Mál nr. 279/2016
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 279/2016
Föstudaginn 4. nóvember 2016
A
gegn
Barnavernd B
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Guðfinna Eydal sálfræðingur og Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur.
Með bréfi 6. júlí 2016, sem móttekið var 8. júli 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndar B um að synja beiðni hennar um að taka barnið C, í fóstur. Ákvörðun var tilkynnt kæranda með tölvupósti 16. júní 2016. Fram kemur í kærunni að kæruheimild sé byggð á 2. mgr. 18. gr. reglugerðar nr. 804/2004 um fóstur.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Stúlkan C er barnabarn systur kæranda. Kærandi kom því á framfæri við starfsmenn barnaverndar á tímabilinu 8. til 10. júní 2016 að hún auk fleiri innan stórfjölskyldu stúlkunnar hefði áhuga á að vista hana. Erindi kæranda var tekið fyrir á meðferðarfundi hjá Barnavernd 16. júní 2016 og var bókun fundarins send kæranda með tölvupósti sama dag. Í bókuninni kom fram að kærandi hefði ekki komið að lífi stúlkunnar og þekkti hana ekki. Þar sem ákvörðun hefði þegar verið tekin, fósturforeldrar hefðu búið sig undir að taka við stúlkunni og aðlögun til þeirra gengi vel, verði ekki orðið við ósk kæranda.
II. Niðurstaða
Mál þetta varðar beiðni kæranda um að taka C í fóstur og synjun starfsmanna Barnaverndar B á þeirri beiðni.
Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. bvl. er barnaverndarnefnd heimilt að fela könnun og meðferð einstakra mála eða málaflokka samkvæmt reglum sem hún sjálf setur. Barnaverndarnefnd B setti reglur 24. maí 2012 um könnun og meðferð einstakra barnaverndarmála hjá barnaverndarstarfsmönnum Barnaverndarnefndar B.
Í kæru er vísað til kæruheimildar í 18. gr. reglugerðar nr. 804/2004 um fóstur. Í reglugerðarákvæðinu kemur fram að hafi nákominn ættingi fengið leyfi Barnaverndarstofu til að taka barn í fóstur ber barnaverndarnefnd að meta hvort það þjóni hagsmunum barnsins best að ráðstafa því í fóstur til viðkomandi. Nákominn ættingi getur skotið synjun barnaverndarnefndar til kærunefndar barnaverndarmála, nú úrskurðarnefndar velferðarmála.
Í kæru er vísað til þess að beiðni kæranda um að taka barnið í fóstur hafi legið fyrir áður en til aðlögunar stúlkunnar kom og náfjölskylda stúlkunnar hefði lýst því yfir að þau vildu taka hana í fóstur. Að mati kæranda hafi ekkert verið því til fyrirstöðu að kanna aðstæður kæranda með skömmum fyrirvara og hefði hún sótt í kjölfarið um leyfi. Kærandi kveður umrædda ákvörðun ekki í samræmi við meginreglu barnaréttar um að það sem sé barni fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar teknar séu ákvarðanir um málefni þess, sbr. 1. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.). Þá hafi málið ekki verið rannsakað, sbr. 1. mgr. 41. bvl. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eða gætt meðalhófs, sbr. 12. gr. stjórsýslulaga. Einnig hafi ákvörðunin farið gegn 2. mgr. 67. gr. bvl. þar sem barnaverndarnefnd hafi borið að velja fósturforeldra af kostgæfni og með tilliti til þarfa og hagsmuna barnsins.
Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. barnaverndarlaga er hlutverk kærunefndar barnaverndarmála, nú úrskurðarnefndar velferðarmála, sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015, afmarkað við það að aðeins er heimilt að skjóta til nefndarinnar úrskurðum og stjórnsýsluákvörðunum eftir því sem nánar er kveðið á um í barnaverndarlögum.
Í 33. gr. barnaverndarlaga er fjallað um umsjá barns sem er vistað utan heimilis á vegum barnaverndarnefndar. Samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar skal barnaverndarnefnd, sem tekið hefur við umsjá eða forsjá barns með heimild í lögunum, gera skriflega áætlun um trygga umsjá barnsins. Val barnaverndarnefndar á þeim, sem tekur að sér að annast barn sem vistað er utan heimilis samkvæmt 25. og 27.–29. gr. barnaverndarlaga, er ekki kæranlegt til úrskurðarnefndar velferðarmála eða annars stjórnvalds samkvæmt 4. mgr. 33. gr. laganna. Í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 80/2011 um breytingu á barnaverndarlögum kemur fram það nýmæli að taka af skarið og mæla fyrir um að val barnaverndarnefndar á þeim sem tekur að sér að annast barn sem vistað er utan heimilis sé ekki kæranleg ákvörðun. Það hefur í för með sér að hvorki foreldrar sem barn hefur búið hjá né þeir sem óska eftir að annast barn geta skotið ákvörðun barnaverndarnefndar til kærunefndar barnaverndarmála eða annars stjórnvalds. Þess má að lokum geta að þeir sem eru ósáttir við ákvörðun barnaverndarnefndar geta kvartað til Barnaverndarstofu sem getur metið hvort barnaverndarnefnd hafi gætt lögmætra sjónarmiða og komið á framfæri ábendingum ef þurfa þykir þótt ekki sé unnt að fella ákvörðun úr gildi. Samkvæmt þessu á 18. gr. reglugerðar nr. 804/2004 um fóstur ekki við um úrlausn málsins.
Í XII. kafla laganna er fjallað um ráðstöfun barna í fóstur. Samkvæmt 1. mgr. 65. gr. er með fóstri í lögunum átt við að barnaverndarnefnd feli sérstökum fósturforeldrum umsjá barns í að minnsta kosti þrjá mánuði þegar foreldrar fara ekki lengur með forsjá barns af ástæðum sem tilgreindar eru nánar í lagaákvæðinu, þar á meðal þegar foreldrar hafa verið sviptir forsjá barns með dómi. Markmiðið með fóstri er samkvæmt 3. mgr. lagagreinarinnar að tryggja barni uppeldi og umönnun innan fjölskyldu svo sem best hentar þörfum barnsins. Um val á fósturforeldrum er fjallað í 67. gr. laganna. Barnaverndarstofa veitir barnaverndarnefndum fulltingi við öflun hæfra fósturforeldra samkvæmt 1. mgr. lagagreinarinnar. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að barnaverndarnefnd sem ráðstafar barni í fóstur skuli sendar beiðni til Barnaverndarstofu og velja fósturforeldra úr hópi þeirra sem eru á skrá samkvæmt 1. mgr. í samráði við stofuna. Barnaverndarnefnd ber að velja fósturforeldra af kostgæfni og með tilliti til þarfa og hagsmuna barnsins. Í 67. gr. kemur ekki fram að ákvarðanir samkvæmt lagagreininni sæti kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála. Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. barnaverndarlaga annast Barnaverndarstofa leyfisveitingar til fósturforeldra, tekur ákvarðanir og veitir barnaverndarnefndum liðsinni í fósturmálum samkvæmt XII. kafla laganna. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. barnaverndarlaga hefur Barnaverndarstofa með höndum leiðbeiningar um túlkun og framkvæmd laganna og fræðslu og ráðgjöf fyrir barnaverndarnefndir. Barnaverndarstofa hefur jafnframt eftirlit með störfum barnaverndarnefnda samkvæmt barnaverndarlögum.
Með vísan til þess sem hér að framan er rakið verður ekki séð að sú ákvörðun sem kærð hefur verið geti á grundvelli barnaverndarlaga verið kæranleg til úrskurðarnefndar velferðarmála.
Samkvæmt því ber að vísa kæru kærenda frá úrskurðarnefndinni.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A vegna ákvörðunar Barnaverndar B um að synja beiðni kærenda um að taka, C, í varanlegt fóstur er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
Kári Gunndórsson
Guðfinna Eydal
Sigríður Ingvarsdóttir