Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 3/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 3/2015

Miðvikudaginn 6. apríl 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, þ.m.t. mál kærenda, sbr. 1. gr. laga 85/2015 og 32. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.).

Þann 24. janúar 2015 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 8. janúar 2015 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 27. janúar 2015 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 3. mars 2015.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 18. mars 2015 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust með tölvupósti 15. júlí 2015. Voru þær sendar umboðmanni skuldara með bréfi 26. október 2015 og óskað eftir afstöðu embættisins. Með tölvupósti 29. október 2015 tilkynnti embættið að frekari athugasemdir yrðu ekki gerðar.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur eru fædd 1962 og 1957. Þau eru gift og búa í eigin íbúð að C, sem er 158,2 fermetrar að stærð.

Kærandi A er [...] í fullu starfi. Kærandi B er [...] en er ekki í launaðri vinnu. Tekjur kærenda eru vegna launa og atvinnuleysisbóta.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 55.499.953 krónur.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína aðallega til atvinnuleysis og skulda vegna félags sem var í þeirra eigu fram til ársins 2008.

Kærendur sóttu um greiðsluaðlögun 10. desember 2012. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 12. apríl 2013 var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 29. október 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í bréfi umsjónarmanns kom fram að hann hefði leitað eftir því hjá kærendum hvort þau hefðu lagt til hliðar fé á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, í samræmi við skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. en umsjónarmaður teldi að kærendur hefðu átt að leggja fyrir um 2.200.000 króna á tímabilinu. Kærendur kváðust ekki hafa lagt fyrir þá fjárhæð og töldu umsjónarmann miða við ranga launafjárhæð í útreikningi sínum um sparnað. Í framhaldi af þessu hafi umsjónarmaður veitt kærendum nákvæmar upplýsingar um útreikninga sína en jafnframt óskað eftir launaseðlum frá þeim og gögnum um hve mikið þau hefðu sparað, auk fleiri gagna. Kærendur hefðu afhent umsjónarmanni hluta þessara gagna, meðal annars kvittanir vegna tannlæknakostnaðar. Eftir þetta hafi umsjónarmaður endurreiknað hver fjárhæð sparnaðar kærenda ætti að vera og samkvæmt því hefðu þau átt að leggja til hliðar 1.859.087 krónur á tímabilinu. Kærendur hefðu þó ekki lagt fyrir umsjónarmann neinar upplýsingar um sparnað sinn. Með vísan til alls þessa hafi umsjónarmaður tilkynnt umboðsmanni skuldara að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli lge. samkvæmt 15. gr. sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 20. nóvember 2014 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærendur komu á framfæri mótmælum sínum.

Með bréfi til kærenda 8. janúar 2015 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru þeirra svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur kveða umboðsmann skuldara ekkert hafa unnið í málinu. Embættið gefi sér að þau hafi aðeins lagt til hliðar hluta þess fjár sem þeim hafi borið að leggja fyrir en það sé rangt. Þar sem þau treysti ekki bönkum hafi þau tekið út peninga og lagt til hliðar. Þau eigi nú 1.178.810 krónur í peningum en það sé sú fjárhæð sem þeim hafi borið að leggja til hliðar.

Kærendur séu ekki sátt við framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara. Þau séu þrjú í heimili en ekki tvö eins og haldið sé fram en dóttir þeirra í námi búi á heimili þeirra. Þá telji kærendur rangt og brot á mannréttindum að reikna ekki kostnað við reykingar kæranda B til framfærslukostnaðar en ófyrirsjáanlegur kostnaður vegna þeirra nemi 555.000 krónum á tímabilinu. Einnig álíti þau rangt að telja vaxtabætur til launa eins og umboðsmaður skuldara geri.

Kærendur geri athugasemdir við störf og vinnubrögð beggja umsjónarmanna sinna. Þau mótmæli harðlega tillögum seinni umsjónarmanns þar sem ýmsar rangfærslur sé að finna. Meðal annars hafi síðari umsjónarmaður látið hjá líða að kanna lögmæti kröfu Íslandsbanka á hendur þeim.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Upplýsingar um þetta hafi verið á heimasíðu embættisins. Þá hafi skriflegar leiðbeiningar um skyldur skuldara samkvæmt 12. gr. fylgt með ákvörðun umboðsmanns skuldara um samþykki til greiðsluaðlögunar 12. apríl 2013 sem borist hafi kærendum með ábyrgðarbréfi. Að auki séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli samkvæmt 12. gr. lge. ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Kærendum hafi því mátt vera ljóst frá upphafi að þeim bæri skylda til að leggja til hliðar þá fjármuni sem þau hefðu aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar kæmi að því að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í rúmlega 18 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. maí 2013 til 31. október 2014. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Launatekjur 1. maí 2013 til 31. desember 2013 að frádregnum skatti 3.062.448
Vaxtabætur 2013 600.000
Samtals 3.662.448
Mánaðarlegar meðaltekjur 2013 457.806
Framfærslukostnaður á mánuði 252.888
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 204.918
Samtals greiðslugeta 1. maí 2013 til 31. desember 2013 1.639.344
Launatekjur 1. janúar 2014 til 31. október 2014 að frádregnum skatti 3.383.235
Vaxtabætur 2014 0
Samtals 3.383.235
Mánaðarlegar meðaltekjur 2014 338.324
Framfærslukostnaður á mánuði 252.888
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 85.436
Samtals greiðslugeta 1. janúar 2014 til 31. október 2014 854.355

Samtals hefði því greiðslugeta kærenda átt að vera eftirfarandi á tímabilinu í krónum:

Greiðslugeta 1. maí 2013 til 31. desember 2013 1.639.344
Greiðslugeta 1. janúar 2014 til 31. október 2014 854.355
Greiðslugeta 1. maí 2013 til 31. október 2014 2.493.699

Í ofangreindum útreikningum sé miðað við að kærendur leggi fyrir mismun meðaltekna á mánuði og framfærslukostnaðar en sú fjárhæð sé nefnd greiðslugeta kærenda.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé þeim jafnan játað nokkuð svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. séu lögð fram gögn þar um.

Miðað við framangreindar forsendur megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi mest verið um 252.888 krónur á mánuði á meðan þau hafi notið greiðsluskjóls. Nýjustu framfærsluviðmið séu lögð til grundvallar kærendum í hag. Samkvæmt þessu sé miðað við framfærslukostnað í nóvember 2014 fyrir hjón eða sambúðarfólk og gengið út frá því að kærendur hafi átt að geta lagt fyrir 2.493.699 krónur á fyrrnefndu tímabili, sé miðað við ofangreinda meðaltals greiðslugetu þeirra.

Á meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari greiða tilfallandi mánaðarlegan framfærslukostnað svo sem rafmagn, hita, fasteignagjöld, samskiptakostnað og fleira þess háttar. Í fylgiskjölum með ákvörðun umboðsmanns skuldara um heimild kærenda til greiðsluaðlögunar sé að finna greiðsluáætlun um framfærslukostnað þeirra í hverjum mánuði þar sem gert sé ráð fyrir þessum kostnaði. Meðan á frestun annarra greiðslna standi sé skuldara ætlað að greiða gjöld og kostnað vegna framfærslu sé greiðslugeta hans jákvæð í mánuði hverjum, enda markmið með greiðsluaðlögun að koma jafnvægi á skuldir og greiðslugetu.

Kærendur hafi hvorki upplýst um hve mikið þau hafi lagt til hliðar á tímabili greiðsluskjóls né lagt fram gögn sem sýni fram á það. Þau kveðist hafa þurft að leggja út fyrir óvæntum kostnaði að fjárhæð 705.046 krónur vegna tannlækna- og viðgerðarkostnaðar. Þá telji kærendur framfærslukostnað sinn í raun hærri en umboðsmaður skuldara geri ráð fyrir þar sem uppkomin dóttir þeirra búi hjá þeim og sé á þeirra framfæri. Dóttir kærenda sé X ára gömul og því geti umboðsmaður skuldara ekki gert ráð fyrir að kærendur greiði framfærslukostnað hennar. Verði því ekki tekið tillit til þessarar mótbáru kærenda.

Kærendur telji vaxtabætur ekki eiga að reiknast sem tekjur þar sem ekkert komi fram um það í lögum. Umboðsmaður bendir á að samkvæmt 4. tölulið 1. mgr. 4. gr. lge. skuli miða við allar tekjur skuldara hvort sem þær séu laun vegna vinnu eða áskotnist þeim af öðrum sökum.

Gera verði þá kröfu til einstaklinga, sem glími við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi úr útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta og sérstaklega á meðan þeir standi í greiðsluaðlögunarumleitunum vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun fjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja fyrir það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla. Auk þess sé óheimilt að stofna til nýrra skulda á tímabilinu.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið var kærendum skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 29. október 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 12. gr. lge. Umboðsmaður skuldara felldi síðan greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 8. janúar 2015.

Í 1. mgr. 11. gr. lge. kemur fram að frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefjist þegar umboðsmaður skuldara hefur samþykkt umsókn um greiðsluaðlögun. Á þeim tíma er umsókn kærenda var samþykkt afhenti umboðsmaður skuldara þeim sérstakt upplýsingaskjal þar sem greint var frá skyldum umsækjenda í greiðsluskjóli í samræmi við 12. gr. lge. Þar á meðal var greint frá því að skuldurum bæri að leggja fyrir fé sem væri umfram það sem þyrfti til reksturs heimilis, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Í upplýsingaskjalinu var einnig greint frá því að skuldarar mættu greiða það sem tengdist daglegum rekstri heimilis og nota skyldi neysluviðmið umboðsmanns skuldara til viðmiðunar um hvað teldist eðlilegur kostnaður í því sambandi. Þá var sérstaklega vakin athygli á því að uppfyllti skuldari ekki skyldur sínar meðan á frestun greiðslna stæði gæti það leitt til þess að samningur um greiðsluaðlögun kæmist ekki á. Kærunefndin telur samkvæmt þessu að kærendum hafi mátt vera ljóst að þeim bar að haga framfærslu sinni eftir sérstökum framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara þegar þau fengu heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærendur átt að leggja fyrir 2.493.699 krónur frá 1. maí 2013 til 31. október 2014. Kærendur kveðast hafa lagt fyrir 1.178.810 krónur en að þeirra mati hafi það verið sú fjárhæð sem þeim hafi borið að leggja til hliðar. Þá segja þau framfærslukostnað sinn hafa verið hærri en umboðsmaður skuldara geri ráð fyrir, meðal annars þar sem uppkomin dóttir þeirra í námi hafi búið á heimili þeirra.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. maí 2013 til 31. desember 2013: Átta mánuðir
Nettótekjur A 1.850.117
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 231.265
Nettótekjur B 1.212.331
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 151.541
Nettótekjur alls 3.062.448
Mánaðartekjur alls að meðaltali 382.806
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. desember 2014: 12 mánuðir
Nettótekjur A 1.802.759
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 150.230
Nettótekjur B 1.580.476
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 131.706
Nettótekjur alls 3.383.235
Mánaðartekjur alls að meðaltali 281.936
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 6.445.683
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 322.284

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara, tekjur kærenda og bætur var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. maí 2013 til 31. desember 2014: 20 mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 6.445.683
Bótagreiðslur 2013 600.000
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 7.045.683
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 352.284
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 252.888
Greiðslugeta kærenda á mánuði 99.396
Alls sparnaður í 20 mánuði í greiðsluskjóli x 99.396 1.987.923

Samkvæmt framangreindu ætti sparnaður kærenda að vera 1.987.923 krónur.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eigi að leggja fyrir af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum. Að því er varðar fullorðna dóttur kærenda verður að gera ráð fyrir að hún standi straum af eigin framfærslu en að sögn kærenda stundar hún nám Ekkert bendir þannig til að kærendur hafi gagnvart henni framfærsluskyldu.

Kærendur telja ekki rétt að vaxtabætur verði taldar til launa eins og umboðsmaður skuldara geri. Í 4. tölulið 1. mgr. 4. gr. lge. segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara eru, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðast. Einnig kemur fram í lagaákvæðinu að skuldari skuli greina frá því hvort hann muni hafa aðra fjármuni en atvinnutekjur sínar til að greiða af skuldum. Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir að allt ráðstöfunarfé skuldara sé tekið með í útreikninga á greiðslugetu skuldara. Vaxtabætur eru þar ekki undanskildar og er sjónarmiðum kærenda þar að lútandi hafnað.

Að mati kærenda sé rangt og brot á mannréttindum þeirra að reikna ekki kostnað við reykingar kæranda B til framfærslukostnaðar en ófyrirsjáanlegur kostnaður að sögn kærenda við þær nemi 555.000 krónum á tímabilinu. Það er mat kærunefndarinnar að kostnaður vegna tóbaksnotkunar teljist hvorki óvæntur kostnaður né nauðsynlegur framfærslukostnaður undir venjulegum kringumstæðum í skilningi a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Með vísan til þess verður ekki tekið tillit til kostnaðar vegna tóbaksnotkunar á tímabili greiðsluskjóls.

Kærendur hafa lagt fram kvittanir að fjárhæð 342.486 krónur vegna tannlækninga. Telst það óvæntur kostnaður samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. og kemur því til frádráttar þeim sparnaði sem kærendum bar skylda til að leggja fyrir í greiðsluskjóli. Einnig hafa kærendur lagt fram kvittanir vegna viðhalds og viðgerða á bifreiðinni X í júlí 2014 að fjárhæð 499.136 krónur. Telst þetta sömuleiðis óvæntur kostnaður er dregst frá reiknuðum sparnaði kærenda. Þá hafa kærendur lagt fram kvittanir vegna viðgerðar á bifreiðinni í nóvember 2013 en ekki verður tekið tillit til þess kostnaðar þar sem bifreiðin var ekki í eigu kærenda á þeim tíma. Samkvæmt ofangreindu nemur óvæntur kostnaður kærenda 841.622 krónum á tímabilinu og kemur sú fjárhæð til frádráttar reiknuðum sparnaði þeirra. Eftir standa því 1.146.301 króna sem kærendum bar að leggja til hliðar á tímabilinu. Kærendur hafa hvorki sýnt fram á það með gögnum né öðrum hætti að þau hafi lagt neitt fyrir í greiðsluskjóli, þrátt fyrir fullyrðingar þeirra um að þeim hafi tekist að safna 1.178.810 krónum í peningum á tímabilinu.

Samkvæmt þessu fellst kærunefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Kærendur gera athugasemd við að síðari umsjónarmaður þeirra hafi látið hjá líða að kanna lögmæti kröfu Íslandsbanka á hendur þeim. Ekki er unnt að líta þannig á að mögulegt sé að gera út um álitamál er varða lögmæti krafna hjá Embætti umboðsmanns skuldara, umsjónarmanni eða fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála, en samkvæmt almennum reglum heyrir undir dómstóla að leysa úr slíkum ágreiningi.

Með vísan til þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laganna að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Hin kærða ákvörðun er staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta