Mál nr. 11/2016. Úrskurður kærunefndar útboðsmála:
Úrskurður kærunefndar útboðsmála 11. nóvember 2016
í máli nr. 11/2016:
BTA International GmbH og
Biotec Sistemi s.r.l.
gegn
Sorpu bs. og
Aikan A/S,
Solum A/S,
Alectia A/S og
Picca Automation A/S
Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 29. júlí 2016 kærðu BTA International GmbH og Biotec Sistemi s.r.l. útboð Sorpu bs. (hér eftir vísað til sem „varnaraðila“) nr. 071501 auðkennt „Waste Treatment Plant in Álfsnes – Solution for the treatment of Household Municipal Solid Waste“. Skilja verður kæru svo að þess sé krafist að ákvörðun varnaraðila Sorpu bs. um að ganga til samninga við Aikan A/S, Solum A/S, Alectia A/S og Picca Automation A/S í hinu kærða útboði verði felld úr gildi.
Varnaraðila Sorpu bs. var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna kæru í máli þessu. Með greinargerð móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 26. ágúst sl. krafðist varnaraðili þess að öllum kröfum kærenda yrði hafnað. Aikan A/S og samstarfsaðilum þess var einnig gefin kostur á að koma að athugasemdum vegna kærunnar og móttók kærunefnd greinargerð Aikan A/S 23. ágúst sl. Verður að skilja greinargerð þessa svo að fyrirtækið krefjist þess að öllum kröfum kærenda verði hafnað. Kærendur skiluðu andsvörum af sinni hálfu með greinargerð 15. september sl.
I
Með auglýsingu í júlí 2015 óskaði varnaraðili Sorpa bs. eftir áhugasömum aðilum til að taka þátt í samkeppnisviðræðum um tæknilausn fyrir gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi sem gæti meðhöndlað heimilisúrgang (e. Household Municipal Solid Waste - HMSW). Í forvalsgögnum voru gerðar kröfur um að þátttakendur uppfylltu tilteknar lágmarkskröfur hvað varðar persónulegt, fjárhagslegt og tæknilegt hæfi. Í grein 7.3 kom meðal annars fram að einungis þeim þátttakendum sem byðu reynda tækni fyrir gas- og jarðgerðarstöð, sem gæti meðhöndlað heimilisúrgang og hefði verið notuð með góðum árangri síðastliðin þrjú ár, yrði boðið til samkeppnisviðræðna. Jafnframt kom fram að þátttakendur skyldu hafa í þjónustu sinni a.m.k. þrjá lykilstarfsmenn, sem hefðu að lágmarki samanlagða 20 ára starfsreynslu í hönnun og starfrækslu gas- og jarðgerðarstöðva og hefðu tiltekna lágmarksmenntun í verkfræði, líffræði eða aðra viðeigandi menntun. Af gögnum málsins verður ráðið að fjórar þátttökutilkynningar hafi borist en einni var vísað frá þar sem hún barst að loknum fresti. Var þremur þátttakendum því boðið að taka þátt í samkeppnisviðræðunum.
Um áramótin 2015/2016 voru útboðsgögn send til þátttakenda. Í þeim kom fram að óskað væri eftir tilboðum í tæknilausn vegna væntanlegrar byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi sem gæti meðhöndlað a.m.k. 36.000 tonn af heimilisúrgangi (HMSW) á ári. Í þessu fólst að bjóðendur myndu meðal annars láta varnaraðila í té flæðirit, teikningar, kerfislýsingar, tækjalýsingar, þjálfun starfsmanna, aðstoð við uppsetningu og gangsetningu auk þess sem þeir myndu tryggja rekstrarhæfa verksmiðju við afhendingu til varnaraðila, sbr. grein 4.1 í útboðsgögnum. Ekki var óskað eftir tilboðum í tæknibúnað eða byggingu mannvirkja. Í grein 3.5 kom fram að við val tilboða skyldi líta annars vegar til verðs og hins vegar tæknilegra eiginleika boðinna lausna. Við val á lausnum eftir að bjóðendur skiluðu inn fyrstu tillögum sínum skyldi verð vega 33% í heildareinkunn og tæknilegir eiginleikar 67%, en við mat á lokatilboðum bjóðenda skyldi verð vega 67% af heildareinkunn en tæknilegir eiginleikar 33%.
Útboðsgögn gerðu ráð fyrir að bjóðendur tilgreindu í tilboðum sínum áætlaðan núvirtan stofnkostnað boðinna lausna ásamt líklegum rekstrarkostnaði til 15 ára auk kostnaðar við veitta þjónustu samkvæmt matslíkani sem fylgdi útboðsgögnum. Þá skyldu tæknilegir eiginleikar boðinna lausna metnir með tilliti til þess hvort boðnar lausnir uppfylltu tilteknar ófrávíkjanlegar lágmarkskröfur en öðrum eiginleikum, sem ýmist voru taldir mikilvægir eða minna mikilvægir, skyldi gefin einkunn á skalanum 1-5. Á grundvelli þessara upplýsinga skyldi tilboðum bjóðenda gefin einkunn í samræmi við vægi hvors þáttar um sig.
Útboðsgögn gerðu ráð fyrir að bjóðendur skiluðu fyrstu tillögum að tæknilausnum fyrir 18. janúar 2016, en síðar var frestur þessi framlengdur til 1. febrúar sama ár. Að liðnum þessum fresti var ákveðið að hefja viðræður við kærendur og Aikan A/S og samstarfsfyrirtæki þess, en einum bjóðanda var vísað frá þar sem hann skilaði tillögum sínum að liðnum framangreindum fresti.
Af gögnum málsins verður ráðið að varnaraðili hafi á fyrri hluta þessa árs haldið fundi með bjóðendum og farið í skoðunarferðir erlendis til að skoða stöðvar byggðar á sambærilegri tækni og boðin var. Í kjölfarið var báðum bjóðendum gefinn kostur á að leggja fram lokatilboð, en opnun lokatilboða fór fram þann 20. júní sl. Af fundargerð opnunarfundar verður ráðið að tilboð Aikan A/S og samstarfsfyrirtækja var að fjárhæð 13.317.858 evrur og fékk lausn þeirra 62,5 stig við mat á tæknilegum eiginleikum samkvæmt valforsendum útboðsgagna. Tilboð kærenda nam hins vegar 46.465.284 evrum og hlaut 86,5 stig fyrir mat á tæknilegum eiginleikum. Eftir opnunarfund taldi varnaraðili sig verða var við villu í kostnaðaráætlun í tilboði Aikan A/S og samstarfsfyrirtækja, en villan fólst í því að tilboðið tilgreindi einungis rekstarkostnað fyrir vélbúnað og byggingar fyrir eitt ár, en ekki fyrir 15 ár eins og óskað var eftir. Óskaði varnaraðili eftir skýringum á þessu með tölvupósti 5. júlí sl. og í kjölfarið breyttu Aikan A/S og samstarfsfyrirtæki þess tilboði sínu, sem varð þá að fjárhæð 24.331.879 evrur.
Með bréfi dagsettu 19. júlí sl. var kærendum tilkynnt að varnaraðili hefði ákveðið að ganga til samninga við Aikan A/S og samstarfsaðila þess fyrirtækis.
II
Kærendur byggja í fyrsta lagi á því að Aikan A/S hafi ekki uppfyllt kröfur greinar 7.3 í forvalsgögnum um tæknilegt hæfi. Af heimasíðu Aikan A/S megi ráða að fyrirtækið hafi eingöngu komið að gerð einnar gas- og jarðgerðarstöðvar í Danmörku sem geti einungis meðhöndlað flokkaðan úrgang og lífrænan úrgang en ekki heimilisúrgang (HMSW) eins og forvalsgögn hafi gert kröfu um. Mun meira af óhreinindum séu í heimilisúrgangi en flokkuðum úrgangi sem geti haft áhrif á gæði moltu sem framleidd er. Kærendur telja því að tæknilausn Aikan A/S ráði ekki við það verkefni sem boðið var út.
Í öðru lagi byggja kærendur á því að Aikan A/S og samstarfsfyrirtæki hafi vanmetið kostnað við þá tæknilausn sem fyrirtækin buðu. Heildarkostnaður þeirrar tæknilausnar sem kærendur hafi boðið hafi numið 46.465.285 evrum á meðan heildarkostnaður við tæknilausn þá sem Aikan A/S og samstarfsfyrirtæki buðu hafi numið 24.331.879 evrum eftir leiðréttingu á upphaflegu verðtilboði. Þessi munur á tilboðum sé mjög óvenjulegur með tilliti til þeirra miklu krafna sem gerðar voru til boðinna lausna í útboðsgögnum og með hliðsjón af þeirri tiltölulega háu einkunn sem lausn Aikan A/S og samstarfsfyrirtækja fékk samkvæmt valforsendum, eða 62,5 stig. Þessi mikli munur verði ekki skýrður eingöngu á grundvelli mismunandi tæknilausna. Telja kæruendur gróflega áætlað að Aikan A/S og samstarfsfyrirtæki hafi vanmetið framkvæmdakostnað um meira en þrjár milljónir evra auk þess sem stofnkostnaður í tilboði fyrirtækjanna sé einnig verulega vanmetinn í mörgum atriðum.
Kærendur byggja einnig á því að í útboðsgögnum hafi verið gerðar tilteknar lágmarkskröfur sem boðnar lausnir skyldu uppfylla. Hins vegar hafi ákveðnar viðbótarkröfur verið gerðar í viðræðum aðila. Því hefði verið rétt að taka þessar viðbótarkröfur saman með formlegum hætti svo ljóst væri að bjóðendur myndu skila inn tilboðum á grundvelli sömu lágmarkskrafna. Lokaútgáfa útboðsskilmála hafi ekki borið með sér að breytingar hafi verið gerðar á þeim frá upphafsútgáfu þeirra. Óljóst sé því hvort að aðilar hafi boðið á grundvelli sömu lágmarkskrafna og jafnræðis þannig gætt milli bjóðenda.
Kærendur vísa einnig til þess að upphaflegt tilboð Aikan A/S og samstarfsfyrirtækja hafi verið að fjárhæð 13.317.858 evrur en síðar hafi fjárhæð þessi verið leiðrétt og hækkað í 24.331.879 evrur. Þetta hafi komið til vegna villu í kostnaðaráætlun í tilboði Aikan A/S og samstarfsfyrirtækja sem hafi verið til staðar í upphafstilboði fyrirtækjanna sem og lokatilboði þeirra, en þetta hafi varnaraðili ekki uppgötvað fyrr en eftir skil lokatilboða. Þessi villa kunni að hafa haft áhrif á val þátttakenda í samkeppnisviðræðunum. Þá sé ekki heimilt að heimila einum bjóðanda að leiðrétta tilboð sitt til hækkunar eftir opnun tilboða. Slíkt bjóði upp á þá misnotkun á útboðsferlinu að tilboði sé skilað vísvitandi of lágu í því skyni að tryggja að sá bjóðandi sé örugglega með lægsta tilboð, en leiðrétta það einfaldlega síðar.
Þá mótmæla kærendur því að fjárhæð í endanlegu tilboði þeirra hafi verið hærri heldur en það verð sem var tilgreint í samkeppnisviðræðunum eins og haldið hafi verið fram. Kærendur hafi einungis lagt fram verðtilboð í endanlegu tilboði í samkeppnisviðræðunum.
III
Varnaraðili Sorpa bs. byggir á því að Aikan A/S og samtarfsfyrirtæki hafi uppfyllt allar kröfur forvalsgagna um hæfi. Í þátttökutilkynningu fyrirtækjanna hafi verið tilgreind reynsla af gas- og jarðgerðarstöð í Danmörku sem hafi verið í rekstri síðan 2003/2004 og byggi á Aikan-tækni. Stöð þessi framleiði lífgas og moltu og samkvæmt þátttökutilkynningu ráði stöðin við vinnslu á heimilisúrgangi. Hafi stöðin unnið úr 22.000 tonnum af slíkum úrgangi á árinu 2014. Af heimasíðu Aikan A/S megi auk þess ráða að Aikan lausnin geti meðhöndlað allan heimilisúrgang og hverslags úrgang sem innihaldi lífræn efni, en hins vegar henti flokkaður úrgangur vinnslunni betur. Ljóst sé að tækni sú sem kærendur hafi boðið standi Aikan tækninni framar hvað varði tæknilega þætti og hafi tilboð þeirra því fengið hærri einkunn fyrir tæknilega eiginleika samkvæmt valforsendum útboðsgagna. Sú tækni sé hins vegar flóknari, með meiri vélbúnaði, og því dýrari bæði hvað varði stofnkostnað og rekstur. Hvað sem þessu líði hafi Aikan A/S og samstarfsfyrirtæki og boðin tæknilausn þeirra uppfyllt allar lágmarkskröfur sem gerðar hafi verið í forvals- og útboðsgögnum.
Varnaraðili bendir á að sú tæknilausn sem Aikan A/S og samstarfsfyrirtæki bjóði sé einföld í eðli sínu, vélbúnaður sem notaður sé við vinnsluna sé einfaldur og fáist nær allur í næstu byggingarvöruverslun. Eðli aðferðarinnar sé þannig að nær engin fastur vélbúnaður sé fyrir hendi sem leiði til lægri stofnkostnaðar og tiltölulega lágs rekstrarkostnaðar og viðhalds. Kostnaðaráætlanir beggja aðila innihaldi kostnaðarliði sem fundnir séu með mismunandi hætti og séu með mismunandi nákvæmni. Ekki hafi verið talið heppilegt að tilgreina í útboðsgögnum að einungis ákveðin tækni eins og t.d. vélræn tækni við vinnslu á lífrænum úrgangi, kæmi til greina. Þá hafi varnaraðili ekki verið í stöðu til að gagnrýna mat bjóðenda á kostnaði við innkaup, uppsetningu og rekstri vélbúnaðar sem bjóðendur væru sérfræðingar í. Bjóðendur hafi verið í mun betri aðstöðu til að meta kostnað við tækjabúnað sem þeir legðu til og hefðu reynslu af.
Varnaraðili vísar til þess að útboðsgögn hafi verið gefin út þegar í upphafi samkeppnisviðræðna. Tilgangur samkeppnisviðræðnanna hafi meðal annars verið sá að tryggja að sameiginlegur skilningur væri á því hvað fælist í útboðsgögnum og hvernig lausn viðkomandi bjóðanda uppfyllti hana eða hvaða breytingar eða lagfæringar þyrfti að gera á lausninni til þess. Til frekari skýringar fyrir bjóðendur hafi verið gefnir út viðaukar. Þegar komið hafi verið að lokatilboði hafi verið gefinn út 4. viðauki til að árétta að kröfulýsingin stæði óbreytt.
Varnaraðili mótmælir því að augljós villa í kostnaðaráætlun Aikan A/S og samstarfsfyrirtækja hafi ekki komið í ljós í samkeppnisviðræðunum. Forsendur fyrirtækjanna til að fylla út kostnaðaráætlunarskjal hafi komið fram í samkeppnisviðræðunum. Fyrirtækin hafi gefið upp árlegan rekstrarkostnað fyrir vélbúnað og byggingar, en hafi ekki sett inn þennan kostnað fyrir öll árin sem reikna hafi átt út, heldur einungis það fyrsta. Þetta atriði hafi verið rætt á skýringarfundi með fyrirtækjunum í samkeppnisviðræðum þar sem Aikan A/S og samstarfsfyrirtæki þess hafi útskýrt mistökin og hafi það verið bókað í fundargerð. Í lokatilboði fyrirtækjanna hafi þessi villa enn verið fyrir hendi en í samræmi við heimild 7. mgr. 31. gr. laga um opinber innkaup hafi verið óskað eftir því að fyrirtækin staðfestu þann skilning sem komið hafi fram í fundargerðinni. Það hafi verið gert og leiðréttu tilboði verið skilað sem hafi leitt til verulegs aukins kostnaðar miðað við það sem lesið hafði verið upp á opnunarfundi. Ekki hafi verið ástæða til að óska eftir frekari skýringum frá kærendum á sama grundvelli vegna hins mikla munar á áætluðum heildarkostnaði í tilboðum bjóðenda. Þá heldur varnaraðili því fram að kærendur hafi lagt fram upphaflega tillögu sína að tæknilausn 1. febrúar 2016, en í henni hafi verið tilgreindur áætlaður heildarkostnaður fyrir verkefnið. Kærendur hafi síðan lagt fram kostnaðaráætlun með lokatilboði sínu sem hafi verið hærri en það verð sem fylgt hafi upphaflegri tillögu þeirra, þrátt fyrir að slík hækkun hafi ekki verið fyrirfram samþykkt í samræmi við grein 2.5.8 í útboðsgögnum. Þess vegna hafi tilboð kærenda verið óaðgengilegt og þeir ekki átt raunhæfa möguleika á að samið yrði við þá.
IV
Í greinargerð Aikan A/S kemur fram að Aikan tæknin hafi verið þróuð síðastliðin 16 ár og geti hún meðhöndlað hvers konar heimilisúrgang. Þá hafi Aikan A/S starfrækt jarð- og gasgerðarstöð í Danmörku í 13 ár, en stöð þessi geti meðhöndlað heimilisúrgang (HMSW) sem innihaldi allt að 35% af úrgangi sem ekki brotnar niður í náttúrunni eins og gerð sé krafa um í útboðsgögnum. Einnig hafi Aikan A/S og samstarfsfyrirtæki þess einungis breytt fjárhæð tilboðs síns með því að tiltaka áætlaðan kostnað fyrir 15 ár, í stað eins árs eins og gert hafi verið í upphaflegu tilboði.
V
Hinn 29. október sl. tóku gildi lög um opinber innkaup nr. 120/2016 og féllu þá úr gildi samnefnd lög nr. 84/2007. Samkvæmt 6. mgr. 123. gr. fyrrnefndu laganna fer þó áfram um innkaup, sem hafa verið auglýst fyrir gildistöku laganna, samkvæmt eldri lögum um opinber innkaup. Þá gilda lög nr. 120/2016 einungis um meðferð kærunefndar útboðsmála vegna kæra sem borist hafa nefndinni eftir gildistöku laganna, sbr. 7. mgr. greinarinnar. Samkvæmt þessu fer um úrlausn málsins og meðferð þess fyrir kærunefnd samkvæmt lögum nr. 84/2007.
Í grein 7.3 í forvalsgögnum voru gerðar kröfur um að þátttakendur uppfylltu tilteknar lágmarskröfur um tæknilegt hæfi, en meðal annars kom fram að einungis þeim þátttakendum sem byðu reynda tækni fyrir gas- og jarðgerðarstöð, sem gæti meðhöndlað heimilisúrgang (HMSW) og hefði verið notuð með góðum árangri síðastliðin þrjú ár, yrði boðið til samkeppnisviðræðna. Af þeim gögnum sem fylgdu þátttökutilkynningu Aikan A/S og samstarfsfyrirtækja verður ráðið að lausn þeirra hafi verið í notkun í tiltekinni gas- og jarðgerðarstöð í Danmörku í ríflega áratug og sú stöð ráði við vinnslu á heimilisúrgangi. Meðal annars kemur fram að stöðin hafi árið 2014 unnið úr 22.000 tonnum af slíkum úrgangi og stefnt sé að stækkun stöðvarinnar þannig að hún geti unnið úr 50.000 tonnum á ári. Þá hafa varnaraðilar vísað til ýmissa annarra upplýsinga sem benda til þess að sú lausn sem Aikan A/S og samstarfsfyrirtæki buðu uppfylli lágmarkskröfur forvalsgagna um reynslu af meðhöndlun á heimilisúrgangi. Að þessu virtu verður ekki fallist á það með kærendum að Aikan A/S og samstarfsfyrirtæki hafi ekki uppfyllt kröfur forvalsgagna um tæknilegt hæfi.
VI
Kærendur halda því fram að sá verðmunur sem sé á tilboðum þeirra og Aikan A/S og samstarfsfyrirtækja sé svo mikill að hann verði ekki skýrður með mismunandi tæknilegum eiginleikum boðinna lausna eingöngu, heldur hafi Aikan A/S og samstarfsfyrirtæki vanmetið kostnað við tæknilausn sína í fjölmörgum nánar tilgreindum atriðum. Gegn þessu hefur varnaraðili meðal annars bent á að sú tæknilausn sem Aikan A/S og samstarfsfyrirtæki bjóði sé mun einfaldari og krefjist nær einskis fasts vélbúnaður sem leiði til lægri stofnkostnaðar og tiltölulega lágs rekstrarkostnaðar og viðhalds. Auk þess hefur varnaraðili vísað til ýmissa annarra atriða sem skýrt gætu þann verðmun sem er á tilboðum bjóðenda. Að öllu virtu telur kærunefnd útboðsmála ekki hafa verið leiddar líkur að því að mat varnaraðila á tilboði Aikan A/S og samstarfsfyrirtækja hafi verið ómálefnalegt eða brotið að þessu leyti gegn lögum um opinber innkaup.
Í grein 4.3 í útboðsgögnum voru gerðar tilteknar ófrávíkjanlegar kröfur til þeirrar tæknilausna sem boðnar voru og þeirrar gas- og jarðgerðarstöðvar sem skyldi byggð, t.d. um afkastagetu, samsetningu úrgangs, lyktarstjórn o.fl. Af gögnum málsins verður ráðið að skilmálum útboðsins hafi verið breytt með fimm viðaukum í útboðsferlinu eftir því sem viðræðum aðila þokaði áfram, en þar af var grein 4.3 í útboðsgögnum breytt einu sinni með öðrum viðauka hinn 25. janúar 2016. Hins vegar verður ekki annað ráðið en að útboðsgögn hafi verið óbreytt að þessu leyti frá þessu tímamarki og báðir bjóðendur hafi því þurft að uppfylla sömu lágmarkskröfur til tæknilausna við skil lokatilboða sinna. Verður því ekki fallist á að mat lokatilboða hafi farið fram á öðrum grundvelli en útboðsgögn áskildu eða jafnræði aðila hafi að þessu leyti verið raskað, svo sem kærendur halda fram.
VII
Í máli þessu liggur fyrir að þátttakendum var við upphaf samkeppnisviðræðna boðið að skila inn fyrstu tilboðum í tæknilausn fyrir gas- og jarðgerðarstöð fyrir 1. febrúar 2016. Af gögnum málsins verður ráðið að tilboð Aikan A/S og samstarfsfyrirtækja hafi á þessum tímapunkti numið 13.317.858 evrum. Jafnframt verður af þeim ráðið að á opnunarfundi lokatilboða 20. júní 2016 hafi tilboð fyrirtækjanna numið sömu fjárhæð, en í kjölfar óskar varnaraðila um frekari skýringar 5. júlí 2016 hafi tilboðsfjárhæðinni verið breytt þannig að hún nam 24.331.879 evrum. Ákvað varnaraðili að ganga til samninga við fyrirtækin á grundvelli tilboðsins með þessari leiðréttingu.
Við opinber innkaup gildir sú meginregla að bjóðendum er óheimilt að breyta eða leiðrétta tilboð sín eftir að þau hafa verið lögð fram. Þrátt fyrir þetta hefur kaupanda verið talið heimilt að leiðrétta sjálfur augljósar villur í tilboði, eða óska eftir nánari skýringum bjóðanda á tilteknum atriðum, enda leiði það ekki til þess að jafnræði bjóðenda sé raskað. Í 8. mgr. 34. gr. laga um opinber innkaup er þessi undantekningarregla lögfest en þar segir að kaupanda í samkeppnisviðræðum sé heimilt að óska eftir því að sá þátttakandi sem átt hefur hagkvæmasta boð skýri atriði í tilboði sínu eða staðfesti tilteknar skuldbindingar sem þar hafa komið fram, enda leiði það ekki til þess að grundvallarþáttum í tilboðinu, eða útboðsauglýsingu, sé breytt þannig að samkeppni sé raskað eða um mismunun verði að ræða.
Áður er greint frá því að í kjölfar þess að Aikan A/S og samstarfsfyrirtæki lögðu fram upphaflegt tilboð sitt áttu fulltrúar fyrirtækjanna og varnaraðila fund 17. mars 2016 þar sem fram kom að rekstrarkostnaður væri einungis tilgreindur fyrir eitt ár í tilboðinu, en ekki fyrir 15 ár eins og útboðsgögn gerðu ráð fyrir. Af gögnum málsins verður ráðið að fyrirtækin hafi upplýst að kostnaður næstu ára væri sá sami og sá kostnaður sem væri tilgreindur vegna eins árs. Því væri endanlegur rekstrarkostnaður tiltekið margfeldi af þeirri tölu. Með hliðsjón af þessu verður að telja að um augljósa villu í endanlegu tilboði Aikan A/S og samstarfsfyrirtækja hafi verið að ræða þar sem tilboðið hafði áfram að geyma sömu fjárhæð og upphaflegt tilboð. Við þessar aðstæður verður að telja að varnaraðila hafi verið heimilt að leita skýringa frá bjóðandanum og taka afstöðu til tilboðsins að teknu tilliti til þeirra.
Útboðsgögn gerðu ráð fyrir að heimilt væri að fækka þátttakendum í þrjá eftir móttöku upphaflegra tilboða, en einungis kærendur og Aikan A/S og samstarfsfyrirtæki þess stóðu eftir með gild tilboð eftir að upphaflegum tilboðum hafði verið skilað og afstaða tekin til þeirra. Hafði röng tilgreining á fjárhæð í tilboði fyrirtækjanna því ekki heldur áhrif á að báðum aðilum var eftir sem áður boðin áframhaldandi þátttaka í samkeppnisviðræðunum.
Að virtu öllu framangreindu eru ekki efni til að taka kröfu kærenda til greina. Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Úrskurðarorð:
Kröfu kærenda, BTA International GmbH og Biotec Sistemi s.r.l., um að felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila Sorpu bs. þess efnis að ganga til samninga við Aikan A/S, Solum A/S, Alectia A/S og Picca Automation A/S í kjölfar útboðs nr. 071501, auðkennt „Waste Treatment Plant in Álfsnes – Solution for the treatment of Household Municipal Solid Waste“, er hafnað.
Málskostnaður fellur niður.
Reykjavík, 11. nóvember 2016
Skúli Magnússon
Ásgerður Ragnarsdóttir
Stanley Pálsson