Mál nr. 451/2020 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 451/2020
Fimmtudaginn 22. október 2020
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 18. september 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála þjónustu Vinnumálastofnunar.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 18. september 2020 þar sem fram kemur meðal annars að hann fari fram á skaða- og miskabætur vegna þeirrar meðferðar sem hann hafi fengið frá Vinnumálastofnun. Kærandi hafi ítrekað sótt um störf en ekkert fengið. Vinnumálastofnun hafi hvorki hlustað á hann né farið að lögum. Meðfylgjandi kæru var bréf frá Vinnumálastofnun, dags. 19. apríl 2017.
Með erindi úrskurðarnefndar til Vinnumálastofnunar 29. september 2020 var óskað eftir upplýsingum um hvort stofnunin hefði nýlega tekið ákvörðun í máli kæranda. Svar barst samdægurs þar sem fram kemur að nýjasta umsókn kæranda sé frá janúar 2019. Þeirri umsókn hafi verið hafnað 18. mars 2019 og úrskurðarnefnd velferðarmála staðfest þá ákvörðun með úrskurði 24. júní 2019. Frá þeim tíma hafi kærandi ekki verið í samskiptum við stofnunina.
II. Niðurstaða
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Þannig er grundvöllur þess að unnt sé að leggja fram kæru til úrskurðarnefndar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Um stjórnvaldsákvörðun er að ræða þegar stjórnvöld taka ákvarðanir um rétt eða skyldur manna í skjóli stjórnsýsluvalds, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá segir í 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laganna. Af kæru og upplýsingum frá Vinnumálastofnun er ljóst að ekki hefur verið tekin stjórnvaldsákvörðun í máli kæranda. Með vísan til þess er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson