Kærandi glími við verki af einhverju tagi á hverjum degi. Það geri það að verkum að kærandi sé andlega og líkamlega úrvinda. Að elda mat og fara í sturtu sé stórt verkefni.

Kærandi eigi X börn og eiginmaður hennar sé eina fyrirvinna fjölskyldunnar og vinni 10-14 klukkutíma á dag. Kærandi reyni að sjá um þvottinn og elda, þrátt fyrir verki en geti það oft ekki án hjálpar. Kærandi geti ekki unnið til viðbótar við það. Kærandi eyði mörgum dögum í rúminu vegna of mikilla verkja og þreytu frá deginum áður. Góðir dagar séu mjög fáir og langt á milli þeirra og séu oft til einskis þar sem kærandi endi á að gera alltof mikið til að bæta upp fyrir tapaðan tíma sem geri það að verkum að hún verði enn meira úrvinda og verkjuð. Þetta sé vítahringur. Meðferð hjálpi lítið. Stress og lamandi kvíði hindri kæranda í að eiga félagslíf og hún fari sjaldan út. Sú staðreynd að kærandi geti ekki séð fyrir fjölskyldu sinni og létt undir með eiginmanni sínum sé mest þjakandi. Kærandi geti veitt börnunum sínum hamingjuríkt líf heima en geti ekki veitt þeim nein lífsþægindi eða eiginmanni sínum það frí sem hann hafi þörf fyrir. Ef kærandi fengi örorkulífeyri myndi það létta á byrðum kæranda og gefa fjölskyldu hennar smá andrými. Þá myndi eiginmaður kæranda einnig geta minnkað við sig vinnu til að aðstoða hana heima. Það myndi minnka stress og kvíða þannig að hún fengi meiri hvíld og myndi eiga fleiri góða daga.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærandi hafi sótt um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með umsókn, dags, 1. maí 2022, en hafi verið synjað með bréfi, dags. 5. maí 2022, með vísan til þess að ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku hennar þar sem endurhæfing hefði ekki verið fullreynd.

Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Tryggingastofnun krefjist staðfestingar á ákvörðun sinni frá 5. maí 2022 um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur.  Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð um örorkumat nr. 379/1999. Hins vegar sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum.

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga.“

Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt. Til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, að lagðir séu fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í áðurnefndri 7. gr. sé skýrt að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinnufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris.

Um nánari skilyrði og framkvæmd endurhæfingarlífeyris hjá Tryggingastofnun sé fjallað í reglugerð nr. 661/2020. Í 4. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um upphaf, tímalengd og skilyrði greiðslna og í 5. gr. um sjálfa endurhæfingaráætlunina. Þá tiltaki 6. gr. reglugerðarinnar hverjir geti verið umsjónaraðilar endurhæfingaráætlunar.

Þá sé í 37. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 9. gr. reglugerðar um endurhæfingarlífeyri nr. 661/2020, meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins og hafi því öllu verið sinnt í þessu máli.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri með umsókn, dags. 1. maí 2022, en verið synjað með bréfi, dags. 14. júlí 2022, með vísan til þess að samkvæmt gögnum sem hafi fylgt umsókninni væri ekki talið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hefði ekki verið fullreynd í ljósi aðstæðna. Í raun hefði engin endurhæfing verið reynd samkvæmt gögnum sem hafi fylgt umsókninni. Kærandi hafi verið hvött til að reyna endurhæfingu og bent á að sækja um endurhæfingarlífeyri þar sem hún gæti átt slíkan rétt, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð og 4. gr. reglugerðar nr. 661/2020.

Sú niðurstaða hafi kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála 22. júlí 2022.

Við mat á umsóknum um örorkulífeyri styðjist tryggingalæknir við þau gögn sem liggi fyrir hverju sinni. Við örorkumat þann 5. maí 2022 hafi legið fyrir umsókn kæranda um örorkulífeyri, dags. 1. maí 2022, læknisvottorð C heimilislæknis, dags. 14. mars 2022, og svör kæranda við spurningalista vegna færniskerðingar, dags. 1. maí 2022.

Samkvæmt læknisvottorði, dags. 14. mars 2022, sem hafi legið fyrir við synjun Tryggingastofnunar á umsókn um örorkulífeyri þann 5. maí 2022, sé kærandi greind með vefjagigt (e. fibromyalgia), hálsþófaröskun með rótarkvilla (e. cervical disc disorder with radiculopathy), offitu (e. obesity), mígreni (e. migraine) og verki (e. pain). Um fyrra heilsufar kæranda segi að hún sé x árs kona sem sé fædd og uppalin í B en hafi búið á Íslandi síðan árið x. Þá segi að kærandi hafi verið að glíma við bakverki frá barnsaldri og offitu frá unglingsaldri. Auk þess segi að kærandi glími við þráláta verki í hálsi vegna umferðaslysa sem hún hafi lent í og tíð mígrenisköst. Að lokum segi að kærandi hafi eignast X börn, þar af X eftir að hún hafi komið til Íslands í […]. Um heilsuvanda og færniskerðingu kæranda nú segi að aðalvandamál kæranda séu stoðkerfisverkir sem hún sé meira eða minna undirlögð af og rekja megi til brjóskloss. Þess utan sé kærandi í mikilli yfirþyngd og hafi við skoðun 14. mars vegið 147,2 kg og sé 170 cm á hæð sem gefi 50,93 í BMI. Að mati höfundar læknisvottorðsins sé kærandi óvinnufær, en hún hafi ekki unnið utan heimilis frá árinu 2012 og ekki megi búast við að færni hennar aukist. Aftur á móti telji höfundur vottorðsins möguleika á að endurhæfing gæti aukið færni kæranda ef hún kæmist í slíkt úrræði þegar börnin væru orðin eldri.

Í greinargerð Tryggingastofnunar er gerð grein fyrir svörum kæranda við spurningalista vegna færniskerðingar. Skýrsla skoðunarlæknis liggi ekki fyrir í málinu en að mati Tryggingastofnunar hafi ekki verið tilefni til þess að senda kæranda til skoðunarlæknis.

Tryggingastofnun vilji ítreka það að stofnuninni sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkumat hjá stofnuninni gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Tryggingastofnun leggi sjálfstætt mat á færniskerðingu umsækjanda á grundvelli framlagðra gagna þar sem meðal annars sé horft til sjúkdómsgreininga, heilsufarsögu og upplýsinga um meðferðir/endurhæfingu sem umsækjandi hafi undirgengist í kjölfar veikinda og/eða slysa. Við gerð örorkumats sé Tryggingastofnun því ekki bundin af ályktunum lækna eða annarra meðferðaraðila um meinta örorku eða óvinnufærni umsækjanda. Tryggingastofnun hafi á ný lagt mat á fyrirliggjandi gögn og virt þau í ljósi annarra og nýrri læknisfræðilegra gagna sem liggi fyrir í málinu. Tryggingastofnun sé bundin af staðlinum eins og hann hafi verið ákveðinn. Samkvæmt læknisvottorði, dags. 14. mars 2022, spurningalista vegna færniskerðingar, dags. 1. maí 2022, og öðrum fyrirliggjandi gögnum sé líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún sé metin af sérfræðingum Tryggingastofnunar, slík að ekki sé tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hennar hafi ekki verið fullreynd. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sé ekki útilokað að færni kæranda aukist með endurhæfingu. Svo virðist sem félagslegar aðstæður kæranda hafi staðið í vegi fyrir því að hún hafi látið reyna á að sinna endurhæfingu fremur en að hún teljist fullreynd. Mælt sé með því að kærandi láti reyna á viðeigandi endurhæfingu og sæki um endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun.

Með hliðsjón af ofangreindum forsendum hafi læknum Tryggingastofnunar sýnst að meðferð kæranda í formi endurhæfingar hafi ekki verið fullreynd og þar af leiðandi sé ekki tímabært að meta örorku hjá kæranda, sérstaklega þar sem 36 mánuðum hafi ekki verið náð á endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Telji Tryggingastofnun það því vera í fullu samræmi við öll gögn málsins að synja kæranda um örorkulífeyri að svo stöddu þar sem talið sé að enn sé hægt að vinna með heilsufarsvanda kæranda.

Það sé því niðurstaða sérhæfðs mats Tryggingastofnunar á möguleikum kæranda til endurhæfingar að slíkt sé ekki fullreynt. Kærandi uppfylli þannig ekki það skilyrði 18. gr. almannatryggingarlaga að viðeigandi endurhæfing skuli vera fullreynd. Í því sambandi vilji Tryggingastofnun einnig taka fram að mat á því hvort endurhæfing sé fullreynd miðist við læknisfræðilegar forsendur endurhæfingarinnar en ekki önnur atriði eins og til dæmis framfærslu kæranda, búsetu eða aðrar félagslegar aðstæður hennar eða það hvort viðkomandi uppfylli ekki einhver önnur skilyrði endurhæfingarlífeyris hjá stofnuninni.

Einnig skuli áréttað að það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna kæranda, þ.e. að koma umsækjendum um endurhæfingarlífeyri og/eða örorkulífeyri í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni. Að einhverju marki virðist kærandi hafa hugmynd um hvaða úrræði gætu komið henni að notum.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. maí 2022 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt hafi verið að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð C, dags. 14. mars 2022. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreiningar kæranda séu:

„FIBROMYALGIA

CERVICAL DISC DISORDER WITH RADICULOPATHY

OBESITY (BMI>=30)

MIGRAINE

VERKIR“

Um fyrra heilsufar segir í vottorðinu:

„x árs gömul kona, fædd og uppalin í B. Búið á Íslandi frá árinu 2010. Í fyrra heilsufari er saga um tíðar eyrnabólgur sem barn. Þrálátir bakverkir frá barnsaldri. Hefur glímt við ofþyngd og fór að þyngjast sem unglingur. Var með asthma sem unglingur. Búin að lenda í nokkrum umferðarslysum sem m.a. hafa valdið þrálátum verkjum í hálsi. Gekkst undir gastric bypass í B árið 2003. Segist hafa lést um 60 kg eftir það en mikið af þeim kg hefur komið til baka. Hefur ekki verið greind með sykursýki eða háþrýsting. Engin lyf eins og er. Notaði ýmisgeðllyf, um tíma ma lyf vegna gruns um bipolar sjúkdóm. Hefur notað mígrenislyf vegna tíðra mígrenikasta sem að hafa þó heldur minnkað í seinni tíð. Notaði nýverið Topimax að ráðum taugalæknis en hætti því vegna slappleika. Hefur glímt við niðurgang, hugsanlega vegna garnastyttingar. Þurft á járngjöfum að halda og þurfti að fylgjast með B12. A á X börn, þar af X eftir að hún kom til Íslands í […]. Síðasta fæðing X 2019. Hefur í gengum tíðina notað töluvert mikið af sterkum verkjalyfjum vegna hálsóþæginda og verkja í líkama almennt sem eru aðalvandamál hennar í dag.“

Þá segir svo um heilsuvanda og færniskerðingu nú:

„Aðalvandamál A í dag eru stoðkerfisverkir. Er meira og minna undirlögð af verkjum og hefur notað töluvert af verkjalyfjum. Oft hefur verið rætt um dvöl á stofnun eins og Hveragerði en hún hefur ekki átt heimangengt vegna ómegðar og stórs heimilis. Hefur einnig verið með vandamál tengd hálsi. Þráláta verki. Segulómrannsóknir hafa sýnt afturbungun eða miðlínubrjósklos á C4 til C5 sem þrengir aðeins að mænugöngum. Á rannsókn af hálsi og neðsta hluta höfuðkúpu kom einnig óvænt í ljós meningoma í fossa posterior vi. megin sem mælist 20,7 x 29,7 x 23,8 mm. Fylgst hefur verið með þessu og þetta hefur ekki stækkað og samkvæmt áliti heila-og taugaskurðlækna ekki ástæða til að fjarlægja eins og er.

Nýjasta segulómrannsókn af hálsi gerð í nóv. 2021 sýndi að brjósklos í hálsi hafði heldur minnkað. Hins vegar sást á þeirri sömu rannsókn afturbungun vi. megin í hæð við liðþófann C3 til C4 sem gefur staðbundna innbungun í mænusekknum sem nær að mænu og veldur örlítilli hliðrun á henni. Einnig prolaps á C6/C7 en hann er minni en áður. Þannig að breytingar á liðþófum í hálsi sem hafa verið að gefa henni verki út í handleggi. Einkenni hafa verið svolítið breytileg en fram að þessu ekki verið talin ástæða til inngrips með aðgerð. Er í eftirliti vegna þessa.

Fyrir utan þetta er A í mikilli yfirþyngd og vegur við skoðun 14. mars 147,2 kg og er 170 cm á hæð sem gefur 50,93 í BMI.“

Lýsing læknisskoðunar er svohljóðandi í vottorðinu:

„x árs gömul kona sem er í verulegri yfirþyngd. Vegur 147 kg, er 170 cm á hæð sem gerir BMI 50,93. Blþr. 120/100 og púls um 115 slög á mín. Kemur ágætlega fyrir og gefur góða sögu. Það er erfitt að meta hvort er bjúgur á fótum en hún er öll mjög þykk. Göngulag er eðlilegt. Við þreifingu yfir öllum klassísku punktunum fyrir fibromyalgia þá eru þeir allir hvellaumur. Tekur svolítið í við ystu mörk hreyfinga í hálsi. Ekki að sjá skekkjur og hún hreyfir hálsinn þokkalega. Fer þó varlega vegna sögu um brjósklos. Er með hæ. convex scoliosu í mjóhrygg sem hún segist hafa haft frá æsku. Vi. fótur virðist vera styttri við lauslega mælingu.

Ekki skoðuð að öðru leiti.“

Í læknisvottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að ekki megi búast við að færni aukist. Í athugasemdum segir:

„Aðalvandamál A eru verkir og gríðarleg ofþyngd. Held að hún sé ekki að fara á vinnumarkað, allavega næstu árin. Ef mögulegt er að hún kæmist í einhvers konar endurhæfingu þegar að börnin stækka mætti endurskoða málið en undirritaður er þó ekki viss um að það breyti miklu.“

Einnig liggur fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið reynd. Þá var kæranda leiðbeint að fá ráðgjöf hjá heimilislækni um þau endurhæfingarúrræði sem væru í boði.

Fyrir liggur að kærandi býr við ýmis vandamál af andlegum og líkamlegum toga. Í fyrrgreindu læknisvottorði C, dags. 14. mars 2022, kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að ekki megi búast við að færni aukist. Þá segir að kærandi sé ekki að fara á vinnumarkað, að minnsta kosti ekki næstu árin, en það mætti endurskoða málið þegar börnin stækki ef hún kæmist í einhver konar endurhæfingu. Læknirinn sé þó ekki viss um að það breyti miklu. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að hvorki verði ráðið af þeim upplýsingum sem fram komi í læknisvottorði C né eðli veikinda kæranda að endurhæfing geti ekki komið að gagni. Þá liggur fyrir að kærandi hefur ekki fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. maí 2022, um að synja kæranda um örorkumat.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkumat, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta