Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 133/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 133/2016

Miðvikudaginn 2. nóvember 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 31. mars 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 18. janúar 2016 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað en honum metinn örorkustyrkur tímabundið.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 3. júní 2015. Með örorkumati, dags. 18. janúar 2016, var umsókn kæranda um örorkulífeyri synjað en honum metinn örorkustyrkur tímabundið frá 1. október 2015 til 31. janúar 2018. Með bréfi, mótteknu þann 29. janúar 2016, óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir örorkumati. Rökstuðningur var veittur með bréfi, dags. 5. febrúar 2016.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 6. apríl 2016. Með tölvubréfi þann 7. apríl 2016 óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 20. apríl 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að örorka hans verði metin að nýju og að mat á líkamlegri færni fari fram hjá öðrum lækni.

Í kæru segir að þegar kærandi fari yfir skýrslu læknis vegna umsóknar um örorkubætur sjái hann að mat á líkamlegri færni sé ekki rétt útfyllt. Kærandi hafi fært inn á skýrsluna athugasemdir þar sem hann telji að ekki hafi verið rétt útfyllt. Einnig megi sjá á einkennalýsingu í sjúkrasögu að hún samræmist ekki mati á líkamlegri færni kæranda. Kærandi eigi til dæmis mjög erfitt með að sitja kyrr vegna verkja í mjöðm sem leiði niður í fótlegg og tær. Hann geti ekki setið nema í mesta lagi 20 mínútur án þess að standa upp. Hann eigi erfitt með að nota hendur af einhverju viti. Hægri höndin sé mjög kraftlítil og hafi sjálfsagt ekki nema um 20-30% afl. Vinstri höndin láti mjög illa að stjórn og hafi ekki nema um 50% afl. Það séu skemmdar taugar í þeirri hönd. Þá sé ekki rétt með farið í einkennalýsingu að vinstri höndin sé kraftminni en sú hægri heldur sé því öfugt farið. Allar fínhreyfingar með höndum séu mjög erfiðar. Kærandi geti ekki gengið nema í mesta lagi 200 metra án þess að stoppa eða finna fyrir verulegum óþægindum. Kærandi geti ekki gengið upp og niður stiga nema að styðja sig eða halda sér. Stundum þurfi hann að stoppa. Kærandi sé haldinn miklu þróttleysi, úthaldsleysi og hafi mikla lið- og vöðvaverki. Þá sé hann enn að berjast við ristilvandann sem getið sé um í læknaskýrslum.

Kærandi hafi verið að reyna að vinna lítið eitt við að [...]. Það hafi ekki gengið vel vegna mjaðmar og handa. Hann hafi tekið verkjalyf og unnið meðan þau hafi virkað en hafi svo verið nánast rúmliggjandi næstu daga á eftir. Kærandi vilji benda á að samkvæmt mati á raunhæfi starfsendurhæfingar frá VIRK sé endurhæfing ekki talin raunhæf.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kært sé örorkumat Tryggingastofnunar, dags. 18. janúar 2016. Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sækja um örorkubætur.

Við matið sé stuðst við staðal Tryggingastofnunar sem skiptist í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá fimmtán stig í líkamlega hlutanum eða tíu stig í þeim andlega, þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta fyrir sig.

Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. almannatryggingalaga þeim sem skorti a.m.k. helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Við örorkumat lífeyristrygginga þann 18. janúar 2016 hafi legið fyrir læknisvottorð B, dags. 24. ágúst 2015, svör við spurningalista, dags. 3. júní 2015, skoðunarskýrsla, dags. 14. desember 2015, og umsókn, dags. 3. júní 2015, auk eldri gagna.

Fram komi að kærandi hafi haft einkenni frá brisi sem væru þó minnkandi en hann hafi einnig útbreidda stoðkerfisverki. Honum hafði verið metið endurhæfingartímabil 1. mars 2015 til 30. september 2015. Við skoðun með tilliti til staðals hafi komið fram að kærandi geti stundum ekki staðið upp af stól án þess að styðja sig við eitthvað, stundum ekki beygt sig eða kropið til að taka pappísblað upp af gólfinu og rétt sig upp aftur og ekki staðið nema 30 mínútur án þess að ganga um. Skilyrði staðals um hæsta örorkustig hafi ekki verið talin uppfyllt en færni kæranda til almennra starfa hafi talist skert að hluta og honum hafi verið metinn örorkustyrkur frá 1. október 2015 til 31. janúar 2018.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. janúar 2016, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en honum metinn örorkustyrkur frá 1. október 2015 til 31. janúar 2018. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin a.m.k. 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkubætur samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkubætur frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun, sbr. fylgiskjal 1 með reglugerðinni. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast a.m.k. 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast a.m.k. 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn a.m.k. 75% öryrki, nái hann a.m.k. sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 24. ágúst 2015, þar sem fram kemur að sjúkdómsgreiningar kæranda séu sem hér greinir:

„Pseudocyst of pancreas

Dupuytrenslófakreppa

Alcohol-induced chronic pancreatitis

Anemia, unspecified

Gastro-oesophageal reflux disease without oesophagitis

Maga- og garnablæðing, ótilgreind“

Í læknisvottorðinu er ítrekað vísað til eldra vottorðs læknis frá 4. júní 2016. Þá segir svo um sjúkrasögu kæranda:

„Sl. vor fór A í tölvusneiðmynd af kvið sem sýndi að pseudocystan við brisið hafði minnkað verulega og er nú nánast horfin. C meltingarsérfr. hafði áætlað að taka stent sem hann hafði áður lagt á milli maga og cystunnar en ekki hefur þó orðið af því ennþá og beðið er eftir að C hafi samband. Þá fór A í aðgerð sl. maí vegna Dupytrens lófakreppu og gekk sú aðgerð vel. A hefur mikið minni verki í kvið en áður og er hægt og sígandi á batavegi þó hann eigi ennþá talsvert langt í land. Áfram útbreiddir stoðkerfisverkir hins vegar sem hamla honum og er það mat undirritaðrar að A sé áfram óvinnufær og muni verða svo í a.m.k. nánustu framtíð, jafnvel um ókomna tíð. Fékk samþykktan endurhæfingarlífeyri til og með 30.09.2015 en óskað eftir að hann verði metinn m.t.t. örorku frá þeim tíma.“

Í læknisvottorði B, dags. 4. júní 2016, segir svo um fyrra heilsufar og sjúkrasögu kæranda:

„Saga um háan blóðþrýsting, sykursýki týpu II, hyperlipidemiu – ekki á lyfjum við þessum kvillum nú. Dupytrens lófakreppa. Slæm sýking í hæ. hendi fyrir nokkrum árum og síðan þá minnkað snerti- og sársaukaskyn yfir vísifingri og löngutöng á hæ. hendi dorsalt og upp hendina. Kraftleysi í hendinni. Saga um alkoholismus, sjá annars sjúkrasögu.

[…]

Miklir kviðverkir, ógleði, lystarleysi frá því sl. haust og jafnvel fyrr. Greindur með pseudocystu við bris, saga um alkoholisma og króníska brisbólgu. Fór í aðgerð þar sem tæmt var úr cystunni tæplega 1,5 L af vökva, sett stent í kjölfarið. A veiktist síðan með blóðugum uppköstum og blóði í hægðum í kringum jólin. Lagður inn á Heilbrigðisstofnunina D en þegar einkenni tóku sig upp aftur var hann sendur með sjúkrabíl á Sjúkrahúsið á E þar sem hann fékk blóðgjöf og í kjölfarið bráðaspeglun. Fluttur með sjúkraflugi á LSH þar sem hann var tekinn til aðgerðar, að öllum líkindum hefur blætt frá slagæð í nánd við pseudocystu í brisi. Var mjög hætt kominn og litlu mátti muna að ekki tækist að bjarga lífi A. Hefur gengið þokkalega undanfarna mánuði og virðist cystan fara minnkandi. Þörf á áframhaldandi eftirliti hins vegar hvað það varðar og ekki alveg ljóst með batahorfur. A er ennþá mjög þreklítill og slappur eftir fyrrgreind veikindi. Hefur reynt að dunda við ýmislegt heima við til þess að halda sér virkum, t.d. er hann að [...]. Endist ekki nema mjög stutt í einu, þarf þá að stoppa og hvíla sig. Þá hefur hann einnig sögu um Dupytrens lófakreppu og var í aðgerð í lok maí vegna þess á vi. hendi. Olli verulegri hreyfi- og kraftskerðingu í hendinni. Enn fremur hefur hann haft langvarandi stoðkerfisverki, verki í vi. öxl og útbreidda liðverki. Eymsli í vöðvafestum í herðum og hálsi og svimi vegna þess. Er í sjúkraþjálfun.“

Um skoðun á kæranda þann 29. maí 2015 segir svo í vottorðinu:

„Ítrekaðar skoðanir undanfarna mánuði. Þaninn kviður og eymsli í kvið. Hypotension í tengslum við blæðingu frá meltingarvegi. Pseudocysta við speglanir.

Við skoðun á vi. öxl eymsli yfir langa höfði biceps sinarinnar og niður biceps vöðvann sjálfan. Skert hreyfigeta. Getur aktívt farið upp í ca. 90°í flexion en ekki nema 45° í abduction. Passívt nær maður nánast alveg að flektera í ca. 90°í abduction. Isometrisk próf eru neikv., þó svolítið kraftlítill. Reflexar eru symmetr. Lýsir minnkuðu sársaukaskyni nánast yfir allan hæ. handlegg og hendi.

Mikil eymsli í vöðvafestum í herðum og hálsi. Aumur við bank og þreifingu yfir hálshrygg. Stirrður í hreyfingum í hálshrygg, sérstaklega rotation og lateral flexion og tekur mikið í.

Dupytrens lófakreppa í vi. lófa með 60° réttiskerðingu á MCP lið IV sin – farið í aðgerð á lófakreppu frá síðustu skoðun.“

Í samantekt og niðurstöðum í mati á raunhæfi starfsendurhæfingar VIRK, dags. 27. mars 2015 segir svo:

„A hefur fundið fyrir kviðverkjum sl. 6-7 ár en ekki rannsakaður fyrr en í október 2014 og kom þá í ljós cysta á brisi. Hún var tæmd og náðust úr henni 1 ½ lítri. Skömmu seinna fór hann aftur suður og var þá kominn vökvi sem var tæmdur en ekki jafn mikið. Þegar heim var komið versnuðu verkir og reyndist hann vera með sýkingu sem meðhöndluð var á E en sendur á LSH og aftur tæmt úr cystu. Það fer síðan að blæða úr cystunni og hann er innlagður á E 5.1. og fer þaðan á LSH með sjúkraflugi X og var þar í 10 daga, þar af 2 daga á gjörgæslu. Líðan hefur lagast en hann er enn með kviðverki sem hann metur mjög mikla og er hann enn í rannsóknum og inni í myndinni að hann fari í aðgerð vegna þessa.

A datt úr [...] fyrir 2 árum og slasaðist á mjöðm og var byrjaður í sjúkraþjálfun vegna þess er hann varð að hætta vegna kviðverkja. Hann er með verki og skerta hreyfigetu í vinstri öxl og getur ekki abdukterað yfir 30°. Hann er með fingurkreppu í dig. IV sin. þar sem kreppan er 90°um PIP-lið og háir þetta honum mikið. A var sagt upp vegna skipulagsbreytinga eftir 15 ára starf um áramótin X og fékk síðan aftur vinnu í apríl 2013 en hættir um haustið. Hann hefur síðan unnið af og til við [...] en vinnan verið stopul og hefur það leitt til aukinnar áfengisneyslu. Hann fór á Vog 2013 og aftur haustið 2014 og hefur verið edrú síðan. A hefur verið með svima og verið athugaður af HNE lækni sem taldi þetta koma frá mjúkvefjum en hann er enn með svima við að standa upp og jafnvel ef hann leggst út af.

[…]

Starfsendurhæfing er ekki talin raunhæf

Rökstuðningur:

A stríðir enn við kviðverki og á eftir að fara í rannsókn á LSH þar sem cysta á brisi er samvaxin ristli og er hugsanlegt að hann fari í aðgerð og fái stoma. Þetta mun líklega skýrast í apríl. Hann er með kreppufingur og er á biðlista eftir aðgerð vegna þess. Hann er með frosna öxl og hefur það ekkert verið skoðað eða rannsakað. Það eru þannig hamlandi þættir sem þarf að leysa úr áður en hægt er að hefja starfsendurhæfingu. Auk þessa er A þróttlaus og hefur þrótturinn lítið lagast þrátt fyrir að hann sé alltaf á hreyfingu heima við og þarf að athuga af hvaða toga þetta þróttleysi er. Þannig telst ekki raunhæft að taka A í starfsendurhæfingu í dag en honum er boðið að leita aftur til Virk þegar búið er að vinna upp ofangreind atriði.“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar, dags. 3. júní 2015, sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Í stuttri lýsingu á heilsuvanda nefnir kærandi ristilverki, báða handleggi, hægri mjöðm og þróttleysi. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum með að sitja á stól þannig að hann fái verki frá hægri mjöðm og niður í fót. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að standa upp af stól svarar hann þannig að hann nefnir þróttleysi. Kærandi svarar spurningum um það hvort hann eigi í erfiðleikum með að beygja sig eða krjúpa og standa með því að nefna þróttleysi og skort á jafnvægi. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að ganga upp og niður stiga svarar hann með því að nefna úthaldsleysi. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum með að beita höndunum þannig að hægri hönd hafi orðið fyrir slysi, hafi innan við 30% afl og virki ekki. Þá hafi hann farið í aðgerð á hendi, sjúkraþjálfun á öxl og olnboga. Spurningu um það hvort kærandi eigi í erfiðleikum með að teygja sig eftir hlutum svarar hann þannig að báðir handleggir séu í lamasessi. Kærandi svarar spurningu um það hvort hann eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera þannig að hann lyfti ekki meira en tíu til fimmtán kílóum þar sem hann skorti afl. Spurningu um það hvort kærandi hafi átt í erfiðleikum vegna meðvitundarmissis svarar hann þannig að hann hafi misst meðvitund vegna sjúkdóma en það sé komið í lag í bili. Loks svarar kærandi neitandi spurningu um það hvort hann eigi við geðræn vandamála að stríða.

Skýrsla F skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hann að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann 14. desember 2015. Samkvæmt skýrslunni mat skoðunarlæknir líkamlega færniskerðingu kæranda þannig að hann geti ekki setið nema í tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp. Kærandi geti stundum ekki staðið upp af stól án þess að styðja sig við eitthvað. Hann geti stundum ekki beygt sig eða kropið til að taka pappírsblað upp af gólfinu og rétt sig upp aftur. Þá geti kærandi ekki staðið nema 30 mínútur án þess að ganga um. Kærandi geti ekki lyft hvorum handlegg sem er upp fyrir höfuð. Þá geti kærandi ekki tekið upp og borið tveggja kílóa poka af kartöflum með hvorri hendi sem er. Andleg færni kæranda var ekki metin þar sem skoðunarlæknir taldi fyrri sögu og þær upplýsingar sem fram komu í viðtali ekki benda til þess að um væri að ræða geðræna erfiðleika.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun á kæranda þannig í skýrslu sinni:

„Í rétt rúmum meðalholdum, frekar lágvaxinn, aðeins hokinn, óhreinar hendur að því er virðist vegna [...]. Gengur hægum varfærnum skrefum, þó óhaltur. Beygir sig og bograr með vissum erfiðleikum. Hreyfi- og þreifieymsli í hálsi og baki. Hreyfiskerðing í vinstri öxl og hægri mjöðm. Dreifð þreifieymsli í vöðvum víða í líkamanum. Gripkraftar eru skertir í vinstri hendi. Það eru merki um lófakreppu í vinstri lófa.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur yfirfarið mat á örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matlæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi geti ekki setið nema tvær klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp. Slíkt gefur engin stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti stundum ekki staðið upp af stól án þess að styðja sig við eitthvað. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti stundum ekki beygt sig og kropið til að taka pappírsblað upp af gólfinu og rétt sig upp aftur. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Þá metur skoðunarlæknir það svo að kærandi geti ekki staðið nema 30 mínútur án þess að ganga um. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki lyft hvorum handlegg sem er upp fyrir höfuð. Slíkt gefur engin stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki tekið upp og borið tveggja kílóa poka af kartöflum með hvorri hendi sem er. Slíkt gefur engin stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því líkamleg færniskerðing kæranda metin til níu stiga samtals. Andleg færni var ekki metin af skoðunarlækni og kemur því ekki til stigagjafar vegna hennar.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda a.m.k. 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. almannatryggingalaga mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar hefur ekkert komið fram sem bendir til að það eigi við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefndin leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að nokkurs misræmis gæti í gögnum málsins varðandi mat á líkamlegri færni kæranda. Samkvæmt skoðunarskýrslu er það mat skoðunarlæknis að kærandi geti ekki lyft hvorum handlegg sem er upp fyrir höfuð. Hins vegar telur skoðunarlæknir að kærandi geti lyft hvorum handleg sem er til að setja á sig hatt. Í rökstuðningi skoðunarlæknis kemur fram að kærandi lyfti ekki vinstri hendi með góðu móti nema rétt upp fyrir eyra. Í læknisvottorði B, dags. 4. júní 2016, segir meðal annars svo um skoðun á kæranda þann 29. maí 2015: „Getur aktívt farið upp í ca. 90°í flexion en ekki nema 45° í abduction.“ Í mati á raunhæfi starfsendurhæfingar VIRK, dags. 27. mars 2015, segir meðal annars svo um samantekt úr læknaskýrslum: „Hann er með verki og skerta hreyfigetu í vinstri öxl og getur ekki abdukterað yfir 30°.“ Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að framangreind gögn gefi til kynna að kærandi geti ekki lyft hvorum handlegg sem er til að setja á sig hatt.

Ef fallist yrði á að kærandi geti ekki lyft hvorum handlegg sem er til að setja á sig hatt fengi kærandi sex stig til viðbótar samkvæmt örorkustaðli. Kærandi fengi því fimmtán stig vegna líkamlegrar færniskerðingar og uppfyllti læknisfræðileg skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris. Með hliðsjón af framangreindu misræmi er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki verði hjá því komist að nýtt mat fari fram á örorku kæranda. Er æskilegt að í örorkumatinu verði tekin rökstudd afstaða til þess sem misræmið lýtur að. Hafa ber í huga að miklir hagsmunir eru því tengdir fyrir kæranda hvort hann uppfylli skilyrði örorkulífeyris.

Að öllu framangreindu virtu er synjun Tryggingastofnunar um örorkulífeyri og tengdar greiðslur felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta