Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 4/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 4/2015

Miðvikudaginn 30. mars 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, þ.m.t. mál kærenda, sbr. 1. gr. laga 85/2015 og 32. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.).

Þann 27. janúar 2015 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 8. janúar 2015 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 28. janúar 2015 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 25. mars 2015.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 27. mars 2015 og var þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Ítrekun var send 29. júní 2015. Engar athugasemdir bárust frá kærendum.

I.Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur eru bæði fædd 1961. Þau búa í leiguhúsnæði að C ásamt uppkomnum syni sínum. Kærandi A starfar á D en kærandi B er atvinnulaus og hefur ekki tekjur. Tekjur kærenda eru því einungis laun kæranda A.

Heildarskuldir kærenda eru 33.403.197 krónur samkvæmt skuldayfirliti frá umboðsmanni skuldara. Kærendur stofnuðu til helstu skulda árið 2009.

Að sögn kærenda má rekja fjárhagserfiðleika þeirra til skilnaðar og atvinnuleysis.

Kærendur lögðu fram umsókn um heimild til greiðsluaðlögunar 9. september 2013. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 27. september sama ár var umsókninni synjað. Kærendur lögðu í annað sinn fram umsókn um greiðsluaðlögun 9. janúar 2014. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 21. janúar sama ár var kærendum veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 18. nóvember 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Í bréfi umsjónarmanns kemur fram að með ákvörðun umboðsmanns skuldara 27. september 2013 hefði kærendum verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Grundvöllur ákvörðunarinnar hafi verið sá að kærandi B hafi sagt starfi sínu lausu, tekið út lífeyrissparnað sinn og haldið til E í mars 2013. Alls hafi lífeyrissparnaðurinn numið 7.735.821 krónu en eftir greiðslu skatta hafi staðið eftir 4.279.563 krónur. Umboðsmaður skuldara hafi sent kærendum bréf 12. september 2013 þar sem óskað var skýringa á því hvers vegna kærendur hefðu ekki varið fénu til greiðslu skulda sem þegar voru í vanskilum. Skýringar kærenda hafi verið þær að kærandi B hefði átt við veikindi að stríða og þau ákveðið að hann skyldi fara til E og nota peningana til að leita sér lækninga. Kærendur hefðu þó ekki stutt þetta með gögnum og hafði þeim því verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar.

Hinn 21. janúar 2014 hafi kærendum síðan verið veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli nýrrar umsóknar, þrátt fyrir að ný gögn hafi ekki legið fyrir í málinu. Umsjónarmaður telji að það hafi verið gert fyrir mistök og sjái hann sér því ekki annað fært en að tilkynna umboðsmanni skuldara um að fram séu komnar upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. Umsjónarmaður byggi afstöðu sína á f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem kærendur hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem þeim var framast unnt.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf 9. desember 2014 þar sem þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærendur leituðu upplýsinga sem þau fengu símleiðis.

Með bréfi til kærenda 8. janúar 2015 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru þeirra svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærendur kveðast ekki geta greitt af lánum þar sem allar þeirra ráðstöfunartekjur fari til framfærslu. Fyrirséð sé að tekjur kæranda A lækki þar sem starfshlutfall hennar muni minnka. Þá eigi kærendur bæði við heilsuleysi að stríða.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge. skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi þær ástæður sem komið geti í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Í 2. mgr. 6. gr. komi fram að heimilt sé að synja um greiðsluaðlögun, þyki óhæfilegt að veita hana.

Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Fyrir liggi að kærandi B hafi fengið greiddar alls 4.279.563 krónur úr séreignarlífeyrissparnaði sínum nokkrum mánuðum áður en kærendur óskuðu fyrst greiðsluaðlögunar. Í málinu liggi ekki fyrir annað en að hann hafi farið til E stuttu síðar. Kærendur kveði ofangreinda fjármuni hafa verið nýtta vegna veikinda kæranda B en engin gögn hafi verið lögð fram því til stuðnings. Samkvæmt skuldayfirliti í fyrra máli kærenda hafi vanskil þeirra numið 1.369.066 krónum á þeim tíma er lífeyrissparnaðurinn var greiddur út. Þar sem kærendur hafi ekki greitt þessi vanskil verði að telja að þau hafi látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar af fremsta megni. Það hafi verið mistök hjá Embætti umboðsmanns skuldara að samþykkja umsókn kærenda þegar þau sóttu um greiðsluaðlögun í annað skiptið. Sé því óhjákvæmilegt að fella niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. en þar er kveðið á um að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum var framast unnt.

Eins og fram er komið var kærendum skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 18. nóvember 2014 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Í mars 2013 sagði kærandi B upp starfi sínu. Á sama tíma tók hann út séreignarsparnað sinn að fjárhæð 4.027.422 krónur eftir greiðslu skatta. Kærendur kveða ofangreinda fjármuni hafa verið nýtta vegna veikinda kæranda B en þau hafa ekki lagt fram nein gögn því til stuðnings. Á þessum tíma voru kærendur í vanskilum við Íbúðalánasjóð fyrir um 1.300.000 krónum en vanskilin höfðu varað frá því í ágúst 2012.

Á greiðsluyfirliti, sem umboðsmaður skuldara gerði fyrir kærendur í janúar 2014, kemur fram að greiðslugeta þeirra sé neikvæð um 57.450 krónur á mánuði, enda var kærandi A eina fyrirvinna heimilisins.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda 9. desember 2014 var kærendum gefinn kostur á að skýra frá því hvernig séreignarsparnaðinum hefði verið ráðstafað. Jafnframt var skýrlega tekið fram í bréfinu að umboðsmaður skuldara gæti synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum framast var unnt. Loks var greint frá því að við synjun umsóknar félli niður tímabundin frestun greiðslna samkvæmt 11. gr. lge. Kærendur svöruðu embættinu ekki efnislega. Þau lögðu heldur ekki fram gögn er sýndu fram á að ráðstafanir þeirra hefðu verið heimilar samkvæmt ákvæðum lge.

Úrskurður kærunefndarinnar verður ekki byggður á öðru en þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu. Ekki er því unnt að leggja til grundvallar við úrlausn málsins þær skýringar kærenda sem ekki eru studdar viðhlítandi gögnum eða stangast á við framlögð gögn í málinu. Kærendur hafa ekki getað sýnt fram á að nauðsynlegt hafi verið fyrir þau að ráðstafa séreignarsparnaði sínum með þeim hætti sem þau gerðu. Þá kemur fram í greinargerð kærenda að kærandi B hafi sjálfur sagt upp starfi sínu. Við það lækkuðu laun kærenda og þar með geta þeirra til að greiða af skuldbindingum sínum. Einnig varð það til þess að kærendur gátu ekki lagt fyrir í greiðsluskjóli svo sem lge. áskilja. Með vísan til þessa svo og neikvæðrar eignastöðu kærenda er það mat kærunefndarinnar að þær aðstæður sem lýst er í f-lið 2. mgr. 6. gr. eigi við og að þær komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð þar sem þau hafi á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem þau framast gátu. Með vísan til þess og 1. mgr. 15. gr. lge. bar að fella niður heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar.

Með vísan til alls þess er greinir hér að framan verður ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kærenda, A og B, til að leita greiðsluaðlögunar staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild kærenda, A og B, til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta